Lærisveinar á villigötum

Lærisveinar á villigötum

Það er eitthvað einstaklega nöturlegt þegar kuldinn, hatrið og hin mannfjandsamlega hugsun birtist okkur í nafni háleitra hugmynda trúarbragðanna. Ef slíkt er mögulegt hjá fylgismönnum Múhameðs, af hverju þá ekki hjá lærisveinum Krists?

Hvað er þetta með trúarbrögðin? Endalaus saga átaka og erfiðleika? Fullorðið fólk vinnur hin verstu óhæfuverk í krafti þess að það á sér trú í hjartanu sem því miður leiðir það inn á háskalegar brautir. Morðin í Parísarborg setja að okkur óhug og fá okkur til að endurskoða ýmsa mikilvæga þætti í samfélagsgerð okkar og menningu.

Guðlast

Skothvellirnir höfðu vart þagnað þegar upp kom sú umræða hér á Íslandi hvort lög um guðlast væru ekki dæmi um úrelda löggjöf og í raun hættulega hugsun. Er hún ekki af sama meiði sprottin og sú spillta menning sem hryðjuverkin spretta upp af? Tilveran er þó flóknari en svo að málin verði útkljáð með þeim hætti. Ofstækismenn úr röðum múslíma sem annarra eiga sér margbrotnari bakgrunn. Þar birtist okkur endurómur þjóða sem misst hafa sjálfstæði jafnvel lönd. Pólitík og þjóðernishyggja eru ekki síður sökudólgar að slíkum voðaverkum en trúin. Vissulega er sú raunin, en hitt blasir við jafn skýrt að mörg ódæðisverkin eru unnin af einhvers konar trúarlegum innblæstri.

Það er eitthvað einstaklega nöturlegt þegar kuldinn, hatrið og hin mannfjandsamlega hugsun birtist okkur í nafni háleitra hugmynda trúarbragðanna. Ef slíkt er mögulegt hjá fylgismönnum Múhameðs, af hverju þá ekki hjá lærisveinum Krists?

Lærisveinar á villigötum

Og mitt í þeim hugleiðingum lesum við þann texta ritningarinnar sem líklega flestir hafa hlýtt á. Orð Jesú Krists um börnin heyrum við lesin við skírn ungbarna og í okkar huga er fátt eins fjarri hávaða og ofbeldi, eins og lýsingin á því þegar frelsaranum sárnaði við það þegar lærisveinarnir meinuðu börnunum að koma til hans. Hinn hreini hugur birtist iokkur nú, andspænis tíðindum af voðverkum. En á sama tíma lesum við um þessar andstæður - annars vegar vilja Krists og hins vegar hegðunar fylgismanna hans.

Já, af hverju meinuðu þeir fólkinu að færa börnin sín til meistarans? Börn voru ekki í miklum metum um þetta leyti. Virðing og verðmæti fólks var háð því sem það gat, unni og afkastaði. Börnin voru samkvæmt því í litlum metum. Hátt settir menn og vitrir, Rabbínar og menn trúarinnar þóttu yfir það hafnir að verja tíma í návist svo ófullkominna einstaklinga.

Auðmýkt og yfirlæti

Jesús kom ekki til þess að velja úrvalsfólk inn í ríki Guðs. Jesús sá það góða í hverri manneskju og gerði ekki kröfur um fullkomnun. Þessi texti er í raun eitt merki þeirra miklu umskipta sem áttu eftir að fylgja boðskap Jesú. Börnin voru í hans augum svo dýrmæt að honum sárnaði þegar þeim var meinað að nálgast hann. Já, þetta er eitt dæmi þeirra kafla í ritningunni þar sem Jesús sýnir sterkar tilfinningar, hryggð, og það er í raun tengt ákveðnu trúarlegu ofstæki sem frásögnin lýsir. Sumir voru taldir óverðugir því að mæta Jesú, í þessu tilviki börnin. Og við finnum fyrir því að sú árátta margra sem telja sig tala fyrir tiltekin trúarbrögð felst í því að velja úr. Sumir eru ásættanlegir og aðrir ekki. Sumum er hampað, aðrir eru fordæmdir og hataðir. Þessi hlið trúarbragðanna er nátengd sögu þeirra en guðspjall dagsins er eins og fyrirboði þess veruleika.

Guðspjallið um Jesú og börnin snertir á mikilvægum flötum sem einmitt tengjast umræðu dagsins. Þau sýna hversu ólíkum augum Kristur horfir á náungann, miðað við það sem á við um margan trúmanninn. Þau lýsa hryggð Jesú við ofsafengnum viðbrögðum talsmanna sinna. Það er eins og til að minna okkur á að þau verk sem menn vinna í nafni trúar sinnar eru oft í hróplegu ósamræmi við þann kærleiksboðskap sem þeir kenna sig við. Jesús verður hryggur þegar kærleikurinn er órafjarri verkum trúmannsins.

Í þessu tilviki birtist það okkur þegar fylgismenn Krists standa í veginum fyrir því að fólk geti látið hann blessa börnin. Sakleysið lætur undan, hin skilyrðislausa ást er ekki inni í myndinni fyrir ofstækismanninn. Allt ber hér að sama brunni.

Orðin sem við þekkjum svo vel: Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, eiga erindi við alla lærisveina Jesú. Þau tala til okkar þegar við reynum að taka á móti Guðs ríki, ekki eins og barnið í þakklæti og auðmýkt, heldur eins og sá sem þykist hafinn yfir önnur systkini sín og dæmir náungann skefjalaust.

Um leið fyllumst við auðmýkt og þakklæti, finnum að við eigum eitthvað dýrmætt í sálu okkar, eitthvað sem gefur okkur kraft til að vinna verk ljóssins og gera heiminn að betri stað til að lifa í.