Það á að gefa börnum gjöf

Það á að gefa börnum gjöf

Í upphafi aðventunnar megum við hefja gönguna í átt til jólahátíðarinnar með konunginum sem kemur í hógværð og auðmýkt. Hann færði okkur kærleikann, fyrirgefninguna, þakklætið, vonina, bænina. Göngum með gleði veginn til jóla með allt það í farteskinu sem hann gaf. Minnumst bræðra okkar og systra nær og fjær sem búa við erfið kjör, kvíða eða þjást. Biðjum Guð að hjálpa okkur að hjálpa þeim og gleðja.

Matt 21.1-9.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Hreint vatn breytir öllu. Þetta er yfirskrift jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefst í dag, fyrsta sunnudag í aðventu eins og mörg undanfarin ár.

Það er vel við hæfi að hefja söfnunina í upphafi nýs kirkjuárs þegar í hönd fer undirbúningur hátíðarinnar miklu jólanna. Á aðventunni leitar hugur okkar til þeirra sem búa við erfið kjör og þeirra sem ekki lifa við viðunandi aðstæður. Hjálparstarf kirkjunnar sinnir bæði innanlands- og utanlandsaðstoð en jólasöfnunin er helguð fólki sem ekki hefur aðgang að vatni til drykkjar og matargerðar. „Meginmarkmiðið er að bæta fæðuöryggi og framfærslumöguleika fólksins með því að auka aðgengi að vatni, stuðla að betri ræktunaraðferðum og meiri framleiðni.“ Í síðast liðinni viku var ég á afmælisfundi kirkjukvenna sem hafa lagt kirkjunni sinni lið um margra ára skeið. Þessi afmælisfundur var jafnframt jólafundur félagsins. Þar var skipst á gjöfum eins og oft er á slíkum fundum. Þó ég væri gestur fékk ég líka gjöf. Það var m.a. gjafabréf. Á bréfinu stóð „Það á að gefa börnum gjöf…“ „Jólagjafir til barna á Íslandi“. Þar fyrir neðan stóð: „Hvergi er betra að búa en á Íslandi en samt eru hér fjölskyldur sem ekki geta gefið börnum sínum gjafir um jólin. Með þessu gjafabréfi getur þú glatt barn sen fær spennandi jólagjöf undir tréð. Gjöfin þín mun vekja gleði og ánægju.“ Og neðst á þessu gjafabréfi stóð: „Hjálparstarf kirkjunnar“. Hjálparstarf kirkjunnar leggur sig fram um að veita stuðning hérlendis þó jólasöfnunin í ár sem fyrri ár renni til vatnsverkefna í Eþíópíu og Úganda. Ykkur öllum sem hafið látið fé af hendi rakna til Hjálparstarfs kirkjunnar er þakkað fyrir stuðninginn. Hann hefur hjálpað mörgum, bæði í neyð og til sjálfshjálpar. Hjálparstarf kirkjunnar starfar í anda þess leiðtoga er sat á ösnufola á leið sinni til borgarinnar helgu eins og guðspjall dagsins greinir frá. Jesús hagar innreið sinni í Jerúsalem á þann hátt að sýna að hann kemur sem kóngur fullur mildi og auðmýktar. Hann velur að koma á ösnufola en ekki hesti, eins og stríðsmanna er háttur. Jesús þokast áfram mitt í hópi pílagríma sem vita hvert orð af honum fer og taka á móti honum sem sigurvegara. Fagnaðarhróp lýðsins veita íbúum Jerúsalem tvennskonar mikilvægar upplýsingar um Jesú: Annars vegar er hann spámaðurinn frá Nazaret í Galileu og hins vegar er hann Sonur Davíðs sem kemur í nafni Drottins. Hér er enginn venjulegur konungur á ferð þó hylltur sé af viðstöddum. Hann sem síðar var nefndur konungur Gyðinga þegar hann hafði verið negldur á kross, hafði aðra hugmynd um sjálfan sig en að hann væri maður valdsins. Hann kallaði sjálfan sig mannssoninn, góða hirðinn, ljós heimsins...

