Jólahugvekja

Jólahugvekja

Árið 1984 fór ég í pílagrímaferð til landsins helga Ísraels og heimsótti þar fæðingarkirkjuna í Betlehem. Það var mögnuð upplifun að ganga til kirkjunnar og stíga þar inn fyrir dyr, upplifun sem fátækleg orð ná vart að lýsa svo vel fari
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
01. janúar 1900
Flokkar

 

 

 Pílagrímaferð

Árið 1984 fór ég í pílagrímaferð til landsins helga Ísraels og heimsótti þar  fæðingarkirkjuna í Betlehem.  Það var mögnuð upplifun að ganga til kirkjunnar og stíga þar inn fyrir dyr, upplifun sem fátækleg orð ná vart að lýsa svo vel fari. Sem ég stóð á torginu fyrir framan kirkjuna þá virti ég fyrir mér lúnar gangstéttarhellurnar og hugsaði til pílagrímanna sem á undan mér höfðu gengið til þessa helgasta staðar kristninnar í heimi hér. Það var sem steinarnir hrópuðu er þeir minntu mig á allar þær þrár og vonir sem pílagrímarnir báru með sér þá er þeir gengu þar inn fyrir dyr. Ég varð að beygja mig töluvert inn undir gættina til þess að komast inn í helgidóminn.

Fæðingarkirkjan

Þar inni var töluvert rökkur, reykelsisilmur í lofti sem er tákn fyrir bænirnar sem beðnar hafa verið og stíga upp til Guðs.  Dökkbrúnt timburgólf blasti við augum sem bar þess einnig verulegt merki að margir hefðu um það gengið á undan mér. Engir kirkjubekkir eða stólar voru sjáanlegir í rökkrinu sem vakti furðu mína. Hátt var til lofts og nokkuð vítt til veggja. Brúnir timburbitar lágu um loftin og millii þeirra voru ljósahjálmar hér og þar sem vörpuðu daufri birtu yfir umhverfið. Allt var svo kyrrt og hljótt. Samferðamenn mínir hljóðnuðu ásamt mér fullir lotningar gagnvart því sem skilningarvitin skynjuðu. Þögul gengum við hægum skrefum inn eftir timburgólfinu í átt að kór kirkjunnar.

Í minningunni var þar engin forláta altaristafla af fæðingu frelsarans eða  málmar sem gljáðu svo að skar í augu. Nei það var frekar sorti sem mætti fyrst augum mínum og ein þrjú altari sem tilheyrðu þremur kirkjudeildum. Þegar nær dró tók þó að birta til því að þar brunnu ótal bænakerti sem pílagrímar höfðu kveikt og ég hugsaði þá um stef úr jólasálminum góða.: ,,Gleð þig særða sál” þar sem segir: ,,Kveikt er ljós við ljós, / burt er sortans svið”.  (Sb nr. 74)Það er ekki laust við að ég hafi orðið hrærður við tilhugsunina.

Heilög stund

Ég meðtók birtuna frá kertahafinu í hjartað og fylgdi samferðafólki mínu eftir og gekk niður mjög máðar steintröppur undir kór kirkjunnar inn í hvelfingu þar sem talið er að fjárhúsið hafi forðum staðið. Þar hrópuðu steinþrepin sem aldrei fyrr og hjarta mitt tók undir gleðisönginn. Ég var kominn að jötu lausnarans. Hvelfingin var svo lítil að fáir komust þar fyrir í einu. Þar var lítið látlaust altari út undir vegg og þar undir var silfurstjarna í gólfi sem pílagrímarnir lutu niður að og kysstu. Einn samferðamanna minna tók upp biblíuna sína og las fyrir okkur jólaguðspjallið á íslensku sem lifnaði fyrir hugskotsjónum sem aldrei fyrr er hann hóf að lesa: ,,En það bar til um þessar mundir”. (Lúkas.2.1) Þögul og auðmjúk hlýddum við á lesturinn og  reykelsisilmurinn fyllti vitin. Að afloknum lestri jólaguðspjallsins kraup ég niður að stjörnunni og kyssti hana. Ógleymanleg er minning sú.

Jesús stendur við hjartarætur okkar

Á jólum stendur Konungur dýrðarinnar við hjartarætur okkar með ljóslukt í hendi og hann lyftir luktinni upp til þess að lýsa á dyrnar. Sjáum við ekki fyrir okkur ljósgeislamyndina gömlu sem við fengum í barnastarfi kirkjunnar forðum? Við dyrnar hefur konungurinn upp raust sína og segir: ,,Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér”.

Gjöf jólanna

Hjartadyrnar eru umvafðar gróðri, líkt og þær hafi ekki verið opnaðar um tíma. Á þeim er enginn snerill vegna þess að hann er og verður ætíð í okkar höndum. Við þurfum að ganga til dyra og opna fyrir konunginum Kristi og bjóða hann velkominn í bæinn. Þar þarf allt að vera sópað og prýtt fyrir jólin.  Við þurfum að sönnu að taka til innra með okkur til þess að Jesú geti tekið sér sæti. Hér eiga kvöldbænarorðin fallegu vel við sem móðir mín kenndi mér forðum og hafa þau ætíð fylgt mér síðan:  

Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesú mæti

Andsvar okkar

Við þurfum að eignast  hugarró, hófstillingu, hjartans kyrrðarþel sem samfélagið við Jesú leiðir af sér og nærist af orði Guðs og sakramentunum, skírninni og heilagri kvöldmáltíð. Það gerist ekkert nema fyrir bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Það skulum við jafnan muna. Ef okkur auðnast þetta að morgni sem að kveldi þá eignumst við varanlega jólagleði sem verður okkur að sönnu haldreipi í lífsins ólgusjó. Í þessu er hin sanna auðlegð fólgin sem mölur og ryð fær ekki eytt. Þetta er reynsla kynslóðanna. Þá verður trúin ekki málefni sunnudagsins heldur hversdagsins.  

Að lokum langar mig til þess að deila með þér jólastökum eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Melgerði um leið og ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.  

Oft þótt leggi ís og snjá, yfir jarðlífsskjólin. Breiðir engill birtu á barnsins leið um jólin  

Þótt á foldu falli snær, felist skýjum sólin, Alltaf til mín blíður blær berst um heilög jólin.