Um þjónustuna við hús Guðs

Um þjónustuna við hús Guðs

Kirkjubyggingar og kirkjubúnaður, tónlist og myndlist skapa umgjörð hinnar helgu þjónustu og eru að sínu leyti sá þáttur hennar sem hefur hana almennt til vegs og þeirrar dýrðar sem helst má mikla nafnið Drottins.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
21. desember 2012

Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér, og ræktu hana vel. Kól 4:17

Til þess að fram megi fara almenn guðsþjónusta verður að vera kirkjuhús og það þarf að halda svo að það sé verðugt hlutverks síns. Kirkjubyggingar og kirkjubúnaður, tónlist og myndlist skapa umgjörð hinnar helgu þjónustu og eru að sínu leyti sá þáttur hennar sem hefur hana almennt til vegs og þeirrar dýrðar sem helst má mikla nafnið Drottins. Allt skapar það tilteknar forsendur fyrir sjálfa tilbeiðsluna.

Nú skulum við strax forðast að missa okkur og gerast of stór í sniðum og ekki hugsa einvörðungu um stórkostlegar messur í hátimbruðum kirkjum með frumsamda tónlist og dýran skrúða. Skreppum norður á Stað í Grunnavík. Þar er gömul kirkja, myndarleg eftir hætti. Það var nýlega farið að nýta hana aftur eftir að byggðirnar tæmdust þar þegar mig bar að garði með unglinga um sumarsólstöður 1979. Við ætluðum að fá að koma í kirkjuna og hafa þar helgistund. – Það gerði reyndar hret sem sligaði niður tjöldin okkar þarna um Jónsmessuna! – Þegar okkur gaf til kirkjunnar var hún Steinunn Guðmundsdóttir sem þarna var með sumarhús búin að gera hana hreina og taka fram kirkjugripina og prýða allt svo vel. Málningin var að vísu svolítið flögnuð af veggjunum og gólfinu reyndar líka, en þetta var allt hreint og þrifnaðarlykt í kirkjunni. Við tókum öll eftir þessu og hefðum þó tekið meira eftir ef hún hefði látið þetta ógert. Það sem okkur var ekki ljóst var það að hún hafði orðið að þvo úr köldu og bera með sér áhöldin og kirkjugripina hálftíma gang. Hún bað okkur svo að fyrirgefa að hafa ekki gert þetta betur. Virðingin fyrir húsinu og tilgangi þess var mikil og augljós hjá þessari konu.

* * *

Þjónustan við hús Guðs á sér langa sögu og í gamlatestamentinu má lesa um þjónustu ættbálks Levítanna bæði í tjaldbúð Móse og musteri Salómons og svo síðar við endurreisn musterisins undir þeim Esra og Nehemía. Þar er að finna ítarleg fyrirmæli um þessa stoðþjónustu helgihaldsins. Hún er þar umfangsmikil og marggreind. Skipulag hennar byggðist á því að menn voru fráteknir til þessarar þjónustu frá almennum skyldum svo þeir gætu helgað sig þjónustunni, svo sem segir:

Þú skalt gefa [prestunum]Aroni og sonum hans Levítana. Þeir skulu fengnir honum og greindir frá öðrum Ísraelsmönnum til þjónustu hjá honum. 4 Mós 8:9

Verkefni þeirra fólust í umhirðu musterisins, gæslu þess, söng og hljóðfæraleik, aðstoð við prestana í helgiathöfnunum með meiru. Og þeir vor launaðir með tíund tekna allra annarra sem höfðu afrakstur af starfi sínu.

Í kaþólskum sið sinntu munkar og nunnur, ásamt leikum bræðrum og systrum þessum verkefnum í stærri kirkjum og höfðu uppihald hjá reglum sínum. Hér hjá okkur átti kirkjubóndinn og hans fólk skyldum að gegna í þessu efni. Hann var í sumum tilfellum staðarpresturinn og þá var heimilisfólk hans í þessari þjónustu.

Um allan aldur hafa einhverjir orðið til þess að halda við húsum Guðs og hirða þau og prýða. Litlum afskekktum húsum og stórum helgidómum. Það getur aldrei aðeins orðið vinna, heldur ávallt þjónusta við hið heilaga. Ég varð glaður er menn sögðu við mig: „Göngum í hús Drottins.“  Sálm 122.1

* * *

Um margt getur verið að sinna í stórri og tíðsóttri kirkju, í mörg horn að líta. Það þarf að skúra, en líka sjá til þess að skrúðinn fari vel á prestinum; það þarf að taka til eftir kóræfingarnar og líka að setja upp númerin fyrir messuna; það þarf að auglýsa messuna og líka að hringja til hennar; það þarf að halda utanum kirkjureikningana en líka að lesa meðhjálparabænina; það þarf að ná í kerti, brauð og vín en líka borga organistanum - og er aðeins fátt eitt talið.

Kirkjur geyma ýmis listaverk og eru sjálfar listaverk. Því er mikils um vert að um það allt sé hirt af þekkingu sem og kostgæfni. Þannig er krafist fagmennsku um verkefnin. Það þarf að sinna hverjum hlut eftir eðli hans og gerð. Við sjáum þessu helst bregða fyrir almannasjónir í breskum framhaldsþáttum þar sem fyrir augu ber þjónustufólk sem hefur sérstakt verklag til umsinningar eftir því sem við á. Efni til umhirðunnar þarf að velja af þekkingu svo þau lagi en skemmi ekki, hvort það er þrif eða viðhaldsaðgerðir. Handbragð og aðferð þurfa að vera yfirveguð svo árangur náist. Regla og athygli þurfa að ríkja svo öllu sé til skila haldið.

