Gestaþrautir

Gestaþrautir

Hátíðina ber upp á þeim tíma árs þegar litunum fer fjölgandi í kringum okkur, tónunum á himnum, skrúðinu í görðum og náttúru. Svona á kirkjan að vera - eru skilaboðin og við vinnum að því marki að auðga sköpunina og margbreytileikann svo að þar fái allt dafnað í gnægð lífsins.

Einu sinni var ég á ferð í erlendri borg og það rann upp fyrir mér að ég hafði tapað áttum, fann ekki þann stað sem ég ætlaði að heimsækja. Þetta er ekki alveg ný reynsla fyrir mér og ég gerði eins og ég er vanur í þessum aðstæðum, ónáðaði vegfaranda og spurði til vegar. Hann brást vel við og fór að þylja upp beygjur og kennileyti sem vörðuðu veginn. Skyndilega greip ég fram í fyrir honum og sagði eins og ekkert væri sjálfsagðara: ,,Fyrirgefðu, gætirðu talað ögn glaðlegar?” Maðurinn snarþagnaði og horfði á mig - svipurinn, allt annað en glaðlegur. Í sömu andrá rann það upp fyrir mér, þarna úti á götu í Gautaborg, að orðið sem ég notaði merkir ekki rólegt á sænsku eins og það gerir á íslensku og dönsku. Af einhverjum ástæðum hefur það þveröfuga merkingu og þýðir fjörugt, glaðlegt. Held að margir íslendingar þar eystra eigi svipaða sögu að segja af fyrstu skrefum á þessari grundu.

Tungumálið

Tungumál er merkilegt fyrirbæri. Flest af því sem við viljum koma til skila þarf að búa í búning orða og setninga. Sumir segja að helsta viðfang heimspekinga á okkar dögum sé að rýna í ranghala þess og afkima. Tungumál er eins og sía sem liggur á milli umhverfisins og þess hvernig við túlkum það. Stór hluti af hugsum okkar eru orð og í allri sinni fjölbreytni búum við þessum hugsunum búning sem á að nýtast til tjáskipta við menn og jafnvel málleysingja sem í kringum okkur eru. Stundum tekst okkur vel til í þessum efnum, stundum ekki eins vel og skilaboðin sem við sendum verða vandræðaleg og jafnvel verra en það. Takmörk tungumálsins eru samkvæmt því hemill á allan skilning okkar á heiminn og þau áhrif sem við getum haft. Eins og Wittgenstein orðaði það: ,,Um það sem ekkert er hægt að segja, hljótum við að þegja" - eða hvernig það er nú þýtt á íslensku.

Heimurinn er svolítið flókinn og sumir eins og hinn geðþekki austurríkismaður, halda því fram að við fáum aldrei endanlegan botn í hann eða það sem í honum býr. Það er auðvitað bara spennandi að geta endalaust haldið áfram að læra eitthvað nýtt og vita að eitthvað meira býr þar fyrir handan. En í kristinni kirkju hefur því að sama skapi löngum verið haldið fram að Guð sé okkur hulin ráðgáta. ,,Baksvip minn færðu að sjá", sagði almættið við ættföðurinn Abraham - ,,en ásjónu mína fær enginn séð og lífið haldið." Og þannig höfum við, sem erum gestir á hótel jörð, glímt við þessa gestaþraut frá öndverðu mannlegrar hugsunar. Það er viðfang trúarbragða, rétt eins og heimspeki, að reyna að troða því sem við glímum við og hugsum inn í ramma tungumáls. Og sumt er þess eðlis að engin orð fá að endingu lýst.

Í kirkjunni vísum við til þessarar heiðarlegu tilraunar í upphafi hverrar messu og vonandi oftar - þegar við signum okkur og segjum - í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Þetta köllum við heilaga þrenningu, faðir, sonur og heilagur andi. Afrakstur íhugunar og endalausra funda í fornöld skilaði okkur þessari niðurstöðu. Guð er einn en við þekkjum hann í gegnum þetta þrennt. ,,Eining sönn í þremur greinum” orti Eysteinn munkur í Lilju. Þarna er reynt að yfirfæra á orða það sem tungumálið ekki fangar.

