Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gerði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom að veislan skyldi vera sendi hann þjón sinn að segja þeim er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gert sem þú bauðst og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“ Lúk. 14:16-24
Þú gafst mér akurinn þinn Þér gef ég aftur minn Ást þína á ég ríka Eigðu mitt hjartað líka. (HP 17:24)
Þegar jörðin skelfur er grundvöllur þjóðarinnar skekinn. Náttúruöflin láta til sín taka og máttur þeirra hrærir hvert hjarta. Þá er hver og einn, ungur sem aldinn, minntur á, hve ógnarsmá við erum og pasturslítil frammi fyrir reginafli náttúrunnar, andardrætti jarðskorpunnar, veðrum jarðar. Fyrir fáum dögum hljóp eins slík áminning yfir landið með ógnarhraða og krafti og við urðum svo lánssöm að enginn fórst, þó nokkrir yrðu sárir og margir skelfingu lostnir. Það er bæði aðdáunarvert og mjög athyglisvert, hversu vel tókst til um fyrstu viðbrögð, skipulagða hjálp og sameiginlegan stuðning. Fólk hélt ró sinni og unnið verður að því á landsvísu að styrkja hópinn og leitast við að bæta skaðann. En máttur jarðar minnir á sig og þar sem Loki berst um í fjötrum sínum fer hann feiknstöfum á skjálftamælum veðurstofunnar. Tungumál náttúraflanna hefur heyrst lengi með þessari þjóð og haft sín miklu og afdrifaríku áhrif. Um það vitnar sagan, áföll, stórslys og hamfarir á sjó og landi. Þjóðin hefur oft verið lostin skelfingu og sorg. Missirinn hefur verið átakanlegur og móðurinn hefur stundum verið bágur. Við höfum lært sem þjóð að takast á við umhverfi, náttúru og veðurfar og við erum þakklát, þegar hræring jarðarinnar leiðir ekki óbætanlegar hörmungar yfir okkur. Við erum um leið þakklát því samfélagi, sem við byggjum og njótum, rétt eins og við gleðjumst yfir því landi, sem Guð gaf okkur að erfðafé. Við hverfum þá líka til trúararfsins.
Þegar Jesús talar vekur það oftast gleði í brjóstinu. Stundum reyndar forvitni, t.d. þegar hann gefur Níkódemusi ráðherra svar við erfiðum spurningum, sem varða mannlíf og eilífð. Stundum vekja orð Jesú aðdáun, eða munum við ekki hvernig hann leysti hórseku konuna undan dómi lýðsins með snaggaralegu tilsvari. Stundum eru orð hans gáskafull, eins og þegar hann heilsar Natanael lærisveini sínum fyrsta sinni eða þegar hann spyr um gjaldmiðil keisarans. En að stærstum hluta fjallar orðræða Jesú um stórmerki Guðs og fyrirheit hans til handa börnum hans, mér og þér. En svo koma þær stundir að áheyrandann setur hljóðan. Við heyrum sögu í dag og hún vekur óneitanlega upp nokkuð ásæknar hugsanir og kallar á viðbrögð, sem geta sjálfsagt orðið hörð, en líka spyrjandi, - fyrst og fremst spyrjandi. Er þessi saga um mig? Ef svo er, hvar er mitt hlutverk í þeirri sögu? Eru hér uppi hótanir? En svo má líka segja: Æ, mér kemur þetta ekkert við. Hvernig svo sem brugðist er við, þá er það nú einu sinni þannig, að orð Jesú snerta hvern þann er heyrir og þann sem sér. Við skulum ekki falla í þá gryfju að gera okkur sjálf að blóraböggli í þessu samhengi. Við skulum skyggnast um og skoða það, sem mestu skiptir í þessu máli Jesú: Þú ert boðin(n) til kvöldmáltíðar.
Þegar boðið er til kvöldverðar er boðið til samfélags. Samfélags við þann sem býður og samfélags við aðra gesti samkvæmisins. Þetta samkvæmi er samneyti og hver og einn fær sitt og verður mettur og glaður. Þannig er það bæði líkamlegt og andlegt samkvæmi. Góðar veislur eru oft þungamiðja góðra skáldsagna og fornar sögur íslenskar greina frá mörgum slíkum atburðum, gleðifundum og oft vendipúnktum sögunnar. Jesús sótti veislur og átti þannig samfélag við samtíð sína m.a. við matborðið. Þau dæmi sem hann tekur og notar í ræðu sinni eru títt út frá hinu daglega lífi. Dæmisagan um kvöldmáltíðina er áskorun um að koma til samfélags, þar sem gestgjafinn er Drottinn sjálfur. Sú næring sem þangað er sótt, er til eflingar samheldni, umhyggju og nærgætni. Orð sem minna á nokkra grundvallarþætti mannlegs lífs og búa yfir leyndardómum hamingju og vellíðanar. Fyrst og fremst er þetta mikla boð, tækifæri til þess að eiga samfélag við lífgjafann sjálfan og eignast með því hlutdeild í þeirri speki og lífssýn, sem getur best leitt okkur gegn um lífið og hjálpað okkur til að skilja, hvað er mikilvægast hér á meðal okkar, bæði hvað varðar raunveruleika nútíðar og hina ólesanlegu framtíð.