Þessu fylgir oft mikill metnaður hjá þeim er sjá í þessu varðveislu verðmæta sem hafa ekki aðeins fjármunalegt gildi, heldur einnig listrænt, menningarlegt eða tilfinningalegt gildi fyrir fólkið sem gaf og á og nýtur.

Málverk og skrúði forganga ef forvörslu er ekki sinnt. Hluti hennar er þessi umhirða og til forvörslunnar kemur í raun þegar umhirðan bregst eða mætir takmörkunum sínum.

Lagfæringar á húsi og húsmunum lengja líf þeirra og umhirðan seinkar viðhaldsþörf. Glöggt auga kirkjuþjónsins sér eftir hvaða viðbrögðum er kallað í tíma og kostnaðarsömum aðgerðum er forðað.

Vinnudagurinn getur því orðið langur og verkin tekið á kraftana, úthaldið og árveknina. En þetta starf á sér sín sérlegu fyrirheiti:

Hann mun hvorki láta þig missa þrótt né yfirgefa þig fyrr en öllu verki í þáguþjónustunnar í húsi Drottins er lokið. 1Kron 28:20

Verkið á sér einnig sitt yndi og margir kirkjunnar þjónar af öllum stigum hafa borið því vitni að

einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir. Heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dveljast í tjöldum óguðlegra. Sálm 84:11

Já, það er vernd í húsi Guðs fyrir því leiðinlega í heiminum. Þar ríkir fágætur friður og hann ber þjónum hans að vernda og næra. Það gerist með viðmóti gagnvart þeim sem þangað koma og vörnum við ófriði hverskonar sem annars slagið vill berast þangað inn með ólíku móti. Þá getur maður stundum þurft að vera fastur fyrir en jafnvel selja upp helgi Guðshússins fyrir friðinn og lífið ef það útheimtist. Drottinn verndar hús sitt og endurreisir það ef með þarf. Það er því mikilvægt að það fólk sé valið af kostgæfni sem til þjónustunnar við hús Guðs gengur. Að það sé vandað og duglegt fólk og hafi í sér náðargáfuna sem til þarf, og þá með að elska Guð og staðinn þar sem nafn hans býr. Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. 1Kon 8:29

* * *

Mér sjálfum þótti þegar ég kom að Dómkirkjunni sem ég væri orðinn hjól í gangvirki líkt og klukkunni í turninum. Stundum snerist ég og stundum ekki en gangvirkið gekk sinn gang og afmarkaði messur og næturhvíld og það allt annað sem þurfti að gerast til þess að öllu yrði til skila haldið.

Ég vitna til postulans sem segir að greinarmunur sé á náðaráfum en andinn sé allt um það hinn sami.

Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami, mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami.  Mismunur er á framkvæmdum en Guð hinn sami sem öllu kemur til leiðar í öllum.  Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðrum gagn. Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft að mæla af þekkingu. Sami andi veitir einum trú, öðrum lækninga-gáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.  1Kor 12:4-11

Ég nem hér staðar við það að framkvæma undur. Hún má oft undrum sæta sú alúð, elja og þolinmæði sem þeim er gefin sem sinna um hús Guðs og búa þeirri starfsemi sem þar fer fram hæfilega umgjörð. Vanefni og duttlungar skerast þar oft í leikinn ásamt mörgu öðru en dyljast á undursamlegan hátt og gjarnan án þess að nokkur maður hafi orðið var við. Úr nánast engu hefur eitthvað orðið til sem alltaf hefur vantað þó enginn annar hafi getið sér þess til áður. Brýnar þarfir eru uppfylltar eins og fyrir undur.

Allar þessar náðargjafir sem taldar eru og fleiri reyndar verða að starfa saman og öll verkin verður að inna af hendi af kostgæfni ef af vegsamlegri guðsþjónustu á að verða. Það getur fleira skaðlegt skeð en það að organistinn komist ekki til messu í tæka tíð, eða hafi mislagt nóturnar sínar, presturinn ekki með sjálfum sér eða ræðunni sinni. Músagangur í kirkjunni getur valdið verulegri truflun og eins það að skúringarfatan kirkjuvarðarins hafi skilist við hann við altarið. Kostgæfni og áreiðanleiki, vandvirkni og fyrirhyggja eru eignleikar sem allir þjónar kirkjunnar hljóta að temja sér ef þeir vilja inna af hendi verðuga þjónustu við hús Guðs. Sérhver einn þeirra setur öðrum fordæmi og ekki þarf það að vera síður umhirðumaður eða meðhjálpari en aðrir sem geta veitt það og lyft þjónustunni allri upp. Ég held að vel megi nefna Andrés Ólafsson kirkjuvörð í Dómkirkjunni til margra ára á síðasta kvartili liðinnar aldar í þessu sambandi. Nákvæmni hans og virðing hefur orðið okkur mörgum að fordæmi og eftirmenn hans hafa varðveitt það trúlega og þannig stuðlað að vegsemd þeirri sem þjónustan í því húsi markast af.

Okkur er öllum verðleiki af því að læra af góðum mönnum og í þeirri auðmýkt verður þjónustan í réttum anda.

Tileinkað Ástbirni Egilssyni, kirkjuhaldara Dómkirkjunnar, sjötugum.