Garpar og glímumenn

Garpar og glímumenn

Gerplu skrifar Halldór Kiljan Laxness næst bóka eftir Atómstöðina. Hún fjallaði um upphaf kalda stríðsins og áhrif þess hér á landi í herstöðvardeilum og hermangi, sem Halldór skrumskælir á kostulegan hátt. Gerpla segir frá görpum fyrri tíðar, svarabræðrunum Þorgeiri Hávarssyni og Þormóði Bes(r)sasyni, sem lýst er í Fóstbræðrasögu og víðar í fornum sögum. Halldór hagnýtir sér minni og drætti úr þeirri sögu en semur sína eigin frásögn og breytir mjög lýsingum á fólki og atburðum.

Úr Gerplu

Rætur

Gerplu skrifar Halldór Kiljan Laxness næst bóka eftir Atómstöðina. Hún fjallaði um upphaf kalda stríðsins og áhrif þess hér á landi í herstöðvardeilum og hermangi, sem Halldór skrumskælir á kostulegan hátt. Gerpla segir frá görpum fyrri tíðar, svarabræðrunum Þorgeiri Hávarssyni og Þormóði Bes(r)sasyni, sem lýst er í Fóstbræðrasögu og víðar í fornum sögum. Halldór hagnýtir sér minni og drætti úr þeirri sögu en semur sína eigin frásögn og breytir mjög lýsingum á fólki og atburðum. Halldór varpar í Gerplu spaugilegu og afhjúpandi ljósi á íslenska fornmenningu og sagnaarf. Hann lýsir þó engu síður upp samtíð sína, nýliðna skelfingaratburði síðari heimsstyrjaldar með heljarslóð sinni og þá (sið)blindu foringjadýrkun og hugmyndaheim sem leitt hafði inn á myrkar brautir. Enda þótt Halldór aðhyllist enn, þegar Gerpla er skrifuð, sameignarhugsjón og kommúnisma óar hann ugglaust við jarnhörðum leiðtogum hans og ekki síður forsprökkum auðhyggjunnar sem togast á og hóta hver öðrum með atómeldum.

Leikmynd og leiklausnir

Gerpla er stórbrotið verk sem spannar vítt svið. Vestfirðir og Vesturland koma við sögu, Eystri -og Vestribyggð Grænlands, Norðurseta og Inúítabyggðir, Noregur, Danmörk, England og Frakkland. Vandasamt er að gera grein fyrir atburðarrásinni á leiksviði svo vel sé. Það tekst þó furðu vel í Þjóðleikhúsinu með leikgerð Baltasars Kormáks og Ólafs Egils Ólafssonar, sem jafnframt er samvinna leikhópsins. Einföld en hugkvæm leikmynd Grétars Reynissonar stuðlar mjög að góðum árangri.

Hún sýnir kletta, þúfur og torfur í landslagi, tjöld, sem taka á sig ýmis konar form og mynda sveitabæi og kirkju, og gefur til kynna víðáttu á sjó og landi. Gljándi flötur verður mýri, ísilögð tjörn og sjór. Búningar minna á klæðnað glímumanna og konur jafnt sem karlar eru með glímubelti. Slæður, sjöl og skykkjur bætast við og draga fram mismunandi hlutverk. Sviðsmyndir eru fjölmargar. Þær renna lipurlega saman og leikarar skipta iðulega um hlutverk.

Það er sem horft sé á skyggnusýningu sem líður vel fyrir sjónum. Hver mynd hefur sitt að segja þótt vari mislengi. Leiklausnir eru snjallar og hrífandi í framvindu og umskiptum sínum. Menn breytast auðveldlega í hesta, hvali, fugla og öfugt. Bardagi minnir á fagran balletdans, sem sýndur er á hægum hraða. Handbragð kvikmyndaleikstjórans Baltasars kemur augljóslega fram í þessari myndvinnslu sem hefur líkt og nákvæmt hljómfall og hrynjandi.

Baltasar getur þess í sýningarskrá, ,,að leikhópurinn hafi kosið að nálgast efnið með hliðsjón af arfi íslensks áhugaleikhúss fremur en nýta samtíma erlendar leikfyrirmyndir.” Sýningin ber þess merki. Yfirbragð hennar getur virst ,,ódýrt” og hallærislegt, en gefur færi á léttleika, glettni og gamansemi. Þessi nálgun vekur upp minningar um ánægjulegar skóla- og áhugamannasýningar og rímar við háðsádeilu Halldórs Laxness í Gerplu. Hún dregur þó ekki úr harmrænum undirtóni verksins. Tungutaki Gerplu er fylgt, því sérstaka málfæri, sem Halldór notar í sögu sinni. Það hefur á sér fornan blæ og er stundum torskilið en tengir sögu og leikgerð markvisst við fyrri tíð. Jafnframt leyfir leikstjórinn sér ,,tímaskekkjur” sem lyfta leikverkinu inn í annan tíma og samtímasögu. Fimmundarsöngur hljómar í bland við þjóðlög og dægurperlur síðustu aldar.

