Hamingjan er heimilisiðnaður

Hamingjan er heimilisiðnaður

Hamingja er ekki slys eða tilviljun heldur afrakstur ákvörðunar og stefnu. Hamingjan er ákveðin og raunar ávöxtur ákvörðunar. Hamingjan er meðvitaður heimilisiðnaður.

Hvað skiptir máli í lífinu? Stór spurning í upphafi nýs árs. Hugsaðu þig um hvað þér er mikilvægt. Spurningin er ekki flókin en þó reynist mörgum snúið að svara henni. Að svara er þó þarft því það hefur áhrif á líf og getur orðið afgerandi um lífsgæði þín og hamingju.

Hvað eitt er þér allra mikilvægast á þessu nýja ári? Hvernig gengur þér í einkalífinu? Og hvernig líður þér í vinnunni? Langar þig kannski að sækja á nýjar slóðir og gera eitthvað nýtt? Ertu á krossgötum og þráir að breyta en ert ekki viss um hvort þú getur eða jafnvel þorir?

Ein af bókunum sem hefur verið uppi við á mínu heimili á liðnu ári er The Happinessproject – sem er bók um hvernig hægt er að vinna að hamingjunni og rækta hana. Þetta er bók fyrir þau sem vilja bæta og langar til að lifa vel. Meðal þess sem lagt er til er að fólk sé meðvitað um stefnu og setji sér markmið - ekki bara almenn markmið heldur sértæk. Flestir vita vel að hægt er að setja sér markmið til langs tíma og skilgreina síðan með hvað hætti hægt er að ná þeim markmiðum, setja niður skref og gæta þess síðan að taka þau. Að setja sér markmið til skamms tíma sem og lengri tíma er til góðs. Hin marksæknu ná alltaf árangri - ef ekki öllum markmiðum þá mikilvægum áföngum.

Hvað skiptir máli í lífinu? Til að svara þeirri stóru spurningu er líka hægt að leita í sjóð annarra, njóta hjálpar þeirra sem hafa þegar svarað. Líklega er blóðríkasti og áhrifaríkasti sjóðurinn - sem ganga má í - vitnisburður þeirra sem hafa ekki getað vikið sér undan að svara þessum spurningum. Og hver eru þau? Hin deyjandi, þau sem hafa verið við dauðans dyr og hafa haft tækifæri til að gera upp lífið og undirbúa hinstu för sína í þessum heimi.

Deyjandi en mest lifandi Prestar eru oft kallaðir til fólks áður en dauðinn kemur. Mér hefur þótt það merkileg og lífshvetjandi reynsla að tala við hin deyjandi. Mörg hafa trúað mér fyrir dýpstu vonum og sorgum. Og það merkilega er að lífsþorsti þessa fólks er oft óbugaður. Mörg þeirra tjá svo djúpa lífsvisku að allt lifnar í návist þeirra. Deyjandi fólk er stundum best lifandi fólkið. Og tilfinningar þeirra, vonir, gildi og þrá geta veitt okkur hinum sjónarhól eða sjónarhorn sem getur hvatt og stutt okkur til lífs.

Meira af hverju? Hvað ætli sé hinum deyjandi mikilvægast? Ég nefni fimm atriði sem gætu orðið þér til íhugunar þegar þú mótar stefnu þína á nýju ári.

1. Trú sjálfum sér Í fyrsta lagi er deyjandi fólk sorgmætt yfir að hafa ekki verið trútt sjálfu sér, ekki staðið með eigin löngunum – heldur látið undan þrýstingi annarra - fremur reynt að uppfylla væntingar þeirra en að virða eigin þrá. Þegar fólk uppgötvar að lífinu er að ljúka minnka varnir, afsakanir verða tilgangslausar og brostnar vonir leita á með fullum þunga. Fólk spyr sig af hverju það fylgdi ekki ástríðu sinni, þrá, löngun og von? Og: „Af hverju lét ég aðra ráða en hlýddi ekki innri rödd, því sem ég hafði þörf fyrir, mínum innri manni?“

Er kannski verkefni þitt á nýu ári að virða innsæi þitt? Það er þitt og er mikilvægt. Það er kall þíns innri manns um lífshamingju og að þú standir með þér. Er það mikils virði?

