Sögur eru merkileg fyrirbæri. Þær sitja í huganum miklu lengur en staðhæfingar og röksemdir fyrir þeim. Einu sinni lagði ég það á mig að læra minnistækni sem átti að gera mér kleift að ryðja upp úr mér alls kyns romsum, spilum og talnarunum. Aðferðin var einmitt sú að búa til sögu. Með ímyndunaraflið að vopni og fremur einfalda aðferðafræði var hægt að spinna upp þráð og þá sat allt betur í kollinum en einhver samhengislaus upptalning.
Lesið og túlkað
Ég játa að ég hef tileinkaði mér þetta svo sem aldrei, en aðferðin segir talsvert um heilabú okkar mannanna. Sagan flytur okkur einhver skilaboð sem væri vísast hægt að boða með öðrum leiðum en hún tollir betur í minninu og hægt er að grípa í hana hvenær sem er.
Þetta er líka hlutverk sagnameistara. Þeir lauma til okkar einhverjum boðskap með töfrum frásagnarinnar. Og jafnvel glíman að finna erindið verður að markmiði út af fyrir sig, þar sem rýnt er í persónur, fléttur, flækjur og lausn og mögulega einhverja samantekt og eftirmæli. Þá stígur höfundurinn prúður til hliðar og skilur dyrnar eftir opnar upp á gátt svo lesandinn leyfir sér að ráða í textann það sem hann sér þar og finnur. Með því verður sjálfur lesturinn að skapandi iðju og jafnvel nýrri hugarsmíð.
Sakkeus
Hér áðan heyrðum við eina svona sögu, litla svipmynd af því þegar Jesús fór inn í borgina Jeríkó. Borgin sú er fræg af endemum fyrir það þegar lúðrasveit Ísraelsmanna braut niður múra hennar á sínum tíma. Það er ekkert leyndarmál að þessi frásagnartækni er algeng í Biblíunni þar sem í erindum er hvað eftir annað fundinn búningur sögunnar. Og svo er það viðfangsefni fræðimanna og áhugafólks að rýna á milli lína, setja í samhengi og skoða hver meiningin er.
Sakkeus birtist okkur í einni sögu, sem ætti að teljast fremur skýr og augljós. Ég fæ vart hugleitt hana án þess að upp í hugann komi lagið úr sunnudagaskólanum um hann „Sakkeus sem var að vexti smár, já varla nema svona hár”. Og sagan fellur í ákveðinn flokk frásagna af lífi Jesú, þar sem hann lætur sér annt um einhvern einstakling sem ekki féll inn í hópinn. Ástæðurnar gátu verið margvíslegar: aldur, kyn, kynþáttur, trúarafstaða, lífshættir eða líkamlegt ástand. Börn, konur, Samverjar, bersyndugir, blindir, daufir og holdsveikir, fjöldi frásagna úr guðspjöllunum geyma sögur af samskiptum Jesú við þá sem féllu undir þann hatt.
Í þessu tilviki er það hann Sakkeus, einkar óvinsæll maður, yfirtollheimtumaðurinn á staðnum sem var litinn hornauga enda leitun að starfa sem vakti jafn litla gleði meðal almennings en að heimta fé af fólki, senda hluta til Rómar og hluta í eigin vasa.
Þegar Jesús, mætti í borgina fór ekki á milli mála að orðspor Jesú hafði farið víða. Fólkið flykktist út á göturnar en, og hér þarf að lesa milli lína, hinn smái Sakkeus komst ekki að fyrir hinu fólkinu. Hann reyndi að troða sér í gegnum mannfjöldann en honum var haldið fyrir utan. Það er eins og borgin hafi viljað skarta sínu fegursta fyrir hinn tigna gest. Og það kemur svo enn betur í ljós í lok sögunnar þegar þessi óvænlegi borgarbúi fær alls óvænt athyglina þar sem hann situr uppi í tré og fylgist með. Já, þeim tókst ekki að fela hann, ekki frekar en blinda manninn sem hrópaði í sífellu orðin sem við flytjum í upphafi messunnar: „Drottinn miskunna þú oss”. Kristur gaf honum gaum, þegar aðrir gengu framhjá.
Þetta blasir við lesandanum og við getum kinkað kolli til samþykkis enda myndum við sjálf gera slíkt hið sama. Ekki satt?
Fulltrúi meinsemdar
En þar sem hinar hefðbundnu lýsingar af samskiptum Jesú við hina utangátta, snerta við réttlætiskennd okkar – er Sakkeus þessi af öðru sauðahúsi. Reyndar er hann fulltrúi mikillar meinsemdar sem plagar ekki aðeins borgir heldur alla heimsbyggðina. Hann er stallbróðir þeirra sem við óttumst, þeirra sem sitja um verðmætin. Þeirra sem tilheyra þessu einu prósenti sem sölsar undir sig auðlindir og skilur okkur hin eftir, fáfróð og fátæk og logandi hrædd um framtíð jarðar sem stynur undan hömlulausri ásókn í takmörkuð gæðin.