Faðirinn skapar heiminn og um leið sendir kristin kirkja frá sér þá tímamótayfirlýsingu að heimurinn og allt hið jarðneska er í eðli sínu og uppruna, gott þó margt spilli. Því til staðfestingar birtir Sonurinn, Jesús frá Nazaret, okkur Guð sem er einmitt, af þessari jörðu, borinn í heiminn af konu og lifði, þjáðist og dó.

Gestaþrautir

Hvítasunnan er helguð heilögum anda og þessi sumarhátíð kirkjunnar sem við fögnum nú, markar líka afmælisdag þessa samfélag. Þarna varð kirkjan til. Þetta var upphafið segir í Postulasögunni, þegar lærisveinarnir, fólkið sem þarna var saman komið fékk yfir sig heilagan anda. Og það sem er svo lýsandi fyrir þann anda sem þar á að ríkja að eins og sagan segir, þá fengu þeir þessa náðargáfu að geta talað tungum. Þarna eru merkileg skilaboð til okkar allra. Sá sem er hluti af kirkjunni hefur ekki aðeins merkilega sögu að segja, sá eða sú er ekki bara handhafi merkilegs erindis sem við kennum við fögnuð - skilaboðin eru þau að kristin kirkja talar því máli sem fólk heyrir.

Í heimi þar sem skilningur á milli ólíkra þjóða er á undanhaldi og já, tungumálum fer óðum fækkandi - það týnast nokkur þeirra á hverju ári - hefur það verið köllun kirkjunnar að standa vörð um hin ólíku tungumál heimsins. Biblían hefur verið þýdd á fleiri þeirra en nokkur önnur bók og í því starfi hafa sumar tungur eignast ritmál í fyrsta skiptið. Skilaboðin eru skýr. Guð mætir manninum á hans eigin forsendum, talar til hans á því máli sem hann skilur og fóstarar hugsanir hans og tilfinningar.

Hvítasunnan minnir okkur sem erum kristin á að hlutverk okkar er það að tala inn í ólíkar aðstæður. Við erum ekki kölluð til þess að gera alla eins, nei við erum kölluð til þess að hlúa að margbreytileikanum, auðga lífið og fjölga litum í öllum þess tilbrigðum. En boðskapur kirkjunnar er um leið sá að mitt í allri þeirri litadýrð býr ákveðin eining. Já, við köllum það einingu í litrófinu – að allir menn hafi í sér dýrmætan neista, nokkuð sem er frá Guði komið og verður aldrei frá þeim tekið. Við erum öll dýrmæt sköpun Guðs. Við erum ekki eins en við erum eitt. Snertiflötur okkar er hið skapandi afl Drottins.

Í þessu felst sú skilyrðislausa krafa til allra þeirra sem fylla raðir kirkjunnar að leita réttlætis, miskunnar, náungakærleika til allra óháð því hvar þeir eru staddir. Sú krafa gengur langt út yfir það boðorð samtímans að leita þæginda og skemmtunar. Nei, við skynjum það einmitt á okkar dögum að náungakærleikurinn gerir kröfur, hann kallar á fórnir af ýmsum toga. Það er sú áskorun sem mætir okkur á Vesturlöndum, í Svíþjóð hefur hún verið áberandi þar sem ófremdarástand ríkir í mörgum hverfum og að því er virðist óöld.

Rinkeby

Sjálfur hlaut ég þá ánægju að fá að heimsækja eitt þessara hverfa þegar ég bjó þar eystra. Það var hverfið Rinkeby sem þótti vera dæmigert fyrir það ástand sem skapaðist víða í úthverfum sænskra borga þar sem nánast allir íbúar áttu bakgrunn í löndum þriðja heimsins og félagsleg vandamál voru mikil. En þetta var gleðileg reynsla og hefur setið í mér allar götur síðan. Því yfirvöld settu mikla fjármuni í að bæta stöðuna og í hjarta hverfisins var það sem sænskir kalla Folkets hus. Félagsmiðstöð fólksins þar sem stýrði málum íslenskur maður, Vestmanneyingur nánar tiltekið, Björn Garðarson. Hann bauð mér nokkrum sinnum í heimsókn og sýndi mér afraksturs þess mikla starfs sem þar eru unnið.

