“Ég ætla að gera eitthvað skemmtilegt þegar ég hætti í sveitarstjórn”.
Nú má ekki skilja orð mín svo, að það hafi bara verið þraut og pína að vinna að sveitarstjórarmálum, nei stundum gat það verið bæði gaman og gefandi.
Sem betur fer gefa líka einhverjir kost á sér til þessara starfa. Þá
niðurstöðu dreg ég alla vega af fréttaflutning síðustu vikna, varðandi
prófkjörsmál víðs vegar um landið. Það er því greinilegt að
sveitarstjórnarstörf heilla, því margir eru kallaðir, en fáir eru
útvaldir.
En víkjum aftur að upphafinu, ég hugsaði ekki bara um að gera eitthvað
skemmtilegt, heldur fann ég mér verkefni sem hentar mér ljómandi vel, og
það er ekki aðeins skemmtilegt, heldur er það líka gefandi og
lærdómsríkt. Ég er sem sagt sjálfboðaliði, ég er heimsóknarvinur.
Þetta er fallegt orð, enn fallegri er hugmyndafræðin að baki því, þökk sé þeim sem gerðu hugmyndina að veruleika.
Á Sauðárkróki hefur í nokkur ár, starfað hópur sjálfboðaliða undir styrkri stjórn þeirra séra Guðbjargar Jóhannesdóttur, Soffíu Þorfinnsdóttur í Rauða krossinum og Þórunnar Elfu Guðnadóttur í heimaþjónustunni.
Í hverju felst sjálfboðastarfi mitt. Ég ætla að gefa ykkur svolitla innsýn í það, en fyrst koma nokkrar staðreyndir um mig. Eins og flestir Íslendingar er ég í 100% starfi, ég á líka bæði maka og börn og nýlega náði ég ömmutitlinum.
Ég á mér mörg áhugamál og er þá eins og annað fólk, líklega mjög upptekin manneskja. Eftir hverju var ég þá að sækjast, komst eitthvað meira fyrir á vikulega tímatöflu mína ?
Ég held að það hafi verið orðið sjálft, þ.e. heimsóknarvinur, sem heillaði mig, frumkvæðið kom frá mér sjálfri. Ég var ekki beðin að taka þetta að mér og mér var ekki ýtt út í hlutverkið, heldur fann ég hjá mér hvöt til þess að nýta tíma minn í þetta starf.
Ég á vinkonu sem varð 84 ára gömul í janúar. Ég heimsæki hana einu sinni í viku, tímabilið, september til maí, og okkar samverutími er um það bil ein klukkustund í senn.
Það hefur komið mér á óvart, hvað ég sjálf hef fengið mikið út úr þessum heimsóknum. Ég hafði ekki leitt hugann að því, taldi mig meira vera að gera einhverjum greiða. Það reyndist annað upp á tengingnum, heimsóknin er ekki síður gagnleg fyrir mig en hana.
Það er notalegt að finna hlítt faðmlag, finna væntum þykju sem tekur á móti manni í hvert sinn sem ég hringi bjöllunni.
Og hvað gerum við svo vinkonurnar. Auðvitað drekkum við kaffi og borðum fínt kaffibrauð með því. Við tölum líka mikið saman og þrátt fyrir aldursmun, þá er hann langt í frá einhver hindrum í okkar samskiptum, því við erum báðar mjög opnar fyrir áhugamálum og viðfangsefnum hvor annarar. Við förum í gönguferðir, skoðum garða, við skiptumst á upplýsingum um góðar bækur sem við viljum endilega að hin lesi og síðan miðlum við upplýsingum um gamla og nýja tíma.
Þegar ég lít til baka, held ég að við höfum báðar verið svolítið
feimnar að stíga þetta skref. Ég að koma inn á ókunnugt heimili og hún
að fá ókunuga konu inn á sitt heimili.
Það sem er nýtt og framandi getur líka verið kvíðvænlegt. Líklegt er að
margir sofi illa daginn áður en þeir byrja í nýju starfi.
Við vinkonurnar tókum þetta verkefni sem tilraun, vorum jákvæðar og samtaka í að njóta stundarinnar hvor með annari. Við hittum á óskastundina, því allt hefur gengið eins og í sögu með okkar samverustundir.
Sjálfboðaliðar á Sauðárkróki eiga góða bakhjarla, eins og fram kom í upphafi greinar minnar. Kirkjan, Rauði krossinn, og Heimaþjónusta sveitarfélagsins boða okkur mánaðarlega til fundar og þar eru málin rædd.
Sérstaklega vel er haldi utan um starf okkur og ber að þakka það. Þá
er okkur líka boðið upp á ýmis námskeið og fleira sem nýtist okkur bæði
andlega og líkamlega.
Ef lestur þessarar greinar hefur kveikt lítinn neista hjá þér um að
gerast sjálfboðaliði, hugsaðu þig þá ekki lengur um, gerðu eitthvað í
málinu.
Á Sauðárkróki og nærsveitum hefur frá árinu 2000 starfað Sjálfboðaliðaverkefnið:„Heimsóknarvinir” á vegum Sauðárkrókskrikju, Skagafjarðardeildar Rauða Krossins og Félagþjónustu Skagafjarðar. Sjálfboðaliðar eru 15.