Um víða veröld

Um víða veröld

Jesús sagði lærisveinunum að fara út um allan heim, ekki aðeins í næsta hús, á næsta bæ, í næstu borg eða næstu sýslu. Þau sem játa nafn frelsarans hljóta að taka þátt í því að vera biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja - um víða veröld.
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
13. nóvember 2011
Flokkar

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Mt. 9:35-38

Þjóðkirkjan hefur nú haldið sérstakan dag helgaðan kristniboði í 75 ár. Elsta starfandi kristniboðsfélag landsins er 107 ára. Saga kristniboðs er jafnlöng sögu heimastjórnar á Íslandi en á sér undanfara fyrir þann tíma. Kristniboðsstarfið hefur á þessum tíma glímt við samskiptaerfiðleika við útlönd og miklar fjarlægðir, stíf gjaldeyrishöft á árum áður, andúð þeirra sem sjá á eftir krónum til boðunar trúar eða hjálpar á erlendri grund, og á tímum glímt við andvaraleysi og jafnvel fordóma innan kirkjunnar. Allt leggst þetta á vogarskálarnar og veldur því hugsanlega að fátt er um verkafólk, en breytir því þó ekki að uppskeran er mikil.

Úthald þess fólks sem hefur verið kallað hefur ekki vantað né viljan til að starfa og fórna fjármunum sínum og tíma til eflingar Guðs ríkis, heima jafnt sem heiman. Þar hefur farið fólk sem veit að engin verður uppskeran án fórnar.

Það ætti ekki að þurfa sérstakan kristniboðsdag. Sérhver kirkja sem vill lifa og gefa af sér hlýtur að sinna kristniboði með einhverjum hætti. Þjóðkirkjan hefur þessi ágætu einkunnarorð: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Sönn kristniboðskirkja, sannir lærisveinar Jesú Krists, hljóta að sinna þessu öllu og að líta út fyrir kirkjuveggin, sóknarmörkin og landsteinana. Jesús sagði lærisveinunum að fara út um allan heim, ekki aðeins í næsta hús, á næsta bæ, í næstu borg eða næstu sýslu. Þau sem játa nafn frelsarans hljóta að taka þátt í því að vera biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja - um víða veröld.

Kirkjan er biðjandi

Hún lifir í nánu samfélagi við frelsara sinn og Drottin. Hann er ekki fjarlæg saga eða hluti liðins tíma. Vitnisburður Ritningarinnar og okkar sem játum trú á hann er þessi: Jesús lifir, hann er raunverulegur, nálægur og máttugur. Þess vegna lifum við í samfélagi við hann frá degi til dags. Þess vegna biðjum við og erum biðjandi kirkja. Af því mótast helgihaldið.

Kristniboðsstarfið hefur alla tíð verið borið uppi af biðjandi fólki. Vinir kristniboðsins hafa fylgst vel með starfinu þó svo í fjarlægð væri. Þeir hafa beðið fyrir því, fyrir heimamönnum, kristniboðum og vexti Guðs ríkis. Það hefur borið ríkulegan ávöxt. Þróttmiklar innlendar kirkjur í Eþíópíu og Keníu eru ávöxtur af öflugu starfi, en ekki síður af mikilli bæn. Við erum kölluð til að biðja um framrás Guðs ríkis og biðja fyrir systurkirkjum okkar um víða veröld.

Bænin er samkvæmt orðum Jesú í guðspjallinu lykill að kristniboði: Biðjið því Drottin uppskerunnar. Í bæninni fær Guð snert hjörtu okkar, ýtt við okkur, kallað okkur og eflt til starfa. Í næstu versum á eftir sjáum við að Jesús sendir þennan sama hóp af stað að boða og líkna. Undirbúningsvinnan var að biðja, síðan tók uppskeran við.

Kirkjan er boðandi

Aðalsmerki og meginhlutverk kirkjunnar er að boða trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn frelsara. Þar er sjálfur grundvöllurinn. Einmitt það gerir kirkjuna óæskilega í sumra augum: Hún er boðandi, hún bendir á Jesú Krist sem frelsara mannanna. Hún flytur ákveðið erindi, fagnaðarerindi. Hún miðlar þannig fyrirgefnignu synda og eilífu lífi. Með boðuninni fær fólk tækifæri til að kynnast Jesú Kristi og taka við honum. Það elskar frelsarann og fylgir honum eftir. Kirkjan hefur einstakt hlutverk sem engin önnur samtök geta sinnt – og hætti kirkjan því, hættir hún að vera kirkja.

