Heimboðið

Heimboðið

Komið - allt er tilbúið!” Þú þarft ekki að sanna þörf, löngun eða leggja fram vottorð um frammistöðu í trú, þú þarft aðeins að þiggja. Kirkjan okkar, þjóðkirkjan, er framhald heimboðsins. Hún er í sjálfu sér verkfæri, sakramenti náðarinnar. Og þess þurfum við að minnast. Í okkar samtíð og menningu þar sem kröfuharkan vex, þar sem óbilgirnin og heimtufrekjan vex, þar sem lögmálshyggjan læðir krókum sínum æ víðar inn.

Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.

Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta.

Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.

Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína. Lúkas 14.16-24

Guðspjall þessa Drottinsdags er úr fjórtánda kafla Lúkasar, sagan um hina miklu kvöldmáltíð.

Yfirskrift þessa guðspjalls er: Vonsvikinn veitandi. Hann hafði búið veislu, lagt á sig erfiði og annir og útlát og verður svo fyrir þeirri höfnun að þeir sem boðnir eru vilja ekki þiggja, taka allir að afsaka sig einum munni. Allt annað hefur forgang, boðinu góða er hafnað. Og veitandinn verður vonsvikinn. Ekki að undra. Við getum nú öll sett okkur í hans spor. Og þó læðist að manni hugsunin: Gat hann ekki sjálfum sér um kennt? Átti hann td ekki að kanna jarðveginn betur áður en hann fór af stað að búa veisluna? Hann lét greinilega ekki skynsemina ráða, það var eitthvað allt annað sem réði. Hvað? Jú: Örlæti hans, góðvild, þörf hans að gleðja og gleðjast. Og - þetta örlæti, gjafmildi, góðvildi, er innsta eðli lífs og tilveru. Það er Kristur að segja í þessari sögu, um hinn vonsvikna veitanda.

* * *

Jesús er að segja sögu sína. Allt hans líf, allt hans atferli, umgengni og ótal dæmisögur benda til sömu áttar. Í honum er Guð kominn til að bjóða til samfélags við sig. Af einskæru örlæti, með guðdómlegri sóun. En því boði er hafnað. Þeir sem boðnir voru koma ekki, þeir taka allir að afsaka sig einum munni. En þá snýr Jesús sér út á stræti og götur borgarinnar, leitar uppi fátæka, örkumla, blinda og halta og bersynduga, kallar á þá, býður þeim til borðs með sér. Þeirra er himnaríki, segir hann um þá fátæku í anda, þá smáðu, smáu, - og börnin. Þeirra er himnaríki, veislan, gleðin, fyrirgefning syndanna, lækning, huggun, hjálpræðið, eilíft líf. Jesús er að segja sögu fagnaðarerindisins og kirkjunnar sinnar. Sögu þeirra Péturs og Páls og hinna postulanna. Hans eigin þjóð tók ekki við honum en þá sneru þeir sér í krafti andans til heiðingjanna, til framandi lýða. Öllum skyldi boðið til fagnaðarins, máltíðarinnar í ríki Guðs. Og Jesús er að lýsa því að trúin berst áfram, fagnaðarerindið berst áfram frá kynslóð til kynslóðar, og það er heimboð. Þegar þú varst skírður, borinn ástvinaörmum að skírnarlaug, þá var það framhald þessarar sögu, framhald heimboðsins til fagnaðarins mikla, heimboðs, sem vissulega er oft hafnað, en samt líka þegið, í þökk og feginleika, heimboðið til gleðinnar, veislugleðinnar sem er trúin á Jesú Krist, lífið í hans nafni.

