Guðspjallið. Mt. 7.7-12Bæn: Virstu, Guð að vernda' og styrkja vora þjóð og gef oss frið, þeim, sem vel þinn víngarð yrkja, veit þú blessun, þrótt og lið, gef, að blómgist, Guð, þín kirkja, Guð, oss alla leið og styð. (Helgi Hálfánarson)Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Tvö hús. Þau standa hlið við hlið. Tvö tákn um sögu sem samofin er í þúsund ár. Tvö hús. Dómkirkjan og Alþingishúsið. Tvisvar á ári rifja þau upp sína sérstöku tengingu þegar þau sem þjóna landi og lýð ganga fram fyrir altari Guðs, ásamt þjónum kirkjunnar: Við setningu Alþingis og 17.júní. Og þau syngja þjóðsönginn um Guð þessa lands í þúsund ár.
Þjóðsöngurinn innsiglar sáttmála milli þessara tveggja húsa. Og bak við þjóðsönginn er þjóðin sjálf. Enn. Þúsund árin eru liðin. Af nýju árþúsundi er liðinn rúmur tugur. Með nýjum tímum er sannarlega hægt að taka upp nýjan sið, og syngja nýjan brag. Við vitum að einhverjir vilja það. Sumir, margir eða fáir.
Dómkirkjan er tákn um kristindóminn eins og hann er kunngjörður á vettvangi þjóðkirkjunnar. Um leið minnir hún þar með á tiltekna grein í stjórnarskránni. En sambúð þjóð-kirkju og þjóðar ber oftar á góma en þegar rætt er um stjórnarskrána. Það gerist í hvert eitt sinn sem málefni þings og þjóðar eru borin fram fyrir Guð. Og það er gert hvern helgan dag, í það minnsta í hinni almennu kirkjubæn þjóðkirkjunnar. Einhverjum datt reyndar í hug að sú fyrirbæn væri hluti af sérstöku samkomulagi ríkis og kirkju. En hvernig sem fer um samband ríkis og kirkju þá mun þjóðkirkjan halda áfram að biðja fyrir forseta lýðveldisins, ríkisstjórn og Alþingi og dómendum, því að það tilheyrir grundvallarskilningi hennar á sjálfri sér, og hefur verið gert næstum þúsund árum lengur en hér var nokkur maður í þessu landi.
Páll postuli ritar:
Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. (1.Tím 2:1)Það er sem sagt tilgangur með bæninni. Að treysta grundvöll friðarins í landinu og að allir menn komist til þekkingar á sannleikanum og verði hólpnir.
Í þeim stóra barnahópi sem sá sem hér stendur ólst upp í gat sannarlega ýmislegt farið úr skorðum. Í minningunni finnst mér að setningin: Æi, veriði til friðs, hafi þar fallið oftar en ekki. Þó að ég hafi í fyrstu haldið að hún merkti að maður ætti að sitja með hendur í skauti og horfa hlýlega á þann sem maður hafði rifist við, þá var það engan vegin svo. Hún merkti, allavega að skilningi móður minnar, að hvert og eitt okkar átti að sýsla við sitt og skila sínu verki hvort sem það var til heimilis- og bústarfa eða skólalærdóms.
Friður í merkingu Biblíunnar er heldur engin ládeyða, heldur iðandi mannlíf, nóg vinna, réttlát laun og hvorki farsóttir né náttúruhamfarir. Friður er fyrst og fremst jafnvægi. Líka jafnvægi milli stríðandi fylkinga. Friður er því besta hugsanlega ástand samfélags og þjóðar.
Og það er sá friður sem kallaður er yfir mannfólkið og sköpunarverkið allt í síðustu línu blessunarorðanna í okkar messu: Og gefi þér frið.
Þann frið myndum við sannarlega óska landi og þjóð og þingmönnum öllum á þessum degi, við sem höfum fundið leiðina hingað inn.
Þess vegna rifjum við líka upp þessa kraftmiklu setningu í guðspjallinnu, sem við köllum gullnu regluna, og flestir fermdir muna úr sinni fermingarfræðslu, og þessi um það bil fjögur þúsund ungmenni sem nú taka þátt í fræðslunni um allt land, munu einnig læra:
Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. (Matt. 7:12) Segir Jesús Kristur.
Þetta skiptir máli. Auðvitað skiptir það einnig máli hvort 63. grein stjórnarskrárinnar er til eða ekki. Það skiptir mjög miklu máli um vægi kristinnar trúar gagnvart stjórnskipun landsins. En það er auðvitað ekki þar með sagt að þessi grein skipti sama máli um vægi trúarinnar í lífi einstaklinga. Það fer ekki síst eftir því hvort kirkja er vettvangur trúarinnar og nauðsynlegur hluti af lífinu eða bara punt á tillidögum.
