Gömul og stór

Gömul og stór

Hún er vissulega gömul og stór, þessi stofnun, og sú staðreynd kann að valda ímyndarfræðingum vanda því að á okkar dögum viljum við einmitt að allt sé nýtt í dag og svo eftir fáeinar vikur þurfum við að endurnýja það og kaupa okkur eitthvað annað í staðinn.

Nú er runninn upp nýársdagur kirkjunnar. Kirkjuárið er svolítið frábrugðið almanaksárinu og þetta er fyrsti dagur þess, fyrsti sunnudagur í aðventu. ,,Gleðilegt ár!" segjum við því hvert við annað, hér á þessum vettvangi þegar engum öðrum dettur í hug að segja slíkt.

Á undan sinni samtíð! Nýársdagur kirkjunnar minnir okkur á að þótt kristin trú eigi á mörgum sviðum samleið samfélaginu almennt þá er þó sitthvað frábrugðið. Það er ekki alltaf sem hún er á undan sinni samtíð eins og á við um þessi áramót. Oftar grunar mig að hún virki silaleg og sein til ákvarðana. Þegar sótt er að kirkjunni hafa talsmenn henni það gjarnan á orði að kirkjan eigi djúpar menningarlegar rætur, hún nái árþúsund aftur í tímann og sé þar að auki mjög fjölmenn. Því gerist allar breytingar mjög hægt og ákvarðanir er ekki hægt að taka í einum grænum.

Látum vera hversu góð þessi skýring er en hún hefur í það minnsta þann annmarka að það flíkkar vart upp á ímyndina að minna á að við erum bæði gömul og stór.

Já, sjálfhverf verður þessi predikun kæru vinir, enda fjallar guðspjallstexti dagsins um kirkjuna. Þannig er hann í það minnsta túlkaður. Frásögnina af því þegar Jesús reið inn í borgina helgu, Jerúsalem, hafa kristnir menn í gegnum tíðina lesið sem allegoríu. En allegoría er það kallað þegar orðin vísa út fyrir sig, til einhvers annars en felst í hljóðan þeirra. Með Jerúsalem er átt við sjálfa kirkjuna og hún fær þennan góða gest sem er andlag boðunar hennar, fyrirmynd og tilgangur. Jón biskup Vídalín leggur út af þessum atburðum í postillu sinni sem kom út í byrjun átjándu aldar:

En gæt að því kristinn maður að konungur dýrðarinnar ríður hvern dag inn til sinnar borgar sem er kristileg kirkja og svo sem hann er einn andlegur konungur svo er og ríki hans andlegt því vopn herfarar vorrar eru ekki líkamleg eins og Paulus segir heldur kraftur Guðs til að niðurbrjóta girðingarnar.

Vídalínspostilla er einhver mesta metsölubók sem gefin hefur verið út á Íslandi og þarna sem víðar er teflt fram mjög áhugaverðri sýn á kirkjuna sem landsmenn hafa kynnst á þessum degi og reyndar mörgum öðrum. Meistari Jón heldur því fram að Kristur komi á hverjum degi inn í þetta samfélag. Hann mætir ekki til að tryggja að allt sé á sínum stað, heldur þvert á móti. Hann er kominn til að niðurbrjóta girðingar, ryðja einhverju úr vegi sem sem tefur og hindrar að kirkjan starfi eins og henni er ætlað að gera.

Kristur er andlegur konungur, segir ennfremur og kirkjan er ekki í sínum innsta kjarna stofnun með steyptum byggingum og enn síður því innmúraða kerfi sem þar stundum ríkir. Nei, hún er hvorki gömul né stór í huga Jóns Vídalín. Hún býr í hjarta hvers kristins manns sem vill vinna að framgangi fagnaðarerindisins og þjóna náunganum í gleði. Þegar hann ávarpar kristinn áheyranda þá talar hann til sjálfrar kirkjunnar.

Drottna yfir Drottni Trúin og kærleikurinn eru tvær hliðar á sama peningnum og það skynjuðum við sterkt hér í gær í Neskirkju þegar Ashura hátíð fór fram með þátttöku ýmissa trúarhópa. Þá fundum við það svo sterkt að markalínur í heimi átaka liggja ekki um slóðir einstakra trúarhópa. Fátt er eins ógeðfellt og þegar menn metast um það hvort hryðjuverk og voðaverk eru fremur unnin að undirlagi kristinna manna, múslíma, trúlausra eða hvernig fólk vill staðfestja öfgamenn. Nei, Kristur sá sem hélt inn í borgina helgu flutti okkur ekki fagnaðarerindi til að skapa slíka sundrungu. Hann var sérstaklega gagnrýninn á þá sem mynduðu hina trúarlegu elítu á sínum tíma og tefldi ítrekað fram fólki af öðru sauðahúsi sem hann sagði standa þeim framar. ,,Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki,” sagði hann meira að segja við sína nánustu fylgismenn, lærisveinana.

