Tröllin og siðbótin

Tröllin og siðbótin

Stúlkan í þjóðsögunni um nátttröllið, sem syngur Bíum bíum bambaló, þurfti að sýna mikið hugrekki og búa yfir óbilandi einurð og staðfestu til þess að mæta þeirri ógn sem tröllið var. Hið sama má segja um Martein Lúther: Hann sýndi vissulega mikið hugrekki þegar hann reis upp gegn því trölli sem yfirstjórn hinnar rómversku kirkju var orðin á hans dögum og vildi, ásamt fleirum, siðbæta kirkjuna.
Mynd
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
31. október 2021
Flokkar

Í dag er ekki aðeins siðbótardagurinn í lútherskum kirkjum heldur einnig Halloween, eða: kvöld allra heilagra, aðfangadagskvöld allra heilagra messu, sem er á morgun. Ég veit að einmitt á þessu augnabliki eru ýmsar óvættir, draugar og forynjur hvers konar, furðu smávaxnar, gangandi um Hlíðarnar og sníkjandi sælgæti  enda nýtur Halloween síaukinna vinsælda hér líkt og í öðrum löndum utan hins engilsaxneska menningarheims, kannski að mestu undir bandarískum áhrifum. T.d. tók ég og mín fjölskylda upp þann sið í Þýskalandi að skera út grasker og elda graskerssúpu á þessum degi. Það má sannarlega mæla með því enda hægt að finna alls kyns uppskriftir að ljúffengri graskerssúpu og luktirnar sem verða til við útskurð graskersins eru þar að auki bæði falleg og skemmtileg leið til að lýsa upp skammdegið. Upprunalega voru þær þó skornar út úr næpum meðal kelta á Bretlandseyjum og þeim var ekki ætlað að skemmta heldur var óhugnanlegum andlitsdráttunum, sem næpurnar tóku þannig á sig, ætlað að fæla burt illa anda. Luktirnar hafa þannig verið tengdar við þjóðsögu um óprúttinn náunga að nafni Jack, sem prettaði Skrattann sjálfum sér til gróða og uppskar að vera hvorki hleypt inn í himnaríki né helvíti en dæmast til þess að ráfa um jörðina að eilífu. Þess vegna eru útskornu graskerin kölluð Jack-o‘-lanterns eða „Nonna-luktir“


Það er þó örugglega seinni tíma fyrirbæri að tengja söguna um Jack við Halloween-hefðina; dýpstu rætur hennar liggja í keltneskum hefðum sem gerðu ráð fyrir því að á þessum tíma, við mörk sumars og vetrar, sem jafnframt mörkuðu áramót, færu sálir framliðinna á flakk, og var dagurinn kallaður dagur hinna dauðu. Við eigum auðvitað svipaða þjóðtrú tengda áramótum og búferlaflutningum álfa og huldufólks. Þjóðfræðingar segja að jafnvel strax á miðöldum hafi dagur hinna dauðu verið orðinn barna- og unglingahátíð þar sem krakkar fóru í hópum á milli húsa, klædd í búninga og reyndu að hræða fólk en búningarnir og dulargervin höfðu einnig annan tilgang, sem var að dyljast fyrir draugunum. Kannski var hugsunin sú að þykjast vera draugur sjálfur og vera þess vegna látinn í friði. Í öllu falli var bæði hinum óhugnanlegu, útskornu næpum eða graskerjum og forynjubúningunum ætlað að veita einhvers konar vernd gegn hinum illa sem mögulega gat leynst á meðal sálnanna sem fóru á flakk. Hugsunin virðist því vera sú að fæla illt frá með illu eins og ufsagrýlunum er ætlað að gera á gotneskum byggingum.

Sú eða sá, sem syngur fyrir barnið sitt í vögguvísu Jónasar Árnasonar, Bíum bíum bambaló, hefur engan grímubúning til þess að dyljast eða óhugnanlega líkneskju til að fæla burt andlitið á glugganum, sem mér hefur alltaf þótt koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum á eftir ljúfum og dillandi orðum, sem ætlað er að sefa barnið og svæfa:

-Bíum, bíum, bambaló,
bambaló og dillidillidó.
Vini mínum vagga ég í ró


… „En úti bíður andlit á glugga.“


Það er sannarlega eitthvað óhugnanlegt við þetta andlit á glugganum. Inni fyrir, í öruggri hlýju hússins, situr einhver yfir litlu barni en á sama tíma stendur einhver úti og horfir inn og við skynjum að það stafar ógn af viðkomandi. En hvers er andlitið á glugganum og hvernig í ósköpunum dettur móðurinni í hug að vekja á því athygli í vögguvísunni?