Þetta eina prósent býr ekki aðeins í útlöndum, það á sér fulltrúa í öllum samfélögum. Í ríkjum eins og okkar, innan stjórnkerfis, viðskipta, í nærumhverfinu. Við þekkjum Sakkeus. Hann er freki karlinn eins og hann var einu sinni nefndur. Sá sem kemur öllu í ójafnvægi, sundrar hópum svo að þeir leita ekki sameiginlegra markmiða heldur slást innbyrðis um völd, athygli og auð. Og nú eru þeir komnir til valda ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur í Rússlandi, í Tyrklandi, fulltrúar sundrungar og haturs verða aðsópsmeiri í Evrópu svo full ástæða er til að kvíða óvissri framtíð.
Sakkeus er hluti af þessu eina prósenti í borginni Jeríkó. Hver láir borgarbúum þótt þeir víki ekki til hliðar þegar þeir hafa tækifæri til að mynda mennskan múr á milli hans og gestsins sem heldur inn í borgina? Sagan er eiginlega hálfgerð ótukt í samhengi við alla þá umhyggju sem birtist þegar hungraðir, þyrstir, blindir og veikir eru teknir inn í samfélagið.
Þar liggja einmitt töfrar hennar. Hún er þó ekki sögð til að kvitta fyrir óréttlæti og græðgi heldur lýsir hún takmarkalausri trú á manninn. Hérna stendur sá sem sístur þótti og jafnvel hann á sér von. Kærleikurinn sigrar allt – þetta er yfirskriftin sem Páll postuli setti yfir líf Jesú frá Nazaret. Hann boðaði að við ættum að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. Farsæl endalokin benda einmitt til þessa.
Jeríkó og Ríkið
En sögur sitja í kollinum og jafnvel þær sem við heyrðum fyrir löngu, geta poppað upp, eins og við segjum, og við finnum á þeim einhverjar óvæntar hliðar. Biblíusögur birta ekki aðeins mynd af löngu liðnum atburðum heldur er þeim ætlað að lýsa inn í sálarkima þeirra sem á hlýða. Ég fæ ekki varist því að Sakkeus þessi sé ekki bara fjarlæg persóna í tíma né heldur einhver frekur karl, einhvers staðar. Það er eitthvað í þessari frásögn sem segir mér að Sakkeus karlinn sé jafnvel eitthvað sem blundar í hverjum manni.
Já hér er alveg pláss til að hugsa frásögnina upp á nýtt. Saga heimspekingsins Platons af Ríkinu kemur upp í kollinn þegar við hugleiðum háttarlag íbúa í Jeríkó. Ríki Platons fjallar vissulega um eitthvert ímyndað land þar sem ólíkar stéttir sinna hver sínu hlutverki. Þetta ríki er útfærð mynd af mannsálinni og verkamennirnir, hermennirnir og heimspekingarnir endurspegla hver sinn hluta hugans og hins mannlega eðlis. Dygðir þeirra, hófsemi, hugrekki og skynsemi eru í raun nokkuð sem býr í hverjum manni og yfir öllu, sagði hinn forni hugsuður, trónir sjálft réttlætið: að hver sinni sínu hlutverki.
Þannig verður hin merka saga hans að greiningu á dygðum mannsins en þó auðvitað einnig, hugleiðing um hið ákjósanlega samfélag, uppgang þess og fall.
Jeríkó getur í þessari örsögu verið með sama hætti verið mynd af mannsálinni. Hvað gerum við þegar góðan gest ber að garði? Við tökum til og reynum að sýna okkar bestu hliðar. Þegar við stöndum frammi fyrir hinu æðsta og mesta, viljum við gera það sama og íbúarnir í borginni gerðu. Við felum það sem er slæmt, ýtum því til hliðar, hleypum ekki að okkar veikustu þáttum. En eins og Sakkeusi tókst að komast upp í tré þetta, þá kennir Biblían að brestir okkar og veikleikar verða ekki falin fyrir Guði.
Um leið boðar hún, að þegar það gerist, okkur til vandræða og ómaks, verða viðbrögðin þó öll önnur en við kynnum að ætla. Þar beinist boðskapurinn sannarlega að okkur sjálfum. Guð sér inn í sálina. Við leggjum allt í hendur Guðs, styrkleika okkar og veikleika, góðar og slæmar hliðar, og viðbrögðin verða ekki fordæming og heift, heldur þvert á móti. Þar mætir okkur umfaðmandi kærleikur, sátt og tækifæri til að lifa því lífi sem okkur er samboðið.
Við þekkjum Sakkeus
Sakkeus, verður þá að því fyrirbæri sem Biblían kallar synd. Það er hugtak sem margur á erfitt með að hlusta á, frá hempuklæddum presti og lái þeim hver sem vill og mikið syndatal er ekki vænlegt til vinsælda. En hér er syndin nokkuð sem leiðir af sér fyrirgefningu og þar situr sá sem pælir í sögunni uppi með nokkur heilabrot. Jú, réttlátir dómar eru vitaskuld ein af stoðum hvers samfélags og við hljótum að rýna í heiminn og finna þau mein sem þar þarf að laga. Í samhengi guðspjallanna verður syndin sjálf þó margslungnari og sammannlegri en svo að það gefi okkur færi á fordæmingu í garð náungans og jafnvel hatri. Og um það geyma guðspjöllin margar sögur, en það er líklega önnur saga.