Goðsögnin Cash

Goðsögnin Cash

Þegar ég var gutti þótti mér kántrítónlist afar hallærisleg. Eftir að mér fór að vaxa skegg hljómaði hún betur í mínum eyrum. Ég kann svo sem enga sérstaka skýringu á því, en margt batnar eftir því sem maður eldist og þroskast.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
13. nóvember 2011
Flokkar

Þegar ég var gutti þótti mér kántrítónlist afar hallærisleg. Eftir að mér fór að vaxa skegg hljómaði hún betur í mínum eyrum. Ég kann svo sem enga sérstaka skýringu á því, en margt batnar eftir því sem maður eldist og þroskast, sumt getur vissulega versnað líka, en látum það liggja á milli hluta því í kvöld ætlum við að vera jákvæð og kát í kántríinu.

Sveitasöngvar eru gjarnan mjög melódískir og það hrífur mig en síðan þegar hlustað er eftir því sem sveitasöngvarar segja í lögum sínum þá eru þeir að venjulegast að miðla af einhverri reynslu. Þeir eru að segja sögur, lífsreynslusögur og það er viss einlægni sem einkennir bæði tónlistina og textana. Það hrífur mig ekki síður.

Það er heilmikil trú í sveitasöngvunum, hún fylgir jú lífsreynslunni og einlægninni og því er ekkert skrýtið að gospeltónlistin tengist kántríi nánum böndum. Sveitasöngvarar eru oft að segja sögur um brostnar vonir, ástarsorgir, fjölskylduharmleiki, vanmátt og misbresti, en síðan eru Guð og Jesús ósjaldan nefndir á nafn sem haldreipið mitt í dalnum dimma.

Kántríkúltúrinn er ráðandi í hinu svokallaða Biblíubelti Bandaríkjanna, í suðurríkjunum og óhætt að fullyrða að þar séu íbúar harðir trúmenn, hvítasunnuhreyfingin er öflug og mörgum finnst beltið heldur íhaldssamt í trúarskoðunum sínum sem það víst er.

Úr þessum jarðvegi sprettur m.a. Johnny heitinn Cash sem var þó ekki bundinn mjög íhaldsseminni, var fremur uppreisnargjarn og róttækur. Ófáir hafa litið á hann sem holdgerving kántrítónlistarinnar en hann var ekkert upptekinn af því sjálfur og gerði líka lög sem geta flokkast undir rokk, blús, rokkabillí, þjóðlagatónlist að ekki sé minnst á gospel.

Hún er um margt merkileg sagan hans Johnny Cash, hann kom oft inn á hana í söngvum sínum eins og sveitasöngvurum er tamt að gera. Það mætti segja mér að eftirfarandi orð Jesú Krists í guðspjalli dagsins hafi talað með nokkuð skýrum hætti inn í líf hans. “Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.”

Á uppvaxtarárum missti Johnny Cash bróður sinn í hræðilegu vinnuslysi. Cash hafði fengið fyrirboða um dauða bróður síns í draumi tveimur vikum áður en slysið átti sér stað. Þetta hafði djúpstæð áhrif á lífsgöngu og sálarlíf sveitasöngvarans og væntanlega hefur sú staðreynd ekki dregið úr þeim áhrifum að faðir hans lét það í veðri vaka að Johnny hefði fremur átt að deyja heldur en þessi bróðir hans sem var í miklum metum hjá fjölskyldunni.

Faðir Johnny var heldur ekki hrifinn af tónlistaráhuga sonarins og sá það fyrir sér að hann myndi aldrei geta framfleytt sér á tónlistinni einni. Móðir hans hvatti hann hins vegar áfram. Hún tók meira að segja að sér aukavinnu til þess að koma honum í söngnám. Söngkennarinn komst að því að Johnny hefði einstaka rödd og að enginn mætti breyta henni. Hann sótti því ekki frekari söngþjálfun, söng með sínu nefi og það gafst vel.

Hann fór í herinn, kynntist þar mönnum sem höfðu gaman að kántrítónlist og síðan var það elsti bróðir hans sem kynnti hann fyrir tveimur mönnum, Marshall Grant og Luther Perkins, er spiluðu með Johnny lengi vel.

Þeir fengu plötusamning hjá Sun. Johnny kynnti sig fyrst sem gospelsöngvara sem langaði að gefa út plötu en plötuútgefandinn keypti það ekki. Þá mætti Johnny í stúdíóið morgunn einn, hitti þar fyrir utan sjálfan útgefandann og fékk að syngja fyrir hann. Johnny gafst ekki upp.

Útgefandinn hafði lítinn áhuga á að heyra Johnny syngja lög eftir aðra og bað hann að syngja frumsamið lag. Johnny söng þá Hey, Porter sem hann var nýbúinn að semja en ekki alveg orðinn sáttur við. Útgefandinn var hins vegar í skýjunum og bauð honum að koma aftur morguninn eftir með félögum sínum og syngja það inn á smáskífu. Ferillinn var hafinn.