Sviðsmyndir

Leiksýningin hefst með því að leikararnir standa í fylkingu framan á sviðinu sem glæstir glímumenn með stóran íslenska fána á vegg að baki sér og syngja ,,Ísland ögrum skorið”. Þeir mynda síðan með líkamsstellingum stafina í ,,Gerplu”. En fyrr en varir er eftirminnileg sviðsmynd orðin til. Hún sýnir Ögur við Ísafjarðardjúp. Þar búa hjónin Þormóður (Björn Thors) og Þórdís Kötludóttur (Ilmur Kristjánsdóttir) sæl með ungum dætrum við góðar ástir og hamingju, þegar ófrýnilegt höfuð Þorgeirs (Jóhannes Haukur Jóhannesson ), fest á níðstöng, skyggir þar óvænt á sæluna. Höfuðið er burðarás sögunnar og vísar bæði aftur og fram. Það minnir á samstöðu og ,,afreksverk” fóstbræðranna en einnig heitorð og hefndarskyldu sem með söknuði leggst þungt á huga Þormóðar. ,,Þú munt velja milli þessa höfuðs og þíns höfuðs” segir Þórdís. Vermundur Þorgrímsson Vestfjarðargoði (Ólafur Darri Ólafsson) kemur á vettvang og kveðst hafa efnast með því að drepa ekki menn og ráðleggur Þormóði að fara til bús síns og auðgast með því að gefa mönnum líf.

Frá þessari sögumiðju er farið aftur til upphafsins og sagt frá Þormóði, syni Bessa Halldórssonar í Mjóafirði í Djúpi (Björn Thors), er kann barnungur kvæði um konunga og jarla og semur kersknisvísur (Brynhildur Guðjónsdóttir leikur hann ungan). Einnig er sagt af Hávari Kleppssyni (Jóhannes Haukur Jóhannesson) sem þykir meiri sómi að því að vega menn en draga fiska enda unnið ,,hreystiverk” í víkingu og Þórelfi konu hans (Ólafía Hrönn Jónsdóttir). Þau eiga Þorgeir (Ilmur Kristjánsdóttir leikur hann ungan), sem hlýtt hefur á ,,afrekssögur” föður síns. Sjö ára horfir hann á þegar faðir hans er veginn og ,,verður furðu auðveldlega dauður.” Þórelfur heldur þó enn fram garpsskap Hávars. Hún segir syni sínum, að orð séu fánýt nema varin séu vopnum og manngildi felist í því að duga í ófriði og varpa þannig frægðarljóma á lífið. ,,Góður drengur megi ekki láta spyrjast um sig að hann kjósi frið, sé ófriður í boði.” -Vart er að furða að hjarta frjósi og tilfinningar kólni við slíka reynslu og bernskumótun og hafi áhrif á hvert stefnir. Harðneskja og vígamóður Þorgeirs, sem ,,átakanlega” er greint frá í Gerplu og leikverkinu, verður enda helst skilin af henni.-

Það markar Þormóð fyrir lífstíð, að hann skemmtir með kveðskap í skála á Vestfjörðum og hittir þar fyrir Kolbrúnu Hrafnsdóttur (Ólafía Hrönn). Hún birtist voldug og umfaðmandi í dökkum slæðum á sviðinu. Þormóður flytur henni kvæði og hún dregur hann upp í til sín að launum eða í refsingarskyni og hann er frá því nefndur Kolbrúnarskáld. Hún nær á honum tökum og vísar til þess að hann muni síðan jafnan sækja í hennar stað.

Þormóður og Þorgeir kynnast ungir og laðast hvor að öðrum. ,,Vil ég vera yðvar vinur”, segir Þorgeir og ,,fáum okkur óvini að góðra drengja hætti.” Hann ræður ferðinni í samskiptunum þótt Þormóði sé fremur fylgt eftir í leikverkinu. Það einfaldar söguþráð og skerpir innri átök sem fram koma í honum. Þormóður er næmur listamaður og elskur að lífi þó svo fylgi Þorgeiri vel að vígum. Þeir reyna með hestum sínum, sem umbreytast í sjónhendingu í þá sjálfa uppvaxna og vígfima.