Fyrir þrem til fjórum áratugum síðan var farið að leggja mikla áherslu á samræður á milli fulltrúa trúarbragðanna og er enn gert. Samræður eru mikilvægar, grundvöllur mannréttinda og virðingar fyrir öðrum – og þar með fyrir öðrum lífsskoðunum en okkar eigin. En ef samræðurnar taka yfir og koma í stað boðunarinnar fer illa, þá er kirkjan að missa marks. Jesús er einstakur. Pétur postuli var ekki í vafa. Vitnisburður hans í 4. kafla Postulasögunnar var þessi: Ekkert nafn er okkur gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur nema nafn Jesú. Kirkjan á ekki og þarf ekki að vera feimin við það, annað hvort er hún kirkja sem heldur þeim boðskap á lofti eða hugar að því hvernig sé best að hafa jarðarförina. Hún hefur engan annan boðskap að fara með. Hvatning og kveikja kristniboðsstarfsins er þetta: Heimurinn þarf á Jesú Kristi að halda. Viðbrögð við boðuninni höfum við ekki í okkar hendi. Við getum ekki þvingað þau fram. En hvort sem ávöxturinn er mikill og margfaldur eins og i Eþíópíu og Keníu eða vex hægt og sígandi eins og í Japan – þá er burðarás starfsins sá að við bendum fólki á Jesú. Við gefum því Jesú eins og Jesús gaf okkur sig.

Sá hinn sami Jesús, krossfestur og upprisinn, raunverulegur og máttugur, er uppstiginn til himna en nálægur í heilögum anda. Hann hefur skilið okkur eftir sem líkama sinn hér á jörðu. Okkar er að vera hann, miðla nærveru hans, vera munnur hans og flytja orð hans, vera hendur hans og miðla kærleika til manna. Við erum verkafólkið sem Jesús kallar til uppskeru sinnar.

Kirkjan er þjónandi

Kærleiksþjónusta og margvíslegt hjálparstarf er einnig hluti af kristniboðsstarfinu. Kærleikur Guðs skilur ekki eftir valkosti handa okkur í því efni heldur. Við berum ábyrgð á fátækt í heiminum, takmörkuðum aðgangi að hreinu vatni, skorti á menntun, misjöfnum tækifærum stúlkna og drengja, mansali og kúgun, hlýnun andrúmsloftsins og umhverfisspjöllum sem bitna verst á hinum fátæku svo eitthvað sé nefnt. Við erum kölluð til að tala máli friðar og réttlætis, elsku og trúfesti, í brotnum heimi brostinna vona. Við flytjum von í orði og verki. Kærleiksþjónustan þannig hefur fylgt kristniboði frá upphafi og fram á þennan dag.

Á ég að gæta bróður míns og systur minnar? Það á ekki að þurfa að spyrja né heldur að segja að bræður okkar og systur eru þau minnstu á meðal okkar, einnig þau sem búa hinum megin á hnettinum. Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann. Hann þarf að fá að snerta hjörtu okkar svo það sama gerist hjá mér og þér.

Á kristniboðsakrinum höfum við séð fólk frá kraft til að berjast gegn umskurn kvenna og ungra stúlkna í Keníu og Eþíópíu. Við höfum séð fólk fá kraft til að ganga gegn hefð og kröfu heiðninnar um að drepa ung börn af því að þau taka tennur á annan hátt en skilgreint er. Við höfum séð fólk losna við óttann við seiðmanninn og forfeðraandana sem kröfðust svo mikils en gáfu ekkert. Við höfum séð fólk fá kraft til að fyrirgefa og ganga gegn hatri og illsku. Þetta eru aðeins nokkrar myndir af krafti fagnaðarerindisins og því sem gerist þegar fólk mætir Jesú Kristi og kærleika hans. Vinir okkar í Pókot í Keníu sem við bjuggum á meðal í tæp 11 ár þakka margt: Alla skólana sem hafa verið byggðir, aðgang að vatni og margs konar aðstoð. En mest þakka þeir fyrir að hafa eignast Jesú.

Kristniboðsstarfið, eins og kirkjan okkar, er biðjandi, boðandi, þjónandi. Við megum ekki týna okkur á einu sviði á kostnað annars. Kristniboðsstarfið verður aldrei öflugt eða trúverðugt nema þessu þrennu sé sinnt. Ekki á að sinna bænastarfi án boðunar og þjónustu, ekki boðun án bænar og kærleiksverka, ekki hjálparstarfi án bænar og boðunar.

Breyttir tímar

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Heimurinn hefur skroppið saman með nýrri samskiptatækni og bættum samgöngum. Allt er orðið svo nálægt og aðgengilegt. Hörmungar heimsins eru stundum í beinni útsendingu. Það getur verið gott og slæmt. Neyðin verður nálæg en hún getur líka orðið hversdagsleg og yfirþyrmandi og við förum að hugsa, meðvitað eða ómeðvitað: Mitt framlag breytir engu eða þetta kemur mér ekki við. Við lítum í aðra átt.