Jesús býður til samfélags. Kærleikssamfélags. Tilboð hans miðar ekki að því að vekja upp samviskubit, heldur að því að vekja með okkur samvisku og vera okkur styrkur í öllum litbrigðum lífsins. Í orðum hans er hvergi neitt, sem er ástæða til kvíða, - þvert á móti. Orð hans eru vakning og vitund um styrk, hjálp og mótvægi við allt það, sem brýtur okkur niður og veldur sársauka og sundrungu í lífi einstaklings og ennfremur styrkur því samfélagi, sem vill taka lit af viðhorfum hans og fyrirheitum. Allt sem hann segir er hvatning, ekki úrtölur. Hann kallar okkur til samhygðar og samkenndar, til sameiginlegrar úrvinnslu og þjónustu við náungann. Þegar við finnum til vanmáttar og úrræðaleysis er hann nálægur, bakhjarl, stoð og styrkur, andleg leiðsögn og rökræn áskorun og hvatning. Og þegar grundvöllurinn er skekinn, er hann þar og býður fram sjálfan sig til halds og trausts, til betri lífsgæða og eilífra sanninda, sem gerir okkur betur kleift að takast á við allt það sem ógnar, skelfir, meiðir og drepur. Áskorun hans er tilboð: “Komið til mín, allir þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin og ég mun veita yður hvíld”. (Mt. 11:28).
Það besta sem við eigum í tilvist og viðbrögðum alþjóðasamfélagsins á sér grunnstoðir í kærleiksboðun Jesú Krists. Grundvöllur Sameinuðu þjóðanna byggir á þjónustulund og kærleikshvatningu kristinnar siðfræði. Alþjóðleg viðbrögð við náttúruhamförum í Burma og Kína byggjast á samkennd og bróðurelsku. En það eru ekki allir leiðtogar svo gæfusamir að þiggja boðið. Það má samt ekki láta af því að láta boðið ganga.
Erindi Jesú er ekki fólgið í því að vekja með okkur kvíða yfir því að vera ekki fullkomin. Kvíði er nú líklegast eitthvert mesta mein okkar samfélags og má í mörgu tilliti rekja til vantrausts á sjálfum sér og óöryggi varðandi grundvallaratriði, eins og því hvað skiptir raunverulega máli í lífinu og hvernig á að forgangsraða í velmeguninni. En hvaða skýringar sem við gefum okkur þar að lútandi, þá er svo óendanlega mikilvægt að leita sannleikans í því sem er okkur æðra og meira. Það gerum við best með því að hlusta eftir þeim orðum, sem eru skaparans, sem eru Guðs og birtast í persónu Jesú Krists og boði hans. Það má vera að einhverjum finnist það bábilja, ódýr lausn, eða flótti frá raunveruleikanum, en frammi fyrir áföllum og skeknum grunni mannlífsins, frammi fyrir ógnvænlegum hreyfingum jarðar, stórbrotnum krafti veðurofsa eða feiknkrafti sjávarbylgju verður nokkuð ljóst að manneskjan er lítil í einsemd sinni og þarfnast samfélags við aðra og samfélags við skaparann.
Forsætisráðherra Íslands minnti á að þjóðin stendur saman í áföllum og náttúruhamförum, já, þegar á bjátar. Sú samstaða á sér orsök og hún liggur í þjóðarvitund, sem vaxin er af langri sögu, margslunginni og fjölþættri lífsreynslu, en líka samofin af staðfastri trú á Guðs náð og forsjón hans. Sú vitund er svo rótgróin og veðruð, að hún á sér stað í stjórnarskránni. Ekki fyrir tilviljun eða grunnhyggni, heldur fyrir lífssýn, sem er greipt í hjarta þjóðar og er svar hennar við boðinu mikla, kvöldmáltíðar Drottins og þess samfélags, sem þar fær að hrærast. Slíkt samfélag er ekki flótti, ekki úrræðaleysi, eða ótti, heldur fullvissan um gleði og þrótt, er sameini og styrki og gefi von, - sem ræður úrslitum, þegar á reynir.
Við erum þakklát þegar það snýst til góðs sem miður fer. Við erum þakklát fyrir landið, samfélagið og þau grunngildi, sem þjóðin byggir á í daglegu lífi, í lögum, afstöðu til annarra og viðbrögðum. Við erum þakklát fyrir orð Jesú og það allt, sem þau bera með sér og veita í krafti sínum og ávöxtum. Það er nægtaborðið, sem við erum kölluð að og megum njóta hvert og eitt – og í sameiningu.
Jesaja dregur þetta saman í ljóðrænan búning lexíunnar:
Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á og hann mun frelsa oss. Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á, fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans því að hönd Drottins mun hvíla á þessu fjalli.” Jes. 25