Óttalegur Lasarus

Óttalegur Lasarus

Við megum ekki láta glepjast eins og uppistandarinn sem reynir að finna lífi sínu tilgang gagnvart tóminu, það er helvíti nútímans sem rekur alla áfram með skelfingu. Kristinn trú boðar ekki helvíti eins og nútíminn heldur himnaríki. Það er faðmur á bakvið og þeim kærleika eigum við að lifa í daglegu lífi okkar.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

„Ég er óttalegur Lasarus í dag“, segjum við stundum. Og ég held að margir ef ekki flestir skilji hvað ég er að segja. Ég er lasinn. Dæmisagan hefur unnið sér sess í mörgum öðrum tungumálum eins og í íslenskunni. Dæmisagan er athyglisverð og snertir við einhverri taug í okkur, einum af þessum strengjum í hjarta okkar sem skiptir kannski mestu þegar öllu er á botninn hvolft.   Umhugsunarefni dagsins er samúðin, umhyggjan og kærleikurinn. Dæmisagan er ekki að fjalla um handantilveruna eða það sem tekur við heldur bregður upp mynd eins og Davíð Stefánsson gerði síðar í Gullna hliðinu. Myndin situr einhverveginn föst í huganum. Þannig eru dæmisögur. Meginhugsunin er þessi að það skiptir máli hvernig við breytum í þessu lífi. Sú hugsun festist í hug og hjarta.   Það er ekkert sjálfgefið að menn hugsi þannig í dag. Ég hlustaði á uppistandara frá Ástralíu um daginn, Tim Minchin. Hann flutti ræðu eða ávarp við útskrift sýnist mér við Western University í Ástralíu. Níu atriðið um lífið. Útgangspunkturinn var að lífið væri merkingarlaust en til að hafa það af þá væri vert að gefa gaum að þessum atriðum sem hann gerði grein fyrir svo maður veltist um. Lífsspeki var þar á ferðinni. En ég sat eftir með þá spurningu: Er mannleg tilvera eins og hún leggur sig aðhlátursefni? Skondið að detta inn í tilveru, sem er svona vitlaus. Maður verður bara að sigla skútunni svo hún haldist á floti, mannshugur gagnvart óskiljanlegum alheimi. 

En dæmisagan kennir okkur annað og meira. Hún er ein af þessum krassandi dæmisögum í guðspjalli Lúkasar. Þær eru hárbeittar þegar maður fer að velta fyrir sér myndunum sem þær bregða upp.   Það er kannski ekki viðeigandi að vitna í danska fræðslumynd um foreldra barna. Ég kann bara ekki við að nefna heitið á þættinum en hún var sýnd á miðvikudagskvöldið. Þar var fjallað um hamingjustuðul para fyrir og eftir fæðingu barna. Hann fór vaxandi fyrir fæðingu en fyrstu fjögur ár eftir fæðingu barna hrapaði hann. Hamingjan er fallvölt þegar veröldin mætir manni eins og hún er. Endalausar kröfur og verkefni sem þarf að leysa. Dagurinn skipaður verkefnum frá morgni til kvölds og allir að flýta sér eitthvað. Ágætur kollegi minn spurði einu sinni á merkilegri ráðstefnu: Hvert eru allir að flýta sér? Það kom nú í ljós í þessum þætti að foreldrar gera sér óraunhæfar væntingar og nútíminn er svo sjálfhverfur að það veldur okkur óhamingju. Við erum að raungera okkur sjálf, vera við sjálf, njóta alls, sem lífið hefur upp á að bjóða. Og svo verða það krakkarnir sem stjórna algjörlega lífi okkar.   Þetta er snilldarleg hönnun hjá skaparanum að fegurðin og unaðurinn heillar okkar svo við föllum í gildruna og sitjum svo uppi með endalausar skyldur. Það var nú reyndar niðurstað þáttarins að það er í raunverulegu sambandi og í alvöru tengslum við maka og börn að dýpsti tilgangur lífsins verður okkur ljós og djúpu tilfinningarnar nærast. Þarna birtist dönsk tilvistarspeki upp á sitt besta fannst mér. Kærleikurinn er ekki í tómarúmi eða rauð-bleik tilfinning heldur alvara, tengsl, sem skipta okkur mestu. 

Og þá komum við aftur að dæmisögunni. Þarna var þessi ríki maður sem lifði í „dýrlegum fagnaði“ alla daga. Þessi orð fara ferlega í taugarnar á mér vegna þess að ég lifi í dýrlegum fagnaði alla daga, svo oft finnst mér sagan sneiða að mér. Ríki maðurinn er gerður skoplegur í ríkidæmi sínu og tilvera hans er yfirgengileg. Minnir á snekkjuna sem var út á Pollinum um daginn eða útsýnisferð auðkýfingsins á þyrli sinni sem átti að sitja í fangelsi fyrir fjármálaglæpi en hrapaði óvart. Lúkas er eins og uppistandari sem gerir grín að auði og völdum. Hugsunarlaust hentist þessi auðkýfingur áfram í sínum dýrlega fagnaði.

