Tungumál vonarinnar

Tungumál vonarinnar

Bæn hefur verið kölluð tungumál vonarinnar. Tungumál vonarinnar. Já, hvert leitum við þegar mannlegur máttur dugar ekki? Margir hafa lært að leita til skapara síns, Guðs, og finna mátt hans gefa kraft til áframhaldandi lífs og von um bænheyrslu. Bænin hefur áhrif. Guð veit hvað mér er fyrir bestu. Guð veit hvað þér er fyrir bestu.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
11. maí 2014
Flokkar

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“

Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“

Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Jóh 16.16-23

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er vel til fundið að hafa sérstakan kirkjudag í sóknum landsins eins og verið hefur hér í Kálfatjarnarsókn um árabil á þessum árstíma. Þakka ykkur fyrir að bjóða mér að vera með ykkur hér í dag og þakka ykkur fyrir góðar móttökur þegar ég vísiteraði hér í fyrra. Þið gáfuð mér mynd af ykkar fallegu kirkju og safnaðarheimili sem nú hangir uppi í biskupsbústaðnum og minnir mig á ykkur sem hafið af samviskusemi og trúmennsku lagt ykkur fram um að halda við þessu aldna guðshúsi og bæta aðstöðuna.

Í dag er 11. maí sem nefndur hefur verið lokadagurinn, því hann var síðasti dagur vetrarvertíðar á Suðurlandi. „Þá var gerður upp vetrarhlutur sjómanna og haldið til í mat og drykk“ eins og segir í bók Árna Björnssonar um sögu daganna. Lokadagurinn er enn eitt dæmið um að við skiptum lífi okkar og starfi í tímabil. Enn minnast menn þessa dags þó ekki sé hann tilefni til þess að gera sér dagamun. Í dag er líka 2. sunnudagur í maí og á þeim degi er mæðra heimsins minnst. Í kirkjunni er þessi dagur 3. sunnudagur eftir páska eins og við heyrðum áðan.

Það fer ekki framhjá okkur að vorið er komið. Allt okkar ytra umhverfi minnir okkur á lífið, birtuna og gróandann. Við erum áþreifanlega minnt á það að vorið kemur alltaf á eftir vetri og léttir okkur lífið á marga lund. Í náttúrunni skiptast á tímabil. Vetur, vor, sumar, haust og þannig er það einnig í lífi okkar. Við erum ung, fullorðin og gömul ef við fáum að lifa það og okkur finnst það vera æskilegur gangur lífsins að barnið sem fæðist verði gamalt en svo er ekki alltaf eins og við vitum því miður. Sagt er að það eina sem við vitum með vissu í lífinu sé að við deyjum. Eins og blómin sem upp koma að vori þá virðast þau deyja að vetri. Veturinn er merki þess að lífið tekur enda í náttúrunni og vorið er merki þess að það sem virtist dáið að vetri getur risið upp á ný. Lífið lá í dvala er hafði ekki tekið enda nema tímabundið. Við eigum sömu von, von um að þrátt fyrir líkamsdauðann þá deyi ekki það líf sem kviknað hefur. Um það vitnar upprisan og við okkur blasir páskasólin.

Jesús dó á krossi og reis upp á þriðja degi eins og hann hafði sagt. Það er erfitt að taka á móti slæmum fréttum og oftar en ekki förum við í afneitun. Neitum að trúa því sem okkur er sagt og við skiljum heldur ekki alltaf það sem okkur er sagt fyrr en eftir á. Þá getum við sett hlutina í samhengi og áttað okkur á að það sem sagt var eða gert hafði ákveðinn tilgang. Þannig skiljum við boðskap Jesú. Við skiljum hann og meðtökum hann út frá upprisunni. Við stöndum ekki við krossinn þar sem Jesús hangir píndur og niðurlægður. Við stöndum við tóman krossinn þar sem Jesús er farinn, upprisinn. Í mörgum frásögum guðspjallanna kemur fram að lærisveinarnir skildu ekki það sem Jesús sagði því hann var að segja þeim það sem yrði þegar hann væri farinn frá þeim og hann sagði þeim líka að hann myndi rísa upp á þriðja degi. Það skyldu þeir ekki fyrr en eftir á.

Guðspjallið í dag vitnar um þetta. Um skilningsleysi lærisveinanna gagnvart því sem Jesús sagði. Í guðspjallinu sem lesið var hér fyrr í messunni segir Jesús við lærisveinana: „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig. Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: Hvað er hann að segja við okkur“.

Við skiljum þessi orð út frá upprisunni. Þau voru sögð fyrir upprisuna en við vitum betur en lærisveinarnir. Við túlkum orð Jesú út frá upprisunni. Þrátt fyrir það að við skiljum ekki alltaf það sem er og það sem sagt er, berum við mannfólkið þá von í brjósti að við eigum framtíð og það góða framtíð. Jafnframt býr ótti í brjóstum okkar við hið óþekkta. Það togast á í okkur kenndir sem við ráðum ekki alltaf við.