Þorgeir fer að Skeljabrekku í Borgarfirði og vegur Jöfur, banamann föður síns, þótt Vermundur hafi bætt það víg. Þórelfur fagnar syni sínum blóðugum og Þormóður (Jóhannes Haukur Jóhannesson) yrkir um afrekið en Vermundur harmar það og mælir: ,,Þegar vígamaður og skáld koma saman þýðir það ógæfu. Gangið fremur á fund þess konungs sem ég hef reist dýrðarhús. Hann háði sína höfuðorustu á krossi og var aldrei sprækari en uppreistur eftir dauða.” Í dýrðarhúsinu, þar sem Jörund prest (Ólafur Egill Egilsson) er að finna, hangir mikill róðukross, sem ber Krist, og sviðsettur er áþreyfanlega (Atli Rafn Sigurðarson). Krossfestingin verður því nærtæk á áhrifaríkan hátt.

Þórdís Kötludóttir (Ilmur Kristjánsdóttir) elst upp í Ögri hjá móður sinni. Skati Austmaður (Atli Rafn Sigurðarson), sem er þar forverksmaður, kvelur og níðist á Kolbaki, ungum írskum þræli (Sindri Birgisson). Þórdísi var skemmtun að því í bernsku. Þegar hún þroskast vingast hún við hann og finnur til með honum og spyr: ,, Hví rekur þú hross og veiðir fiska? Sæmra væri að þú gerðist hetja og skáld. Hverju sætir að þú ert þræll og lætur berja þig og kveinkar þér ekki?”,,Því græt ég ei”, svarar hann, ,,að hetjur og skáld vitjuðu mín á Írlandi, brenndu hús mitt, hjuggu föður minn, og rotuðu ömmu mína, er hún lofaði Kolumkilla hollvin sinn. Þeir köstuðu bróður mínum ómálga á milli sín á spjótum og drógu móður og systur mína á skip.”

Er Skati, sem oft hefur haldið á Þórdísi á hnjám sér, gerist fjölþreyfinn, leitar hún ásjár hjá Kolbaki og æskir þess að hann drepi Skata. ,,Fái nokkur lagt hönd á kné mér, (sem vísar í sögu og leik til annars og meira) vil ég að þú skulir sá maður.” Kolbakur telur á hvorugt hættandi því að hann yrði af réttdræpur en lætur það eftir Þórdísi að gera henni skotglugg (opnanlegan) á lofti. ,,Ég vil ná að komast með spuna minn”, segir hún, ,, og fljúga. Veit ég hvar á ströndu byggja garpar tveir ungir. Mun ég þar leggja frá mér haminn á nesi og drýgja þeim örlög.”

Fögur er senan sem lýsir leikum æskufólks á Laugadalsvatni þar sem fyrstu fundum Þormóðar og Þórdísar ber saman. Þau skauta og dansa listilega á vatninu við ljúfa hljóma vínarvals.

Þormóður segir Þorgeiri, að hann vilji yrkja um konu þessa. Þeir ganga undir jarðarmen og sverjast í fóstbræðralag, sem staðfestir að vinátta þeirra sé annarri sterkari og sá muni hefna hins sem lengur lifir.

Þormóður venur komur sínar til Þórdísar í Ögri og fær hana til að opna glugg sinn til að sannreyna manninn. Hún spyr: ,, Hví fórstu ekki með fíflinu Þorgeiri?” Og hann svarar:,, Ég ann þér meir en honum.” ,, Hví lýgur þú að mér? Segðu fram kvæðið.” ,,Vér viljum heldur leggja hönd á kné yðvar.” ,, Færðu mér þá kvæðið á meðan.” Atlot eru sýnd gegnum tjöld svo mynda listilegar skuggamyndir.

Katla (Lilja Nótt Þórarinsdóttir), móðir Þórdísar, ásakar Þormóð fyrir að fífla hana og býður honum þá tvo kosti, að taka sér konuna til eignar, lönd og töðuvelli, búsmala feitan, dún og egg á vori, fisk í vötnum og flyðrulegur og haustselafar eða að láta alveg af komum sínum. En hann svarar því að hann sé eigi féstyrkur. ,,Er það góðra manna háttur að kvænast en elska ekki konur” áréttar Bessi faðir Þormóðar við hann síðar, en hann er of dreyminn og sveimhuga til að láta segjast.

