Sigur lífsins

Sigur lífsins

Það er ekki að ástæðulausu að eyþjóð langt norður í Atlantshafi helgar sjómönnum einn sunnudag í kirkjuárinu. Það þurfti þekkingu, hæfni og áræði til að komast hingað í upphafi vega, flytja fjölskyldu, hjú og búslóð - og það þurfti sömu eiginleikana til að viðhalda tengslunum við fjarlæg lönd, sigla með afurðir og flytja nauðsynjavarning til landsins.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
05. júní 2005
Flokkar

Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað.

Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu.

En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem.

Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?

En hann sneri sér við og ávítaði þá og sagði: Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa. Og þeir fóru í annað þorp.

Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.

Jesús sagði við hann: Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.

Við annan sagði hann: Fylg þú mér! Sá mælti: Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.

Jesús svaraði: Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki. Enn annar sagði: Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.

En Jesús sagði við hann: Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki. (Lk 9:51-62)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er ekki að ástæðulausu að eyþjóð langt norður í Atlantshafi helgar sjómönnum einn sunnudag í kirkjuárinu. Það þurfti þekkingu, hæfni og áræði til að komast hingað í upphafi vega, flytja fjölskyldu, hjú og búslóð - og það þurfti sömu eiginleikana til að viðhalda tengslunum við fjarlæg lönd, sigla með afurðir og flytja nauðsynjavarning til landsins. Sjómenn hafa sótt björg í bú og myndað tengsl yfir hafið sem alla tíð hafa verið lífæðar íslenskrar menningar, verklegrar sem andlegrar. Þjóð sem lifir í nánum tengslum við úthafið lærir að meta sjómennsku og hjá henni verður til þekking á veðri og vindum og eiginleikum hafstrauma og sjávarfalla og vitundin um nauðsyn þess að taka rétta stefnu skerpist og eflist. En það er ekki nóg. Ef áhöfnin er sjálfri sér sundurþykk, ef hún þekkir ekki rétta takmarkið, þá er voðinn vís.

Texti þessa sunnudags segir okkur frá skipstjóra sem veit hver stefnan er: „Þá beindi hann augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér.“ Allir þykjast vilja fylgja Jesú í upphafi en þegar á reynir finna menn alls konar afsakanir til að vera áfram heima – í sjálfu sér ekki slæmar ástæður en þegar stefnan er tekin á nýjan stað þá eru allar úrtölur og hjáleiðir ógildar. Þá þýðir ekkert að horfa til baka. Þeir sem ætla að nema nýtt land verða að rífa sig upp með rótum. Það verður að leysa landfestar og leggja á djúpið.

Fáir skildu Jesús og enginn til hlýtar, jafnvel ekki lærisveinarnir sem stóðu honum næst. Og hjá Jesú er ekki hægt að aðgreina markmið og leiðina, lífstefnan getur engan vegið átt samleið með helstefnunni. Hér er um algerar andstæður að ræða.

„Herra eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim“ sögðu lærsveinarnir við hann þegar Samverjarnir tóku ekki við honum. Það átti að grípa til vopna og brenna andstæðingana inni, útrýma þeim. Reglan:Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn átti að gilda áfram og ofan á hana bætir eyðingarhvötin hefnigirninni við. Við slíkar aðstæður fann Jesús sárt til þess að hann var einn á vakt. Hann kom til að frelsa en ekki til að tortýma mannslífum. Hann á hvergi höfði sínu að að halla – og á slíkum stundum fann hann að hann átti hvergi heima í þessum heimi.

Trúboðarnir sem fóru yfir hafið til Íslands með fagnaðarerindið rétt fyrir kristnitökuna viltust allir einhvertíma af réttri leið. Þeir gripu til vopna þegar þeir mættu höfnun og andstöðu. Þorvaldur víðförli og Friðrik trúboðsbiskup voru dæmdir fyrir vígaferli og hrökluðust af landi brott sekir fjörbaugsmenn. Sama er að segja um þá trúboða sem Ólafur konungur Tryggvason sendi til landsins þá Stefni Þorgillsson og Þangbrand.

Ef íslensk þjóð á sér einhvern stað sem er sambærilegur við hina jarðnesku Jerúsalem þá er það þessi kirkjustaður, Þingvellir. Á grundunum og ásunum hér framan við klettaveggi Almannagjár komu Íslendingar saman og reistu sér höfuðborg um hásumar til að ráða ráðum sínum, leysa úr ágreiningsmálum, setja lög – taka mið og setja rétta stefnu. Hingað lágu leiðir þeirra sem komu með nýjan og mikilvægan boðskap og þeir sem vildu hafa árhif á gang mála komu sér hér fyrir, ræddu við fólk og færðu rök fyrir máli sínu, setja þjóðarskútuna á réttan kjöl og skilgreina stefnuna.

