Bak jólum

Bak jólum

Gleðilegt ár, kæri kristni söfnuður hér á Seltjarnarnesi og um lönd og höf. Enn á ný höfum við kvatt hátíðarnar og heilsað hvunndeginum, enn á ný tekur mannlífið á sig mynd vanans með skólagöngu, vinnusókn og öðrum ytra takti fyrir flesta. En hvað skilja hátíðarnar eftir í huga okkar? Hefur helgi jólanna fengið að móta hjartalagið og marka spor til göngunnar áfram - skilið eftir einhver þau ummerki í huga okkar sem við getum haft með inn í hversdaginn - eða pökkum við trúartilfinningunni og kirkjurækninni niður með skrautinu á þrettándanum?

Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.

Og hann sagði við þau: Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns? En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum. Lúk 2.41-52

Gleðilegt ár, kæri kristni söfnuður hér á Seltjarnarnesi og um lönd og höf. Enn á ný höfum við kvatt hátíðarnar og heilsað hvunndeginum, enn á ný tekur mannlífið á sig mynd vanans með skólagöngu, vinnusókn og öðrum ytra takti fyrir flesta. En hvað skilja hátíðarnar eftir í huga okkar? Hefur helgi jólanna fengið að móta hjartalagið og marka spor til göngunnar áfram - skilið eftir einhver þau ummerki í huga okkar sem við getum haft með inn í hversdaginn - eða pökkum við trúartilfinningunni og kirkjurækninni niður með skrautinu á þrettándanum?

Skáldið Karl Kristensen velti þessu fyrir sér hér á dögunum og þessi var niðurstaða hans í ljóði sem hann nefnir Bak jólum:

Bak jólum ég bið þess mig leiði sú blessun sem engillinn tjáði: að frelsarinn væri fæddur, og friður í huga mér ráði.

Guð, velþóknun þína vildir í verki sýna með honum. Þótt armæðan að mér steðji ég aldrei mun fyrrast vonum.

Nú ljómar og lyftir sálu ljósið þitt, Jesú, bjarta, birta af Betlehemsstjörnu býr í huga og hjarta.

Því krýp hinum eina Kristi og krossmark fyrir mér geri. Í hjarta heilagur búi og hjá mér til eilífðar veri. Karl Kristensen.

Í þessum einföldu ljóðlínum rúmast öll kjarnaatriði kristinnar trúar; boðskapur aðventu og jóla um endursköpun mannkyns með fæðingu Guðs inn í þennan heim; boðskapur föstu og páska um endurlausn fyrir krossdauða og upprisu Jesú Krists og boðskapur hvítasunnunnar um helgun og stöðuga íveru heilags anda Guðs. Inn í þetta fléttast grænu tímabil kirkjuársins, á milli hátíðanna, eins og nú, sunnudagana eftir þrettánda, þar sem áherslan er á vöxt trúarlífsins og grósku í gæðum Guðs.

Allt minnir þetta á meginatriði hins kristna lífs: Að Guð er með okkur alla daga, líka "bak jólum", og mikilvægt er að rækta trú sína, sinna henni af alúð, svo að hún verði okkur uppspretta æðruleysis og friðar í amstri hversdagsins.

* * *

Guðspjall dagsins er hin þekkta frásögn af Jesú tólf ára í musterinu. Hún er sérstaklega dýrmæt, þessi frásaga, þar sem hún er eina sögnin sem varðveist hefur í Nýja testamentinu frá barnæsku Jesú. Aðrar heimildir greina frá kraftaverkum drengsins Jesú, en á sínum tíma uppfylltu þær ekki þær ströngu kröfur um áreiðanleika, sem gerðar voru til þeirra rita, sem endanlega fengu sess í heilagri ritningu.

Þarna fáum við innlit í fjölskyldulíf Jesú á uppvaxtarárum hans. Við sjáum af þessari frásögn að Jósef og María voru trúrækið fólk á þann veg sem tilheyrði þeirra sið og að þau ólu drenginn, sem Guð hafði falið þeim að annast, upp í "Guðsótta og góðum siðum", eins og sagt var áður fyrr á Íslandi. Samstaða stórfjölskyldunnar er líka ljós af frásögu Lúkasar, þar sem María og Jósef treystu því til að byrja með að drengurinn þeirra væri í góðu yfirlæti með frændum og kunningjum. Foreldraást þeirra og ábyrgðarkennd skynjum við af harminum, sem greip þau þegar þau fundu ekki barnið sitt og orðum Maríu þegar drengurinn svo kom í leitirnar.