Þegar Þórdís og Þormóður heyra jódyn árla segir hún, að Kolbakur sé á ferð að taka vindur til vefnaðar í Mjóafjörð. Hún biður Þormóð sökum draumfara sinna að fara aðra leið til baka en fyrr og vefur hann líka vindum áður en hann leggur af stað. Þormóður fer þó sína leið. Kolbakur gerir honum fyrirsát. Þeir vegast á með vopnum, öxum og grjóti, sem sýnt er á magnaðan hátt á hægum hraða, en vopnin bíta ekki. Þormóður vill fá þann grun sinn staðfestan að þrælinn hafi smogið inn um skjá og komið í kné Þórdísi. Yfirbugaður, svarar Kolbakur því ekki en vísar í Jósamak Díi (Jesú son Guðs). ,, Höggðu hér þræl hennar ef þú vilt og mun ég rísa upp sem konungur hennar.” En Þormóður nennir því ekki enda lítt fyrir víg nema í fylgd með Þorgeiri.

Á næsta ástarfundi þeirra Þormóðar spyr Þórdís: ,,Hví drapstu ekki þrælinn? og Þormóður svarar: ,, Þú hafðir ofið okkur báðum spuna.” Hann gerir sér dælt við hana og segir að faðir hans og Vermundur muni biðja um hönd hennar fyrir sig. ,,Þú kannt að ljúga,” segir hún. ,,Það er kallað ástarmerki ef maður lýgur að konu og þá ann kona manni að hún trúir honum þótt viti að hann lýgur. Gott er að heyra þig ljúga.- Muntu þá nokkuð færa mér kvæði sem er víst til mín en ekki annarrar konu?” ,,Til þess kvænast menn”, svarar skáldið, ,,að gera skáldskap þarflausan.”

Er stormur blæs svo mjög á Ögri að bær og tjöld bifast, kemur Þorgeir skyndilega þangað sem stormsveipur og sundrar samskiptum. Hann kallar Þormóð að fylgja sér á skip og fara á Jökulfjörðu og Hornstrandir og elta uppi garpinn Butralda Brúsason, gera hann sér að óvini og vega. Þórdísi bregður við og segir við garpa. ,,Mikil fúlmennska er að kjósa að fara um nótt í illfæru veðri að leita uppi útileguþjófa (heldur) en búa við hamingju sína.” ,,Því verða menn skáld og hetjur,” svarar Þormóður, ,, að þeir búa ekki við hamingju sína.”

,,Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á” er leikið þegar garpar sigla með liði. Það myndar eftirminnilega á sviðinu, með skjöldum sínum og spjótum, skip og árar. Þormóður klifrar upp í mastur og skyggnist um er þeir koma harkalega að landi með strandi. Þeir eru komnir í Hrafnsfjörð og fá þar skjól hjá Kolbrúnu sem fagnar skáldi sínu með skörungsskap og blíðu. ,,Var þó Þorgeiri síst í huga að stýrt yrði í kné konum vestur hér.”

Kolbrúnu þykir undarlegt, að þeir vilji fara að útilegumönnum eða starfa að hvölum. Nær bíði drengilegri verk, að fara að feðgum á Sviðinsströndum. Þeir vaði inn á jörð og veiðislóð þeirra Geirríðar dóttur hennar og hafi sitt gagn af þeim mæðgum án þess þó að vilja kvænast þeim.

Görpum reynist létt að vinna ,,drengskaparverkið “sem er vel útfært í sýningunni. Geirríður sýnir Þorgeiri blíðuhót í þakkarskyni, sem hann bregst illa við, og spyr því: ,, Hví ertu fálátur em ek kona eigi allfríð? Muntu betur til þess fallinn að fara að saklausum mönnum að náttarþeli og myrða þá en duga konum.” Þorgeir kveðst ekki hafa farið úr Borgarfirði að hafa kvennærhöld sér að brjósti og hlífiskildi og mælir við Þormóð er vill ekki hverfa að sinni úr meyjarfaðmi. ,,Eigi er mér umkennandi þótt þú kjósir þann frið sem öllum ófriði er mannskæðari – en sá er kvennafriður.” Þorgeir veður mökk og ský, sem þyrlað er upp á sviðinu, í kappaleit.

