Stoðirnar

Stoðirnar

Kirkjunni er stundum lýst með orðinu samfélag – en við erum kannske alveg búin að heyra nóg af því orði. Líklega er það ofnotað. Nei, við eigum miklu betri orð til þess að lýsa því hvað það er sem gerist þegar fólk kemur saman og eflir hvert annað til dáða, huggar hvert annað í sorg og horfir í sameiningu upp til æðri veruleika og háleitari markmiða.

Það var merkilegt hlutskipti að koma hingað til Ísafjarðar fyrir áratug. Þetta voru erfiðir tímar hérna fyrir vestan eins og menn muna. Samfélagið hérna hafði orðið fyrir miklum skakkaföllum. Mörgum leið eins og undirstöðurnar væru að gefa sig, jörðin nötraði undir fótum þeirra eftir náttúruhamfarir og margvísleg áföll í atvinnulífinu. Stoðirnar stóru hér á þessum slóðum létu undan hver á fætur annarri og kom fátt í staðinn sem virtist geta fyllt þau skörð. Smá nostalgía

Við hjónin áttum allan okkar bakgrunn á mölinni sunnan heiða og þótti okkur það ærið ferðalag að halda svo langt sem austur fyrir fjall eða vestur í Borgarnes. Við rifjum það til að mynda oft upp með okkur, fyrsta skiptið sem við ókum hingað – 26. október 1996. Þegar kom í djúpið var orðið harla áliðið og er við ókum Ögurnesið sáum við ljósin á Óshlíðinni og töldum okkur vera þar með rétt ókomin til Súðavíkur.

Eftir að hafa ekið inn Skötufjörðinn, út Hvítanesið og inn Hestfjörðinn þótti okkur, man ég, grunsamlegt að hvergi sæjust ljósin í Súðavík. Við vorum næstum búin að sannfæra hvort annað um að bíllinn hefði einhvern veginn farið í hring á þessum endalausa akstri inn og út firðina og nú værum við aftur á leiðinni suður. Já, þetta hefur heldur betur verið björgulegur liðsstyrkur sem Ísafirði barst þarna. Fljótlega eftir komuna hingað mátti skynja óttamerki og óöryggi sem kom í kjölfar allra þeirra breytinga sem hér höfðu orðið. En þegar komið var dýpra að kjarna þessa samfélags kom í ljós hversu mikinn kraft og styrk var hér að finna. Hér var ekki aðeins áhugi fyrir hendi að reisa samfélagið upp til nýrrar sóknar. Hér var líka frjór jarðvegur til slíkrar endurreisnar. Hlúð að rótunum

Einn vitnisburður um þessa menningu sem hér ríkir er kannske lítill og léttvægur en hann er eftirminnilegur engu að síður. Það var fyrsta veturinn minn hérna og var ég þá kennari í níu ára bekk í Grunnskólanum. Átti ég í mesta basli með að halda frið í skólastofunni og hafa einhverja stjórn á þessum orkuboltum sem nemendur mínir voru. Eitt sinn eftir erilsaman dag í kennslunni sótti ég nemendatónleika í tónlistarskólanum. Átti ég bágt með að trúa augum mínum þegar hver nemandi minn á fætur öðrum birtist á sviðinu, teinréttur og einbeittur, með lúðurinn sinn, blokkflautuna eða eitthvað annað hljóðfæri. Voru þetta sömu börnin og ég hafði verið að orga á fyrr um daginn? Stoðir samfélagsins eru margar og ýmsum þótti sem fátt væri eftir af þeim þegar kvótinn fluttist í burtu eða fiskvinnsluhúsin stóðu tóm og gapandi þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar. En hinar sönnu stoðir samfélags liggja á öðrum stöðum. Þær liggja í uppeldinu, í menntuninni og þeirri menningu sem hér ríkir. Þarna þóttist ég skynja frjómagn þess sem í vændum var. Hér unnu menn líka stóra sigra í málefnum ungs fólks sem er nú að skila sér með margföldum hætti. Gróandinn

Ég ætla ekki alveg að gleyma mér í nostalgíunni en sögur þessar leita á hugann hérna í náttúruparadísinni í Tunguskógi þar sem segja má að sé ein af mörgum orkustöðvum þessa samfélags. Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur hérna til þess að sjá staðfestingu þess hverju má hrinda í framkvæmd þegar hugurinn er laus undan hlekkjum bölmóðs og skammsýni. Einhverjir hafa nú flissað í barm sér þegar menn settur niður hríslur hér í dalnum á fyrri hluta síðustu aldar. En nú eru þar hávaxin tré sem veita okkur skjól og yndi hér í lautinni. Og mörgum hefur vísast þótt það óðs manns æði að endurvekja byggð hér utar í dalnum eftir snjóflóðið 1994. Ísfirðingar þurfa ekki að leita langt yfir skammt til þess að leiða hugann að því hverju má koma í verk þegar hugurinn og hönd vinna saman að settu marki. Staðsetning þessi þykir mér að sama skapi viðeigandi til að kveðja að sinni því hér er sannkallaður helgidómur og þótt kirkjan okkar hér á Ísafirði hafi allt það sem góða kirkju prýðir má ekki líta framhjá því að starfsemi safnaðarins er ekki bundin þeim húsakynnum einum. Nú er líka runnið upp það tímabil í kirkjuárinu þar sem grænn litur er allsráðandi á altarisdúk og messuklæðum. Þetta er fyrsta messan hér eftir að sá litur tók öll völdin og hvar er þá betra að vera en hér þar sem gróandinn og vöxturinn eru allt um kring?

