Heima

Heima

Lærisveinarnir koma í uppruna sinn að lokum. Og það er sannarlega áfangastaður þangað sem við öll stefnum. Það er okkar eigið ,,Fyrirheitna heimalandið".

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.  ,,Heima" - ,,heima" er orð sem við notum fjölmörgum sinnum í daglegu lífi okkar. ,,Heima" er því mjög hversdagslegt orð en samtímis hefur það margvíslega merkingu. Það gefur til kynna í huga okkar eitthvað dýrmætt, fallegt eða jafnvel heilagt. Orðið ,,heima" bendir okkur annars vegar á mjög áþreifanlegan hlut eins og í notkun í samsettu orði ,,heimahús" eða ,,heimavinna" og hins vegar bendir það á stórt hugtak og ótakmarkað eins og í samsettu orði ,,heimaland" eða ,,heimþrá". Ef til vill má segja að orðið ,,heima" eigi tvo kjarna. Annað er stórt hugtak eins og heimaland, og hitt er minna en áþreifanlegara hugtak eins og heimili.
Hvað hugsum við þegar við heyrum orð ,,heimaland" eða ,,heimaborg"? Auðvitað kemur falleg náttúra fyrst í hug fyrir flesta Íslendinga og síðan munu ýmsar vel-kunnugar svipmyndir frá heimaslóðum sérhverrar manneskju birtast í huganum. Hugsun um heimaland eða heimaborg felur í sér náttúru, tungumál og samskipti við íbúa þar. Sem sé, það er uppruni sérhvers okkar, staður og umhverfi þar sem við erum komin frá. 
Hvað hugsum við þá um orðið ,,heimili"? Líklega hugsa flest okkar um fjölskyldulíf fyrst og fremst. Heimili er staður fyrir okkur sjálf og einnig fyrir fjölskyldu okkar. Það er griðastaður þar sem við erum örugg og í friði. Heimili er staður þar sem við tilheyrum áhyggjulaust. 
Þannig felur lítið orð ,,heima" í sér uppruna sérhverrar manneskju og stað þar sem hún getur hvílt örugg. Og margt fólk segir: ,,Heima er best".  

2.  Margir fara hins vegar úr heimaborg sinni og heimili sínu þar sem þau voru alin upp. Oftast er það eðlileg þróun í mannlífinu. Maður þarf að stíga inn í stærri heim og víkka sjóndeildarhringinn og reyna að byggja upp nýtt heimili fyrir sig. Að fara frá heimili foreldra, heimaborg eða heimalandi og að leita að nýjum heimaslóðum og nýju heimili er hluti af okkar lífi. Og hið sama má segja um innflytjendur á Íslandi. Óháð því hvaða ástæða liggur að baki hvers innflytjanda eru þeir að leita að nýju heimalandi og heimaborg, og reyna að byggja upp nýtt heimili í friði og með öryggi. 
Allt þetta er yfirleitt eðlileg þróun í lífi hverrar manneskju, en því miður eru einnig óteljandi tilfelli þar sem fólk neyðist til þess að yfirgefa heimkyni sín. Sagt er um tvær milljónir manns töpuðu heimili sínu vegna jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi um daginn. Og tæplega 120 milljónir manns eru á flótta í alheiminum í dag og helmingur þeirra hafa einnig yfirgefið heimaland sitt.
Þá er einnig fólk sem missir heimili sitt í kringum okkur á Íslandi. Alls 2.374 tikynningar um heimilsofbeldi bárust til lögreglunnar hérlendis á árinu 2022. Lögreglan segir að meðaltali bárust 7 tilkynningar á hverjum degi í gegnum árið. Burt séð frá því hvort allir þolendur heimilisofbeldis þurfi að yfirgefa heimili sitt eða ekki, en a.m.k. er ekki lengur hægt að kalla heimili þeirra griðastað þegar fólk upplifir slíkt ofbeldi. Getur það þá enn skilgreinst sem,,heimili"? 

3.  Þannig má segja að margir á Íslandi jafnt sem í heiminum leita að nýjum heimaslóðum og reyna að byggja upp nýtt heimili. En í flestum tilvikum er það alls ekki auðvelt ferli að fóta sig á nýjum heimaslóðum. Eftir mikla fyrirhöfn til að kynnast nýjum náunga og nýju umhverfi byrjar maður að hugsa að maður sé búinn að finna nýtt ,,heima". En með tímanum áttar maður sig að fólk í kringum mann, sér mann enn sem utanaðkomandi. Slíkt gerist í einhverjum stað á degi hverjum. 
Eitt af stórum umræðuefnum í innflytjendamálum síðustu ár er missir sjálfsmyndar innflytjendabarna. Þau skildu við heimaland sitt og flytja til nýs lands. Byrja að læra nýtt tungumál og menningu með mikilli fyrirhöfn. Samt skynja þau að þau séu ekki meðtalin, heldur upplifa þau sig enn utanaðkomandi. Þau velta því fyrir sér að þótt þau eigi sér annað upprunaland þá þekkja þau ekkert annað heimaland en Ísland, og spyrja sig réttilega “hvar tilheyri ég raunverulega?  