Kolbrún vefur Þormóð dökkum slæðum og töfrum. Hún kvartar yfir því að hann hafi snúið kvæðinu um sig yfir á meystelpu í Ögri og vill að hann vinni til þeirrar nafngiftar sem hann fékk af henni ungur og geri kvæðið svo að auðkennt sé henni. Er skáldið hefur gert það, þykir honum sem hann sé vakinn af svefni. Þórdís birtist honum í sýn, hvítklædd sem valkyrja í svanshami með ægishjálmi og segir: ,,Þar sveikstu mig enn og meir en þegar fórst með Þorgeiri. Hér muntu engjast svo lengi sem þú sjálfur kýst.” Og valkyrjan bjarta og völvan dökkva takast á með orðaskaki. ,,Hvað muntu gefa honum? spyr sú sem byggir undirdjúpin. ,,Ég mun gefa honum staðfestu og ala honum dætur fagrar sem tungl og stjarna og sjálf vera honum sól,” svarar gyðjan bjarta. Hin kveðst leifa munu auði en geta við honum dætur, Nótt, Þögn og Auðn, en af sínu kné veita honum öðrum meiri ástarunað og sælu. Þá gekk konan, segir í Gerplu, inn í berg og hafði með sér fjöregg Þormóðar. Mók og doði rjátlast loks af honum þegar Þorgeir kveður hann til ferða á ný. ,,Lýður nú ský af augum mér.”

Örlagaríku bjargsigi og hvannaskurði þeirra fóstbræðra, sem segir af í Flateyjarbók, er kosulega lýst í leiksýningunni enda efni til þess. Þeir gleðjast yfir vináttu sinni. Þormóður telur að ekkert muni skerða samþykki þeirra og fóstbræðralag en Þorgeir svarar því: ,,Engin vinátta er betur fest en ef tveir eru slíkir kappar, að hvorugur þarf að leita til hins í nokkru efni fyrr en þarf að hefna.” Þegar Þorgeir hrapar í bjarginu, hangir hann bjargarlaus á hvannanjóla. Hann kallar þó hvorki á liðsinni né þakkar fóstbróður sínum þegar hann loks sér hvað orðið er og hífir Þorgeir upp á bjargið. Vinátta Þorgeirs kólnar við og hann fer að leiða hugann að því hvor muni af hinum bera ef reyndu með sér. Þormóður lýsir á móti umhyggju sinni og tryggð er hann hafi vakað yfir fóstbróður sínum um nætur og séð brjóst hans bifast í svefni við slátt þess hjarta sem hann veit öllum prúðari og virt fyrir sér háls hans sem sé á styrkari súlu en hjá öðrum mönnum. ,,Hví hjóstu mig ekki þá?” spyr Þorgeir. ,,Þótt vikið hafi frá konu og dætrum til að fylgja þér hefur þú þeim orðum mælt”, svarar Þormóður, ,,að skiljast mun vort samneyti. Finn ég gjörla að ert eigi sáttur við að eg barg lífi þínu er hékkst í hvönn. Far heill og vel. “

-Tilkynnt er að Þorgeir sé skógarmaður gjör og sagt af því að hann gerist hirðmaður Ólafs digra Haraldssonar og fylgi honum í víkingu og herleiðangra.-

Þá er aftur komið að níðstönginni og áhrifum höfuðs hennar. Það veldur Þormóði því þunglyndi sem lamar lífsgleði hans og ógnar heimilishamingju í Ögri. Hann býr um höfuðið og geymir og mælir við það þá aðrir sofa. Þórdís verður svo miður sín vegna vanrækslu manns síns og umhyggju fyrir honum að hún leitar ásjár hjá fornvini sínum Kolbaki. ,,Svo yfrin er ást mín til Þormóðar, bónda míns, að eg má eigi á heilli mér taka nótt né nýtan dag,” segir hún þrælnum....,, Eg em sá veggur er milli stendur skáldsins og lokkanfullra sjóferða og orrustugnýs og svo hylli konungs og þar með orðstýrs er aldregi deyr... Slíkt ofurefli er mér harmur Þormóðs, að eg mun öllu til kosta að gera hann af mér frjálsan.”

Þegar Þormóður furðar sig á því að kona hans er ófrísk orðin og ekki af hans völdum, spyr hann hana: ,,Erfiðar farir húsfreyja?” Þær einar, segir hún, er mig hefur tilrekið ást á þér og meiri er orðin en ég fái borið og halda þó mætti og viti. Dag og nótt síðan eg sá þig leika á ísnum hefur mynd þín verið skrifuð í huga mér. Hver þín hræring hefur verið mín hræring. Sárast þykir mér að vita þig ósjálfbjarga í fjötrum ástríðu minnar, firðan örlögum þínum og frægð.” Mánuðir líða á fáeinum andartökum á sviðinu. Þórdís fer inn í bæ og kemur með dreng sinn nýfæddan í örmum. Þormóður tekur hann í fang og segir svo að Þórdís og Kolbakur heyra: ,,Ég heilsa þér og bið þig velkominn að ráða yfir löndum svo á Íslandi sem Írlandi.”

