Bréfaskriftir Bonhoeffers sem nú eru gerðar aðgengilegar íslenskum lesendum birta hugsanir eins fremsta guðfræðings síðustu aldar. Bakgrunnur þessara bréfa er áhugaverður en þar bregst höfundurinn við ofríki einræðisstjórnar og hugleiðir örlög sín andspænis dauðanum. Í þessu erindi ræði ég tvennt sem þessi heimild snertir á. Annars vegar eru það forsendur þess valds sem guðfræðingurinn gerði uppreisn gegn og ver hluta af hugleiðingum sínum í að gagnrýna. Hitt eru lýsingar á því trúarlega skipbroti sem tilgangsleysi og grimmd stríðsins olli en Bonhoeffer helgar þeim rými í bréfaskriftum sínum og leitast við að færa það inn í samhengi guðfræðinnar.
Hið spámannlega hlutverk guðfræðingsins
Sú stjórn sem rændi völdum í Þýskalandi í upphafi fjórða áratugarins var á ýmsan hátt frábrugðin fyrri valdhöfum sem þar höfðu ríkt í aldanna rás. Þótt í þeim litríka hópi hafi kennt ýmissa grasa og margt hafi þar ekki verið til eftirbreytni má engu að síður staðhæfa að sameiginlegt furstum og konungum í lútherskum sið hafi verið sú hugsun að völd sín hafi þeir þegið frá Guði. Og samfélagið allt stóð og féll með því að öll embætti ræktu skyldur sínar og tryggðu að enginn setti sig skör ofar almættinu. Guðfræðingar tóku þátt í mótun löggjafar og veittu jafnframt ákveðið eftirlit með störfum stjórnvalda. Fyrirmyndin var sótt til hinna fornu hebrea þar sem embætti spámanna var jafnan við hirð konungs og spámaðurinn ávítti lýðinn og hina æðstu valdhafa þegar nauðsyn þótti krefjast.
Hið spámannlega embætti hafði mikla þýðingu þegar ríkisvaldið var grundvallað á trúarsetningum. Biskupar og prestar, auk guðfræðinga í háskólum, miðluðum þeim hugmyndum sem þeir töldu að væru í samræmi við orð ritningarinnar og svo menn leituðu dýrðar Guðs og velferðar þegnanna.
Brynjólfur Sveinsson orðar þessa afstöðu á prestastefnu að Vallanesi árið 1641:
áminnum við veraldlegt yfirvald vegna Guðs, síns eiðs, embættis og samvisku að gæta sín og gjöra sinnar skyldu, gjöra dóma og réttvísi, svo að lygar og þjófnaður, Guðs orða foröktun, sjálfræðin og óguðleiki fái ekki yfirráð í þessu landi…
Í því sambandi vísar Brynjólfur til orða spámannanna í Gamla testamentinu sem vöruðu við þeirri ógn sem biði ef yfirvöld svikust um og sinntu ekki skyldu sinni. Jafnvel á dögum einveldisins var þetta eftirlit viðurkennt og setti einvaldinum ákveðnar skorður. Allir voru jú undir sama yfirvaldinu, þangað sótti hvert embætti vald sitt og hlutverk. Ef brotið var gegn hinum guðlega vilja var voðinn vís. Þá laust reiði Guðs samfélagið.
Síðar segir Brynjólfur:
vitandi að þeirra embætti er ei þeirra eigið, heldur Guðs, hvör þeim hefur það til reikningsskapar í hendur fengið, svo þeir megi umflýja þá bölvan sem drottinn hótar fyrir spámannsins mun þeim sem gjöra verk drottins sviksamlega.
Allir voru því undir sama guðsóttanum og þurftu að minnast þess að embættin þáðu þeir ekki úr eigin hendi, heldur frá þeim sem öllu réði.
Þótt þrjár aldir hafi liðið á milli þessara orða og þeirra hugleiðinga sem við kynnumst í Fangelsisbréfum Bonhoeffers má greina af hvaða meiði gagnrýni hins þýska guðfræðings er sprottin, þar sem hann rýnir í gegnum áróðurinn og falsið sem alræðisstjórn Hitlers hélt að fólki. Að baki þessu bjó skeytingarleysi um hag almennings og samfélags sem guðfræðingurinn tekst á við í skrifum sínum og verkum.
Þessir valdhafar áttu sér engan yfirboðara, hvorki að ofan, frá Guði, né að neðan frá almenningi sem kaus lýðræðislega. Þegar tilræðismenn Hitlers stóðu frammi fyrir dómurum sínum í þeim réttarhöldum sem yfir þeim voru haldin, voru þeir ásakaðir um að hafa svikið þann eið sem þeir höfðu svarið, um hollustu við foringjann. Hann var andlag þjónustu þeirra og embætta.
Sjálfur staldraði Bonhoeffer við óttann í garð Drottins og hann hafði eftir orð Sálmanna um að þar liggi rætur viskunnar. Þegar maðurinn viðurkennir hið æðsta vald öðlast hann innri frelsun til ábyrgs lífs frammi fyrir Guði. Þetta sagði Bonhoeffer vera eina raunverulega sigurinn yfir heimskunni.