Skáldið Jón úr Vör segir í ljóði sínu:
Ég vil hafa kirkjuÍ þessu fallega ljóði er ekki kafað dýpra en þetta, og ekki spurt hvert er hlutverk þjóðkirkju eða átrúnaðar yfirleitt, í lýðræðislegum skilningi eða einhverjum öðrum. En kirkja er farvegur átrúnaðar. Þjóðkirkja var á sínum tíma, 1874, sem ríkiskirkja, sá farvegur átrúnaðar sem ríkið mælti helst með. Það er ekki lengur svo. Ríkið tryggir þegnunum möguleika til að sameinast um þann átrúnað sem þeim sýnist, en það hefur ekki afskipti af trúarbrögðum eða trúarástandi að öðru leyti. Þrátt fyrir það geta kristin gildi að sjálfsögðu verið grundvallandi. Og þetta er rökrétt afleiðing af breytingu á hlutverki ríkisvalds í trúarefnum í lýðræðisríki þar sem ríkiskirkja væri í besta falli eins og nátttröll.Þökk fyrir ljóð þín, segirðu, þótt ég skilji þau ekki. Ég vil hafa kirkju í miðju plássinu, segirðu.
Þegar ég kem að með bát minn hlaðinn að kvöldi horfi ég fyrst heim að húsinu mínu,
en ég sé líka það hús sem ég veit að enginn hefur valið sér náttstað í nema hátíðleg orð
sem er öðruvísi en hin húsin - og ég veit, að ég á líka erindi þangað. (Jón úr Vör. Ljóðabókin Regnbogastígur)
Helmut Schmitt, fyrrum kanslari í Þýskalandi (f. 1918), er kristinn maður og hefur aldrei dregið dul á það. (Og innan sviga: Hann er reyndar líka eini maðurinn sem fær að reykja sígarettur í sjónvarpsviðtölum í Þýskalandi, orðinn 94 ára, en, vel að merkja, það er ekkert samhengi hér á milli.) Meðan hann var í borgarstjórn í Hamborg og síðar borgarstjóri þar sat hann á kirkjuþingi- eða Landssynodu.
Hann skrifaði bók sem út kom 1976 og heitir: Als Christ in der politischen Entscheidung, eða Að vera kristinn maður þegar taka þarf pólitískar ákvarðanir. Að mati hans er besta staða kirkjunnar gagnvart ríkinu þegar ríkið sem verður að viðhalda hlutleysi gagnvart trúarbrögðum og heimssýn fólks, tryggir hlutleysi, en tryggir um leið frelsi og sjálfsákvörðunarrétt kirknanna, eins og líka rétt þingmanna og ráðherra sem varðveita hlutleysið, til að starfa óáreittir í kirkju sinni, eða eiga enga kirkju eða trú.
Hann skrifar: Mér virðist að aðalhlutverk kirkjunnar í samfélaginu sé einmitt að vera þjóðkirkja, eða fólkskirkja og halda því áfram í samfélagi sem er sundurleitt og skortir andlega leiðsögn. Í framhaldi af þessu skrifar hann að það skipti öllu máli að stóru kirkjurnar báðar í þýsku samhengi, sú evangeliska og sú kaþólska, vinni saman til þess að geta staðið sameiginlega gegn hættunni sem samfélaginu stafi af skortinum á andlegri, siðferðilegri og siðfræðilegri viðmiðun almennings.
Hann skrifar: Einstaklingurinn, hver einstök manneskja fyrir sig, og aðeins einstaklingur hefur samvisku. Það er ekki til nein sameiginleg samviska. Einstaklingur stendur frammi fyrir spurningunni um það hvort hann eða hún geti samræmt ákveðna pólitíska skoðun, ákveðið pólitískt markmið í borg og sveit eða landspólitík, eigin samvisku, eða eigin trú, eða hvort viðkomandi telur sig skyldugan til að grípa inní mál eða freista þess að hafa áhrif á ákvörðun um þau, í samræmi við trú sína eða samvisku.
Þetta skrifar hann. Og við hljótum að undirstrika að það er hlutverk kirkjunnar á öllum tímum, að kalla eftir viðbrögðum samvisku og trúar hjá þeim sem taka þurfa ákvarðanir, stórar eða smáar.
Þýski kanslarinn þessa dagana, fulltrúi CDU/ CSU á þinginu, Angela Merkel, er sem kunnugt er, fyrsta konan til þess að vera valin kanslari Þýskalands. Þegar hún hafði verið valin var hún spurð í sjónvarpsþætti : Hvaða þýðingu hefur það, að þú tilheyrir hinni evangelisku kirkju? Og til upplýsingar verður að geta þess í okkar íslenska samhengi að spurningin merkir ekki hvaða þýðingu það hefur að vera trúaður kristinn maður, því að það er alvanalegt í samhengi þýskra stjórnmála, heldur snerist þetta um kirkjudeild, þar sem flokkssystkin hennar eru í meiri hluta kaþólsk, eins og vísað er til í svari hennar. Angela Merkel sagði: Ég lít ekki svo á að það sé aðalatriðið hvort ég er evangelisk eða katþólsk, en þetta þýðir það að ég aðhyllist hina kristnu lífssýn og kristinn mannskilning og það tel ég vera mikils virði fyrir hið þýska samfélag.