Sagt er frá því að Þormóður fari að heiman langan veg til að leita drápsmanna Þorgeirs á Grænlandi og haldi þaðan til Noregs á vit Ólafs konungs að flytja honum drápu.

Kátbroslegt myndskeið sýnir Þormóð kominn svamlandi af hafi í norskan skerjagarð. Þar ræða glaðbeittir ,,Norsarar” við hann með syngjandi hreimi og norskur fáni blaktir á skeri. ,,Það hlægir þá er Íslendingar rekja ættir sínar til konunga og kenna af drambi að þar fari íslenskur maður.” ,,Höfðum vér á brott með oss úr Noregi ”, segir sá nýkomni, ,,eigi fé heldur skáldmennt og garpskap og sögur fornkonunga. Mun Noregur aðeins frægð þiggja af Íslendingum.”

Sighvatur Þórðarson (Atli Rafn Sigurðarson) stígur fram úr þessum félagsskap, íslenskur maður er verið hafði skáld Ólafs konungs digra. Hann heilsar Þormóði virðulega sem kveðst kominn langan veg til að flytja konungi drápu og hafa fórnað miklu til þess. ,, Seg fram kvæðið” segir konungsskáld. Þormóður flytur það með kröftugri hrynjandi líkt og færeyskur kvæðamaður væri eða keltneskur ,,barði”(söngvari). Sighvatur segir kvæðið gott en ort um seinan. Kóngur hafi hrakist frá ríki. Hann hafi sent Þorgeir til Íslands þegar orðinn var leiður á honum til að drepa Íslendinga og Þorgeir verið þar veginn í svefni. Kóngur hafi gengið fram með brennum, pyntingum og morðum og kunnað þau tvö úrræði ein í vanda, var annað skírn en hitt morð. Þormóði skilst, að Sighvatur hafi sætt lagi að skipta um lið, þegar hallaði undan fyrir Ólafi digra. Hann leitar samt sjálfur konungs síns, enn tryggur köllun sinni, sem hann hefur fórnað svo miklu fyrir.

Þormóði auðnast að komast í flokk Ólafs konungs (Ólafur Darri Ólafsson) og hlýðir á máttuga herhvöt hans yfir sundurleitu liði sínu kvöldið fyrir úrslitaorustuna á Stiklastöðum. ,,Góðir hálsar. Er það mín skipun að þér þyrmið öngu kykvendi er lífsanda dregur í Noregi og gefið eigi skepnubarni grið þar til eg hef fengið allt vald yfir landinu. Hvar sem þér sjáið búandmann með hyski sínu þá gangið þar milli bols og höfuð á, kú leggið hana, hús, berið eld að, og hlöðu, látið upp ganga, brú brjótið hana, brunn mígið í hann, því að þér eruð frjálsunarmenn Noregs og landvarnarlið.” Konungur mælir þetta og fleira í sama dúr og ber fyrir sig Krist keisara meyjarson til réttlætis sér og fulltingis.

Þormóður nær að lyktum fundi konungs. Hann kynnir sig sem skáld og svarabróður kappa konungs Þorgeirs Hávarssonar og beiðist hljóðs til að flytja honum kvæði. ,, Hafi tröll íslensk skáld, er mér leitt orðið skrum Íslendinga.” svarar konungur. Þormóður segist hafa gengið frá búi sínu á Íslandi og lagt mikið á sig til að hefna höfuðgarps hans Þorgeirs og ná konungsfundi. ,,Höfingjadjarfir eru þér Íslendingar. Rekur oss eigi minni til að hafa áður heyrt þetta nafn,” segir konungur. ,,Má þó vera að nokkur íslenskur afglapi með því nafni hafi rekist í lið vort þá vér lágum í víkingu... Heyrði ég rétt að þú hafir ort um mig kvæði?” ,, Ég hef ort kvæði garpi og konungi, dýrt kveðið” svarar Þormóður. ,, Kvæðið keypti ég sælu minni, fríðleik, heilsu og hamingju.” ,,,Stytt hér, segir Ólafur digri, konungi stundir og flyt Gerplu þína.” Skáldið svarar og nokkuð dræmt: ,, Nú kem ég eigi lengur fyrir mig því kvæði.”

Köllun og kennileiti

Leikmyndirnar eru fleiri og með þeim öllum tekst að gera megin efni Gerplu viðhlítandi skil. Persónur lifna vel við á sviðinu enda hafa leikarar góð tök á þeim þótt örlaði fyrir óöryggi á stundum, sem lagfærist þegar oft hefur verið sýnt og eins framsögn flókins texta. Kjarngóðar setningar berast misvel til áheyrenda. Ástríður og átök koma vel fram í leikverkinu og öndverðar skuldbindingar og hugsjónir. Þær eru þó mun dýpri í skáldverkinu en hægt er að sýna og vísa til í leikverki.

