Eftir brúðkaupið

Eftir brúðkaupið

Hvort sem hjón eru nýgift, ætla að gifta sig á næstunni eða hafa verið gift í fjöldamörg ár, þá ættu þau að setja sér það markmið að varðveita ástina, spennuna og traustið í sambandinu sínu. En það kemur ekki af sjálfu sér. Þess vegna langar mig til að gefa brúðhjónum sumarsins nokkur vel reynd ráð í nesti út í lífið. Og önnur hjón mega gjarnan nýta þau líka.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
23. júní 2009

Um þessar mundir eru hjónavígslur í hámarki í kirkjum landsins eins og gengur og gerist á hverju sumri.

Brúðkaupsdagurinn er einn bjartasti dagurinn í lífi hjóna og honum tengjast margir draumar, vonir og væntingar. Hvort sem par hefur þekkst lengur eða skemur þegar að brúðkaupinu kemur, þá er gleðin jafn mikil fyrir því enda dagurinn helgaður ástinni.

Orkídea

Það er erfitt að skilgreina ástina, hvað það er sem veldur því að tveir einstaklingar verða ástfangnir og ákveða að helga líf sitt hvort öðru. En kjarni ástarinnar er einmitt þessi, að elska einhvern það mikið að þú viljir leggja allt líf þitt í hans eða hennar hendur. Og þegar tveir einstaklingar bera þannig tilfinningar til hvors annars ríkir hamingjan í lífi þeirra. Að elska einhvern á þennan hátt er að treysta honum eða henni, því að þú opnar hjarta þitt og innstu tilfinningar þínar fyrir þeim sem þú elskar. Þess vegna verða svikin svo ár ef sá sem þú elskar bregst trausti þínu. Ef ástin aftur á móti er traust, þá hjálpar hún parinu til þess að takast á við lífið, gleðina og sorgina. Því samstaðan eflir ástina, það að vita að þú ert ekki einn á báti í lífsins ólgusjó.

Mörg pör sem ganga upp að altarinu um þessar mundir velta því án efa fyrir sér hvernig best sé að viðhalda ástinni í gegnum lífið. Við vitum öll að mörgum gengur því miður illa að næra ástina í hjónabandinu. Allt of mörg hjónabönd lenda í erfiðleikum og blindgötu. Ástin snýst þá í anhverfu sína því vonbrigðin yfir draumunum sem aldrei rættust magna upp sárindi og deilur.

Hvað veldur? Hvers vegna lenda svona mörg hjónabönd í erfiðleikum eins og raun ber vitni?

Ástæðurnar eru efalaust margar. En þegar áhyggja hversdagsins sækir að með barnauppeldi, fjárhagsbasli, löngum vinnudegi og öllu því sem þarf að gera og annast, þá vill það gleymast að ástarsamband er eitthvað sem þarf að rækta og viðhalda. Ástin dofnar sé henni ekki sinnt. Og það þurfa báðir aðilar í hjónabandinu að sinna henni. Oft ætlumst við til að maki okkar sé alltaf að láta sér detta eitthvað í hug til að styrkja sambandið, en gerum aldrei neitt sjálf. Það er heldur ekki von til þess að sambandið nái að þroskast og styrkjast ef hjón gefa hvort öðru aldrei tíma til að vera saman, láta sambandið sitt alltaf mæta afgangi, því það er svo margt annað sem þarf að gera. Eftir því sem árin líða eykst þá fjarlægðin og ef ekkert er að gert deyr hjónabandið hægum dauðdaga fyrir framan 10 fréttirnar í sjónvarpinu.

Hvort sem hjón eru nýgift, ætla að gifta sig á næstunni eða hafa verið gift í fjöldamörg ár, þá ættu þau að setja sér það markmið að varðveita ástina, spennuna og traustið í sambandinu sínu. En það kemur ekki af sjálfu sér. Sambandið þeirra er það dýrmætasta sem þau eiga og ef það siglir í strand, þá glatast allt hitt líka sem við höldum að sé svo dýrmætt í annríki hversdagsins.

Þess vegna langar mig til að gefa brúðhjónum sumarsins nokkur vel reynd ráð í nesti út í lífið. Og önnur hjón mega gjarnan nýta þau líka.

