Ungum er það allra best

Ungum er það allra best

Litlum börnum er eðlilegt að biðja og best er að byrja á því strax þegar þau eru lítil. Misfellur dagsins eru jafnaðar og allt verður gott. Börnin fá tilfinningu fyrir því sem heilagt er og læra að bera virðingu fyrir höfundi lífsins. Breytnin síðar meir endurspeglar síðan lífsviðhorfið sem myndast smám saman en ekki öfugt.
fullname - andlitsmynd Úlfar Guðmundsson
08. nóvember 2006

Ég gladdist yfir því að lesa í Mbl. umfjöllun um vandaða útgáfu af Heilræðavísum Hallgríms Péturssonar.  Sannlega vildi ég taka undir með Guðrúnu Helgadóttur að börn hefðu gott af því að læra þessar vísur.

Mbl. hefur á undanförnum mánuðum oftsinnis vikið að breytingum á þjóðfélaginu og haft af því áhyggjur.  Breyting á þjóðfélaginu gerist hægt og tekur gjarnan tvær kynslóðir og stundum erfitt að fylgjast með jafnharðan.   Mörg merki eru sjáanleg um breytingu og ber þar hátt notkun eiturlyfja, agaleysi, ofsaakstur og tilefnislausar ofbeldisárásir á borgara sem vekja undrun lækna á Slysavarðstofu sem þó eru ýmsu vanir og fleira mætti telja.  Morgunblaðið spurði í leiðara í sumar hvort nokkur breyting hefði orðið í uppeldismálum sem gæti skýrt þetta.

Morgunblaðið gerði síðan nú í haust ítarlega úttekt þrjár helgar í röð á stöðu barna í okkar samfélagi og var þar flest vel gert.  Ekki man ég þó eftir því að Guð hafi verið nefndur á nafn eða trúarlegt uppeldi.

Sannleikurinn er þó sá að breyting hefur orðið á trúaruppeldi heimilanna á undanförnum áratugum.  Mörg börn eru óvön allri tilbeiðslu og við prestarnir rekumst á börn sem kunna enga bæn.  Þetta er að vísu mjög misjafnt en þarna hefur orðið breyting.

Ég hef haldið víða fram í ræðum að fyrir áratugum síðan voru foreldrar, jafnvel af menntamönnum, gerðir óöruggir um kristið uppeldi barna sinna.  Hugsunin var þá sú að sýna skyldi hlutleysi og börnin gætu síðan valið hverju þau vildu trúa þegar þau væru orðin stór.  Þetta er algjör firra og róttækur grundvallarmiskilningur.  Nánast jafn vitlaust og halda því fram að ekki skuli kenna börnum að tala fyrr en þau séu orðin stór og geti þá valið sér móðurmál.  Dæmið gengur ekki upp og grundvallar næmisskeið bernskunnar, sem er svo frjótt og kraftmikið, er vannýtt.  Nýtist næmisskeið bernskunnar ekki verður erfitt fyrir það að bæta síðar á lífsleiðinni.

Foreldrar þurfa að setjast niður með börnum sínum áður en þau fara að sofa og fara með vers og Faðir vor.  Síðan er gott að nota signingu meira á heimilum og signa börnin og eins að kristin hjón signi hvort annað fyrir svefninn.  Þetta tekur enga stund en hefur mikil áhrif til góðs.  Eins er þarflegt að taka upp örstutta borðbæn við aðalmáltíð dagsins t.d. Guð blessi matinn. Amen.  Það hjálpar til að allir setjist samtímis að borði og rétt er að slökkva á sjónvarpi og útvarpi á meðan.

Litlum börnum er eðlilegt að biðja og best er að byrja á því strax þegar þau eru lítil. Misfellur dagsins eru jafnaðar og allt verður gott.   Börnin fá tilfinningu fyrir því sem heilagt er og læra að bera virðingu fyrir höfundi lífsins.  Breytnin síðar meir endurspeglar síðan lífsviðhorfið sem myndast smám saman en ekki öfugt.  Helgun og trúarleg virðing gefur því slagkraftinn sem dugar til góðrar breytni en það þarf eins og við vitum ekki svo lítið til.

Það leiðir til vandræða þegar enginn þorir að nefna Guð eða kristna trú á nafn.  Þar er þó sterkustu forvörnina að finna sem sýnir sig best þegar í óefni er komið.