2. Of mikið puð – of lítið líf Í öðru lagi kemur stundum fram við lífslok samviskubit vegna vinnu og þrældóms. Mörg harma að hafa látið peninga ráða og ekki þorað að breyta til og gera það sem þau raunverulega langaði til. Þetta er stundum kallað gullhandjárn. Og þau halda mörgum föstum. Mörg syrgja að vinnan varð of tímafrek og tíminn sem fór í puðið var tekinn frá ástvinum, að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi og kyssa og faðma maka sinn. Hvað setur þú í forgang á nýju ári og í lífinu? Viltu vera með fólkinu þínu? Og hvað gerir þér gott og veitir þér hamingu?

3. Að virða líka tilfinningar Í þriðja lagi segja hin deyjandi að þau hefðu gjarnan viljað leyfa tilfinningum að blómstra. Kannski hefði mátt virða þær og tjá þær betur. Margir deyfa tilfinningar sínar og tjá þær ekki - til að særa ekki aðra eða halda friðinn. En allir ættu að skilja að bæla tilfinningar getur skaðað andlega heilsu, orðið meinvaldur og til tjóns. Við ráðum ekki hvernig fólk bregst við orðum okkar en hreinskilni er jafnan til góðs til lengdar og eflir þroskuð samskipti. Viltu gangast við þínum innri manni og taka mark á þér?

4. Vinirnir Í fjórða lagi syrgja margir við lífslok að hafa ekki ræktað samband við vini betur. Vinna og verk hafa oft spillt góðum og gefandi tengslum svo fólk hefur í ati lífsins misst sjónar á þeim sem hafa verið þeim mikilvægir og viljað halda tengslum við. Fólk syrgir vini við æfilok. Það er fólk sem skiptir máli við lífslok en ekki hlutir, fjármunir eða vegtyllur. Hvað þykir þér um slíkar fréttir?

5. Hamingjan Og í fimmta lagi syrgja margir að hafa ekki leyft sér meiri lífshamingju og hamingjusamara líf. Þegar dauðinn nálgast dagar oft á fólk að hamingja er ekki slys eða tilviljun heldur afrakstur ákvörðunar og stefnu. Hamingjan er ákveðin og raunar ávöxtur ákvörðunar. Hamingjan er meðvitaður heimilisiðnaður. Hvað aðrir segja, gera eða hugsa tryggir fólki ekki lífsfyllingu heldur það sem fólk ákveður sjálft með góðri sjálfsþekkingu og yfirvegun. Lífið er val og þitt er valið hvort þú velur hamingjuna eða eitthvað annað.

Kenn oss að telja daga vora Í nótt var annar drengurinn minn – átta ára - yfirkominn af tímaöng, eftirsjá yfir að gamla árið væri farið og kæmi aldrei til baka. Hann var harmþrunginn yfir að gleðitími væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Foreldrarnir tóku drenginn í fangið til að tala um möguleika lífsins. Og þá er gott að geta minnt á að amma drengsins lagði upp úr að nýársdagur væri hvítur dagur, dúkaði borð með hvítu, keypti hvít blóm til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Og þessa gætum við á mínu heimili og mörg ykkar líka. Til hvers? Til að minna á og innlifast að hið liðna er liðið.

Nýr tími merkir að við erum öll frjáls – þú líka ef þú vilt. Hvað bindur þinn hug og líf? Hvað langar þig og hvað ætlar þú að gera við tíma þinn, við eigið sjálf og við líkama þinn? Hvernig viltu nota tíma nýs árs – í vinnu, í einkalífi og í samskiptum?

Skáldið og vitringurinn sem samdi lexíu dagsins, nítugasta Davíðssálm, biður til Guðs: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefni okkar allra. Viturt hjarta - fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir og hörmungartíma, stefna hamingjunnar. Nú er framundan nýr tími, algerlega ómengaður og hreinn tími. Þú mátt velja lífið og lífsgæðin.

Ertu við stjórnvöl eigin lífs eða ertu jafnvel bara farþegi? Viltu móta stefnuna, vera við stýrið? Varðandi framtíðina máttu gjarnan spyrja þig: Af hverju viltu verða stoltust eða stoltastur?

Nýr tími, nýtt ár. Engir aðrir en þú eiga að ákveða stefnu þína á nýju ári. Þarftu að stilla kompásinn að nýju? Guð hefur sent þér verkfærakistu til að vinna verkin, vit til að greina úrræðin og mátt sinn til að þú lýjist ekki. Og Guð hefur skapað tímann og þig svo listilega að það er gerlegt. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Amen.

Íhugun í Neskirkju á nýársdegi 2014.

Lexía Sl 90.1-4, 12 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.