Hús eða fólk?

Þegar við tölum um kirkjuna dettur okkur of oft í hug kirkjuhúsið sjálft með turninum og öllu því sem tilheyrir. En kirkjan hefur fleiri víddir. Kirkjan er ekki háð stund né stað, hún er vettvangurinn þar sem maðurinn mætir Guði sínum og ræktar samfélag við aðra þá sem sækja á sömu mið. Hér koma upp í hugann orð Ragnars H. Ragnars þegar hann talaði um tónlistarskólann. Hann sagði eitthvað á þá leið að skóli væri ekki bygging, skóli væri fólk. Þarna minnir hann okkur á þá staðreynd að sjálf starfsemin stendur og fellur með því hvernig til tekst með þá nemendur sem kennslunnar njóta og þá starfsmenn sem þar starfa. Nei, skóli er fólkið sjálf – skóli er starfsemi. Húsakynnin og aðstaðan þjóna aðeins því marki að efla sjáflt skólahaldið og hlúa betur að sjálfu fólkinu. Hið sama gildir um kirkjuna. Kirkjan er ekki hús. Kirkjan er fólk. Þegar litið er til þeirra starfa sem unnin eru í kristnum söfnuði kemur þetta heim og saman við alla reynslu. Í starfinu í kirkjunni ríkir einmitt slíkur góður andi. Gleðin er mikil þegar fólkið safnast saman til helgrar þjónustu, finnur tjáningarþörf sinni farveg í söng og tilbeiðslu. Í því starfi hvílir sérstök helgi. Fólk skynjar nærveru hins guðlega í helgihaldinu. Það er eitthvað sérstakt við það. Kirkjan er veisla

Og í kirkjunni viljum við hvetja fólk til dáða, hvetja það áfram til góðra verka minnug þess að tilgangur okkar býr í því að þjóna náunganum og ala önn fyrir þeim sem hefur orðið undir í lífinu. Kirkjan veitir huggun og stuðning og minnir okkur á ábyrgð okkar í samfélaginu. Kirkjunni er stundum lýst með orðinu samfélag – en við erum kannske alveg búin að heyra nóg af því orði. Líklega er það ofnotað. Nei, við eigum miklu betri orð til þess að lýsa því hvað það er sem gerist þegar fólk kemur saman og eflir hvert annað til dáða, huggar hvert annað í sorg og horfir í sameiningu upp til æðri veruleika og háleitari markmiða. Það er einmitt gert í textunum sem lesnir voru hérna áðan. Þar er talað um veisluhöld. Já, kirkjunni er lýst sem veislu – glæsilegum selskap þar sem engan hungrar lengur og þyrstir. Hugurinn fer strax af stað þegar minnst er á slíkt samkvæmi. Þetta notuðu menn hið forna til þess að reyna að færa í orð þau undur sem því fylgir að vera hluti af söfnuði Guðs. Veislan: þar hungrar engan né þyrstir. Þar er enginn einmana og afskiptur úti í horni. Nei, þar koma saman kynslóðirnar og allir eru velkomnir. Þetta er samlíkingin sem Kristur notar um kirkjuna: Veisla. Og öllum er boðið að vera með. „Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora.“, segir Páll postuli. Kjarni kirkjunnar er kærleikurinn til náungans sem byggir á fordæmi og boðskap Jesú Krists. „Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.“ Segir Páll í lok þessa texta. Kærleikurinn verður ekki borinn áfram af tómum orðum. Kærleikurinn birtist í góðum verkum. Í gróandanum og samheldninni. Í því þegar menn leggjast á eitt við að efla og bæta umhverfi sitt. Þar hefur kirkjan leitast við að leggja sín lóð á vogarskálar. Hefur huggað á tímum mótlætis og hvatt til ábyrgðar og hófsemi þegar meðbyrinn hefur verið sem mestur. Þakkir Nú stöndum við hér í gróandanum í helgidómi sköpunarinnar og græni liturinn er allsráðandi í kirkunni sem aldrei fyrr. Nú þakka ég að hafa fengið að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem hér hefur staðið yfir og öllum sem hér eru má vera ljós. Í öðrm landshlutum hafa menn í örvæntingu leitað nýrra og nýrra stoða og fært oft miklar fórnir til þess að koma þeim á. Hér hafa menn leitað annarra leiða. Hér hafa menn gefið sér tíma til þess að hlúa að þeim stoðum sem hér eru og hafa verið. Upp frá þeim sprettur ríkulegur gróandi sem á eftir að bera ávexti og styrkja enn þennan hóp sem hér er. Sterkustu stoðirnar eru ekki alltaf sýnilegar auganu og menn verða þeirra ekki varir í fyrstu. Þar eiga byggðarlög og kirkjan margt sameiginlegt. Innan vébanda þeirra vex og dafnar sú menning sem veitir styrk, djörfung og kraft og minnir okkur í sífellu á það hversu mikilvægt það er að við hlúum að umhverfi okkar og leggjum rækt við það umhverfi sem við tilheyrum. Og ég færi þakkir fyrir að hafa verið hluti af því umhverfi, leggja minn skert til uppbyggingar þess og vita það og skynja að það á ætíð eftir að skipa stóran sess í tilveru minni.

Kveðjupredikun við útimessu í Tunguskógi.