Það komu margar bækur út fyrir jólin eins og undanfarin ár. Ein þeirra fjallaði um flugslysið í Ljósufjöllum. Þegar ég las þessa bók veitti ég því athygli að á tveimur stöðum a.m.k. tala aðstandendur þeirra sem fórust um að prestur hafi komið í heimsókn. Til annarrar fjölskyldunnar kom presturinn áður en vélin fannst, á meðan enn var óljóst hvort flugmaður og farþegar voru lífs eða liðin og til hinnar fjölskyldunnar kom presturinn um leið og ljóst var að heimilisfaðirinn hafði látist í þessu hörmulega slysi. Í báðum tilvikum tók fólkið fram að gott hefði verið að fá prestinn inn á heimilið.
Frásagnirnar leiddu huga minn að Kirkjunni. Þjóðkirkjunni sem hefur í þjónustu sinni fólk, sem er tilbúið að hugga, styðja og leiðbeina hvenær sem er og hvar sem er. Stofnun sem hefur aðsetur út um allt land og er borin uppi af vígðum þjónum og óvíðum sem bera hana fyrir brjósti og vilja veg hennar sem mestan og bestan. Ekki vegna sjálfra sín heldur vegna þess góða boðskapar sem hún flytur, miðlar og boðar.
Undanfarin ár hefur mér orðið ljóst að viðhorf fólks til hlutverks hennar er ólíkt. Sumir vilja að Kirkjan sé til staðar þegar á þarf að halda, svo sem eins og þegar barn er skírt eða hjón gefin saman. Aðrir vilja að rödd Kirkjunnar heyrist vel jafnt í þjóðfélagsumræðu sem og í daglegu lífi fólks. Enn aðrir vilja að áhrif Kirkjunnar á hugsunarhátt og mótun viðhorfa sé stærri þáttur í samfélaginu en nú er. Og fleiri sjónarmið finnast eflaust í flóru mannlífsins.
Viðhorf fólks eftir búsetu virðast líka vera ólík. Í litlum samfélögum þar sem nándin er mikil og samkenndin rík er minna áberandi það viðhorf að kirkjan þurfi að kynna sig í fjölmiðlum en í stærri samfélögum. Þetta er ekki sagt eftir rannsóknarvinnu heldur tilfinningu. Þegar rætt er við fólk t.d. á Reykjavíkursvæðinu þá virðast margir fá fréttir af kirkjustarfinu í gegnum fjölmiðla en ekki þátttöku eða af afspurn eins og í minni samfélögunum. Munurinn á viðhorfum fólks eftir búsetu kemur því fram í afstöðu til kirkjunnar eins og til annarra málefna samfélagsins. Búseta hefur áhrif á viðhorf.
Sjálf vildi ég að fleiri kæmu auga á þá miklu auðlegð sem íslensk þjóð á í kirkju sinni. Þar er mannauður mikill, félagsauður einnig og sjaldan þarf að opna budduna. Það ættu því allir sem vilja að geta nýtt sér starf og þjónustu kirkjunnar. Vilji er allt sem þarf. Það gildir hér sem annars staðar.