Fastan, fittið og mittið

Fastan, fittið og mittið

Föstutíminn og líkamsræktarátakið gera okkur hvorki fitt á líkama né sálu, en þau gera gagn. Átak felur í sér eitt skref, stundum fyrsta skrefið, en það er aldrei markmið í sjálfu sér að vera í átaki.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
18. mars 2013

Fastan er rúmlega hálfnuð. Fyrir mörgum er hún tíminn þegar við brjótum upp óholl og óspennandi mynstur. Í ár hófst fastan snemma. Við vorum rétt búin að jafna okkur eftir ofgnótt jólanna og enn mátti jafnvel heyra óminn af nýársauglýsingum líkamsræktarstöðvanna: Kemstu í kjólinn eftir jólin?

Líkamsræktarstöðvarnar minna reyndar á kirkjur þar sem boðað er að við getum unnið yfirbótarverk til að bæta fyrir syndirnar:

„Ástu of mikið eða ástu vitlaust? Ekkert mál, þú gerir 100 armbeygjur á dag og málið er dautt. Þú hleypur í hálftíma á dag á brettinu og við erum kvitt.
Eftir á líður okkur kannski betur á líkama og sál. Í líkamanum af því að það er gott að hreyfa sig reglulega. Í sálinni af því að samviskubitið minnkar.

Fastan er átakstími. Hún er tíminn þegar við neitum okkur um það sem er slæmt fyrir okkur. Við minnkum kannski neyslu á óhollum mat, fækkum óhollum hugsunum, drögum úr slæmri hegðun og endurskoðum óheilbrigð samskipti. Við neitum okkur um það sem er ekki gott til að nálgast okkur sjálf og að sjálfsögðu til að nálgast Jesú.

Föstutíminn og líkamsræktarátakið gera okkur hvorki fitt á líkama né sálu, en þau gera gagn. Átak felur í sér eitt skref, stundum fyrsta skrefið, en það er aldrei markmið í sjálfu sér að vera í átaki. Markmiðið er breyttur lífsstíll. Markmiðið er að lifa í trúnni. Ekki aðeins fjörtíu daga á ári heldur þrjú hundruð sextíu og fimm eða sex. Regluleg hreyfing og regluleg iðkan trúarinnar skiptir nefnilega máli fyrir trúarfittið og mittið líka.