* * *

Þetta er saga kirkjunnar, sagan sem varpar ljósi á það hver við erum, kristin kirkja, hvers eðlis atferli okkar er á helgum sunnudegi við skírnarlaug og máltíð altarisins. Því við erum þau sem rödd mannssonarins barst að eyrum þar sem við vorum á strætum og götum, við, eins og við erum, boðin til samfélagsins þar sem Guð og maður mætast. Klukkurnar óma um götur og torg: “Komið - allt er tilbúið!” “Og þeir tóku allir að afsaka sig einum munni.” Er það ekki sama sagan? - Kona nokkur hafði orð á því í vinnunni að hún hefði farið í messu. Og samstarfsfólkið leit undrandi á hana og spurði: “Ha? Er eitthvað að?” Einhverju sinni var verið að ræða saman hvað væri vænisýki, paranoia. Svar: Þú situr í kirkju og skyndilega hefurðu sterklega á tilfinningunni, að einhver sitji fyrir aftan þig! - hvað um það. Heimboðið er oft þegið, Guði sé lof, og af því sprettur svo margt gott og undursamlegt í lífi okkar og heimi.

* * *

“Komið - allt er tilbúið!” Þú þarft ekki að sanna þörf, löngun eða leggja fram vottorð um frammistöðu í trú, þú þarft aðeins að þiggja. Kirkjan okkar, þjóðkirkjan, er framhald heimboðsins. Hún er í sjálfu sér verkfæri, sakramenti náðarinnar. Og þess þurfum við að minnast. Í okkar samtíð og menningu þar sem kröfuharkan vex, þar sem óbilgirnin og heimtufrekjan vex, þar sem lögmálshyggjan læðir krókum sínum æ víðar inn. Þar sem trúin fer svo oft afvega í blindu ofstæki sem ryður skynseminni úr vegi og blindar og fjötrar. Þar sem glýjan og glysið og yfirborðsmennskan veður alls staðar uppi. Já, og þar sem við eigum svo ótrúlega auðvelt með að slá okkur til rólegheita í meðlæti hins velviljaða umburðalyndis sem einatt er vart nema afskiptaleysi og kæruleysi. Þar hefur kirkjan mikið verk að vinna að sækja fram með heimboðið: Í kærleiksþjónustu, þar sem merki náungakærleikans er haldið á loft, þar sem dæmi frelsarans er lifað í trú sem starfar í umhyggju og kærleika; að sækja fram meðal hinna ungu, skólaæskunnar, að bera henni heimboðið hinnar guðdómlegu góðvildar, heimboðið inn í fögnuð náðarinnar. Starfið er margt, verkefnið risavaxið, ófært jafnvel, mannlegum augum séð.En húsbóndinn er staðráðinn í að fylla veislusali sína. Og "enn er rúm!"

* * *

Senn munið þið þiggja heilaga vígslu hér við altarið, milli skírnarfontsins og altarisins reyndar. Við skírnarfontinn hófst þessi ferð, þar var heimboðið til þín rétt. Síðan barst það til þín er bænaorðin voru lögð þér á varir, þegar frelsarans mynd var lögð þér á hjarta, þegar sagan af Jesú var sögð þér. Við blessum þau sem þannig sinntu sinni kristnu skyldu og báru ykkur heimboðið góða. Altarið er veisluborðið. Sá sem vill vita hvað kristin trú er getur fundið svarið þar. Svarið er hann, frelsari vor og Drottinn, sem býður þér til sín, óverðskuldað af náð, til þeirrar gleði, fagnaðar sem Guð býr þér.

Þið eruð sem prestur og djákni frátekin og send til að leiða að nægtaborði veislunnar miklu, laða og leiða að hinum djúpu lindum þar sem sál og andi fær næringu, svölun, líf. Allt það er til reiðu, stendur öllum til boða. Og enn er rúm! Því enn er náðarstund, enn er hjálpræðisdagur í heimi. Þegar orðið snertir hjarta og sál, þegar trúin og kærleikurinn hugga í gleði og sorgum fólks, þegar vonin beinir líkams og sálarsjónum til birtunnar, þá er Guð að blessa þennan heim og leiða og laða til sín: Komið, segir hann, allt er tilbúið!

- Djákna og prestsvígsla í Dómkirkjunni, 25. júní 2006 Lúk. 14. 16-24 Hulda María Mikaelsdóttir Tölgys, djákni á Skjóli, og Guðni Már Harðarson, skólaprestur.