Hér má því bæta við: Umræðan um þjóðkirkjuna á Íslandi, hlutverk hennar og skilgreiningu verður að taka mið af því hvort hún er mikils virði eða lítils virði fyrir hið íslenska samfélag. Það er stóra spurningin. Það eru örugglega til margar leiðir til þess að treysta í sessi hina kristnu lífssýn í íslensku samfélagi með því umburðarlyndi og gestrisni sem því þarf að fylgja, ef vilji er til þess. En þær leiðir þurfa að vera ljósar og kunnar.
Alþingi hefur tryggt sjálfstæði þjóðkirkjunnar gagnvart ríkinu með lögum frá 1997. Þá hætti þjóðkirkjan að vera ríkiskirkja. Í þessari lagasetningu fólust samt engin sambúðarslit. Sambúðarslit myndu miklu frekar felast í því að þjóðkirkjan sjálf liðaðist í sundur innan frá og hennar eigin börn yfirgæfu hana. Þjóðkirkjan með sína guðfræði og siðfræði og aðrar grundvallarreglur, verður að standa á eigin fótum. Með öðrum orðum, hún verður að vera súrdeig eins og henni var ætlað í upphafi og frelsari hennar Jesús Kristur kallaði hana til.
Hugtakið þjóðkirkja felur ekki í sér neitt beinlínis um tengsl kirkjunnar við ríkisvaldið, heldur um tengslin við þjóðina og felur því í sér starfsáætlun. Þó hugtakið sé notað í gildandi stjórnarskrá skýrir það ekki í hverju tengslin við ríkið felast. Þjóðkirkja stendur undir nafni þegar það að tilheyra henni er hið venjulega viðhorf með þjóðinni, þegar barnaskírn er viðtekin venja, uppeldi, siðir og venjur, hegðun og lagasetning innihalda sterk einkenni kristindómsins, og samfélagið tryggir þjóðkirkjunni rétt til viðgangs og vaxtar með aðild sinni að henni. Þjóðkirkja hættir að vera þjóðkirkja þegar hennar eigin börn hætta að sækja til hennar þjónustu á vissum tímum ævinnar og á hátíðum. Hversvegna skyldu þeir hætta því?
Þegar þjóðkirkja hættir að vera sýnileg, ef hún hættir að leita hins týnda, ef hún hættir að vera með fólkinu sínu, styðja það í öllum kjörum mannlífsins og leiðbeina því og elska það, þá hættir hún að vera hún sjálf og þau sem til hennar leita finna hana ekki. Hver er hún? Hvar er hún? Hún er viðbrögð þeirra sem henni tilheyra gagnvart hvert öðru og þeim sem utan standa, á grundvelli trúarinnar. Og, hún er hið skipulagða starf trúfélagsins þjóðkirkja. En hún er fyrst og fremst sú einfalda staðreynd að fólkið gleymir ekki bænunum sínum og man að kenna þær börnum sínum og barnabörnum, í hlýðni við orð Jesú sjálfs sem við heyrðum í guðspjallinu: Biðjið, leitið,finnið.
Ennþá er Þjóðkirkjan verulegur hluti af fólkinu í landinu. Hlutfallsbreyting á stærð hennar sem felst í fækkun vegna þeirra sem kjósa að fara annað, er sannarlega áhyggjuefni sem við sem erum kirkjan þurfum að skoða vandlega og bregðast við ekki síst með því að horfast í augu við mistök okkar og villuspor og bæta úr hvar sem þess er kostur. En mesta áhyggjuefnið er að ungir foreldrar hætti að bera börn sín til skírnar og hætti að gefa þeim það veganesti sem kynslóðirnar hafa þegið mann fram af manni, kannski aðallega vegna þess að þau treysta okkur ekki sem störfum í nafni trúarinnar. Mesta gleðiefni kirkjunnar er þess vegna þegar þau koma með börnin sín og biðja um skírn. Þá er sannarlega hátíð bæði á himni og jörð, og toppar aðrar.
Það er enn stutt á milli Dómkirkjunnar og Alþingishússins. Og greiðfært. Bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Samt sýnist manni engin leið á þessu landi jafn háskaleg þingmönnum og þessi. Og það vekur umhugsun og veldur áhyggju.
Tvo hús. Tvö tákn. Eru þau systkin sem vaxa upp og fara svo hvort sína leið? Eða eru þau hjón sem gera allt til að halda hjónabandinu gangandi vegna barnanna?
Eða eru þau í huga þeirra sem ganga þar inn og út, fyrst og fremst tákn um lifandi áhuga á velferð allra landsins barna, og þar með framtíð lýðveldisins Ísland. Já. Og einmitt þess vegna hafa þau verið valin. Til að varðveita fjöregg þjóðarinnar. Guð gefi að það brotni aldrei. Og að friður megi haldast. Guðs friður.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.