Og í stað þess að líta á fólkið sem einhvers konar vandamál þá virkjuðu þeir skapandi krafti sem í því bjó. Húsið iðaði af lífi. Þarna voru útvarpsstöðvar, kaffihús, miðstöðvar ýmissa trúarhópa og það sem mér þótti merkilegast - bókasafn. Já, og þetta bókasafn tók við af lestarstöðinni sem aðal samkomustaður unga fólksins í hverfinu. Það hékk þarna á bókasafninu innan um fróðleikinn, fyrirlesarana, allt það skapandi starf sem þar fór fram. Og svo þegar nóbelsverðlaun voru veitt í bókmenntum drifu þeir verðlaunahafann á bókasafn þetta og hann las fyrir ungmennin. Árangurinn lét ekki á sér standa. Göturnar urðu öruggari, fólkið virkara og ánægðara, miklu fleiri lögðu hönd á plóg til gagns og uppbyggingar. Þökk sé þeim krafti sem lagður var í þetta starf og þeirri trú sem Björn og hans samstarfsfólk hafði á því fólki sem margir aðrir litu á sem vandamálafólk.

Það fór því um mig þegar ég sá fréttir úr fjölmiðlum um ástandið þarna í Rinkeby - núna áratug eftir að ég kom þangað sem gestur. Ég sendi meira að segja tölvupóst á starfsfólk hússins og spurði hvort þetta væri raunverulega satt - vitandi að stundum er sú mynd sem birtist í fjölmiðlum ekki alveg sú rétta. Svarið sem ég fékk kom mér nokkuð á óvart. Jú, því viðmælandinn, húsvörður á þessum merka stað - svaraði mér á íslensku. ,,Sæll Skúli, Ástand mála er eins og það er,ekki það allra besta,en það gildir að halda sínu striki, og gera sitt besta.”

Endalaus trú á fólki

Að tala við fólk á þess eigin tungu er ekki bara að kunna mál. Það snýst um þá miklu lífsins list að setja sig í spor annarra, hafa endalausa trú á því góða sem býr í fólki, og finna snertifleti á milli hópa og menningar.

Hvítasunnan er dagur hinna fjölmörgu tungumála sem hvert og eitt er eins og tilraun breyskra manna til að skilja heiminn og tjá tilfinningar sínar og hugsanir miðla þeim til annarra. Stundum eru tungumálin keimlík en með svolitlum blæbrigðum sem geta skapað vandræðaleg samskipti eins og þeim sem ég kom mér í þarna í Gautaborg. Sagan af fyrsta hvítasunnudegi minnir okkur á að kirkjan starfar þvert á öll slík landamæri. Hún er óður til fjölbreytninnar og einingarinnar - þeirra ótal tungumála sem glæða mannleg samfélög svo miklu lífi og svo þeirrar hugsunar að allir menn eigi neista hins góða í brjósti sér.

Þetta starf nær ekki aðeins til kirkjunnar heldur miðlar boðskapnum út um allar grundir. Hvetur til miskunnsemi, hófsemdar, nægjusemi og auðmýktar - þessara þátta sem allstaðar leiða af sér gróanda til framtíðar og skapa svigrúm fyrir frekari vöxt.

Hátíðina ber upp á þeim tíma árs þegar litunum fer fjölgandi í kringum okkur, tónunum á himnum, skrúðinu í görðum og náttúru. Svona á kirkjan að vera - eru skilaboðin og við vinnum að því marki að auðga sköpunina og margbreytileikann svo að þar fái allt dafnað í gnægð lífsins.