Ekkert að sjá?

Ekkert að sjá?

Horfir þú á páska og jafnvel þitt eigið líf þröngt og naumt? Eða þorir þú að strekkja og víkka heimssýn þína? Birtingur heimsins.

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Gleðilega páska. Megi ljós páskanna lýsa þér, verma þig og lífga. Páskarnir eru birtingur heims. Allt sést með öðrum hætti ef páskar verða í lífi okkar. Heimurinn verður öðru vísi. Jafnvel Guð breytist við páska.

Hvað sést Skammt utan við borgina München í Þýskalandi er Dachau, lítill staður með stóra sögu. Ég átti einu sinni leið til München og fór þá til Dachau. Ég vissi fyrirfram ofurlítið um staðinn og hafði kynnst fólki sem hafði misst ættingja sína í Dachau. Talsvert sálarslítandi var að lesa helfararbækurnar en grípandi og nístandi að hugsa um mismunandi viðbrögð fólks í dauðabúðum. Þessar bækur halda að manni íhugun um merkingarleysi og lífsmöguleika. Meðal þess sem ég hafði lesið var viskubók Viktor Frankl Leitin að tilgangi lífsins, en Frankl var um tíma fangi í Dachau. Yfir búðahliðinu var stóð: Arbeit macht frei – vinna er til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari hinum megin hliðs og innan girðingar. Auk Gyðinganna höfðu margir pólitiskir fangar verið þar vistaðir og líka fargað, fólk sem hafði það eitt unnið til saka að vera ósammála stefnu valdhafa Þýskalands. Meðal þeirra var hinn kunni kennimaður Martin Niemöller.

Skálarnir, húsin og minnismerki búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerki um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, magur og hrjáður Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, bróðir harmkvælamanna. Gyðingaminnisvarði er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll var byggingin myrk, tilfinningin fyrir grjóti var sterk, þetta var eins og grafhvelfing – minnti mig á grafarhvelfingu Jesú. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan var sem vonarslóð - páskaleiðin.

Rósir Á skírdagskvöldi var altari þessarar kirkju strípað og borðbúnaður veislu himinsins fjarlægður og borinn út. Fimm rósir voru lagðar á altarið til tákns um sár Jesú Krists. Blómin liðu langan föstudag í kirkjunni og eru sem tákn.

Nekt altarisins er sem tákn um vandkvæði og hörmungar í lífinu. Allir menn verða einhvern tíma fyrir andstreymi, veikindum, gjaldþroti af einhverju tagi. Að láta sem ógæfan eða vandkvæðin væru blekking hefur aldrei verið gæfulegt ráð eða til bóta. Japanska skáldið, Miyasawa Kenji, benti á eins og margir aðrir vitringar, að til að vinna sigur á þjáningu megum við menn ekki flýja hana heldur ættum fremur að viðurkenna hana, umfaðma hana og nýta síðan til lífsbóta. Í þessu er fólginn mikilvæg leiðarlýsing til bata og léttis. Miyasawa Kenji setti fram sláandi mynd í ljóði, sem hann samdi um rósaburð og má nýta í páskasamhengi til íhugunar. Í einfaldri samantekt segir í ljóðinu: Ímyndaðu þér, að þú haldir á fölnuðum, dauðum rósum. Þyrnarnir stinga og freistandi er að sleppa þessum særandi blómum. En í stað þess að gefast upp gengurðu af stað og í átt til eldstæðisins nærri. Þú hendir rósavendinum í eldinn. Í þeim kviknar, eldurinn lifnar, vermir og lýsir. Í þessum rósaburði, birtast stig sorgarvinnu og hvernig unnið er með þjáningu. Það er að viðurkenna vandann, síðan að ganga með hann en að lokum að varpa honum í eldinn. Allir, sem hafa átt við eldstæði í köldu rými, kannast við hve vermandi er þegar eldur lifnar, hiti vex og lífsaðstæður batna. Rósaburðurinn er ferli manna í bata og við getum notað það ferli til innsæis á afstöðu Guðs. Við megum íhuga rósaburð frá sjónarhóli Guðs.

Eldur Guðs Rósir eru sem tákn heimsins. Guð viðurkennir vanda veraldar, tekur menn og heim í fangið, eins og rósabúnt - faðmar veröldina, leggur af stað með meinvald í fanginu, heldur út sársaukann, fer alla leið og sleppir síðan öllu því sem hrellir og hryggir. Bálið lifnar, til verður lausn, meinið er frá, lífið lagast. Glóðin funar, hiti vex til hagsbóta fyrir líf í vanda og sorg. Páskaundrið má íhuga með þessum hætti. Páskar eru undur himinsins eftir að gert hefur verið upp við sorg og höfnun. Því hefur verið eytt sem menn ollu, allt böl er uppgert, reikningar sléttaðir, lífið bætt. Mál mannheima hefur verið gert upp í máli guðsheima.