Í fótspor hans hafa kristnir menn reynt að feta. Hann er leiðtoginn sem þjóðin vænti og hann er leiðtogi allra þeirra er játa hann sem Drottinn og frelsara. Boðskapur hans byggist á kærleika og réttlæti og hann á við jafnt nú sem þá. Lífið er fullt af andstæðum og þversögnum. Það er ekki bara svart og hvítt eða já og nei. Í guðspjallinu greinum við líka þessa þætti. Það er mikil gleði sem birtist í guðspjallinu þegar lýðurinn hyllir konunginn. Það er hrópað: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Í andliti konungsins sem hylltur er má sjá áhyggjusvip, því hann veit hvað í vændum er, að hann eigi að líða og þjást og deyja á krossi. Litli ösnufolinn er nógu sterkur til að bera þann sem hylltur er. Nú þegar við undirbúum okkur fyrir jólin leitar hugurinn inn á við til þess sem mestu máli skiptir. Er það hið ytra, það sem við sjáum? Er það fólkið sem okkur þykir vænt um og fólkið sem okkur langar til að gleðja og hjálpa? Við gleðjumst yfir lífinu um leið og við erum sorgmædd yfir því hve lífið leikur suma grátt og hve margir í henni veröld búa við óöryggi og ranglæti. Enginn getur hjálpað öllum, en allir geta hjálpað einhverjum er haft á orði og er það hverju orði sannara. Þó við séum öll af vilja gerð er það ekki á færi einnar manneskju að hjálpa öllum. En allir geta hjálpað einhverjum og það er það sem við getum haft í huga og eigum að hafa í huga. Í hverju barni sem fæðist hér á jörð er mynd Guðs. „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín segir Jesús.

Jakob postuli segir í bréfi sínu að trúin sé dauð án verkanna. Saga ein segir frá því að ferjumaður hafi róið fram og aftur yfir mjótt sund. Það fyrsta sem farþegarnir tóku eftir þegar þeir komu í bátinn voru árarnar. Þær voru tvær og á annarri stóð stórum stöfum trú en á hinni verk. Hvað átti þetta að þýða? Þeir sem spurðu fengu aðeins þetta svar: Sjáið. Þá tók ferjumaðurinn árina, sem merkt var trú og réri aðeins með henni. Það var enginn vandi að sjá að báturinn fór í tóma hringi. Þvi næst réri hann með árinni sem merkt var verk og það fór á sömu leið. Að síðustu tók hann báðar árarnar, trú í aðra hönd og verk í hina og réri með báðum í einu. Þá miðaði litla bátnum jafnt og þétt áfram. Þegar trú og verk fara saman næst árangur. Þá næst markmiðið sem stefnt er að.

„Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina vakir vörðurinn til ónýtis“ segir í 127. Davíðssálmi. Verkin eru ekki undirstaða trúarinnar, þau eru afleiðing trúarinnar. Trúin er undirstaða verkanna.

Undanfarin ár hefur orðið mikil vakning um pílagrímagöngur. Í Pílagrímasálmi segir: Við erum fólk í förum. Ef ferðin er erfið og löng, við setjumst við læki og lindar og leitum þín, Guð, í söng.

Það má líkja lífinu á aðventunni við pílagrímagöngu. Við erum á lífsins göngu og á aðventunni höfum við tækifæri til að líta inn á við, leita okkar sjálfra og Guðs. Leita að tilgangi lífsins og hugsa um jólin og undirbúa þau. Við stefnum á ljósið sem jólin færa á þessum dimmasta tíma ársins. Í þessu mikla myrkri mænum við á ljósið sem við okkur skín í barninu í jötunni. Ljósið sem lýsir skærar eftir því sem nær dregur jólum þó dagarnir verði dimmari og dimmari hið ytra. Ljósið færir okkur ekki aðeins birtu heldur einnig yl og er tákn vonar og nærveru Guðs.

Í upphafi aðventunnar megum við hefja gönguna í átt til jólahátíðarinnar með konunginum sem kemur í hógværð og auðmýkt. Hann var að ganga til móts við örlög sín á krossi. Stuttu síðar mætti hann dauða sínum á krossi og sagði: Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Hann færði okkur kærleikann, fyrirgefninguna, þakklætið, vonina, bænina. Göngum með gleði veginn til jóla með allt það í farteskinu sem hann gaf. Minnumst bræðra okkar og systra nær og fjær sem búa við erfið kjör, kvíða eða þjást. Biðjum Guð að hjálpa okkur að hjálpa þeim og gleðja.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.