Því það kenndi ég yður fyrst of fremst, sem ég einnig hefi meðtekið , að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundrup bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. I. Kor.15:3-6
Gleðilega páska!
Á föstudegi fór fram krossfesting. Ekki minni ég á þetta til að varpa skugga á páskagleði ykkar, heldur þvert á móti til þess að leita dýpri skilnings og ríkari tilfinninga fyrir stórkostlegum gleðiboðskap páskanna.
Brotgjarnt líf Líf okkar mannanna er forgengilegt, brotgjarnt. Í hverri viku, já hvern dag, fara fram krossfestingar, vonir bresta, draumar dofna. Heilt líf í dag, brotið á morgun. Þessi dásamlega fallegu börn sem leika sér við skólann að morgni og svo gengur maður niður í gamla miðbæ að kvöldi og sér ungt fólk í vímu vonleysis og uppgjafar.
Í lestrinum sem við heyrðum úr Fyrra Korintubréfi talar Páll postuli um hvernig Jesús kom inn í þetta brotna líf okkar, var krossfestur og gekkst undir okkar kjör. Hann gekk inn í líf konunnar, sem í vikunni greindist með ólæknandi sjúkdóm, og einnig inn í líf mannsins sem nú á þessari stundu sefur af sér vímu gærdagsins við vonda drauma.
En hann skildi ekki við okkur vansæl og brotin.
Postulinn heldur áfram: “hann reis upp á þriðja degi,.. birtist Kefasi,- þ.e. Pétri postula,- síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðra í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa..”
Nýsköpun Guðs var hafin, broddur dauðans brotinn. Jesús reis fyrstur, sem tákn fyrir þá sem á eftir komu, merki þess að Guð sigrar hið illa með valdi sínu, jafnvel dauðann. Á páskum fögnum við því að okkur er boðin hlutdeild í þessum mikla sigri.
Í dag er hin mesta hátíð kristninnar. Við söfnumst hér saman að morgni páskadags, prúðbúin og í hátíðarskapi. Það á vel við. Þegar við hugsum í kyrrð um tilefnið, þá vitum við hve mikið við eigum að þakka góðum Guði, hve dýr sú von er sem upprisan færir og sá kraftur trúar sem henni fylgir.
En við komum frá hversdögum og hverfum brátt aftur til his hversdagslega. Í önn dagsins bera margir þungar byrðar. Þar eru margir langir föstudagar. Þar mætum við tíðum Jesú, við krossinn sem náungi okkar ber.
Fjölmart fólk í okkar samtíð finnur sárt til hve oft okkur skortir smyrsl kærleikans, hve mjög við þurfum á lækningu að halda. Í starandi augnaráði unglingsins niðri í bæ endur- speglast kross Krists. Hér er sál, sem hefur grátið sig ein í svefn, sem hefur fundið til kulda einmanaleikans, horft sem ungbarn upp á þjáningu móður og reiðiköst föður, sem sáu enga von. Brotin líf.
Ein, en ekki yfirgefin
Fyrir nokkrum mánuðum barst mér í hendur fréttabréf frá kvennaathvarfi í Winnipeg, Manitoba í Kanada, þar sem ég bý. Efni bréfsins olli mér vonbrigðum. Þar var að finna ljóð, sem bar yfirskriftina “trúðu”. Upphafið var eitthvað á þessa leið:
Trúðu á sjálfan þig á þinn eigin mátt til að stjórna þínu eigin lífi frá degi til dags.
Ljóðið hélt svo áfram í sama dúr, þar til í lokaerindinu, þar sem sagði:
Allt mun þetta enda vel ef þú treystir og trúir að engin takmörk séu fyrir hvað þú getur gert.
Ég skil tilfinningarnar að baki þessu ljóði. Verið er að reyna að telja kraft og kjark í brotna manneskju. Góðvilji er hér að baki. En hve mikil huggun er það fyrir manneskju sem er niðurbrotin, barin og út úr eigin húsi, að segja henni að hún verði at treysta á sjálfa sig? Hví gefum við fólki steina þegar nóg er til af brauði?
