Sáttargjörð - Kærleikur Krists knýr oss

Sáttargjörð - Kærleikur Krists knýr oss

Ræða flutt á sunnudegi í samkirkjulegri bænaviku 2017 í Akureyrarkirkju. Þema vikunnar var tekið frá Páli postula þetta árið úr 2. Kor. 5. 18: „Kærleiki Krists knýr oss“. Textarnir sem valdir höfðu verið að þessu sinni voru Es. 36. 25-27, 2. Kor. 5. 14-20 og Lúk. 15. 11-24. Kór Akureyrarkirkju tveir bænasálma eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Sigurð Flosason. Þá flutti kórinn þýðingu mína á þemasálmi vikunnar og endurómar ræðan af þeim sálmi.

Ræða flutt á sunnudegi í samkirkjulegri bænaviku 2017 í Akureyrarkirkju. Þema vikunnar var tekið frá Páli postula þetta árið úr 2. Kor. 5. 18: „Kærleiki Krists knýr oss“. Textarnir sem valdir höfðu verið að þessu sinni voru Es. 36. 25-27, 2. Kor. 5. 14-20 og Lúk. 15. 11-24. Kór Akureyrarkirkju flutti tvo bænasálma eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Sigurð Flosason nr. 812, 848. Þá flutti kórinn þýðingu mína á þemasálmi vikunnar og endurómar ræðan af þeim sálmi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Samkirkjulega bænavika hefur mér lengi þótt skemmtileg og komið með tilbreytingu inn í safnaðarlífið hér á Akureyri. Það koma stundum upp skondin atvik þegar fólk kemur saman sem á ólíkan bakgrunn almennt og trúarlega. Enda eru ófáar skemmtisögur til um samskipti lúterskra-, kaþólskra og karismatískra presta. Það á að hafa gerst í Hvítasunnukirkjunni í Reykjavík þegar Einar Gíslason, forstöðumaður safnaðarins, var kominn í mikinn bænaham, að hann snéri sér til lúterska prestsins út í sal og bað hann að fara með bæn. Sr. Jón skulum við kalla hann afsakaði sig og sagði: „Nei, því miður þá get ég það ekki. Ég gleymdi gleraugunum mínum heima.“ Já, svona eru nú siðirnir mismunandi í söfnuðunum engu að síður er það nú bænin í Jesú nafni sem sameinar kristna menn. Við biðjum á mismundi hátt. Kaþólskir menn lesa sínar tíðabænir, hvítasunnumenn tala í tungum og kalla Hallelúja og Amen, inn á milli, aðventistar biðja með yfirvegun og stillingu, Hjálpræðishermennirnir krjúpa á bænabekkinn með gítar sér við hlið, og við þjóðkirkjufólkið leitum eftir gleraugunum til að geta lesið bænirnar… Það var frá upphafi og er enn bænin í Jesú nafni sem dregur okkur saman til bænavikunnar sama hvernig við förum að.

1.

Að þessu sinni er það siðbótin sem minnst er. Á hverju ári er undirbúið efni í einu landi þar sem kirkjudeildirnar koma saman og gefa út sameiginlegar íhugunar og bænir, og guðsþjónustuform, sem við munum nýta að einhverju leiti í okkar helgihaldi í dag. Í tilefni af því að nær 500 ár eru liðin frá því að siðbótarmaðurinn Lúther hengdi upp sínar 95 mótmælagreinar á hallardyrnar í Wittenberg í Þýskalandi var efnið útbúið þar. Það var til að undirstrika að mótmælendakirkjurnar og kaþólska kirkjan hafa nálgast í sameiginlegum skilningi á fagnaðarerindinu en einnig til að harma þann aðskilnað, deilur, átök og stríð, sem fylgdu í kjölfar siðbótarinnar.

Meginhugsunin er um sáttargjörð. Þemað er tekið frá Páli postula: Sáttargjörð - kærleiki Krists knýr oss. (2. Kor. 5. 18). Það er ekki um neinn afslátt að ræða um fagnaðarerindið. Það er heilt og óskipt í Kristi. Hann er okkur öllum fagnaðarerindið. Mismunandi eins og við erum tileinkum við okkar það í bæn og við það vil ég dvelja í dag hvernig það getur átt sér stað? Hvernig getur bæði fjölbreytileiki og eining verið í kirkju Krists?

2.

Nú hef ég starfað sem prédikari í nær þrjá áratugi. Þegar maður er prestur játast maður því opinberlega fyrir Guði og mönnum að prédika fagnaðarerindið um Jesú Krist í orði og verki. Það var sumarið 1987 sem ég lofaði þessu. Ég hef verið að blaða í gömlum ræðum og velt því fyrir mér hvað hef ég eiginlega verið að prédika?

