Er Guð með í svona kirkju?

Er Guð með í svona kirkju?

Til þess að mæta Guði í raun og sannleika í kirkjunni þurfum við að leggja niður deilur dagsin, setjast saman í hringinn eins og systkin og láta þannig samfélagið við hann umbylta okkur og breyta. Sættast. Friðmælast. Taka höndum saman. Fyrirgefa. Og gefa okkur tíma fyrir Guð.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
05. júlí 2011

Sr. Þórhallur Heimisson

Fyrir nokkrum misserum sat ég við morgunverðarborðið einn góðan laugardag ásamt fjölskyldunni eins og gengur, með morgunblöðin og kveikt á Rás eitt. Þetta var róleg morgunstund en í útvarpinu glumdu messuauglýsingar þar sem sagt var frá öllum þeim frábæru uppákomum sem biðu sunnudagsins í kirkjum landsins. Í boði voru ísmessur og poppmessur og djamm-messur að ekki sé minnst á kaffihlaðborðin og kruðeríin sem biðu eftir messurnar - hvergi til sparað að gera tilboðin sem girnilegust. Líklegast til að fá fólk í kirkjuna. Þá allt í einu spurði yngsta dóttir mín: “Pabbi – er Guð með í svona messu?”

Ég átti satt að segja ekki auðvelt með að svara spurningu hennar sem varð síðar tilefni vangaveltna hjá okkur um kirkjuna og Guð og tilgang helgihaldsins yfirhöfuð. Til dæmis hvort gæti verið að Guð yrði stundum algert aukaatriði í kirkjunni? Þessar vangaveltur birtust hér á tru.is undir titlinum "Er Guð með í svona messu"?

Svipuð spurning vaknaði hjá okkur hér um daginn mér og börnunum, þegar við komum heim úr stuttu sumarleyfi og lásum yfir blöðin og litum á umræðuna eins og hún hefur verið undanfarnar vikurnar. Það bar mikið á umfjöllun í öllum fjölmiðlum um kirkjuna, enda stutt síðan skýrsla rannsóknarnefndar Kirkjuþings um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni var afhent forsætisnefnd Kirkjuþings – og síðan rædd á aukakirkjuþingi.

En það var ekki sjálft efni skýrslunnar sem vakti athygli okkar - né umfjöllun Kirkjuþings og niðurstaða þess.

Það sem stóð upp úr í fjölmiðlunum voru hin miklu átök innan kirkjunnar um niðurstöðu nefndarinnar og afleiðingar þeirrar niðurstöðu – þar sem ekki voru spöruð stóru orðin.

Lítið fór aftur á móti fyrir umræðu um hvernig kirkjan gæti sinnt hlutverki sínu í framtíðinni– verið farvegur hófsemdar, friðar, hugprýði, umburðarlyndis, trúar vonar, og kærleika í samfélaginu– en þessar eru hinar fornu höfuðdyggðir kristninnar.

Og spurningin vaknaði því enn á ný þarna við eldhúsborðið heima hjá mér - með örlítið breyttum formerkjum: “Er Guð eiginlega með í svona kirkju”?

Ekki misskilja mig.

Öll sú sorglega saga sem rannsóknarskýrslan afhjúpar má aldrei gleymast.

Það verður að gera þessi mál upp - og tryggja að annað eins endurtaki sig aldrei. Það er hlutverk allrar kirkjunnar.

Kirkjan er það sem er helgað af Drottni.

Sú helgun á við kirkjubygginguna, en líka söfnuðin, fólkið, sem kemur þar saman til að leita samfélags í bæn við Guð.

Sumir telja að orðið kirkja sé komið af latneska orðinu “circum” sem merkir hringur. Kirkjan sem hús og samfélag er staðurinn sem slær hring um það sem er heilagt.

Þegar þú gengur inn í hringinn, kirkjuna, leggur þú niður vopn þín og verjur og deilur hversdagsins – þú gengur inn í hring friðar og kærleika, Guðsríkis á jörðu.