Þetta er það sem gerist, þegar við fjarlægjumst Guð, við eigum þá ekkert nema sjálf okkur til að treysta á. Og fjarska erum við lítil borin saman við Guð og mátt hans. Það er lítil huggun í að vera sagt að trúa og treysta bara á sjálfan sig. Konan þarf vin, hún þarf raunverulega hjálp. Hún þarf nýja von.
Þótt okkur kunni að sýnast að það sé lítið sem við getum gert, þá kemur upprisan hér til skjalanna. Jesús lifir. Í upprisunni höfum við séð mátt Guðs, í lífi Jesú kærleika hans. Við getum sagt, ´Guð styrkir mig og ég veit hann mun styrkja þig, ég skal standa við hlið þér, ég skal vera vinur þinn´. Við getum sagt, ´ég skal fylgja þér til Jesú´. Svo göngum við að krossinum og stöndum þar. Við rifjum upp söguna um hvað gerðist, hvernig hann reis upp, að hann lifir. Svo biðjum við saman.
Upprisan, nýsköpun Guðs
Ég á góðan vin. Hann og kona hans eignuðust fjögur efnileg og mannvænleg börn. En svo fæddist litla stúlkan, sú yngsta, hún var ekki heil, var sein til að ganga og þroskast. Það rann brátt upp fyrir foreldrunum að hún var mikið vangefin. Eitt sinn er við vorum að tala saman um lífið og tilveruna, ég og faðir litlu stúlkunnar, barst talið að því hvað væri í raun og veru átt við með því að rísa upp til nýs lífs í himnesku ríki Guðs. Þá sagði þessi góði vinur minn við mig í mikilli alvöru og einlægni: ´´ Það sem ég hlakka mest til, Ingþór, þegar ég kem í himneskt ríki Guðs, er að sjá litlu stúlkuna okkar eins og hún átti að vera, heila og óskaðaða’’.
Þetta var ekki bara tálvon. Þessi hjón þekktu vel til postulanna og annarra þeirra sem voru til vitnisburðar um upprisu Jesú. Trú kristins fólks byggist ekki á trúarlegum vangaveltum eða íhugun, heldur á sögulegum atburðum, sem hundruð fólks urðu vitni að og á reynslu aldanna af því að finna til nálægðar hins upprisna Drottins.
Jesús sagði: Ríki Guðs er í nánd. Það er ykkar á meðal. Hér í dag er máttur Guðs og kraftur sjánalegur í lífinu allt um kring. Barn er skírt, merkt krossi Krist á enni og á brjóst, það er hluti af nýrri sköpun Guðs. Við borð Guðs snertir nálægð Guðs líf okkar í víni og brauði. Þér er fyrirgefið, þú ert heil gjörð, þitt ófullkomna og brotna líf, er heilt í Kristi og rís upp með honum. Smyrsl kærleika hans renna in í sprungurnar, mýkja sárin, þú ert aldrei ein eða einn frá þessum degi.
Sigur unninn
Sú saga er sögð úr frumkristninni að kristið fólk hafi komið saman um sólarupprás hvern fyrsta dag vikunnar, snúið sér til austurs mót rísandi sól og hrópað á grísku máli, NIKE eða NIKOS, sigur! Við könnumst sennilega betur við NIKE sem vörumerki á íþróttaskóm og fatnaði, en orð þetta er þrungið merkingu fyrir kristið fólk, það flytur páskaboðskap-inn. Sigur er unnin. Kristur er sannarlega upprisinn! Allt hið illa er yfirunnið. Hin nýja sköpun Guðs er hafin. Næst þegar við sjáum NIKE merkið, þá getum við hrópað innra með okkur, sigur! Kristur lifir!
Páll postuli lauk kaflanum sem ég vitnaði til í upphafi með orðunum: ”Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottinn vorn Jesús Krist.” Þetta er mikill leyndardómur, mikið undur, sams konar undur og sköpunarverkið sjálft. Guð hefur skapað þig og í Kristi Jesú skapar Guð enn á ný. Með honum, fyrir upprisu hans, gefst okkur eilíft líf. Guði sér lof og dýrð. Amen.