Á ég að gæta systur minnar?

Á ég að gæta systur minnar?

Það skiptir máli að taka afstöðu gegn klámi, vændi og mansali. Konan sem kom hingað í síðustu viku er dóttir einhvers, ef til vill er hún systir einhvers og/eða móðir. Við vitum að hún var hrædd, gjörsamlega miður sín. Við eigum að mæta henni sem dóttur, systur og samborgara.

Grátt

Raddirnar hafa ekki verið sérstaklega háværar en þær hafa heyrst. Viðvörunarraddir sem segja að mansal sé raunveruleiki, hér á litla Íslandi. Borgarfulltrúinn Sóley Tómasdóttir skrifaði ágæta grein í kjölfar fréttar af litháísku konunni sem hefur fengið mikla umfjöllun. Sterkar vísbendingar benda til að hún sé fórnarlamb mansals.

Sóley vitnar í sérfræðing á vegum norsku lögreglunnar sem segir nóg að spyrja tveggja spurninga:

Er eftirspurn eftir vændi á landinu?

Eru vísbendingar um að alþjóðleg glæpastarfsemi teygji anga sína til landsins?

Ef þessum spurningum er svarað játandi má ætla að mansal þrífist hér á landi.

Ég hef stundum verið spurð að þvi á ráðstefnum erlendis hvort hér á landi þekkist vandamál sem tengjast eiturlyfjum. Þau sem þannig spyrja finnst að þar sem við erum svona fá og smá, auk þess sem landið er lítil eyja norður í hafi, þá getum við varist slíkum vágestum. Við vitum að það er ekki svo einfalt. Það sama á við um mansal.

En við megum ekki láta sem það sé eðlilegur hluti af því að taka þátt í alþjóðasamfélaginu eða að neikvæðir fylgifiskar þess séu óumflýjanlegir. Við megum enn síður líta undan og láta eins og þetta sé ekki alvöru vandamál.

Það skiptir máli að taka afstöðu gegn klámi, vændi og mansali. Konan sem kom hingað í síðustu viku er dóttir einhvers, ef til vill er hún systir einhvers og/eða móðir. Við vitum að hún var hrædd, gjörsamlega miður sín. Við eigum að mæta henni sem dóttur, systur og samborgara. Við eigum að segja að hér samþykkum við ekki að farið sé með fólk eins og fénað og það flutt á milli landa eða heimsálfa og selt í þrældóm.

Samfélagið þarf að senda út skýr skilaboð. Það var umdeilt þegar nektardans var bannaður í Reykjavík. Þar var tekin ákveðin afstaða sem segir að við viljum vernda manneskjuna. Skilaboðin voru þau að líkami fólks er ekki söluvara og hvert einasta mannsbarn á að njóta virðingar og friðhelgi. Um leið og allra leiða er leitað til þess að stöðva þá sem að baki glæpnum standa þurfum við að halda vel utan um fórnarlömbin.

Við sem tilheyrum kirkjunni eigum góða fyrirmynd í því hvernig við umgöngumst hvert annað. Jesús staldraði við, mætti þeim sem voru á vegi hans í þeim aðstæðum sem þau voru í. Aldrei hræddur við að taka upp málstað þeirra sem minna máttu sín. Hann mætti þeim ekki sem smælingjum heldur sem jafningjum. Látum í okkur heyra. Mótmælum vændi og mansali. Við sem erum foreldrar, munum að fórnarlömbin eiga foreldra og reynum að setja okkur í þeirra spor. Hvað ef þetta væri dóttir mín? Við sem eigum systkini, setjum okkur í þeirra spor. Hvernig liði mér ef þetta væur örlög systur minnar?

Á ég að gæta bróður míns spurði Kain forðum. Við skulum spyrja okkur þessarar spurningar í dag.