Vandasamt hefði verið að sviðsetja svaðilfarir Þormóðar á Grænlandi, sem Gerpla greinir frá, og sýna hve hann gengur nærri sér að fylgja knýjandi köllun sinni. Hann kemur lemstraður þaðan til Noregs, sem ekki kemst til skila í leikverkinu, haltur á báðum fótum, nef og eyru hafa nær kalið af honum og hrokkna hárið er horfið af höfðinu. Kvikmynd gæti gert grein fyrir þeim raunum. Ef Baltasar myndaði Gerplu fengi hann gott söguefni af samskiptum Þormóðar við (I)Núíta á Grænlandi. Þeir bjarga honum af ,,þarabrúk” fótbrotnum og hröktum eftir skipsskaða þrátt fyrir að hafa sætt drápum af hendi norrænna manna. Þeir nefna þá ,,morðmenn” en sjálfa sig Núíta, sem merkja mun ,,menn”: ,,Nú með því að Núítar þekkja ekki réttlæti þá bjarga þeir Þormóði skáldi óvini sínum og gera að fótbroti hans með söng.” Hann kynnist soðningarstöðum og friðsælu samfélagi Núíta sem einkennist af samheldni og færni til lífsbjargar. ,,Manndráp eru óheyrð þeirra á meðal.. Áttust öngvir illt við en einn og sérhver var stoð og stytta síns náunga.” Þeir horfa enda með þökk til ,,tunglbónda og ,,móður sjókindar.” Þar sem Þormóði misferst að fara að góðum reglum í samskiptum kynjanna er honum þó útskúfað úr þessu friðsama samfélagi og skilin eftir ,,ekki mjög langt undan Vestribyggð” og bjargast í skip á leið til Noregs.

Flandur Þorgeirs með Ólafi digra Haraldssyni, sem víkingaforingja á Englandi og Frakklandi og konungs í Noregi, væri ekki síðra kvikmyndaefni en mun óhugnanlegra. Ólafur er ,,uppfæddur á skipum frá barnsaldri við seltu og tjöru, fúka og spýju.” Hann hvetur liðsmenn sína til að taka skírn í Rúðuborg svo hæfir séu til hervirkja í kristnu landi. Hann kann sjálfur ,,nokkur skil á kristnum dómi eftir að hafa skorið af nef og eyru, og klippt út tungu, einnig stungið augu út úr fleiri lærðum mönnum og nunnum en aðrir norrænir menn.” Þótt víkingar taki skírn utan Þorgeir og fáeinir aðrir eru aðferðir þeirra með þessum brag í þjónustu við jarla, biskupa og preláta í Frakklandi. Kirkjuhöfðingjar samþykkja enda að víkingum sé sigað á fjölda fólks, sem leitar griða í stórri kirkjubyggingu, og brenni það og helgidóminn, því að varasamur andstæðingur sé þar sem ásakaður er um hórdóm og viðlíka óhæfu. Þeim virðist mest um vert að syngja sálumessur og forða fólki frá vítislogum. Þótt svívirða hafi verið að brennuvörgum í Noregi frá fornu fari lýsir Gerpla því að Ólafur digri ryður sér þar braut með brugðnum og logandi brandi í Jesú nafni og verður auðvitað mikið ágengt við að kristna landa sína. -Fyrir það varð hann enda helsti dýrlingur Norðurlanda. Í ljós kemur því um síðir að fyrir eitthvað lét Þormóður skáld heilsu, hamingju og líf.

Fulltrúar kristni hér á landi í Gerplu og leikgerð hennar virðast af allt öðru sauðahúsi en þeir sem segir af í utanferðum fóstbræðra. Vermundur goði finnur verðmæti lífsins í því að þyrma lífi og hlúa að því og reisa dýrðarhús þar sem sú hugsjón er glædd. Kolbakur, þræll af Írlandi, ber með sér þaðan fórnfúsa og þjónusturíka trú enda kristni breidd þar út án þvingunar og vopna. Kolbakur vill enda ekki beita vopnum nema sé knúinn til. Hann ber ávítur, lítilsvirðingu og barsmíðar með þolgæði í trú sinni á Jósamak Díi sem kvalinn er á krossi en rís upp. Þrælinn er einn þeirra ,,hógværu sem hann telur sæla, því að erfa munu jörðina” (Matt: 5.5.). Það sýnir sig þegar í fæðingu sonar Kolbaks og Þórdísar sem fær blessun Þormóðar.

