Alvöru trúfrelsi

Alvöru trúfrelsi

Forsendan fyrir því að ólíkir trúar- og lífsskoðunarhópar njóti virðingar og skilnings í samfélagi okkar og sýni að sama skapi virðingu og skilning þeim sem eru annarrar skoðunar eða trúar, er að það ríki fullt trúfrelsi í samfélaginu.

Arnfríður Guðmundsdóttir

Það er margt í samtíma okkar sem gerir tilkall til endurskoðunar á ákvæðum núgildandi stjórnarskrár. Eitt þeirra er trúfrelsisákvæðið. Það er ljóst að hið trúarlega landslag er gjörólíkt nú í upphafi 21. aldarinnar því sem það var þegar ákvæði um trúfrelsi var fyrst sett fram í stjórnarskránni 1874. Þá var trúfrelsisákvæðið fyrst og fremst sett til að tryggja öðrum kristnum trúfélögum sama rétt og evangelísk lúthersk kirkja hafði haft síðan að lútherskur siður komst á hér um miðja 16. öldina. Í upphafi 21. aldarinnar eru aðstæður allt aðrar. Ekki aðeins hefur margbreytileiki meðal kristinna trúfélaga aukist til muna á síðustu áratugum, heldur fjölgar nú jafnt og þétt fylgjendum annarra trúarbragða, sem og þeim sem mynda félög á forsendum trúleysis.

Forsendan fyrir því að ólíkir trúar- og lífsskoðunarhópar njóti virðingar og skilnings í samfélagi okkar og sýni að sama skapi virðingu og skilning þeim sem eru annarrar skoðunar eða trúar, er að það ríki fullt trúfrelsi í samfélaginu. Við siglum nú hratt inn í meiri fjölbreytileika í samfélagi okkar en við höfum áður þekkt. Trúarleg fjölhyggja er eitt af einkennum okkar samfélags, þrátt fyrir að stærstur hluti þjóðar okkar tilheyri ennþá kristinni kirkju. Það er sannfæring mín að það sé skylda meirihlutans að standa vörð um réttindi þeirra sem tilheyra minnihlutahópum samfélagsins. Þýski guðfræðingurinn Hans Küng hefur tekið svo sterkt til orða að segja það forsendu fyrir friði í heiminum að það ríki friður á milli ólíkra trúarhópa. Það vantar enn þá talsvert upp á það í okkar samfélagi að öll trúfélög sitji við sama borð. Nægir þar að nefna margra ára bið múslima á Íslandi eftir því að fá úthlutað lóð fyrir mosku.

Margt bendir til þess að trú og trúariðkun muni gegna stærra og viðameira hlutverki í heiminum á nýrri öld. Sekulariseringin sem var svo áberandi í hinu vestræna samfélagi á síðustu öld hefur eignast harðan keppinaut, þar sem fólk gerir auknar kröfur um að njóta frelsis til að iðka trú sína í hinu opinbera rými sem og á einkavettvangi.

Virðing fyrir þeim sem hugsa öðruvísi og deila ekki sömu trúarsannfæringu er mikilvæg forsenda fyrir því að það ríki friður og sátt í samfélagi okkar. Franska leiðin, þar sem trúariðkunin hefur verið hrakin út af hinu opinbera sviði, leyfir ekki slíka virðingu. Að mínu mati er það mikilvægt að virðing fyrir ólíkum trúarskoðunum sé til staðar hjá þeim sem sjálfir hafna allri trú. Að sama skapi þarf að ríkja full virðing hjá þeim sem tilheyra trúfélögum í garð þeirra sem velja leið trúleysins. Þess vegna tel ég mikilvægt að stjórnvöld veiti ekki aðeins trúfélögum vernd heldur einnig lífsskoðunarfélögum. Lífsskoðunarfélög eiga sér langa hefð í Noregi og margt getum við lært af norðmönnum í þessu tilliti. Það þarf að sjálfsögðu að skilgreina hvað felst í hugtakinu lífsskoðunarfélag en nú þegar er löggjafinn búinn að taka fyrsta skrefið, en í 1. gr. laga um skráð trúfélög sem tóku gildi árið 2000 segir m.a. :

Rétt eiga menn á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Eigi má þó fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu. Á sama hátt eiga menn rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. um trúleysi.

Það heyrir til nýmæla í endurskoðuðum mannréttindakafla Stjórnarskrárinnar að telja trúfrelsi til mannréttinda. Í því felst viðurkenning á mikilvægi trúar- og lífsskoðana í lífi hvers og eins. Jafnframt er vernd skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga árétting á jafnræðisreglunni í upphafi nýs mannréttindakafla. Þetta er breyting sem ég tel tvímælalaust mikilvæga fyrir mannréttindakaflann í heild sinni.