Þegar ég lít til baka kemur mér í hug dæmisagan um týndu synina í Lúkasarguðspjalli 15. kafla. Það er dæmisaga sem flestir kannast við. Það er eitthvað harmsögulegt við þá sögu. Þar er brugðið upp myndinni af föðurnum sem gengur út á götuna að bíða sonar síns sem farið hafði frá honum og sólundað arfi sínum í vitleysu og klúðrað lífinu fyrir sér. En hugur föðurins er fullur af viðkvæmni og ást þrátt fyrir það. Sonurinn iðrast og finnst hann ekki verður að kalla sig son eftir það sem hann hefur gert en vill fá að vera sem einn af þjónunum en faðirinn tekur honum opnum örmum. Þetta er myndin af Guði sem ég hef prédikað. Faðirinn heldur honum veislu og reisir hann upp, sá sem var týndur er fundinn, sá sem var dáinn er lifnaður aftur. En eldri sonurinn var ekki eins glaður sem alltaf hafði verið hjá föðurnum. Hann deildi ekki hugarfari föður síns heldur öfundaðist út í bróður sinn að faðir hans var góðgjarn við hann. Þetta er hin tvöfalda harmsaga, fyrri sonurinn var vissulega týndur en bróðir hans var týndur heima hjá sér.

Þetta er bænasaga. Hún lýsir stöðu okkar gagnvart Guði. Annað hvort eigum við þessa barn - föður stöðu gagnvart Guði eða við erum týnd. Það er fagnaðarerindið að Guð er faðirinn í sögunni sem elskar. Í grunni tilveru okkar er Guð sem elskar. Það sorglega er að við skynjum það ekki, trúum því ekki, treystum því ekki að Guð sé þannig. Og hvað er hægt að gera við því? Hvað getur Guð gert í því? Hvað á Guð að gera til að vinna aftur trúnað okkar og koma á góðu sambandi við börnin sín, hvort sem við erum heima eða að heiman?

Guð er í almáttugum veikleika, eins og sagan segir. Hann veit sem er að kærleikur verður ekki þvingaður fram. Þess vegna hefur hann kosið að koma á móts við okkur í veikleika. Það er merkilegt að Jesús hafi fest þessi sannindi í þessa perlu, sem dæmisagan er, eins og hún kemur fyrir. Réttnefnt ódauðlegt listaverk.

Í dæmisögunni sjáum við hugann á bak við ævi Jesú, orð hans og verk. Hann kom til að við gætum séð ljósið í sögunni. Guð elskar okkur þrátt fyrir allt og allt, synd okkur, vantraust, fyrirlitningu, opinbera afneitun, jafnvel ofsóknir. Þeir voru tveir synirnir, annar var alltaf hjá föður sínum, en deildi ekki ást hans og umhyggju. Þannig getum við verið lifandi dauð í sambandi okkar við Guð.

En ef rennur upp ljós fyrir þér þá sérðu stöðu þína gagnvart Guði eins og hinn sonurinn sem sér neyð sína og verður ákall til Guðs. Bænin er þetta, að ákalla Guð í neyð sinni. Það kenndi Jesús okkur m. a. með þessari dæmisögu. Hann kenndi okkur að biðja Faðir vor.

3.

Við skiljum ekki hvað trú er á meðan við höldum að það sé trúarskoðun mín eða smekkvísi eða bragðskyn hvort þetta sé góð eða vond baka. Við erum að tala um traust tilverunnar, það sem allt byggir á, festuna sjálfa, þegar við erum að tala um Guð og samband okkar við hann. Að biðja Guð í þeim sporum er þá að ákalla í neyð, þannig er samband okkar, mitt og þitt, við Guð. Það er ekkert eins persónulegt eins og samband þitt við Guð þinn, þar verður þú fyrst raunverulega þú, þitt rétta sjálf, þegar þú ert frammi fyrir Guði þínum. Það er að vera, lifa sannleikann, vera Guðs, uppgötva andlega vídd tilverunnar.

Ég sagði áðan að dæmisagan væri harmsöguleg en þegar þarna er komið hættir hún að vera það og verður sagan um samband mitt við Guð. Hún snýst um kærleikann í tilveru okkar, um lífið og ástina.

Kross frá Eþ�óp�u Þá opnast mér stærri og meiri saga. Það birtist tákn kærleikans, krossinn. Ég eignaðist þennan kross fyrir löngu, prestslegur kross frá Eþíópíu, sem þeir signa fólkið með í rétttrúnaðarkirkjunni. Þið sjáið krossana en um leið sjáið þið að þetta er tré, lífsins tré. Þannig er aftökutækið orðið að tákni lífsins, af því kemur líf. Þegar betur er að gáð sér maður fugla í trénu, tvo og tvo saman, paradísarfuglar um sambandið himneska. Og svo er þetta einnig lykill ef hann er settur á hlið. Krossinn er lykill að Drottins náð.