Það virðist nokkuð ljóst að Jónas sé í kvæði sínu að vísa í þjóðsöguna um nátttröllið sem heimsótti bæ nokkurn á hverju aðfangadagskvöldi og annað hvort varð þeim, sem gætti bæjarins, að aldurtila ellegar rændi vitinu. Sagan greinir hins vegar frá því hvernig stúlkan, sem gætir bæjarins þetta sinnið og situr og syngur fyrir barn, sem hún heldur á í fanginu, lætur ekki nátttröllið lokka sig til að líta við þegar það kemur á gluggann og segir:


"Fögur þykir mér hönd þín,

snör mín en snarpa, og dillidó."


 Í stað þess að verða hverft við og líta á tröllið kveður hún hin kaldasta á móti:


"Hún hefur aldrei saur sópað,

ári minn Kári, og korriró."


 Þannig gengur þetta allnokkrum sinnum þar til það roðar af degi og stúlkan segir:


 "Stattu og vertu að steini

en engum þó að meini,

ári minn Kári, og korriró."


Var svo kominn steinn einn mikill í bæjarsundið þegar heimilisfólk kom heim um morguninn.


Með útsjónarsemi og hugrekki tekst stúlkunni þannig að halda árans nátttröllinu við efnið þar til sólargeislarnir breyta því í stein.


 Þó að tengsl vísunnar við þjóðsögunnar séu nokkuð ljós, þar sem Jónas leggur stúlkunni í munn vísuna, sem hún kveður yfir barninu, þá er ekki eins augljóst að sjá rökrétta skýringu á því að syngja um óhugnað þegar verið er að svæfa börn en við nánari skoðun kemur í ljós að þetta er engin uppátektarsemi Jónasar heldur þekkt einkenni á vögguvísum, bæði íslenskum og erlendum. Um þetta efni var rituð afar áhugaverð BA-ritgerð í íslensku fyrir um 10 árum og þar eru nefnd ýmis dæmi um vögguvísur sem – í bága við yfirlýstan tilgang sinn – innihalda vísanir í óhugnanleg fyrirbæri og er lagt til að slíkar vögguvísur og barnagælur megi kalla barnafælur. Um tilgang óhugnaðarins í vísunum segir að „Óvættir og hið óhugnanlega í vögguvísum gætu verið undirbúningur fyrir hættur og ógnir sem geta steðjað að barninu bæði í draumi og veruleika.“ Á einhvern mótsagnakenndan hátt finna börnin, sem orðin eru nógu gömul til að skilja vísuna, þannig hugsanlega fyrir öryggi í faðmi foreldranna á sama tíma og ótti þeirra við utanaðkomandi hættur er vakinn – en ekki má gleyma því að óttinn er lífsnauðsynlegt varnarviðbragð náttúrunnar gegn hverju því sem kann að ógna lífi og limum. Á hinn bóginn tjá hætturnar, sem vögguvísurnar orða, kannski ekki síst ótta foreldranna og þess vegna má velta því fyrir sér hvort vísunum sé kannski í og með ætlað að sefa ótta þeirra.


 Stúlkan í þjóðsögunni um nátttröllið, sem syngur Bíum bíum bambaló, þurfti að sýna mikið hugrekki og búa yfir óbilandi einurð og staðfestu til þess að mæta þeirri ógn sem tröllið var. Hið sama má segja um Martein Lúther: Hann sýndi vissulega mikið hugrekki þegar hann reis upp gegn því trölli sem yfirstjórn hinnar rómversku kirkju var orðin á hans dögum og vildi, ásamt fleirum, siðbæta kirkjuna.