Hringurinn er öruggur staður - á að vera það. Eða eins og segir í barnasálminum:

"Við setjumst hér í hringinn og hendur mætast þá

Því systkin öll við erum og engum gleyma má". Önnur merking orðsins kirkja er samkomustaður eða torg.

Samfélag - Hringur - Öruggur staður.

Það er kirkjan.

Þannig verður kirkjan farvegur náðar Guðs til manna - Þannig verður hún heilög kirkja.

Hin heilaga kirkja á jörðu endurspeglar hina heilögu kirkju á himnum þar sem látnir ástvinir okkar dvelja undir vængjum Guðs.

En hvernig á þá sú kirkja að starfa sem í raun og sannleika vill endurspegla hið heilaga?

Sú kirkja sem vill vera heilög kirkja Jesú Krists – hringurinn og samfélagið þar sem við mætum Guði – hún á að vera kirkja hógværðar og lítillætis, kirkja hins smáa fyrir hina smáu.

Hún á ekki að vera samfélag þeirra sem vilja vera mikils metnir á mannamótum, ekki samfélag þeirra sem eiga innundir hjá valdsmönnum, ekki hringur elítunnar.

Hin heilaga kirkja er kirkja þeirra sem heimurinn telur einskis virði.

Rétt eins og stofnandi hennar var einskis virði í augum heimsins, krossfest aðhlátursefni.

Íslenska þjóðkirkjan kennir sig við mikinn byltingarmann, Martein nokkurn Lúther. Hann reis á sínum tíma upp gegn kirkju valds og auðs og hégómagirnar, kirkju sem þóttist hafa lykla himnaríkis í hendi sér og seldi mönnum aðgang að því. Í stað slíkrar kirkju vildi hann sjá kirkju sem hrósaði sér eingöngu af Drottni, kirkju sem setti Orð Guðs ofar öllu öðru, kirkju þar sem öll sóknarbörnin væru prestar í heilögu samfélagi við Jesú Krist – sætu sem sagt saman í hinum heilaga hring.

Fyrir þetta var hann ofsóttur og bannfærður.

Kannski er kominn tíma á aðra slíka lútherska byltingu innan kirkjunnar? Byltingu þar sem hið kristna samfélag í heild sinni snýr sér að hinu heilaga, fátæka og smáa. Frá deilum og metingi og þrætum.

Slík bylting verður ekki til af sjálfri sér.

Hún mun krefjst auðmýktar og hógværðar.

Auðmýktar gagnvart fyrri mistökum.

Og hógværðar þeirra sem vita sem er að það er Guð einn sem helgar hring og samfélag kirkjunnar.

Slík bylting verður að leita aftur til upprunans, til torgsins þar sem allir eru jafnir, þar sem söfnuðurinn sest innan hins helga hrings, innan hinna heilögu vébanda, þar sem blessun Guðs er allt í öllu.

Er Guð með í svona kirkju spurði ég hér í upphafi – eiginlega fyrir hönd barnanna minna - , kirkju eins og íslenska Þjóðkirkjan er?

Og svarið er já.

Vissulega.

Án hans væri kirkjan ekki til, hefði hún ekki staðið af sér brim og brotsjó aldanna.

En allt of oft gleymum við Guði vegna þess að við höfum í svo mörgu að snúast.

Þegar Jesús kallar okkur til starfa segjum við allt of oft:

"Já, endilega, við fylgjum þér kæri Jesú- við komum alveg rétt strax, en við þurfum bara aðeins fyrst að ganga frá aðkallandi fjölskyldumálum íslensku kirkjunnar. Svo komum við með þér. Ekki spurning"!

Til þess að mæta Guði í raun og sannleika í kirkjunni þurfum við að leggja niður deilur dagsin, setjast saman í hringinn eins og systkin og láta þannig samfélagið við hann umbylta okkur og breyta.

Sættast.

Friðmælast.

Taka höndum saman.

Fyrirgefa.

Og gefa okkur tíma fyrir Guð.

Því eins og Páll postuli segir í Filippíbréfinu:

"Verið ávalt glöð í Drottni.

Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.

Að endingu systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert:

HUGFESTIÐ ÞAÐ".