6.6.6. og 24/7

6.6.6. og 24/7

Engin ástæða er til að óttast föstudaga sem bera upp á 13. dag mánaðar og ekki heldur dagsetningar eins og 6.6.2006. Hins vegar er ástæða til að óttast 24/7 þegar allir vinna alla daga..og hver dagur verður öðrum líkur.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
07. júní 2006

Hvernig leið þér að morgni 6. júní 2006? Sjálfur vaknaði ég árla morguns eftir ágætan svefn og fann ekki fyrir neinu sérstöku. Menn mættu til vinnu í götunni og héldu áfram að grafa fyrir nýjum hitaveitulögnum. Jú, heita vatnið fór reyndar af hjá þeim vegna mistaka en ég held að engar kosmískar verur hafi samt valdið því. Ég kveikti á útvarpinu. Í Ríkisútvarpinu var tónlist svo ég stillti á BBC. Og viti menn. Þar var þáttur um þessa sérstöku dagsetningu og ótta fólks annars vegar og óttaleysi hins vegar. Hryllingsmyndir hafa verið gerðar um tímamót sem þessi og nú er víst verið að frumsýna eina slíka. Ýmis konar hjátrú lifir góðu lífi meðal fólks í heiminum. Hjátrúarfullt fólk óttast sumt til að mynda föstudaga sem bera upp á 13. dag mánaðar. Ekki er mér þó kunnugt um að slíkir föstudagar skeri sig frá öðrum sökum válegra atburða.  

Óttalegur dagur? Hver er ástæðan fyrir óttablandinni virðingu fyrir 6. júní 2006? Ástæðan er víst sú að í Opinberunarbók Jóhannesar er talan 666 sögð vera merki dýrsins. Um aldir hafa menn álitið að talan vísi til hins illa, til höfðingja illskunnar, sem Biblían kallar Satan. Opinberunarbókin hefur verið mönnum uppspretta mikilla vangaveltna um allt milli himins og jarðar en bókin sú er kannski sú bók heimsbókmenntanna sem með skýrustum hætti en þó um leið heimullegustum fjallar einmitt um það sem gerist á milli þessara tveggja heima. Hins vegar er Opinberunarbókin ekki spádómur sem varðar einstaka atburði sögunnar nú á tímum. Í henni fjallar höfundurinn um samtíð sína undir lok 1. aldar og talar með táknmáli og líkingum um aðstæður kristinna manna á tímum ofsókna. Dýrið og tala þess vísa líklega til Nerós keisara, þess illræmda harðstjóra og ofsóknarbrjálaða manns sem kveikti í Rómaborg og ofsótti kristna menn.

Á dögum Nerós og Jóhannesar var tímatal okkar ekki enn orðið að veruleika. Löngu síðar eða fyrir einum 1500 árum fól páfinn í Róm munki og fræðimanni að nafni Díónysíus Exiguus að framlengja gamlar töflur yfir páska og reikna út nýtt tímatal. Upp frá því var miðað við fæðingu Krists. Menn vita nú að líklega misreiknaði munkur sig um ein tvö ár og því er tímatalið ekki rétt sem slíkt. Skiptir það svo sem engu máli en sýnir okkur þó að hjátrú tengd dögum og tölum er auðvitað ekki byggð á neinum rökum. Hvenær byrjum við að telja þetta eða hitt og hvaðan er talið? Ég hef til dæmis komið í hótelbyggingu í Bandaríkjunum sem er einar 20 hæðir. Þar er engin 13. hæð! Væntanlega er merkingum sleppt á 13. hæð í lyftunum og sú hæð einfaldlega kölluð 14. hæð til að hræða ekki hjátrúarfulla viðskiptavini frá að sofa þar. En er ekki 13. hæðin til staðar eftir sem áður? Og þeir hjátrúarfullu sem telja sig sofa á rangnefndri 14. hæð sofa vært á 13. hæð bara ef hún heitir annað. Undarleg skepna maðurinn og sögð viti borin!

Að njóta andartaksins Við munum væntanlega öll ritdeilur um hvenær aldamótin eða árþúsundamótin áttu sér stað. Og við munum líka að margir óttuðust árþúsundamótin vegna þess að þá töldu margir heimsenda í vændum. En svo runnu þessi tímamót upp og voru alveg eins og hver önnur. Dagur fylgir nótt og nótt degi. Allt fram streymir, sagði gríski spekingurinn Heraklítus. Lífið er eins og árstraumur og við stígum aldrei út í straum tímans á sama stað því hann er breyttur og hið gamla er horfið.

Eitt mikilvægasta viðfangsefni nútímamanna er að mínu áliti það að ná því að lifa í núinu eins og sagt er. Sumum hættir um of til að lifa í fortíðinni þar sem hið liðna fjötrar. Aðrir eru of uppteknir af framtíðinni. Í stað þess að njóta andartaksins, njóta ferðarinnar, er hugurinn allt of bundinn áfangastaðnum. Carpe diem, sagði rómverska skáldið Hóras sem var uppi á árunum 65-8 f. Kr., gríptu daginn! Nú á tímum enskuskotinnar íslensku segir fólk gjarnan: eigðu góðan dag eða hafðu góðan dag sem er auðvitað hræðilega léleg þýðing á ensku kveðjunni „have a good day.“ Betra þykir mér að segja: njóttu dagsins sem er hljómfögur kveðja og í ætt við glaðlega kveðju skáldsins rómverska.  

Vörumst 24/7 En talandi um daginn og veginn þá vil ég í því sambandi fjalla um tölur sem eru að verða æ algengari á auglýsingaspjöldum samtímans og er hluti fyrirsagnar þessa pistils en það er 24/7 sem merkir að tiltekin þjónusta sé veitt 24 tíma sólarhringsins, 7 daga vikunnar. Nú er hvítasunnuhátíðin liðin. Mér þykir allt of lítið fara fyrir þeirri hátíð nú á tímum. Hátíðir eru í vissum skilningi á undanhaldi og allt að hverfa í einn alls herjar hversdagsleika. Litbrigði hverfa og allir dagar verða keimlíkir hver öðrum. Okkur sem ólumst upp við dagamun og fórum og förum jafnvel enn í spariföt á sunnudögum þykir gott að hafa ekki alla daga eins. Hvíldardagsboðið í umferðareglum lífsins, Boðorðunum tíu, er mikilvægara en margt nútímafólk heldur. Að gera sér dagamun og að taka einn dag í viku sem algjöran frídag þar sem fólk fæst við eitthvað annað en hina dagana sex er gott fyrir sálarlífið, vinnur gegn þreytu og streitu og gefur lífinu lit og aukna gleði.

Engin ástæða er til að óttast föstudaga sem bera upp á 13. dag mánaðar og ekki heldur dagsetningar eins og 6.6.2006. Hins vegar er ástæða til að óttast 24/7 þegar allir vinna alla daga og allir vafra um í innkaupaferðum daginn út og daginn inn og hver dagur verður öðrum líkur. Verslunarfólk þarfnast vikulegs hvíldardags og sama gera allar stéttir. Ef heldur fram sem horfir þá verður þjóðfélagið litlaust í darraðadansi sínum kringum gullsins kálf og gleymir að grípa daginn hvern og njóta litbrigða sérhvers dags í gleði og fögnuði yfir fjölbreytileika lífsins. Guð er góður og hann hvetur okkur til að njóta dagsins og ekki síst hvíldardagsins.

Njóttu dagsins!