Og það kom að því að til úrslita dró í átökunum um það hvaða trúarbrögð þjóðin sem ein heild skyldi játa. Ýmsar heimildir benda til þess að flestir höfðingjar hafi verið heiðnir og blótað heiðin goð þegar líða tók á seinni helming 10du aldar, en það ber jafnframt að hafa í huga að heiðinn siður var ekki fastur fyrir og margir voru lausir í rásinni og sumir blendnir í trúnni. Í landinu hafði mjög líklega viðhaldist kristni frá fyrstu byggð írskra munka hér, því þótt þeir yfirgæfu landið þegar norrænir höfðingjar lögðu það undir sig þá fyldi þessum höfðingjum fjöldi fólks frá Írlandi sem auðvitað var kristinnar trúar. Kristni festir rætur á Írlandi þegar á fimmtu öld og það ber að hafa í huga að margir norrænir menn, sem námu land á Íslandi í lok 9du aldar, höfðu búið á Írlandi – sumir jafnvel fæðst þar - og kynnst kristinni trú og tekið þar trú og látið skírast.

Og það dró til tíðinda, tvær fylkingar gripu til vopna. Helstefnan var í þann veginn að ná undirtökum á þingheimi og allt stefndi í trúarbragðastríð hér á völlunum sumarið 999 eða 1000. En þá var gripið í taumanna.

Við höfum heimildir um það sem gerðist, einkum Íslendingabók Ara fróða, en þær svara ekki öllum áleitnum spurningum sem vakna. Frá því er sagt að Síðu-Hallur sem var foringi kristna flokksins, samdi um það að lögsögumaðurinn Þorgeir, sem tilheyrði heiðna flokknum og fór fyrir honum á þessu þingi, skyldi kveða upp úr um það hvor siðurinn skyldi ríkja í landinu. Þá gerðist það sem frægt er orðið og mikið hefur verið fjallað um af fræðimönnum og öðrum, að Þorgeir lagðist niður og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nótina eftir og kvað ekki orð. Menn hafa gert sér það í hugarlund að Þorgeir hafi þurft tíma til að íhuga málið eða jafnvel að hann hafi viljað þreyta æsta tríðsmenn svo móðurinn rynni af þeim. Ef til vill var hann seiðmaður sem fór í huganum á vit sagnaranda og sá þá fyrir sér takast á um það hvor væri sterkari heiðið goð eða Hvíti Kristur.

Íslendingabók er ekki trúarrit og hún er ekki margmálug um innra líf og hugrenningar manna yfirleitt. Hún er frekar eins konar annáll og lögskýringarrit sem segir frá ættum manna og staðháttum og rekur atburðarás – setur fram pólitíska greiningu og niðurstöður. Hún segir ekkert frá þeim sýnum sem Þorgeir sá þar sem hann íhugaði undir feldinum hvort sem hann var nú í leiðslu eða ekki.

Við höfum alveg leyfi til þess að spyrja hvort Kristur hafi vitjast honum. Það er ekki líklegt að Þorgeir hafi séð Krist berjast eins og víking við annan hvorn Þór eða Óðin. Krist sem sagði Pétri postula að slíðra sverðið í grasgarðinum forðum þegar hermennirnir handtóku meistarann.

Ari lætur í það skína að Þorgeir hafi verið blendin í trúnni áður enn hann fékk hið mikilvæga hlutverk að kveða upp úrskurð sinn á alþingi þetta sumar. Hann var enn heiðinn segir hann um Þorgeir. Það er óhugsandi annað en slíkur höfðingi, sem Þorgeir var, víðsýnn og lærður, hafi þekkt kristin sið og það hefur hann hugsanlega gert af eigin raun því hann hefur umgengist kristna menn, þekkt háttu þeirra, hugarfar og fordæmi og hann hefur áræðanlega - eins Páll postuli – dáðst að hugrekki þeirra, trúarþreki og stefnufestu.

