Af meintri skaðsemi trúarinnar

Af meintri skaðsemi trúarinnar

Um leið og við hljótum að fagna framrás fræðanna, ættum við að fara varlega í sakirnar þegar við drögum ályktanir af því sem fyrir okkur er upp lokið hverju sinni.

Einu sinni var ég við nám í Kaupmannahöfn. Þetta var góður tími í þessu merkilega umhverfi þar sem sagan talar til manns, nánast á hverju götuhorni – eins og stundum er sagt. Það átti ekki síst við þegar leiðin lá á konunglega bókasafnið sem stendur þar skammt frá Kristjánsborgarhöll.

Tvær styttur

Áður en komið var að dyrunum, var gengið inn í lítið port. Þar er stytta af manni sitjandi á stól með bækur allt í kringum sig. Þetta er hann Sören Kierkegaard, einn af merkustu hugsuðum dana fyrr og síðar. Kierkegaard mótaði nýja hugsun sem átti eftir að ryðja sér leið inn í danskt og síðar evrópskt samfélag á 19. og 20. öld. Þetta var tilvistarspekin og sú samræðuhefð sem í kringum hana þróaðist. Ef okkur rekur stundum í vörðurnar yfir því hversu duglegir Danir eru að rökræða um heima og geima – þá er það að einhverju leyti hans arfleifð sem teygði sig inn á ótal svið menningarinnar. Svo stoltir eru þeir af honum Sören að þeir helga honum þennan stað, eins og til þess að minna gesti og gangandi á þann mikilvæga fjársjóð sem býður þeirra þar innandyra. Það er alveg þess virði að ganga í kringum styttuna af honum og skoða þennan hugsuð. Eftir inn var komið, var gengið upp enn fleiri tröppur og upp á efri hæðina.

Þar blasti við augum brjóstmynd af öðrum frumkvöðli – Nikolai Grundtvig. Þetta er einn af helstu mótendum skólakerfisins danska og þá einkum lýðháskólanna sem stofnsettir voru víða á 19. öld og þeirri 20. Fyrir tilstilli þeirra var vítahringur fátæktar víða rofinn þegar börn alþýðufólks fengu skyndilega tækifæri til þess að þroska hæfileika sína og mennta sig til þjónustu á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Hér á Íslandi risu nokkrir slíkir, allt vestan frá Dýrafirði og austur á hérað og væri saga okkar víst gerólík ef ekki hefði verið fyrir þær skólastofnanir.

Danir og skaðsemi trúarbragða

Af hverju rifja ég þetta upp núna? Jú, vegna þess að í umræðunni undanfarið hefur verið fjallað um góð og slæm áhrif á menningu. Tilefnið er könnun sem gerð var, einmitt í Danmörku sem leiddi í ljós að 40% aðspurðra töldu trúarbrögð hafa skaðleg áhrif í heiminum. Þetta er merkileg niðurstaða og hún var einmitt viðfangsefni Árna Bergmann, rithöfundar, sem sótti okkur heim nú á miðvikudaginn var, á Góðu kvöldi í kirkjunni.

Árni gerði könnunina að umtalsefni sínu og færði sjálfsögð og eðlileg rök fyrir því að því fari fjarri að ferill trúarinnar í heiminum sé jafn blóðugur og sumir halda fram. Miklu nær væri að tala um bætandi áhrif, enda eiga trúarbrögðin það sameiginlegt að hafna valdi hins sterka og benda á virðingu og kærleika sem hinum æðstu gildum fremur en valdafýsn og yfirgang.

Hrakti hann hverja ásökunina á fætur annarri. Fyrst þá vinsælu kenningu að trúarbrögðin hafi kostað fjölda styrjalda og ófriðar. Vitaskuld fer því víðs fjarri að svo sé. Vissulega tengjast stríð og róstur stundum átökum ólíkra trúarhópa, en það útilokar alls ekki, að önnur sjónarmið hafi þar haft áhrif – fyrst og fremst ólík skipting lífsgæðanna, ótti og græðgi og annað það sem hrekur okkur út af hinni réttu braut. Hann fór yfir uppgang öfgafullra múslíma og benti á það hversu ný sú hreyfing væri af nálinni. Fyrir fáum áratugum var það pólitísk hugsjón sem hvatti öfgamenn áfram og þjóðernisást. Ísrael hefði verið stofnað í óþökk vesturveldanna, raunar var það Stalín sem fóðraði í fyrstu andspyrnuhreyfingu gyðinga á vopnum og fjármunum. Upptökin voru því pólitísk en ekki trúarleg þótt síðar ættu deilurnar eftir að taka á sig þá ásjónu.

Krossferðirnar á 12. og 13. öld þar sem herir kristinna manna herjuðu á Mið-austurlönd voru vissulega blóðugar, en þær blikna við hlið annarra átaka á sama tíma, svo ekki sé talað um þá skelfingu sem öldin síðasta horfði upp á – einmitt sú öld þegar leiðtogarnir sóttu ekki lengur vald sitt frá Guði heldur stýrðu óheftir í krafti vopna sinna og máttar. Aldrei hafa fleiri fallið í ófriði á nokkurri öld en einmitt þeirri.

Innra eftirlitið

Vissulega hafa stofnanir trúarbragðanna kallað yfir einstaklinga og þjóðir óréttlæti og þjáningar, en þá ber jú að horfa til þess hvernig hinar sömu stofnanir, hafa sjálfar ýtt af sér því oki. Innan kirkjunnar urðu til siðbótarhreyfingar sem réttu af kúrsinn hvað eftir annað þegar allt virtist stefna í óefni.

Árni spurði hvar væri heimurinn ef ekki væri fyrir trúna og svaraði því til að hann væri miklu verri staður. Trúin er ótrúlegur máttur sem hefur stundum leitt til ills en hefur í miklu fleiri tilvikum leitt til mikillar blessunar.