Fyrir utan dyrnar var svo Lasarus. Hann á sér nafn en auðugi maðurinn ekki. Það er dálítið öfugsnúið miðað við okkar veröld. Við vitum hvað auðkýfingarnir heita en börnin og fátæklingarnar í götum Ríó vitum við ekki hvað heita né heldur 10 miljónirnar í Eþíópíu sem standa frammi fyrir hungursneyð. En Guð veit og man hvað hver og einn heitir. Ríki maðurinn hafði ekki hugmynd um fátæka manninn. Hann var algjörlega sinnulaus um þjáningu og eymd annarra.

En svo er líka öllu snúið á hvolf þegar komið er handan þessa heims. Þeir deyja nefnilega báðir. Dauðinn er mesti jafnréttissinni veraldar. Hann gerir nefnilega ekki greinarmun á ríkum og fátækum. Allir falla fyrir ljánum hans.   Þá er brugðið upp þessari ógleymanlegu mynd. Fátæki maðurinn situr í skauti Abrahams, ættföður Ísraels, nýtur þess ríkulega. En ríki maðurinn kvelst í víti og verður þá hugsað til bræðra sinna sem að líkindum eru í sama flokki og hann. Umhyggjan kemur dálítið seint. Fyrir handan dettur ríka manninum ekki í hug að hann hafi gert eitthvað rangt með sinnuleysi sínu. Hann öfundar aðeins fátæklinginn sem er í faðmi Abrahams og veltir fyrir sér hvernig hann og hans fólk getur fengið hlut í því.   En hver eru hin raunverulegu gæði? Það er nærveran við Guð, það er kærleikurinn, sem gerir okkur að mönnum. Dæmisagan dregur upp annars vegar ábyrgð okkar gagnvart hvert öðru. Samúðin er ekki nægileg ef hún leiðir ekki til neins jafnvel þó að það sé innri væntumþykja, við eigum að elska í raun og sannleika.   Bakvið myndina af Lasarusi er önnur mynd. Það er líðandi þjónn sem gengur með kross allra þeirra sem þjást og líða í þessum heimi. Ef við sláumst í för með honum finnum við til í raunveruleika sem er erfiður, krefjandi, sem eyðileggur kannski framadrauma okkar, en leiðir okkur til lífsins, eins og það er í raun og veru. Þar er kærleikurinn í barnauppeldinu, brasinu og baslinu, vegna þess að við eigum hvert annað. Við eigum faðm sem umvefur og elskar. Það er dýrmætast af öllu. 

Dæmisagan sem ég hef líkt við sögu uppistandara er svona beitt en hún hefur líka aðra hlið. Það birtist í henni faðmur sem stendur opinn fátæklingnum og hinum þjáða. Öllum Lasarusum veraldar. En líka ríka manninum ef hann vaknar af sínum dýrlega fagnaði. Hann stendur opinn hverju barni. 

Við sungum fallegan skírnarsálm í upphafi eftir Sven Ellingssen. Hann hefur verið nefndur skáldið með barnshjartað. Yfir skírnarbarninu syngur hann: 

Full af gleði yfir lífsins undri, með eitt lítið barn í vorum höndum, :,: komum vér til þín sem gafst oss lífið. :,:

Dæmisagan leiðir okkur að hinu raunverulega frelsi sem við eigum í amstri daganna. Það er að geta undrast lífið, lifað augnablikið, vitað að hver andardráttur er gjöf Guðs, hjarta okkar slær vegna þess að við erum elskuð, elskuð af Guði. Þá verður þakklæti grunntónn lífsins. Það er ekki tóm á bakvið tilveru okkar heldur faðmur sem umvefur okkur í amstri daganna. Við megum ekki láta glepjast eins og uppistandarinn sem reynir að finna lífi sínu tilgang gagnvart tóminu, það er helvíti nútímans sem rekur alla áfram með skelfingu. Kristinn trú boðar ekki helvíti eins og nútíminn heldur himnaríki. Það er faðmur á bakvið og þeim kærleika eigum við að lifa í daglegu lífi okkar. Í því er hamingjan, en ekki í að vera við sjálf eða finna okkur sjálf, heldur að lifa fyrir aðra og þess vegna að týna okkur sjálfum.   Þá sjáum við Krist í náunga okkar og treystum því að hann er nálægur, hann er upprisinn, kemur með von, þar sem engin von virðist vera. Þú sérð í augum þess sem þjáist með öllu mannkyni allra tíma að hann er kominn til að vera með okkur alltaf. Þá opnast skaut Guðs þér og mér. Lífið fær tilgang sinn, kærleikann. 

Dýrð sér Guði, föður og syni og heilögum anda.