Þótt hann hafi ekki eins og Páll ofsótt kristna menn – að minnsta kosti eru engar heimildir til um að hann hafi gert slíkt – hefur trúarvissa og píslarvætti þeirra sem vitnuðu um Krist haft áhrif á hann og sú spurning verið ofarlega í huga hans hvaðan þeim kom slík trúarvissa og styrkur. Þorgeir hefur verið spakur maður að viti, annars hefði honum ekki verið trúað fyrir lögusögumannsembættinu – og hann hefur ekki hrifist af þeim trúboðum sem ferðuðust um landið með brugðið sverðið nokkru áður en kristni var lögtekin. Það þurfti sterkari vitnisburð til að slíkur maður tæki sinnaskiptum. Atferli Þorgeirs sýnir það að nú var sú stund upp runnin að hann þurfti ekki lengur að ráðfæra sig við aðra menn á þinginu. Hann þekkti rök þeirra og ástæður. Hann er óhræddur við Noregskonung vald hans bítur ekki á þennan norðlenska höfðingja og hann á ekkert vantalað við sendimenn hans. Hann einangrar sig og það opnar honum leið inn á önnur svið. Hann skynjar aðra krafta en þá sem eru í kring um þá sem eru í vígahug.

Lögspekingurinn virðir ekki vígamenninna viðlits og leggst rólegur undir feld sinn. Hann tekur ekki þátt í þeim leik sem er í uppsiglingu. Helstefnan og lífsstefnan takast á í hugskoti hans og ég þori að fyllyrða að höfundur þeirrar síðarnefndu hefur fundið sér leið að sál þessa hugdjarfa og sjálfstæða þingforseta og ávarpað hann á sinn hátt eins og hann ávarpaði menn forðum þegar hann sagði: Fylg þú mér.

En til að lýsa þessu nánar þurfum við að fara út fyrir Íslendingabók Ara fróða. Myndlistarmaðurinn Leifur Breiðfjörð gerði stórt glerlistaverk í nýju kirkjuna í Grafarvogi sem hún fékk að gjöf frá ríkisstjórn Íslands í tilefni af þúsund ára afmæli kristnitökurnnar. Hann kallar verk sitt Sigur lífsins. Í glímunni við viðfangsefni sitt tók listamaðurinn sér stöðu með okkur frammi fyrir þeirri spurningu sem hér hefur verið sett fram um það hvað gerðist í raun og veru á Þingvöllum sumarið 1000 sem varð þess valdandi að þingheimur lagði niður vopnin möglunarlaust og þeir sem ekki þegar voru skírðir létu skírast á leið heim frá þingi; Sunnlendingar og Norðlendingar í Reykjalaug í Laugardal, en Vestlendingar í Lundareykjadal.

Við sjáum á þeirri mynd að fylkingarnar tvær standa andspænis hvor annarri vígbúnar í Almannagjá, en yfir þeim er ljóshaf og í því miðju er Kristur upprisinn, sigurvegarinn með krossinn sem sigurtákn. Geisli liggur frá ljóshafinu að Þorgeiri lögsögumanni. Tilgátan sem þessi myndræna framsetning byggir á er ekki gripin úr lausu lofti. Hún á sér sögulegar forsendur. Sambærilegar myndir voru algengar í kirkjum og sem sjálstæðar myndir, íkonar, málaðir á tréplötur. Þetta myndmótíf var einnig til úrskorið í bein, hoggið í stein og sem myndir í bókum.

Sameiginlegt þessum myndum er að efst fyrir miðju er Kristur Drottinn sýndur í geilsabaugi að koma til efsta dóms þar öll mál eru endanlega gerð upp, góðir fara til himnaríkis en hinir vondu í víti og píslir þeirra síðanefndu eru oft útmálaðar á mjög dramatískan og áhrifaríkan hátt. Þessar myndir voru mjög útbreiddar á tíundu öld þegar margir veltu fyrir sér hugmyndum um heimslit og dómsdag. Þúsundáraríkið var í nánd! Nýr heimur að verða til.

Konugur kristinna manna, „sá er öllu ræður og kemur öflugur ofan,“ var sá sem vísaði réttu leiðina. Um það sannfærðist Þorgeir undir feldinum. Helstefnan hafði tapað, lífið hafði sigrað.

Þetta var ekki aðeins praktísk pólitísk lausn. Það er enginn vafi á því að hugur fylgdi hér máli. Úrskurði Þorgeirs ljósvetningagoða var fylgt eftir af festu og sannfæringu. Lögsögumaðurinn hafði lagt hönd á plóginn og hann horfði ekki aftur. Sagan segir að hann hafi hent skurðgoðamyndum sínum í Skjálfandafljót þegar hann kom heim af þingi og þar heitir nú Goðafoss.

Rödd sigurvegarans hljómar enn hér á þessum stað og hann ávarpar hvern og einn og segir:

„Fylg þú mér.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Pétur Pétursson er prófessor í kennimannlegri guðfræði við Háskóla Íslands. Leifur Breiðfjörð: Sigur lífsins. Glerlistaverk í Grafarvogskirkju. Predikun í Þingvallakirkju á sjómannadag, Sunnudaginn 5. júní 2005. Texti: Lk 9. 51-62.