Krossinn birtir okkur þannig kærleika Guðs. Það er Kristur sjálfur sem er okkur kærleiki Guðs. Þá er hann ekki lengur söguleg persóna sem við tökum afstöðu til heldur er hann Guð kominn til okkar í veikleika, hinu mesta myrkri, þjáningu og böli, sem hugsast getur. Þar er Guð. Þar er Guð hjá þér. Og líf hans sigrar allt ill, allt böl, það sem þér finnst snúast gegn þér. Guð í þjáningunni, þjáningunni þinni og heimsins alls. Ekki til að yfirgefa þig. Guð bregst aldrei er sú saga að segja þér. Hann segir við þig: „Kom þú til mín“.

4.

Þetta er fagnaðarerindið um trúna eða það sem hefur verið kallað „réttlæting af trú“. Þar með eru forsendurnar gefnar, sambandi komið á milli þín og Guðs, bænamálið byrjað. Þar með eru forsendurnar gefnar. En þá finnum við líka til með Guði, eins og Guð sér heiminn, sjáum við hann, með viðkvæmni, umhyggju og kærleika. Þannig verður öll þjáning heimsins ekki til að forðast heldur til að taka þátt í því mikla verki sem Guð er að vinna með því að lina þjáningu, standa með þeim veiku, reisa upp það sem er niðurbeygt.

Þá förum við að sjá fuglana í trénu, laufið sem er að vaxa, ávextina, sem blómstra, lífið. Við erum þannig gengin inn í verk Guðs. Hvernig á ég að koma orðum að þessu? Við verðum tengd við hvert annað og lífið, náttúruna, sköpun Guðs, raunveruleikan.

Það er eins og að vera leiddur áfram inn í aðstæður þar sem Guð er með í verki.

5.

Á þessum degi biðjum við Guð að auka okkur trú. Gefa okkur þá trú að hann geti leitt okkur saman til blessunar. En þá er líka bænasvarið að ég og þú eigum persónulega með Guð að gera í lífinu eins og það er. Þín vegferð getur verið allt önnur en mín. Við getum verið í sitt hvorri kirkjudeildinni, af tveimur ólíkum menningarheimum, en Kristur er hinn sami. Við getum haft svo ólíkar skoðanir að þær kunna að líta út fyrir að vera ósættanlegar, jafnvel hallast að svo ólíkum lífsskoðunum og gildismati að andstaðan er augljós en Kristur er hinn sami. Þannig vil ég líta á kirkjudeildirnar, sem ræða saman, reyna að sætta og finna sameiginlegan grunn, vegna Krists.

Jesús ætlast til þess af okkur. Jesús biður til föðurins í Jóh. 17. 23: „svo að þeir verði fullkomlega eitt til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.“ Einingin er því nauðsynleg til þess að við berum honum vitni í raun og veru. Það verður ekki með tómum orðum eða áformum heldur með því að við göngum til þjónustu við Krist og leifum honum að leiða okkar þangað sem hann vill. Þess vegna biðjum við Guð að græða sárin og klofningin sem er meðal kristinna manna. Það er kærleiki Krists sem knýr okkur áfram.

Dýrð sé Guði. Amen.

Eftir ræðu var þýðing mín á þemasálminum sunginn. Lag á texta má vinna á heimasíðu höfundar.

Kærleiki Krists knýr oss

Lag: Wenn ich, o Schöpfer, deine Macht

Þú Faðir berð í brjósti harm, þér brennur ást í sinni að leita týndra, berð við barm þín börn í veröldinni. Þú alla syndum frelsar frá. Vér fögnum þeim sem ljósið sjá, því kærleiki Krists knýr oss.   Í niðamyrkri mættir oss, í mannheim komst og þjáðist. Guðs miskunn ertu, Kristur, kross þinn kallar, friður náðist. „Kom þú til mín“, svo kallar þú, sem krýndur sigri gefur trú, því kærleiki þinn knýr oss.   Allstaðar þar sem aðrir þjást þig einnig Drottinn sjáum. Vér þjónum þér, sem aldrei brást, í þér svo reynast fáum. Vér fylgjum þér, ó, Kristur kær, svo komi himnaríki nær, því kærleiki þinn knýr oss.   Þú Drottinn, lækna dapra tíð, þér dýrð söng fölskum hljómi. Sameina aftur lífsins lýð, þig lofi einum rómi, að vitnum vér um þína náð og veröld fái gjöf þá þráð, því kærleiki Krists knýr oss.