Verkefni okkar og verkefni samfélagsins í fortíð og nútíð er að líkjast Jesú, yfirgefa öryggið og hefð hins gamla, og eiga það á hættu að upplifa þjáningar líkt og hann gerði. Einkenni kristninnar er að koma til hans, gefa sig honum algerlega, þrátt fyrir að því geti fylgt þjáning eða erfiðar fórnir. Jesús krefur manninn um að færa fórnir, ekki dýra- eða matarfórnir, heldur fórnir í lofgjörð, góðum verkum og í því að deila því sem við höfum með öðrum. „En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar“ segir í pistli dagsins. Þessar fórnir Nýja sáttmálans eigum við stöðugt að færa. Hjá gyðingum voru fórnir færðar á ákveðnum tímum, við ákveðin tækifæri, en hjá kristnum mönnum stígur stöðug lofgjörð til himna.

Kirkjan er ekki til bara af sjálfri sér. Hún er til og starfar hér í heimi vegna þess boðskapar sem hún flytur. Kirkjustofnunin er aðeins umgjörð utan um fagnaðarerindið sem er það að Jesús er upprisinn og þess vegna treystum við honum fyrir lífi okkar og leitum til hans á stundum lífs okkar. Hann er því aðalatriðið og hann sem er bæði Guð og maður leiðir hjörð sína eins og hirðirinn leiðir lömbin sín í haganum.

Í guðspjallstextanum setur Jesús fram loforð. Hann fullvissar lærisveina sína um það að Guð faðir muni heyra bænir þeirra. „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður“ segir hann. Og þessi orð eru töluð til allra lærisveina Jesú. Ekki bara þeirra 12 sem voru hjá honum þennan dag fyrir 2000 árum, heldur allra lærisveina hans. Í Jesú nafni biðjum við og endum bænir oft með orðunum, í Jesú nafni. Amen.

Bæn hefur verið kölluð tungumál vonarinnar. Tungumál vonarinnar. Já, hvert leitum við þegar mannlegur máttur dugar ekki? Margir hafa lært að leita til skapara síns, Guðs, og finna mátt hans gefa kraft til áframhaldandi lífs og von um bænheyrslu. Bænin hefur áhrif. Guð veit hvað mér er fyrir bestu. Guð veit hvað þér er fyrir bestu. Bænin gefur kraft til að ganga í gegnum dagana og bænheyrslan er oft á annan veg en við búumst við. Stundum sér maður eftir á eins og sagt er að niðurstaða í einhverju máli var farsælust fyrir okkur þó ekki hafi hún verið sú sem við vildum í upphafi eða bjuggumst við. Þess vegna er líka spennandi að vera trúaður, trúuð. Við treystum því að Guð heyri bænir okkar og svari þeim á þann hátt sem okkur er fyrir bestu. En við bíðum spennt eftir svarinu. Guð hefur nefnilega bæði húmor og visku.

Í textum Biblíunnar er oft teflt fram andstæðum, enda er lífið fullt af andstæðum. Í guðspjallstextanum í dag talar Jesús um grát og kvein annars vegar og fögnuð hins vegar. Um þrautir fæðandi konu annars vegar og fögnuð hennar þegar barnið er fætt hins vegar. Við vitum um þrautirnar sem fæðingu fylgja og fögnuðinn þegar barnið er í heiminn borið. Jesús notar þessa líkingu til að minna lærisveinana á viðbrögð þeirra við örlögum sínum. Þeir sem hafa fylgt Jesú og þótt vænt um hann verða sorgmæddir þegar hann deyr á krossi og fer frá þeim. En þeim sem ekki þykir vænt um hann munu fagna vegna þess að þau trúa því ekki að hann sé sá sem hann segist vera, sonur Guðs.

Þannig andrúmsloft hefur skapast í þjóðfélagi okkar undanfarin ár. Margir hefðu fagnað ef Kirkjan hefði lagt niður stafsemi sína, en aðrir hefðu grátið. En kristin trú kennir okkur að á eftir böli kemur blessun, eftir krossfestingu kemur upprisa, eftir dauða kemur líf. Við megum því alveg vera glöð í Kirkjunni og heiminum þessa daga sem og aðra daga, því lífið er ekki eintóm vandræði eins og við höfum stundum tilfinningu fyrir þegar illa gengur, heldur eru flestir daga góðir og gleðilegir sem betur fer.

Það eru margir kallaðir til þjónustu í kirkjunni, en hlutverkin eru mismunandi. Starfið í kirkjunni er borið uppi af mörgum. Það er ekki eins manns starf, það er samvinnuverkefni margra eins og við verðum vör við hér í dag. Það hafa margir undirbúið þessa messu og eru beinir þátttakendur í henni. Jesús kallaði venjulega menn til fylgdar við sig. Fiskimenn, tollheimtumenn, sem ekki höfðu háskólamenntun eða aðra skilgreinda menntun. Hann kallaði fólk sem var tilbúið til að ganga með honum veginn, sem varðaður er með Orði Guðs og traustinu til hans sem okkur lífið gaf með fórn sinni. Megi sú fullvissa fylgja okkur út í daginn og lífið, í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.