María og Jósef sáu hvarf drengins síns mannlegum augum. Þau brugðust við eins og góðir foreldrar allra tíma, sem láta sér annt um velferð barnsins síns. Skynjun Jesú á sama atburði var hins vegar önnur. Hún var andleg: "Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?"

Í ljósi hinna ritningarlestra dagsins sjáum við að guðspjallinu er ætlað að beina augum okkar að mikilvægi þess að vera í húsi okkar himneska föður. Sálmur 42 líkir þörf mannsins fyrir Guð við þorsta, frumþrá dýrsins eftir vatni. Og orð Páls postula í Rómverjabréfinu eru okkur áminning um að vera til reiðu fyrir Guð; gera ráð fyrir honum í öllu okkar lífi og vera fús til að fylgja köllun kærleika hans í endurnýjun hugarfarsins.

Þetta gildir um okkur öll, stór og smá. Ábyrgð okkar fullorðna fólksins er hins vegar sérlega mikil. Okkar er að stuðla að því að börnin fái tækifæri til að mótast af mynd Guðs, sem er kærleikur. Við sem eigum því láni að fagna að vera foreldrar megum ekki bregðast börnum okkar í þeim efnum. Börnin eru kraftaverk, hvert og eitt, undur, guðsgjöf, og eins og stundum er sagt höfum við þau aðeins í láni frá Guði um stundarsakir. Ábyrgðin er mikil. Og hún er líka þeirra, sem ekki hafa notið þeirra gæða að fóstra lítið líf með beinum hætti. Öll höfum við áhrif á velferð barna, bæði með jákvæðum afskiptum og því miður stundum með afskiptaleysi.

Hér á Íslandi njóta flest börn þeirra forréttinda að vera færð til skírnar af ástvinum sínum, af trú til trúar. Skírnin er innganga í stóra fjölskyldu, fjölskyldu kristinna manna, sem nær til allra heimsins horna. Þau forréttindi standa öllum opin. Og ábyrgðin er mikil, okkar foreldranna og annars kristins fólks, að fylgja skírninni eftir með uppeldi í guðselsku og góðum siðum. Börnunum okkar ber að vera í húsi föður síns, bæði andlega talað og eins í skilningi guðshússins; okkur ber að stuðla að því að þau læri um kristna trú og tileinki sér tungutak hennar, bænina.

Þeir aðilar sem mesta ábyrgð bera í þessum efnum eru að sjálfsögðu foreldrarnir, en einnig guðfeðgin, sem einnig kallast skírnarvottar og söfnuðurinn, kirkjan. Löggjafinn og skólinn eru líka mikilvægir þátttakendur í trúaruppeldi barnanna okkar, bæði með því sem gert er og ekki síður hinu, sem látið er ógert.

Þegar foreldrar ræða við prestinn til að undirbúa skírn barnsins síns er oft komið inn á mikilvægi trúaruppeldisins og stundum gætir nokkurs óöryggis foreldranna gagnvart þessu atriði. Málið er þó ekki flókið: það er fyrst og fremst að kenna barninu að biðja og gera þannig Guð eðlilegan hluta af daglegu lífi. Róleg stund fyrir svefninn, þar sem barnið fær að koma fram með áhyggju- og gleðiefni í samtali við bæði jarðneska foreldra og himneskan föður, er það dýrmætasta sem við getum gefið börnunum okkar. Og einfaldar athafnir í daglegu lífi, eins og signing áður en barnið fer í dagvistun eða skóla, stutt borðbæn fyrir sameiginlega máltíð fjölskyldunnar eða lítil bæn í bílnum áður en lagt er af stað út í daginn, getur skipt sköpum um öryggiskennd og vellíðan barna okkar og lagt ómetanlegan grunn að heilbrigðu trúarlífi. Þá má ekki gleyma fyrirmyndinni í verki; að foreldar séu samkvæmir sjálfum sér í ástúð og aga og temji barni sínu virðingu fyrir vilja Guðs, hinu góða, fagra og fullkomna, allt frá fyrstu tíð. Kirkjusókn fjölskyldunnar er ekki síður þýðingarmikil og mótar heilbrigt fjölskyldulíf.