Heimssýn Hvað hefur hrjáð þig í lífinu? Hvað hefur reynst þér erfiðast og hörmulegast? Þínir föstudagar sem eiga sér samfellu í máli bænadaganna. Eftir ljósleysu liðinna daga dansar sólin. Við megum gleðjast og fagna. Allt er nýtt, allt er breytt. Hefur eitthvað breyst og sérðu þá breytingu? Hver er heimssýn þín? Fjöldi fólks sér í páskviðburðinum ekkert annað en óra, viðurkennir ekki boðskap sjónarvotta og allra þeirra sem sáu hinn látna Jesú Krist lifandi. Hvaða skoðun hefur þú á páskamálinu, að lífið lifir? Allir þeir sem aðhyllast lokaða og sjálfstilvísandi heimsmynd viðurkenna ekki annað líf en það sem efnisvísindi geta staðfest. Þar með er öllu hafnað sem er utan seilingar fræðanna. Slíkir menn munu aldrei viðurkenna upprisu nema sem óefnislegan upplifunarþátt á sviði tilfinninga. Jesús Kristur hafi ekki risið upp nema í tilbeiðslu frumkristninnar. Líkami hans hafi rotnað, en andi hans orðið til vegna samsinnis, samtals, samfélags og samskynjunar. Allt annað megi síðan skýra og túlka með hjálp mannvísinda, t.d. fagurfræði, sálfræði, mannfræði og félagsvísinda og hafi ekkert með efnisvísindi að gera.

En þótt menn skilgreini vísindi þröngt og vilji marka greinum skýr verkefni og umfang er ástæðulaust að smætta heiminn. Óþarft er að njörva heimssýn niður og þrengja túlkun heims. Við megum leyfa okkur að vera opin gagnvart öðrum víddum en hinum efnislegu. Vísindi hafa ekkert með að gera hvort Guð er til eða ekki, hvort tilgangur ríki í veröldinni eða ekki, hvort ástin eigi sér djúpa skírskotun handan æxlunarþarfa. Raunvísindi geta ekkert sagt um Guð og eiga ekkert að segja um þann veruleika, sem er og má vera utan seilingar þeirra. Ef Guð er ekki til eru engir páskar, en ef Guð er til og elskar heim er von. Í því ljósi nálgast kristinn maður boðskap páskanna. Á þeim forsendum túlka ég líf og nálgun Guðs í boðskap um að Jesús Kristur lifnaði og birtist. Mér hefur verið innrætt í háskólaheiminum að gera kröfur til fræða en ég held að það séu skottufræði sem krefjast þess, að Jesús Kristur liggi enn í gröf sinni. Slík fræði eru á villigötum.

Sjónarhóll Á leiðinni til Dachau voru í sömu lest og ég nokkur bandarísk ungmenni. Ég talaði við þau á leiðinni og þau sögðu mér að þau væru á lestarreisu, Interrailferð, í Evrópu. Þau fóru hraðar yfir en ég þegar inn í búðirnar var komið, voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana og ég heyrði að þau sögðu hvert við annað: “Hér er ekkert að sjá.” Þau settust niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin, þau voru í huga þeirra sem komu. Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo.

Ljósið Svo er það með líka með páska. Við getum orðið föst í kyrruviku lífsins, farið á mis við að sjá hve dramatískt lífið er, farið á mis við að skoða möguleika í lífi okkar og lífshætti. Við getum tamið okkur lokaða heimssýn í stað opinnar. Við getum orðið föst í einhverri sprungu föstudagsins langa eða lokast á laugardegi og aldrei upplifað páska. Páskarnir eru opnun, að horfa upp, komast upp úr byrginu, að sjá að bjargið sem hefur verið okkur farartálmi er farið og hefur verið velt frá. Okkur getur jafnvel lánast að sjá engil sitjandi á grjótinu. Boðskapur hans er: Jesús er ekki hér, hann er farinn, hann er farinn á undan ykkur, farin heim. Og það merkir að lífið er stórkostlegt. Guð er annarrar víddar en við en þó nálægur. Það merkir líka þú ert svo mikils virði, að Guð leggur á sig að vera með þér í stóru og smáu. Guð hefur þegar lagt sprekin á eldinn og ljósið leikur um veröldina. Frá arni heimsins leggur bæði hita og ljós. Það er til að efla lífsgæði okkar allra. Hver sem þú ert, hvað sem þú hefur gert, hvernig sem þú hefur iðjað, hversu djúpt sem þú hefur sokkið, hversu miklar sem raunir þínar hafa orðið er samt von, ljós þarna langt uppi. Það ljós er úr arni himinsins, sem yljar allri veröld. Þú ert minn og ég er þinn er mál þeirrar birtu og elsku. Við upphaf heims sagði Guð: Verði ljós. Í lífi, starfi og lífsrisi Jesú Krists var það endurtekið. Í þínu lífi, líka í myrkrinu er hvíslað: Verði ljós. Það er mál upprisunnar.

Amen

Páskamorgun, Neskirkja, 24. apríl, 2011.

Hægt er að hlusta á upptöku á slóðinni http://db.tt/gziOQl7