Orðið „Reformation“, sem við þýðum oftast sem siðbót eða siðbreyting merkir í raun „endurbygging“ eða „endurreisn“ og felur þannig í sér ákveðið afturhvarf. Siðbótarmennirnir, með Martein Lúther í broddi fylkingar,  vildu færa kirkjuna aftur til upphafsins, til frumkirkjunnar, sem byggði á og lifði fyrir fagnaðarerindi N.t. og þekkti aðeins Krist sjálfan og orð ritningarinnar um hann sem yfirvald; í því fólst að hreinsa kirkjuna af ýmsum siðum og kenningum sem að mati siðbótarmanna áttu sér enga stoð í vitnisburði ritningarinnar. Kveikjan að mótmælum Lúthers var sala aflátsbréfa, sem tryggja áttu kaupandanum fyrirgefningu syndanna og voru í raun ein helsta tekjulind páfagarðs á þessum tíma. Höndlað var með aflátsbréf eins og verðbréf um alla Evrópu. Einn frægasti aflátssalinn var Jóhann nokkur Tetzner, dóminikanamunkur, sem árin 1514 og 16 seldi aflátsbréf í héruðunum kringum Magdeburg í Þýskalandi. Opinber tilgangur fjársöfnunarinnar var að fjármagna vörnina gegn Tyrkjaógninni en í raun fór féð aðallega til byggingar Péturskirkjunnar í Róm og til að standa undir vafasömum viðskiptum með kardínálaembætti í Þýskalandi. Siðbót Lúthers fólst sem sagt í því annars vegar að mótmæla grundvallarrangindum í kerfinu sem voru til ills og sköðuðu fólk félagslega en einnig að setja fram grundvallarefasemdir um vald kirkjunnar til að lofa og miðla eilífri sálarheill en það vald taldi hann Guð einan hafa. Markmið hans var þó ekki að skapa nýja kirkju heldur að endurskapa hina upprunalegu.  Þetta reyndist hins vegar ógerlegt af ýmsum sökum – líklega ekki síst valdapólitískum – og úr varð að kirkjan klofnaði annars vegar í hina rómversk-kaþólsku kirkju og hins vegar ýmsar ólíkar evangelískar kirkjudeildir, sem áttu sameiginlega andstöðuna við aflátssöluna, vald páfans og kaþólskan skilning á altarissakramentinu en höfðu innbyrðis ólíkar áherslur í ýmsum efnum. 

1832 ritaði skáldjöfurinn Johann Wolfgang von Goethe: „Við höfum ekki hugmynd um allt það sem við getum þakkað Lúther.“ Það er ekki hægt að segja að Goethe hafi farið með fleipur en hin síðari ár, líklega frá lokum síðari heimsstyrjaldar, hefur gagnrýnni sjónum verið beint að Lúther og áhrifum hans, ekki síst skrifum hans gegn gyðingum. Aðeins fyrir nokkrum vikum kom út þýðing á danskri bók með tilvitnunum í allt það sem helst má gagnrýna í skrifum hans. Slík gagnrýni á sannarlega rétt á sér en tekur oft ekki tillit til sögulegra aðstæðna eða sálarástands höfundarins, sem var útlægur ger af keisaranum og átti dauðadóm yfir höfði sér. Hún breytir heldur engu um allt það jákvæða sem siðbótin eða siðbreytingin hafði í för með sér. Þar að auki hefur lútherska kirkjan fyrir löngu tekið gagnrýna afstöðu gegn ýmsum viðhorfum sem Lúther tjáir í ritum sínum og þess vegna er nákvæmlega engin nýlunda í tilvitnunum í vitleysuna sem hann lét út úr sér.

Fæstir menn rísa undir því að vera lyft á stall og hafi Lúther verið á slíkum stalli, þá hefur lútherska kirkjan fyrir löngu tekið hann niður af honum. Enda hefði Lúther sjálfum aldrei hugnast slík staða, verandi eins meðvitaður og hann var um eigin breyskleika og annarra. Hann var það mikill raunsæismaður að hann vissi jú að ekki nokkur maður gæti nokkurn tíma lifað lífi sem hægt væri að lýsa sem fullkomnu, enda lýsti hann eitt sinn heiminum þannig: „Heimurinn er eins og fullur bóndi; ef maður hjálpar honum upp í hnakkinn öðrum megin, þá dettur hann bara niður hinum megin.“

Já, prófessor Lúther var sannarlega ekki gallalaus og var kannski ekki alltaf ófullur sjálfur þegar hann lét hitt og þetta út úr sér sem síðan var skrifað niður eftir honum af lotningarfullum nemendum hans. En lútherskar kirkjur eru ekki lútherskar vegna hins breyska manns Marteins Lúthers heldur vegna guðfræðilegs skilnings hans og samstarfsmanna hans á kjarnaatriðum trúarinnar og ekki síst þeirri sýn að sá skilningur yrði að vera í samræmi við vitnisburð ritningarinnar. Og það má heldur ekki gleyma því að siðbót 16. aldar var ekki aðeins verk Marteins Lúthers. Fjölmargir aðrir siðbótarmenn komu þar að verki, sumir nánir samstarfsmenn og vinir Lúthers. Aðrir, t.d. Svisslendingurinn Ulrich Zwingli og Frakkinn Jóhannes Kalvín, höfðu hins vegar aðrar áherslur, sem leiddi til þess að það urðu til aðrar mótmælendakirkjur en hin lútherska en ágreiningurinn er ekki meiri en svo að þær starfa allar náið saman undir einum hatti undir merkjum Hinnar evangelísku kirkju í Þýskalandi. Siðbótardagurinn minnist alls þess, sem farið hefur fram í þessum kirkjum í þá veru að siðbæta Kirkjuna.

Megi góður Guð gefa að andi siðbótarinnar fái dafnað áfram í kirkjunni okkar, henni og íslensku samfélagi í heild til heilla.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.