Með breyttum heimi og nýrri tækni breytist kristniboðsstarfið. Öflugar kirkjur hafa vaxið fram í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku á liðinni öld. Sumar þeirra stunda nú þegar kraftmikið kristniboð. Í dag er hátíðisdagur í Pókot, Norðvestur biskupsdæmi lúthersku kirkjunnar í Kenýu. Þar er verið að vígja nýjan biskup.

En þrátt fyrir allar þessar breytingar stendur kallið til kristniboðs, áskorunin og ábyrgðin á að allir fái tækifæri til að kynnast Jesú Kristi, óbreytt. Það þarf enn að senda, enn að prédika, enn að fólk heyri til að það trúi. Eins og einn hér í hópnum sagði í vikunni. Til að gjörðin haldi áfram að snúast þarf að skoppa henni stöðuglega. Annars dettur hún. Við erum hluti af alheimskirkjunni og berum þar okkar ábyrgð.

Víða um heim minnist kristið fólk í dag þeirra sem ofsótt eru vegna trúar sinnar og biður fyrir þeim. Því miður er í mörgum ríkjum heims þrengt að kristnu fólki og það látið finna fyrir því að vera annars eða þriðja flokks þegnar. Ekki síst er þetta í svokölluðum lokuðum löndum þar sem kristniboð er óheimilt. Sums staðar er kristið fólk að starfi í þessum löndum í sínu fagi eða á sínu sérsviði en notar frítíma sinn til að vitna um trú sína. Er gjarnan talað um tjaldgjörðarkristniboð í því sambandi með vísun í Pál postula sem vann fyrir sér sem tjaldgjörðarmaður. Í raun er um að ræða hugsjón sjálfboðaliðans og leikmannsins þar sem stuðningsaðilar biðja fyrir og fylgjast með þeim sem eru að verki.

Við erum ekki kölluð til að vera ein að verki. Við megnum ekki mikils í eigin mætti með eigin boðskap. En Guð getur gert mikla hluti þegar við vinnum í krafti og kærleika hans. Kristniboðssambandið er frekar lítil samtök á fámennu landi, en hefur fengið að taka þátt í stórkostlegu starfi, hér á landi, í Eþíópíu, Kenýu, Japan, Kína og Mið-Austurlöndum. Starfið hefur náð til mikils fjölda fólks, margra kynslóða, já tugþúsunda sem hafa mætt hinum krossfesta og upprisna Jesú og eignast trú og nýtt líf eða notið kærleiksþjónustunnar.

Kirkjan sækir fram

Fyrir kirkjuþingi liggur nú tillaga að þingsályktun að stefnu þjóðkirkjunnar um kristniboð. Tillagan er flutt af Karli Sigurbjörnssyni biskupi. Ég þakka honum sérstaklega fyrir dyggan stuðning við málefnið og fyrir að halda því á lofti og minna þjóðkirkjuna í heild sinni á ábyrgð hennar öll sín biskupsár.

Í áðurnefndri tillögu segir m.a. „Þjóðkirkjan vinnur að því að söfnuðir þjóðkirkjunnar styrkist í kristniboðsköllun sinni, finni sig hluta hinnar alþjóðlegu kirkju og minnist hlutverks síns í boðun og útbreiðslu trúarinnar heima og heiman.“ Enn fremur segir að unnið verði að því í söfnuðum og stofnunum þjóðkirkjunnar að styðja kristniboðið með því að m.a. að minnast kristniboðsins með bæn og boðun við guðsþjónustur og í öðru helgihaldi, með því að styrkja kristniboðið með reglubundnum fjárframlögum, með því að styðja við fjáröflun Kristniboðssambandsins vegna íslenska kristniboðsins í Kenýu og Eþíópíu. Loks er talað um að koma á formlegum vinatengslum við söfnuði á kristniboðsakrinum, þar sem íslenskir söfnuðir geta tekið að sér einstök verkefni. Vonandi sjáum við fleiri slík tengsl komast á næstu árin.

Í greinargerð tillögunnar segir meðal annars: „Mikilvægt er að söfnuðir þjóðkirkjunnar séu minntir á þann mikilvæga þátt í lífi og köllun kirkjunnar sem kristniboðið er, að það ætti að vera hjartans mál þjóðkirkjunnar allrar, safnaða hennar, starfsfólks og þjóna. Dótturkirkjur okkar á kristniboðsakrinum eru vitnisburður um það hvernig fyrirbæn, fórnarlund og kærleikur íslensks almennings bar og ber enn ríkulegan ávöxt til blessunar þúsundum í fjarlægum heimshluta. Enn njóta þær mikilvægs stuðnings frá íslenskum kristniboðsvinum fyrir tilstilli Sambands íslenskra kristniboðsfélaga.”

Já, uppskeran á okkur kallar! Biðjandi, boðandi, þjónandi. Má ekki bjóða þér að vera með?