Johnny Cash háði áralanga baráttu við fíkniefnadjöfulinn. Hann sagði frá því eitt sinn eftir að hann var hættur að nota eiturlyf, að honum hafi þótt það mikil hræsni þegar hann söng gospellagið “Where you there when they crucified my Lord” stútfullur af amfetamíni og út úr heiminum. Með hjálp bænarinnnar og eiginkonu sinnar June Carter, sem einnig söng kántrí, tókst honum að verða edrú. Á þeim tíma datt honum í hug að syngja í fangelsum. Fyrstu tónleikarnir fóru fram í Folsom fangelsinu en lagið Folsom Prison Blues heitir eftir því. Þá hélt hann tónleika í San Quentin fangelsinu og frumflutti þar lagið A boy named Sue, söluhæsta lag Cash.

Þetta voru mjög eftirminnilegir tónleikar sem voru bæði hljóðritaðir og myndritaðir og lá við uppreisn í fangelsinu að þeim loknum. Johnny sagðist hafa náð tökum á föngunum og það eina sem hann þurfti að gera var að segja: “Gerið uppreisn! Takið yfir! Þá hefðu þeir látið til skarar skríða. Cash lét það þó ekki eftir sér því honum varð hugsað til konu sinnar og fjölskyldu hennar sem voru þarna viðstödd. June var ljós í lífi hans og bar hann ómælda virðingu fyrir henni.

Kvikmynd var gerð um Johnny Cash árið 2006 sem heitir Walk the Line eftir einu laga hans. Um myndina fjallar sr. Halldór Reynisson og kemur m.a. inn á heilindi June eiginkonu Cash sem kom honum til bjargar. Í umfjöllun Halldórs segir:

“Hann var sveitamaður sem lenti í sollinum sem fylgdi frægum tónlistarmönnum í Bandaríkjunum og stefndi hraðbyri til glötunar þegar sú ærlega kona June Carter, sjálf þekkt kántrísöngkona, bjargaði honum með heilindum sínum. Hann og reyndar þau bæði spretta upp í íhaldssömu baptistaumhverfi í trúarefnum en hann verður á margan hátt rödd hins róttæka spámanns sem stendur með utangarðsmönnum og storkar valdinu. Þess vegna verður þessi dimma rödd hans oft svo sterk.

Það sem í mínum huga gerir Cashhjónin stór er hvernig þau, og þá sérstaklega hún, ná tökum á tilverunni með heilindum sínum. Frá því að ég var strákpatti hefur mér fundist þessi manneskjulegu heilindi vera undirtónninn í tónlist Johnny Cash. Þessum heilindum skilar bíómyndin Walk the Line með ágætum.

Þetta segir sr. Halldór um umrædda kvikmynd sem hiklaust er hægt að mæla með. Í henni er raunsönn mynd dregin fram og lesa má úr myndinni vissa prédikun þar sem glíma hjónanna við lífið sýnir hvernig trú getur komið fólki til bjargar á ögurstundum. Og þannig hefur það verið með margan sveitasöngvarann sem sungið hefur um líf sitt, sagt sögur af syndsamlegu líferni en síðan upplifað heilagleika þess að rísa upp og öðlast hvíld, öðlast sálarró. Það gerir líka þessa svokölluðu kántrítónlist á vissan hátt sjarmerandi.

Upprisuna upplifðu Cashhjónin og urðu m.a. nánir samstarfsmenn og vinir prédikarans Billy Graham sem sagði eftirfarandi um Johnny að honum látnum:

“Hann var ekki bara goðsögn heldur líka náinn vinur. Johnny var góður maður sem tókst á við mörg ögrandi verkefni á lífsleiðinni. Hann var mjög trúaður maður. Ég hlakka til þess að hitta Johnny og June í himnaríki.”

Það má skilja á orðum Graham að himnríki sé fyrir honum viss staður en fyrir mér er það ástand sem við getum upplifað strax hér í jarðnesku lífi okkar. Johnny Cash er gott dæmi um mann sem upplifði ekki líf sitt í samræmi við vilja Guðs fyrr en á síðari hluta þess.

Það eru ákveðin vonbrigði þegar hugsað er um Guð sem kærleiksríkan og réttlátan en svo er líf manns í algjörri óreiðu og lítið gefandi. Það er víst alls ekki hægt að öðlast neitt hvíldarástand í slíku ósamræmi. Þá spyrjum við okkur eðlilega, hvað á Guð við með þessu þ.e.a.s. ef við viljum eitthvað með Guð hafa yfir höfuð?

Svo er það þannig að hvíldina öðlumst við þegar við finnum að líf okkar er í samræmi við vilja Guðs og boðskap hans, þegar við finnum fyrir kærleika í eigin hjarta, þegar við viðurkennum brestina, þegar við finnum fyrir þeirri einlægni sem m.a. kántrítónlistin tjáir oft og tíðum, þegar við finnum að við erum öðrum einhvers virði og aðrir eru tilbúnir að sýna okkur gæsku sína og gleði.

Það reyndi Johnny Cash í hjónabandi sínu með June Carter, hún var honum sannkallað himnaríki, vonandi verða þau það hvort öðru áfram á grundum þeim er aldrei enda, vonandi fáum við að eignast slíkt hvíldarástand bæði á hérvistardögum okkar sem og þegar við göngum inn í ljósið eilífa. Í Jesú nafni. Amen.

Mt. 11.25.-30