Gegn ofbeldi hins takmarkalausa valds tefldi Bonhoeffer fram ástinni og þeirri hugsjón að þjónustan sé hið sanna andlag og tilgangur mannsins. Þar talaði hann ekki síst til kirkjunnar. Hún stendur aðeins undir nafni þegar hún þjónar öðrum. Stofnunin sem slík, fjöldahreyfingin og byggingarnar hafa engan tilgang ef ekki er unnið samkvæmt þeirri hugmynd að þjóna náunganum til gagns og Guði til dýrðar.
Tilgangleysi og ógn
Hvað varðar hitt atriðið sem ég vil staldra við, þá birtir sá ógnartími sem heimstyrjöldin var, okkur frásagnir af því hvernig einstaklingar horfðust í augu við myrkur tilgangsleysis og við kynnumst því hver áhrif það hafði á trú þeirra og hugmyndir um Guð.
Af því að hér eru bréfaskriftir til umfjöllunar er vert að minnast á sendibréf ónefnds hermanns sem barðist á vígstöðvunum í Stalíngrad. Innikróaður af óvinaherjum, blasti ekkert við nema dauðinn. Hann ritaði bréf þetta til föður síns sem var greinilega prestur. Þar segir:
Ég hef leitað Guðs í hverjum sprengjugýg, í hverjum húsarústum, á hverju horni, í sérhverjum vini, í skotgröf minni og uppi á himnum. Guð sýndi sig ekki jafnvel þótt hjarta mitt hrópaði á hann. Húsin voru hrunin, mennirnir ýmist hugrakkir og ragir, rétt eins og ég. Á jörðu var hungur og morð, frá himninum rigndi eldi og sprengjum, bara Guð var ekki þar. Nei, faðir minn, Guð er ekki til. Aftur skrifa ég það og ég veit að það er hræðilegt að lýsa þessu yfir og ég mun ekki geta bætt þér það upp. Ef Guð er til, er hann aðeins með þér í sálmum og bænum, í trúræknum orðum presta og preláta, í hljómi kirkjuklukkna og ilmi reykelsa, en ekki í Stalíngrad.
Það þarf ekki að undra að djúphugull guðfræðingurinn brást við sambærilegri afstöðu sem hlýtur að hafa birst víða við þessar aðstæður. Þjáning og dauði blasti við fólki sem statt var á átakasvæðum þessa skeiðs, hvort heldur það voru vígvellir eða sundursprengdar borgir. Bonhoeffer spurði, hvort Guð væri í því hlutverki að bjarga öllu á ögurstundu, rétt eins og í grísku leikritunum þegar guðinn sveif niður yfir leiksviðið undir lok sýningarinnar og greiddi úr öllum flækjum. Bonhoeffer hafnaði því að Guð Biblíunnar kæmi í þeim skilningi inn í líf okkar eins og, deus ex machina. Það væri einmitt freisting hins trúaða að ná tökum á Guði með trúrækni sinni, en að endingu væru sumar hliðar Guðs okkur huldar, eins og Lúther kenndi. Við fáum aldrei skyggnst inn í innstu leyndardóma Guðs. Okkar hlutverk er að axla ábyrgð sem manneskjur, veita stuðning, huggun, áminningu og þá þjónustu sem gerir kirkjuna að því sem hún er.
Vítt og þröngt samhengi
Út frá þessu tvenns konar sjónarhorni má segja að Fangelsisrit Bonhoeffers mæti okkur bæði í hinu stóra samhengi, mannlegs samfélags, yfirráða þess og forsendna valdsins og svo þegar kemur að samvisku mannsins og stöðugri leit hans að tilgangi. Þau tala til kirkju sem skynjar að það þrengir að. Gömlu góðu dagarnir eru að baki, ef þeir voru þá nokkurn tímann eins góðir og menn kannske töldu. Áskoranir okkur eru ætíð þær sömu. Hlutverk guðfræðingsins í samfélaginu verður aldrei skilið frá hinni spámannlegu köllun, að tala máli mannúðar, umhyggju, hógværðar og þjónustu inn í tíma sem oft einkennast af sérhyggju og græðgi. Með sama hætti á guðfræðingurinn að veita huggun þeim sem horfir inn í svartnætti tilgangsleysis og benda á þann tilgang sem býr í hjarta hvers manns. Tilgangurinn verður aldrei frá manninum tekinn, síst af öllu þótt dyrum sé læst og dauðadómur kveðinn upp. Sá vitnisburður þessa rits situr ef til vill lengst eftir í huga lesandans.
Heimildir: Dietrich Bonhoeffer: Fangelsisbréfin. Gunnar Kristjánsson þýddi (Reykjavík 2015) Dýrð Guðs og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1674. Már Jónsson tók saman (Reykjavík 2005) Last Letters from Stalingrad. Frans Schneider og Charles Gullans þýddu (London 1974).
Erindi, flutt á samkomu í tilefni af útkomu Fangelsisbréfa Bonhoeffers