Afnám þrælahalds var rökstutt með Biblíuna að vopni. Það er ekki flókið. Guð skapaði alla menn jafna. Baráttan gegn kynþáttahyggju var að sjálfsögðu studd sömu rökum. Kommúnisminn í Austur Evrópu fékk sitt náðarskot í kirkjunum þar sem fólk safnaðist og fór saman með bænir, hlýddi á erindi og söng. Tungumál sem hverfa hvert af öðru í eyðingarmætti nútímans hafa varðveist vegna starfs trúboða. Helstu háskólar Evrópu eru upprunalega prestaskólar, sem voru stofnaðir á þeim tíma sem við köllum því villandi nafni, miðaldir. Á þeim tíma var unnið ótrúlegt starf við löggjöf og réttarheimspeki sem varð grunnurinn að því sem við köllum vestræna menningu.

Háskólinn okkar sem fagnar 100 ára afmæli á þessu ári byggir líka á kirkjulegum grunni. Rætur hans liggja austur í Skálholti og Norður á Hólum þar sem prestar voru menntaðir í klassískum fræðum. Síðar fluttist námið til Bessastaða og árið 1911 var embættismannaskólinn stofnaður sem kallaður var Háskóli Íslands. Síðan þá hefur hann verið í farabroddi þekkingar og rannsókna á Íslandi, rétt eins og háskólar eiga að vera.

Skaðleg áhrif?

Danir af öllum mönnum ættu ekki að fella slíka dóma. Þegar ég heyrði um könnun þessa varð mér einmitt hugsað til þessara tveggja mikilmenna sem ég ræddi um hér í upphafi. Þeir hafa verið valdir úr hópi fjölda naftogaðra dana til þess að varða inngönguna í sjálfan þjóðarhelgidóminn – konunglega bókasafnið. Sören Kierkegaard og Nikiolai Grundtvig voru báðir vígðir prestar og heilög ritning var innblástur þeirra og helsta kennivald. Það var á grunni Biblíunnar sem þeir hófu sitt umbótastarf, hvor á sínum vettvangi. Kierkegaard benti á það hversu stöðnuð danska kirkjan væri orðin og hve miklu þurfti að breyta. Hann horfði djúpt inn í hjarta fólks og fann þar angist og ótta og hann benti á lífgefandi mátt trúarinnar sem nærir og græðir sundraðar sálir. Grundtvig sá möguleikana á því að efla menntun og bæta danska menningu á svo mörgum sviðum. Án þessara tveggja manna væri dönsk menning vart svipur hjá sjón miðað við það sem nú er – að minnsta kosti væri hún gerólík.

Það er trúin sem hefur þessi áhrif. Og hver er þessi trú? Postulinn orðar það svo:

Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs. Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.

Já, það er þessi leiðarstjarna sem lýsir hinum trúaða áfram veginn. Þetta er ekki lítils virði. Án þessa leiðarljóss missum við sjónar á því hvert við eigum að stefna.

Í ljóma upplýsingar

En hvers virði er þetta fyrir samfélag sem er upplýst og hefur alla þekkingu innan næsta músarsmells? Já, við höfum gjarnan þá sjálfsmynd að við lifum á tímum vísinda og fræða og þar gangi sífellt á þau svið veruleikans sem eru hulin myrki fáfræði og fordóma. Eða er það ekki svo? Fáum við ekki sífellt meiri og meiri vitneskju um heiminn sem við lifum í

Jú vissulega.

Og verður þessi þekking ekki til þess að staðhæfingar eins og sú sem hér var lesin – um að trúin sé sannfæring um það sem ekki er auðið að sjá – eru úreldar og marklausar?

Ekki fyrir nokkurn mun. Því ferðalagið okkar í gegnum heima vísindanna dregur okkur sífellt inn á nýja og nýja heima sem eru okkur svo algjörlega huldir. Fjarlægðirnar reynast meiri, aldurinn hærri, einingarnar smærri – sú síðasta hefur einmitt fengið nafnbótina: Guðseindin! Hún er hluti af þeim veruleika sem virðist lúta allt öðrum lögmálum en það sem við þekkjum og búum við.

Um leið og við hljótum að fagna framrás fræðanna, ættum við að fara varlega í sakirnar þegar við drögum ályktanir af því sem fyrir okkur er upp lokið hverju sinni. Það væri eins og að nema staðar og segja: Nú er engin ástæða til þess að tala um það sem við vonum og sannfærumst um en eigi er auðið að sjá. Þetta liggur allt opið fyrir okkur. Sá sem svo talar hefur ekki mikla þekkingu á því starfi sem unnið er á rannsóknarstofum, háskólum, bókasöfnum og öðrum þeim stöðum þar sem menn kryfja veruleikann og reyna að skilja hann.

Og sá sem horfir í kringum sig á það umhverfi sem sprottið er úr jarðvegi kristinnar trúar ætti að sama skapi að hugsa sig tvisvar um áður en hann fellir þá dóma að þessi sannfæring hafi kallað meiri þjáningar en blessun yfir það samfélag. Veruleikinn er allur annar. Einu gildir hvert niður er borið – menntun, löggjöf, tungumálið, hinar ólíku greinar listanna – ekkert af þessu væri í þeirri mynd sem við þekkjum það ef ekki hefði komið til kristin kirkja.

Karlarnir tveir sem nefndir voru hér í upphafi áttu sér þessa von og sannfæringu – um hluti sem þeir ekki gátu sannreynt og skilið til fullnustu. Við skulum hlúa að okkar trú einnig því að í henni býr meira afl til framfara en við gerum okkur oft grein fyrir.