Hversu sönn og ávaxtarík er sú kristni sem boðuð er með stáli, brandi og brennum? Er hún ekki svo svikin og fúin í rót að hún fær ekki dugað raunhæft til friðar? Þessi spurn er áleitin í Gerplu og í huga höfundar hennar sem horft hefur til loga tveggja heimsstyrjalda sem kviknuðu í Norðurálfu með kristnum forystu- og menningarþjóðum. Er ekki ákveðið samhengi milli framgöngu Ólafs digra í trúboði hans, þótt mynd hans sé ýkt í Gerplu, og þeirra sem síðar hafa kallað til fylgis við sig í nafni ,,hugsjóna” af valdafíkn og metorðagirnd, att mönnum og þjóðum saman og bálað upp heiminn? Garpsmyndin forna af víkingum og strandhöggsmönnum varð æði oft álitlegri en mynd friðarboðans og boðskap hans hnikað til að aðlagast sérþörfum t.d. um lífsrými og bættan kynstofn. Óteljandi munu þær vera eiginkonurnar, mæður og börn sem horft hafa á eftir ástkærum eiginmönnum, sonum og feðrum hverfa að heiman frá frumlægum lífsskyldum til að fylgja hvatvísum foringjum sem hafa heillað þá eða knúið til að ryðja hugsjónum sínum braut á helvegi.

Var kostur á öðru betra? Ef til vill með (I)Núítum á Grænlandi svo framarlega sem siðmenning og ,,morðmenn” spilltu þeim ekki og útrýmdu. Og hvað með Ráðstjórnarríkin? Blóðug bylting hafði rutt þar misskiptingu úr vegi og myndað stéttlaust fyrirmyndar samfélag eða hvað? Halldór hafði heillast og samið því lofgjörðardrápu í ,, Gerska ævintýrinu.” En ber Gerpla þess ekki vitni með öðru að hann hafi vaknað af blekkingardraumi og greint í gegnum rauðu hillingarskýin harðstjórn og grimmd ,,Stálmannsins” og kommúnisma hans sem misvirti líf og þrengdi kosti þess með hreinsunum og fjölmennum fangabúðum. Allri Guðstrú var hafnað í ríki hans, sem hlaut því að þverra innri föng og farsæld.

Glímutök

Enn á fögur friðarhugsjón erfitt uppdráttar og því einnig raunsönn, áhrifarík og umskapandi kristni. Heljarslóð er áfram troðin og líka af ,,kristnum” mönnum. Þeir veigra sér ekki við því að framleiða vopn sem verða stöðugt hagkvæmari og þarfnast nýrra viðfangsefna og verka. Þau duga vel til að koma á lýðræði, frelsi og friði, ef ekki beinlínis kristni eftir uppskrift og skilgreiningu þeirra sem ráða för, en forðast að greina frá hagsmunum sem felast í ítökum, auðlindum og mammonsgróða.

Við Íslendingar töpuðum vopnum og verjum og sjálfstæðu þjóðveldi eftir Sturlungastríð. Við börðumst áfram við óblíð nátturuöfl, afleiðingar eldgosa, brim og boða og sýndum oft ótrúlega þrautseigju og hetjuskap. Garpsmyndin forna lifði í vonum um betri tíð og draumum um endurreist sjálfstæði og kom fram í myndríkum kvæðum. Hún sýndi sig líka á mannamótum og hátíðarstundum þegar glímumenn tókust á og héldu hvor öðrum í fangi. Þeim varð ekki meint af falli, risu á fætur aftur og andstæðingar tókust í hendur við því búnir að nýta kraftana saman til gagnlegra verka í þjónustu við Guð og menn. Strandhögg og hervirki svokallaðra útrásarvíkinga, voru ekki jafn drengileg enda liggja margir sárir eftir. Af mistökum má læra og gæta þess að nýta með heiðarlegum glímutökum framsækni og drifkraft til farsældar og friðar.

Slík glímutök væri vert að útbreiða sem víðast. Halldór Kiljan Laxness hefði tekið undir það. Það gera Baltasar Kormákur og Ólafur Egill svo sem fram kemur í ágætri leikgerð þeirra af Gerplu. Hún nær því marki að setja á svið máttuga sögu, sem er grátbrosleg ádeila á hillingar, hernað og vígaferli. Þeir eiga heiður skilið að leggja í það vandasama verk. Fyrir það fær leikverkið fjórðu stjörnuna.

Stjörnugjöf ****