Við -bæði innflytjendur og Íslendingar- getum upplifað svipað tilvik t.d. í skóla, vinnustað, íþróttarklúbbi eða jafnvel í kirkju. Skóli eða vinnustaður er ekki bókstaflegt ,,heimili" en samt er þar samfélag þar sem við getum átt gagnkvæm samskipti, vináttu og virðingu saman. Okkur líður vel þar og okkur finnst við vera meðtalin. Engu að síður... ... með einhverri leiðinlegri uppákomu gætum við upplifað það að okkur finnst eins og staðurinn hafi breyst í ókunnugt umhverfi og fólkið þar sé allt búið að snúa baki við okkur. Slík upplifun getur verið jafnt stórt áfall fyrir okkur og að upplifa svik á eigið heimili. 
Af og til mætum við háum og hörðum vegg á meðan við erum að leita að nýjum  heimkynnum og nýju heimili. Það er harður raunveruleiki margra. Hjörtu okkar geta skelfst. Við spyrjum okkur: ,,Hvar tilheyrum við raunverulega?"

4.  Jesús segir við lærisveina sina í kveðjuræðu sinni rétt áður en hann verður handtekinn: ,,Í húsi föður míns eru margar vistarverur. (...) Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er."(Jn.14:2-3) Rétt eftir segir Jesús einnig í 15. kafla: ,,Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum heldur hef ég útvalið yður úr heiminum."(Jn.15:19) 
Lærisveinarnir standa frammi fyrir skilnaði við Jesú núna. Þetta er jú harður tími fyrir þá. En þeir eiga að mæta enn harðari raunveruleika seinna í lífinu sínu vegna trúarinnar. Því væri hægt að sjá boð Jesú til lærisveinanna sinna til heimilis hjá Guði Föður sem eins konar umbúning fyrir lærisveinana, fylgjendur Jesú.

En það er einnig hægt að skoða þetta aðeins í stærra samhengi. Maður þarf að yfirgefa heimaslóðir sínar og að leita að nýju „heima“ á jörð. Svona mótíf sést einmitt í byrjun Biblíusögunnar. Adam og Eva töpuðu heimaslóðum sínum - aldingarðinum í Eden. Þau voru rekin út úr honum vegna þess að þau drýgðu synd frammi fyrir Guði. Þau voru flutt á nýjar heimaslóðir úr Eden sem var upprunastaður þeirra. Og syndin kom í arfleifð manneskjunnar. 
Með tilliti til þessa, gætum við sagt að það sé vegna erfðasyndar okkar að við þurfum næstum óhjákvæmlega að leita að nýju „heima“ eða heimili. Og í leitinni að nýju „heima“, höldum við ávallt í fallega hugmynd um heimaland og heimili án tillits til þess hvort heimaland okkar eða heimili hafi verið fullkomið í raun eða ekki. Þessi fallega hugmynd er greipt í hjarta okkar ekki endilega af raunverulegri reynslu, heldur er hún komin innan frá, frá því sem við fengum í arf frá Guði. Sem sé, hún er hluti af Guðsmyndinni sem Guð skapaði manneskjuna eftir. 
Og við manneskjur leitum að nýju „heima“ á meðan við höldum drauma“heima“ í hugum okkar. Það sem við erum að gera er, þó að við séum ekki meðvituð um það, að leita að sönnum heimaslóðum, sönnu heimili hjá Guði Föður okkar eins og Adam og Eva höfðu í upphafi. 
Þannig býður Jesús núna lærisveinunum sínum inn í þetta sanna heimili í Guðsríki. Það þýðir að lærisveinarnir koma í uppruna sinn að lokum. Og það er sannarlega áfangastaður þangað sem við öll stefnum. Það er okkar eigið 
,,Fyrirheitna heimalandið".

Kæri söfnuður og hlustendur, ef þið njótið góðs heimilislífs í heimaborg í dag, lof sé Guði. Það er blessun Guðs! 
En ef ekki, skulum við að hlusta á Jesú: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig."(Jn. 14:1) Þó að við upplifum vonbrigði með harðan raunveruleika um heimaland, heimaborg eða heimili okkar, skulum við vita að það er ekki allt. Þó að við mætum aðstæðum þar sem okkur líður eins og utanaðkomandi á nýjum heimaslóðum, skulum við ekki gefast upp. Þetta er áskorun fyrir okkur sem fylgjendur Jesú eins og lærisveinarnir allir þurftu að ganga gegnum á þeim tíma. 
Við erum í heiminum en ekki af heiminum. Við höldum áfram að reyna að byggja upp besta mögulega „heima“ með öllum krafti okkar og trú á meðan við erum hér á jörð. Jesús segir: ,,Þér séuð einnig þar sem ég er." Þá verðum við allatíð á því besta og sanna heimili í Fyrirheitna heimalandinu okkar. Höldum þessa náð fast í hjörtum okkar. Með því þurfum við ekki að óttast jafnvel þó að við göngum gegnum harðan raunveruleika í þessum heimi. Við vitum hvar við eigum heima.

Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. –Amen