Oft er spurt að hlutverki guðfeðgina eða skírnarvotta. Á einfaldan hátt má segja að þeirra staða sé að votta skírnina gagnvart annars vegar Guði með því að bera barnið á bænarörmum, þakka þegar vel gengur og knýja á í erfiðleikum lífsins. Hins vegar eru guðfeðgin vottar skírnarinnar gagnvart barninu sjálfu eða skírnarþeganum, með því t.d. að kenna barninu bænir þegar tækifæri gefst, minna á skírnarafmæli og miðla trúararfinum á þann hátt sem hver og einn er fær um. Hjá guðfeðginum, eins og foreldrum, prestum, djáknum, kennurum og öðrum þeim sem nærri koma uppeldi barnsins, skiptir fyrirmyndin, viðmótið og siðferðiskenndin einnig ríku máli - því barnið lærir það sem fyrir því er haft.

Kirkjan styður við trúaruppeldi heimilanna, foreldra og guðfeðgina, með virkum hætti; býður til fræðslu og helgra stunda allt frá fyrstu tíð barnsins á foreldramorgnum, í sunnudagaskóla og starfi fyrir eldri börn og unglinga, auk fermingarfræðslunnar. Nú eru sunnudagaskólar að hefjast aftur víðast hvar í dag eftir jólaleyfi og starfið virku dagana komið í fullan gang. Þarna reynir á stuðning heimilanna, í því að minna á kirkjustarfið og fylgja börnunum til kirkju. Kirkjan vill vera staður fyrir fjölskylduna alla, eðlilegur liður í takti vikunnar, sjálfsagður viðkomustaður í erli daganna. Vil ég hvetja okkur foreldra til að rækja kirkjuna okkar trúfastlega nú í janúar og áframhaldandi, því það er ekki síður mikilvægt "bak jólum" að eiga sér helgan stað, afdrep og friðarstund, en á hátíðinni sjálfri.

Hlutverk stjórnvalda og stofnana í lýðræðisríki er umfram annað að skapa þegnum sínum ákjósanlegt umhverfi til vaxtar og velfarnaðar. Þar er skólinn í lykilhlutverki, er kemur að þroska barnanna. Skiptar skoðanir eru um að hve miklu leyti skólinn skuli koma að trúaruppeldi nemenda sinna, en flestir eru þó sammála um að fræðsluhlutverk skóla sé ótvírætt, einnig í trúarlegu tilliti. Skólum ber skylda til að annast uppfræðslu í þessum mikilvæga þætti mannlífsins, sem trúin er, og þar sem 9 af hverjum 10 nemendum tilheyra kristnu samhengi er augljóst mál að kristin trú, saga hennar og kenning, ætti að vera eðlilegur þáttur í námskrá allra skólastiga. Sætir það furðu, að ekki skuli kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði skipa hærri sess en raun ber vitni á framhaldsskólastigi, enda hlýtur það að vera sjálfsagður réttur unglinga að fá tækifæri til að fræðast og móta sér skoðun um lífsgildi og trú þegar fullorðinsárin banka að dyrum.

Sem barn naut ég þeirra forréttinda að sækja kirkju reglubundið með foreldrum mínum. Þau veittu mér uppfræðslu í kristnum sið og hefðum og skólinn studdi við með biblíusögunum og öðrum kristnum fræðum. Heima vandist ég líka á bænina fyrir svefninn; lærði að ávarpa Guð sem minn himneska föður og fann vernd og öryggi í krossmarkinu yfir sænginni minni. Ein setning úr biblíusögunum grópaðist í huga mér umfram aðrar, lokaorð guðspjallsins okkar í dag: "Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum."

Mætti nýbyrjað ár færa okkur öllum þetta, að þroskast að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum. Mættum við hin eldri færa hinum yngri að gjöf hagkvæm skilyrði til vaxtarins, forsendur viskunnar, í fræðslu og góðu fordæmi. Mættum við öll eiga iðkun skáldsins í verki: Því krýp hinum eina Kristi og krossmark fyrir mér geri. Í hjarta mér heilagur búi og hjá mér til eilfíðar veri.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

María Ágústsdóttir er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Þessi prédikun var flutt á 1. sunnudegi eftir þrettánda 2004.