Óttaleysi á aðventu

Óttaleysi á aðventu

En þetta óttaleysi sem boðað er – á sér ekki rætur í því að allt muni reddast eins og við segjum stundum. Nei, sá sem byggir á þeirri hugsun getur fallið í þá freistni að leggja hendur í skaut. Þá kemur að því að bjartsýnin snýst upp í andhverfu sína – örvæntinguna
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
23. nóvember 2010

 

Á þessum tíma horfum við fram á við. Já, nú er aðventan á næsta leyti og þá er hugur okkar bundinn hinu ókomna, jólunum. Þau eru e.t.v. langt framundan núna og mörgum þykir alveg nóg að hefja undirbúninginn síðar, en samt eru þau farin að minna á sig. Í jólaljósahverfinu þar sem ég bý eru nágrannarnir farnir að setja eina og eina seríu á þakskeggið á húsinu sínu. Ég veit að þetta er bara forsmekkur þess sem í vændum er. 

Spádómur

Já, framtíðin. Ég get spáð fyrir um það sem mun gerast í framtíðinni: Á mínu heimili á þrýstingurinn eftir að aukast jafnt og þétt og að endingu fer ég inn í skúr og finn þar plastkassann með jóladótinu. Svo þarf ég að greiða úr flækjunni á seríunni sem ég keypti í fyrra á svo lágu verði að það er næsta víst að hún er ónýt núna. Þá þarf ég að fara út í búð og kaupa nýja. Eftir það þarf að fá lánaðan stiga og svo set ég mig í bráða hættu við það að klöngrast upp í frosti með ljósalengjuna í eftirdragi. Þetta er árviss viðburður og ekki kemst ég upp með það að bjóða fólkinu mínu aftur upp á þessa myrkvuðu stemmningu sem var yfir húsinu okkar jólin 2006 þegar enn var einhver viðnámsþróttur eftir í mínum beinum.

Svona er ég nú spámannlega vaxinn. 

En allt er þetta jú vegna þess sem er framundan. Á aðventunni horfum við einmitt þangað, til hins ókomna. Á jólunum hugsum við til hins liðna og flesta daga ársins erum við að fást við atburði líðandi stundar. Aðventan er tímabil framtíðarinnar. Þá horfum við einmitt fram á veginn.

Eftirvænting og ótti

Framtíðin vekur hjá okkur misjafnar kenndir. Sumt af því sem bíður okkar er spennandi og fyllir okkur eftirvæntingu. Jólin hafa vonandi þann sess í hugum flestra, þó því fari fjarri að svo sé með alla. Sumir eiga erfiðar minningar frá jólum og þá leysist úr læðingi ýmislegt sem veldur sársauka og angri.  Það sem býr í framtíðinni er flest á huldu. Og fyrir ykkur sem standið í fremstu víglínu í baráttunni fyrir atvinnu og velferð hér á þessu svæði þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu óvissir hinir komandi tímar eru. 

Í textanum sem hér var lesinn er fjallað um einn fylgifisk þess að vera maður, það er óttinn. Já, óttinn fylgir okkur. Hann er auðvitað nauðsynlegur í einhverjum mæli en um hann gildir sem annað, að þar þurfa að vera skýr mörk. Ef þau eru ekki til staðar kann óttinn að grípa menn af minnsta tilefni. Hann getur sprottið upp úr smávægilegustu aðstæðum og læst svo greipum sínum um fólk og samfélög að þar er allt sem lamað. Þá taka menn kipp, við minnsta þrusk, hvers eðlis það nú er.

Nýverið var sagt frá æskuslóðum Þórbergs Þórðarsonar í sjónvarpinu og þar kom fram að þessi hraustmenni þarna í Suðursveitinni lifðu í stöðugum ótta við útilegumenn og drauga svo aldrei þorðu þeir að vera einir á ferð á milli bæja. Víst á sá beygur sér hliðstæðu í mörgu af því sem mætir okkur mönnum í dagsins önn.

