Góð karlasaga

Góð karlasaga

Það ber skugga á gleðina og hnúturinn í maganum fer aftur að stækka. Mér finnst ég vera að týna stóra stráknum mínum. Við sem höfum alltaf verið svo náin og ég hef aldrei þurft að hafa fyrir honum á neinn hátt. Nú stendur hann einn úti í myrkrinu og neitar að koma inn og taka þátt í gleðinni. Hann er afbrýðisamur og honum finnst ég hafa verið óréttlát.

 

 

Flutt í fermingarmessu

 

Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Góð karlasaga Eitt af  því sem er svo gott við söguna sem ég las hér áðan, guðspjall þessa sunnudags, er að flest eigum við auðvelt með að setja okkur í spor einhverrar sögupersónunnar. Það fer kannski eftir því hvar við erum stödd í lífinu, við hvaða persónu við eigum auðveldast að samsama okkur. Nú orðið finnst mér frekar auðvelt að setja mig í spor þeirra allra. Þetta er náttúrulega mikil karlasaga eins og sögur Biblíunnar eru oft. Persónurnar eru allar karlkyns. Kannski er það vegna þessa að sagan hefði aldrei fengið sama vægi ef það hefði fjallað um dætur eða móður. En hvað sem því líður þá gæti þessi saga fjallað um hvort sem er stráka eða stelpur og pabbinn er í mínum huga táknmynd foreldris og gæti allt eins verið mamma.  

Yngri bróðirinn Þegar ég set mig í spor yngri sonarins, „týnda sonarins“, sé ég fyrir mér hvernig heimilið og fjölskyldan verður staður sem heldur aftur af mér. Ég vil verða eitthvað og kynnast einhverju öðru en þessu, því sem ég er alinn upp við, því sem ég hef alltaf þekkt. Ég vil sjá heiminn. En eftir að hafa notið frelsisins og lífsins lystisemda í nokkurn tíma fer tómleikinn að taka stærra pláss í hjartanu en gleðin yfir frelsinu. Lífið þar sem ég og mínar þarfir og langanir eru í aðalhlutverki verður að lokum innantómt og gefur lítið. Ég á engan pening eftir og ég get ekki einu sinni framfleytt mér á ókunnum stað. Að lokum fer ég að sakna fjölskyldunnar, þess sem ég þekki, þeirra sem ég elska.  

Eldri bróðirinn Þegar ég hugsa mér stöðu eldri bróðurins sé ég fyrir mér land sem fæðir bæði fólk og dýr. Land sem krefst mikillar vinnu og umhyggju svo það gefi góða uppskeru. Ég sé fyrir mér vinnu sex daga vikunnar frá morgni til kvölds. Ég sé fyrir mér vinnu sem veitir mér gleði og lífshamingju. Líf mitt einkennist ekki af tilbreytingu, heldur vana og rútínu og ég gleðst yfir góðu dagsverki. Þetta er gott líf. Einhversstaðar innst inni finn ég þó fyrir örlítilli afbrýðisemi í garð litla bróður. Hann þorði að breyta út af vananum. Hann hafði kjark til þess að taka áhættu og reyna eitthvað nýtt. Hann sem ekki getur tekið ábyrgð og sinnt sínum skyldum, heldur hleypur í burtu frá öllu eins og óábyrgt barn.  

Pabbinn Þegar ég set mig í spor pabbans breytist allt. Þá er ég foreldrið. Þá er ég mamman. Ég sé fyrir mér litla strákinn minn sem hefur verið týndur einhversstaðar langt í burtu og þegar ég sé hann koma gangandi get ég ekki annað en hlaupið á móti honum. Og ég faðma hann að mér. Hann er litla barnið mitt og ég heyri varla þegar hann biður mig fyrirgefningar. Það skiptir ekki máli núa. Hann er kominn heim. Höldum veislu!! Það ber skugga á gleðina og hnúturinn í maganum fer aftur að stækka. Mér finnst ég vera að týna stóra stráknum mínum. Við sem höfum alltaf verið svo náin og ég hef aldrei þurft að hafa fyrir honum á neinn hátt. Nú stendur hann einn úti í myrkrinu og neitar að koma inn og taka þátt í gleðinni. Hann er afbrýðisamur og honum finnst ég hafa verið óréttlát. Ég átta mig á því að mér líður alveg jafn illa og mér leið þegar litli strákurinn minn átti hvergi höfði sínu að halla og át mat svínanna. Ég get lítið gert annað en að halda áfram að elska börnin mín og sýna þeim að mér þykir alltaf jafn vænt um þá báða, sama hvað þeir gera, sama hvort þeir geta elskað mig eða ekki. Ég get ekki stjórnað börnunum mínum. Þau verða sjálf að velja hvort þau vilji vera inni í ljósinu eða úti í myrkrinu. En hvar sem þau eru þá eru þau mér kærust!  

Kærleikurinn er mestur Það sem stendur upp úr og tengir þessar persónur saman er kærleikur föðurins. Kærleikurinn er það sem heldur þeim uppi og sameinar allar karlana þrjá. Kannski er kærleikurinn það eina sem skiptir máli þegar allt kemur til alls. Kæru fermingarbörn fjölskyldur og Grafarvogssöfnuður, til hamingju með daginn! Þið hafið valið Guð og að velja Guð er að velja kærleikann og að velja lífið sjálft! Mig langar til að biðja ykkur, á þessum stóra degi í lífi ykkar, að hugsa um kærleika föðurins. Hugsa um það hvað pabbinn elskaði strákana sína mikið. Hann gladdist yfir þeim báðum og hann var jafn áhyggjufullur yfir þeim báðum. Þeir áttu alltaf samastað hjá honum, bæði þegar þeir höfðu staðið sig vel og verið góðir synir og þegar þeir höfðu gert mistök og hagað sér illa. Í dag munu þið staðfesta frammi fyrir fjölskyldu, vinum og þessum söfnuði að þið viljið halda áfram að fylgja Jesú. Að þið viljið halda áfram að vera börnin hans. Í dag eru þið eruð eins og synirnir í sögunni, stundum fullkomin börn Guðs en stundum gerið þið mistök og villist af leið. En eins og pabbinn í sögunni elskaði synina og var tilbúinn að taka við þeim aftur, þannig elskar Guð ykkur og þið munið alltaf eiga samastað hjá Guði, hvort sem ykkur líður vel eða illa. Þið eruð bæði komin langt að til þess að fermast og með ykkur í dag er fjölskyldan ykkar og vinir, fólk sem þykir vænt um ykkur og vill styðja ykkur á lífsleiðinni. Það er mín von og ósk að þegar þið í framtíðinni hugsið um fermingardaginn ykkar, reynið að muna eftir og upplifa hlýjuna sem nærvera fólksins ykkar hefur skapað hér í kirkjunni í dag og munið eftir því hvað pabbinn í sögunni elskaði strákana sína mikið – að þannig elskar Guð ykkur. Það er mín ósk og bæn okkar prestanna og allra sem eru hér í kirkjunni í dag að þið munið alltaf treysta á ást og kærleika Guðs og fólksins ykkar og gleymið því aldrei að þið eru dýrmæt vegna þess eins að þið eruð þið, vegna þess að þið eruð börn Guðs.