Landamærin liggja á milli þeirra sem vilja stjórna þeim guði sem þeir trúa á. Þeirra sem telja sig hafa öll svörin á reiðum höndum og kúga aðra til hlýðni.

Kristur fór ekki með látum inn í borgina helgu. Hann mætti ekki á stríðsfáki svo sem hæfði höfðingjum þeim sem láta menn kenna á valdi sínu. Nei hann sat á asna sem aftur vekur upp hugrenningar. Sá sem situr á svo látlausum fararskjóta, mætir á jafningjagrnni. Hann hefur augnsamband fólkið sem stendur allt í kring. Asninn er að sama skapi friðartákn og minnir okkur á að sá er ekki verðugur fulltrúi Krists sem beitir aðra ofríki og þaðan af síður sá sem telur slíkt háttarlag réttlætanlegt í nafni trúar sinnar.

Við getum leyft okkur að draga lærdóm af þessari för Krists eins og henni er lýst og við getum aftur velt fyrir okkur andstæðum í samtímanum. Á þessum sunnudegi eru minningar föstudagsins svarta okkur enn lifandi. Á svörtudegi, eins og hann var íslenskaður, þusti fólk inn og beið ekki boðanna eftir að krækja sér í nýjustu græjurnar sem boðnar voru á afslætti.

Svörtudagur

Ég fæ ekki varist því að bera þetta tvennt saman. Hófsemdina sem birtist í fasi Jesú og svo þann hávaða sem einkennir suma helgistaði nútímamannsins. Sá taktur sem þar er fylgt byggir á því að ónýta hið gamla sem fyrst svo nýtt geti komist að. Boðunin er sú að hverja okkur til að henda þeim hlutum sem áður þóttu svo eftirsóknarverðir því þeir fölna við hlið hins nýja sem sífellt er boðið upp á.

Sjá, konungur þinn kemur til þín, hann er hógvær og ríður á asna. Er það ekki dæmigert að þegar kirkjan fagnar upphafi aðventunnar þá fer það fram með þessari hægð. En allt í kring ólmast fólk, sem aldrei fyrr, telur niður dagana og sífellt verður hlutur helginnar minni en meiri er fyrirferðin á öðrum sviðum tilverunnar þar sem friðurinn víkur. Eirðarleysið og hinn óslökkvandi þorsti eru hinar æðstu dygðir.

Hún er vissulega gömul og stór, þessi stofnun, og sú staðreynd kann að valda ímyndarfræðingum vanda því að á okkar dögum viljum við einmitt að allt sé nýtt í dag og svo eftir fáeinar vikur þurfum við að endurnýja það og kaupa okkur eitthvað annað í staðinn. Hvernig talar hún inn í slíkan samtíma, kirkja sem heldur upp á nýtt ár, heilum mánuði áður en það gengur í garð og kirkja sem á sér leiðtoga og fyrirmynd sem byggir á svo ólíkum.

Það má hugleiða hvort hið hægláta fas geti ekki verið til eftirbreytni, asasjúkri menningu þar sem aldrei gefst færi á að nema staðar og líta um öxl.

Gömul og stór

Vel má vera að kirkjan verði einhvern tímann bara gömul, ekki endilega mjög stór. Og vel má vera að hún verði svolítið svifasein, illa áttuð þegar áróðursmenn sækja að henni. ,,En gæt að því kristinn maður,” segir meistari Jón Vídalín - því að konungurinn kemur til þín á hverjum degi.

Það er umhugsunarefni okkar kristinna manna. Ekki stærðin og umfangið í stofnunninni sem við köllum kirkju. Því kirkjan er hvar sem við komum saman til uppbyggingar samfélags og lofgjörðar Guði. Við erum kölluð til þjónustu og þar býr sjálft eðli kirkjunnar og allra þeirra sem hana fylla.

Okkur er ætlað að veita umhyggju, flytja erindi mannúðar, skilnings og gleði yfir margbreytileika lífsinsins í allri sinni dýrð. Okkur er ætlað að hlúa að náunga okkar og í þeirri baráttu mætum við til leiks í þeirri hógværð sem einkenndi Krist sjálfan. Gleðilegt ár, kæru vinir. Nú hefst nýtt ár í kirkjunni og við strengjum þau nýársheiti að halda áfram að eflast og dýpka, bæta okkur í því eftirsóknarverða hlutverki að breiða út trúna á þann sem kom með friði og boðaði frið hrelldum heimi.