Sorg og sorgarviðbrögð

Sorg og sorgarviðbrögð

Við þekkjum öll einhvern sem sorgin hefur sótt heim, hvort sem það nú er nýlega eða fyrir einhverju síðan. Kannski er það einhver ættingja okkar, vinur eða kunningi. Og við skulum ekki gleyma börnunum
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
09. mars 2010

Blómvöndur

Sorgin er flókið fyrirbæri og ekki auðvelt að komast til botns í henni.

Fyrir það fyrsta þá á sorgin á sér margar orsakir, en oft syrgjum við eitthvað sem við höfum misst, eitthvað eða einhvern sem við söknum og sjáum eftir og ekkert getur komið í staðin fyrir. Þannig tengist sorgin ekki aðeins andláti ástvinar, þó söknuður vegna slíkra atburða geti verið og sé oftast þungbær.

Og það er stór hópurinn sem syrgir horfna ástvini, hvort sem þau hafa misst einhvern sér nákominn eftir erfiða baráttu við sjúkdóm eins og þið eða skyndilega af slysförum.

Svo ég skoði nú sorgina aðeins almennt þá syrgja sumir hjónabandið sitt eða sambúðina sem lenti í erfiðleikum og endaði með upplausn. Slíkt sorgarferli á sér oft langan aðdraganda og minnir á sig þegar síst varir. Og börnin syrgja gömlu fjölskylduna sína.

Aðrir syrgja glataða heilsu og berjast við heilsubrest, annaðhvort sinn eigin eða einhverja sem eru þeim nákomnir.

Enn aðrir syrgja glötuð tækifæri, glataða vináttu eða hafa lent í fjárhagslegu basli sem breytti aðstæðum þeirra og lífi til hins verra. Slíkri sorg fylgir eftirsjá og jafnvel sjálfsásakanir sem geta verið þungar og erfiðar. Margir segja sem svo "bara ef ég hefði nú gert þetta eða hitt eða látið vera að gera það, þá væri líf mitt betra í dag en það er".

Þau eru ófá dæmin um einstaklinga sem hafa misst maka sinn og fjölskyldu eftir framhjáhald og sjá svo eftir öllu saman en geta ekkert að gert. Já, þær eru margar ástæðurnar sem valda því að sorgin knýr á dyrnar og lítur við hjá okkur. Við vildum víst öll vera laus við þá heimsókn , hverjar svo sem ástæðurnar eru fyrir innlitinu. En það er enginn sem sleppur við heimsókn sorgarinnar einhverntíman á æfinni og suma heimsækir hún svo oft að hún er eins og árviss gestur. Sorgin verður syrgjanda sjaldan erfiðari en einmitt á þeim stundum þegar gleðin og hátíðarstemmningin ríkir allt í kring eða þegar sérstakar aðstæður minna á. Þannig eru hátíðir eins og jól og páskar mörgum erfiðar en líka afmæli og aðrir fjölskyldufagnaðir. Þá sækja að hugsanir um liðna tíð, um þá gleði sem einu sinni var og þá sorg sem nú er komin í hennar stað. Á slíkum stundum brýst jafnvel minningin um einhverja löngu liðna heimsókn sorgarinnar upp á yfirborðið, minning sem syrgjandinn hefur bægt frá sér lengi. Sérstaklega ef við höfum aldrei unnið úr sorginni. Þá er gott að eiga einhvern að sem skilur mann og styður, sem veit að góður vinur getur styrkt og huggað og hleypt ljósinu inn í hugskot þar sem sorgin ríkir.

Auðvitað losna menn aldrei alveg undan sorginni, sérstaklega ef hún hefur skilið eftir sig dúp sár. Og það er heldur ekki hægt að nefna nein tímamörk sem segja til um hversu lengi við syrgjum, allt slíkt er svo einstaklingsbundið.

En hverjar svo sem ástæður sorgarinnar eru hjá okkur þá verðum við að gæta þess að festast ekki í sorgarferlinu, festast ekki í þunglyndi eða dimmum hugsunum, heldur læra að takast á við lífið í nýjum aðstæðum með nýjan þroska og nýja reynslu í farteskinu. Og með stuðningi ástvina er hægt að læra að lifa með sorginni og finna lífi sínu þennan nýja farveg.

Við þekkjum öll einhvern sem sorgin hefur sótt heim, hvort sem það nú er nýlega eða fyrir einhverju síðan. Kannski er það einhver ættingja okkar, vinur eða kunningi. Og við skulum ekki gleyma börnunum, því oft hefur þeirra sorgum verið ýtt til hliðar vegna þess að allir hafa svo miklar áhyggjur af hinum fullorðnu. Börnin syrgja á mismunandi hátt eftir aldri og þroska. Unglingar hafa aðra sýn á aðstæður en yngri börn svo dæmi sé tekið. Á það við allt það sem getur kallað fram sorgarviðbrögð.

Auðvitað er hægt að leita stuðnings bæði presta, sálfræðinga og annarra fagaðila ef okkur þykir þörf á leiðbeiningum og hjálp.

En bestur er sá stuðningur og tími sem náinn vinur getur veitt.