Goðsögnin um tómar kirkjur

Goðsögnin um tómar kirkjur

Aftur og aftur les maður staðhæfingar um að kirkjur landsins séu illa nýtt hús, þangað komi fáir og þar sé lítið sem ekkert um að vera. Það virðist fara óskaplega í taugarnar á mörgum sé bent á það gagnstæða. Nú í vikunni fékk ég niðurstöður talningar kirkjuvarða Akureyrarkirkju á fólki sem sótti kirkjuna síðasta ár.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
20. febrúar 2008

Aftur og aftur les maður staðhæfingar um að kirkjur landsins séu illa nýtt hús, þangað komi fáir og þar sé lítið sem ekkert um að vera.

Það virðist fara óskaplega í taugarnar á mörgum sé bent á það gagnstæða.

Nú í vikunni fékk ég niðurstöður talningar kirkjuvarða Akureyrarkirkju á fólki sem sótti kirkjuna síðasta ár.

Helgihald, messur og fyrirbænastundir sóttu 9.910 manns. Alls komu 21.677 í kirkju í aðrar athafnir (t. d. skírnir, giftingar og útfarir) á hennar vegum, eða samtals 31.587 gestir.

2.697 mættu þar að auki í Akureyrarkirkju á tónleika sem ekki voru á hennar vegum.

Kirkjan er einn vinsælasti áfangastaður ferðafólks í bænum. Því miður hefur ekki verið unnt að telja þann hóp nákvæmlega en kirkjuverðir og aðrir sem vinna við móttöku ferðafólks í kirkjunni álíta að sá fjöldi sé ekki undir 35.000.

Þá er ótalið það fólk sem kemur í Safnaðarheimili kirkjunnar. Sunnudagaskólinn fer þar fram að mestu og annað æskulýðsstarf, fermingarfræðsla, kóræfingar og ennfremur eru prestar kirkjunnar með viðtalstíma í Safnaðarheimili. Þar eru haldnir ýmsir fundir. Félög hafa þar aðstöðu, t. d. AA-samtökin, Samhygð, samtök syrgjenda að ógleymdu sjálfu Kvenfélagi Akureyrarkirkju, sem nýlega fagnaði 70 ára afmæli sínu. Þróttmikið tónlistarstarf kirkjunnar er í Safnaðarheimilii og kapellu. Einnig eru veisluhöld tíð í aðalsal Safnaðarheimilis, t. d. eru þar oft drukkin erfi.

Það er því ljóst að vel yfir 100.000 manns komu í húsakynni Akureyrarkirkju á síðasta ári.

Ég er svo heppinn að vinna með frábæru fólki í Akureyrarkirkju, duglegu og hugmyndaríku. Það er því að þakka að starf kirkjunnar alltaf að aukast - og Guði almáttugum.

Þessi pistill birtist einnig á bloggi Svavars Alfreðs og þar fara fram umræður um hann.