Ég læt hér fylgja lista yfir fáeina þætti sem gott er að hafa í huga fyrir öll pör sem vilja leita sér nýrra leiða til að styrkja og næra ástarsambandið sitt. Bætið þið sem þetta lesið endilega við listann sjálf og munið að þið þurfið bæði að leggja ykkar að mörkum, ef sambandið á að blómstra.

Húmor

Það er erfitt að elska þann sem ekki er hægt að hlæja með. Húmorinn er stór og mikilvægur hluti af sameiginlegri tilveru okkar. Tökum ekki hvort annað of alvarlega. Sjáum til þess að húmorinn og leikurinn fái að vaxa og dafna.

Snerting

Að snerta hvort annað mikið og oft styrkir sambandið. Það er hægt að gefa af sér margar hlýjar tilfinningar með því að strjúka hvort öðru, taka utanum hvort annað og sýna hvort öðru blíðu. Snerting er þögul samskipti, hljóð en hlý rödd er lendir ekki í þeim gildrum sem orðin geta leitt okkur í. Með því að upplifa maka sinn upp á nýtt í gegnum snertingu fingurgómanna einna, er hægt að opna fyrir nýjar leiðir og endurnýjað samfélag.

„Augun mín og augun þín“

Hvernig væri að búa til nýjan flöt á ástarlífinu með því að segja ekkert , en taka utanum hvort annað og horfa bara á hvort annað? Takið þið bara eftir ný-ástföngnu pörunum næst þegar þið farið í bæinn, t.d. út að borða á veitingahúsi. Tilfinningarnar flæða fram og aftur á milli augnana, í þögninni. Og þetta er list sem allir aldurshópar eiga sameiginlega!

Samtal

Þögnin getur bæði verið jákvæð og neikvæð. Það er sameiginlegt einkenni hjá flestum pörum sem hafa lent í gildrum vanans og leiðans að þau segja “við erum hætt að tala saman”. Það er staðreynd að par sem viðheldur ástinni talar mikið saman. Samtalið er fyrir sambúðina eins og blóðið fyrir líkamann. Án samtals getur sambúðin ekki lifað af, eins og líkaminn lifir ekki án blóðsins. Finnið ykkur stundir til að tala saman ein.

Kynlíf

Gott kynlíf er hornsteinninn í hverju sambandi. Kynlífið getur viðhaldið sambandinu þó að margt annað bregðist. Og á sama hátt getur gott samband lent í erfiðleikum ef kynlífið dofnar. Það eru allt of margir sem nota rúmið til að gera út um málin, svona rétt fyrir svefninn. Afleiðingin verður sú að kynlífinu hrakar, vandamálin leysast ekki og andvökunætur auka á erfiðleikana í sambúðinni. Því ættu pör að reyna að sættast fyrir nóttina í stað þess að breyta hjónarúminu í dómssal.

Gjafir

Að gefa hvort öðru litlar og stórar gjafir er ein aðferðin sem nota má til að sýna að maður taki eftir og sé að hugsa til maka síns. Gjafir gefnar með jákvæðu hugarfari, sem tákn ástar og umhyggju, styrkja sambandið og efla , sama hversu árin verða mörg.

Tíminn. 

En umfram allt skulum við gefa hvort öðru tíma. Með því að “gefa” tíma látum við maka okkar vita að það erum “við” sem höfum forgang. Því oft er það tíminn sem flýgur frá okkur með ástina í farteskinu. Takið ykkur þess vegna tíma fyrir sambandið, ástina. Látið þann tíma hafa forgang. Látið ekkert hnika honum til. Og sjáið þið bara til, eftir því sem árin líða verður tíminn ykkar sem þið helgið hvort öðru, að orkuuppsprettu bæði fyrir ykkur, börnin ykkar og hamingjuna.

Trúin

Hjónavígslan felur í sér blessun Guðs. Ræktum saman trú okkar í hjónabandinu, leitum til Guðs í bæn með erfiðleika okkar og gleði, kennum börnunum okkar bænir og leyfum blessun Guðs að helga allt okkar líf. Ekkert er betra veganesti út í tilveruna.  

Gangi ykkur vel!