Óttist ekki 

„Óttist ekki“ segir í textanum. Þetta er ekki eini staðurinn í Biblíunni þar sem slík orð eru flutt. Englarnir sögðu þetta við Maríu móður Jesú og einnig við hirðingjana á Betlehemvöllum. „Óttist ekki, því ég boða yður mikinn fögnuð.“ 

Þetta er boðskapur Biblíunnar til okkar og orðin tala til mín nú á þessari aðventu sem er sú þriðja frá hinum örlagaríku haustdögum 2008. Þau minna mig á það að halda í vonina, gefast ekki upp, halda höfðinu uppréttu og halda áfram að svara fyrir samfélagið sem ég tilheyri þegar á slík svör reynir. Þau minna mig á að aldrei er svo komið að við getum ekki með samstöðu og baráttu unnið bug á hindrunum og mótlæti. Þau kalla fram andstæðu óttans – hugrekkið.

En þetta óttaleysi sem boðað er – á sér ekki rætur í því að allt muni reddast eins og við segjum stundum. Nei, sá sem byggir á þeirri hugsun getur fallið í þá freistni að leggja hendur í skaut. Þá kemur að því að bjartsýnin snýst upp í andhverfu sína – örvæntinguna.  

Nei, óttaleysið horfir til okkar sjálfra. Boðskapur Biblíunnar til okkar er sá að við erum hvert og eitt með einstaka stöðu og það er sú staða sem fyllir okkur þrótti og kjarki: 

Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira virði en margir spörvar. 
Já, við erum öll mikils virði. Þessi boðskapur hefur fyllt marga krafti í gegnum söguna. Við lesum um hann í Gamla testamentinu, þegar Ísraelsmenn brutust út úr þrælahúsinu, hann birtist í réttindabaráttu blökkumanna um miðja síðust öld að því ógleymdu þegar íbúar Austur-Evrópu hrundu af sér oki kommúnismans undir lok síðustu aldar. Þar var kristin kirkja nánast það eina sem ekki hafði lotið einræðinu og þar leyndist sá neisti sem til þurfti.

Horft til framtíðar

Nú er aðventan á næstu grösum og enn fáum við góða heimsókn frá Reykjanesbæ. Við opnum dyrnar upp á gátt fyrir slíkum gestum og þökkum framlög í Velferðarsjóðinn sem er samstarfsverkefni okkar sem ölum önn fyrir mannlífinu hér á Suðurnesjum. 

Við horfum nú til framtíðar, sameinuð í þeirri sýn sem við höfum fyrir samfélagið okkar. Óttinn er þar ekki með í för heldur bjartsýnin. Bjartsýnin á það að við getum öll mætt þeim erfiðleikum sem bíða okkar og göngum til móts við nýja tíma ríkari að reynslu og svo mörgu öðru. Bjartsýnin byggir á þeirri mynd sem við eigum að hafa af okkur og náunga okkar – að við séum hvert og eitt okkar ómetanleg í augum skapara okkar. 

Og sjálfur þarf ég svo að fara að setja upp jólaseríurnar, þessa lífshættulegu iðju sem skilur ekki eftir sig neitt varanlegra en svo að ég þarf að taka þær niður nokkrum vikum síðar. Ætli ég rifji ekki upp þá hvatningu þegar að því kemur. 

Njótum samfélgsins hvert við annað, kæru vinir og verum sterk í samstöðu okkar. Guð blessi okkur öll. Amen.

Flutt á jólaföstu fyrir starfsmenn Reykjanesbæjar   

Matt 10.24-31 

Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert, né leynt er eigi verður kunnugt. Það sem ég segi yður í myrkri skuluð þér tala í birtu og það sem þér heyrið hvíslað í eyra skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. Hræðist ekki þá sem líkamann deyða en fá ekki deytt sálina. ... Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira virði en margir spörvar.