5Mós 4.29-31; Fil 4.11-13; Lúk 10:38-42. Við skulum biðja:
Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Gleðilega hátíð.
Það var mikið um dýrðir og mannfjöldi mikill þegar Reykhólakirkja var vígð fyrir nákvæmlega 50 árum, þann 8. september árið 1963. Þá fór faðir minn heim eins og hann sagði þegar hann fór að Skerðingsstöðum hér í sveit. Upp frá því voru myndir af vígslu kirkjunnar í albúminu heima og líka myndir af þeim Skerðingsstaðasystkinum við leiði foreldra sinna hér í Reykhólakirkjugarði. Ég horfði oft á þessar myndir þegar ég var enn í foreldrahúsum og finnst næstum eins og ég sjálf hafi verið viðstödd vígsluna.
Gamla kirkjan, sem endurreist var á Saurbæ á Rauðasandi stóð enn og úr henni voru bornir gripir í upphafi athafnar og færðir í þessa nýju kirkju. Það ber vott um elsku til kirkjunnar hve margar gjafir hún fékk við vígsluna. Í Morgunblaðinu birtist frétt af vígslunni og þar eru gjafirnar allar tíundaðar.
Á Reykhólum hefur staðið kirkja frá því stuttu eftir kristnitöku. Hér hefur kristindómurinn lifað og hér hefur söfnuðurinn komið saman til að lofa Guð sinn og ákalla. Komið saman á stundum gleði og sorgar. Komið saman til að minnast sinna og fela þau algóðum Guði. Það er dýrmætt að mega koma saman í Jesú nafni og geta farið á helgan stað til þess. Stundum er haft á orði að það sé lítil tilbreyting að koma til kirkju. Alltaf það sama aftur og aftur. Satt er að helgisiðirnir og formið er það sama en Biblíutextarnir eru breytilegir frá einum helgidegi til annars. Af þeim ráðast sálmaranir, svo þeir eru einnig breytilegir, þó vissulega séu sumir sálmar sungnir oftar en aðrir.
Í kirkjunni njótum við kyrrðar, heyrum um Guð, syngjum um Guð og erindi hans í þennan heim, biðjum til Guðs. Það er gott að mega koma saman án ótta við Guð og menn, því við búum í trúfrjálsu landi. Þegar við mætum til guðsþjónustu ræðst prédikun dagsins af þeim textum sem lesnir eru. Þeir geta verið nær óskiljanlegir við fyrstu áheyrn. Þeir geta minnt á kærleika Guðs. Þeir geta verið leiðsögn inn í líf hversdagsins sem og styrkt og huggað. Orð Guðs talar til okkar á mismunandi hátt. Við heyrum það með mismunandi eyrum frá einum tíma til annars. Þess vegan eru orð Biblíunnar oft kölluð lifandi og Biblían hið lifandi Orð, því hún talar til okkar þar sem við erum stödd á lífsins vegi í það og það skiptið.
Í dag setjumst við á skólabekk. Við fætur lærimeistarans gerumst við lærisveinar og meyjar eins og María sem sat við fætur Jesú og drakk í sig hvert orð sem hann sagði. Við situm þar ekki alveg óáreitt því Marta kemur og kvartar yfir því að hún þurfi að gera allt. Guðspjallið um heimsókn Jesú til þeirra systra Mörtu og Maríu las hún sr. Elína rétt áðan. Og við heyrðum einnig orð Páls úr Filippíbréfinu um hans takmarkalausu trú á það að honum væru allir vegir færir fyrir trú á Jesú. Fyrst var þó lesið úr Gamla-testamentinu eins og ævinlega í guðsþjónustum kirkjunnar. Það var lesið úr 5. Mósebók, sem er sett fram sem kennslubók í lögmáli Drottins og geymir versið sem Jesús kallaði æðst allra boðorða, tvöfalda kærleiksboðorðið, um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Biblíutextar dagsins eiga það sammerkt að þeir veita leiðsögn á lífsins vegi. Þeir hvetja okkur til umhugsunar um lífið og Guð. Hvernig lífinu er lifað og hvað er mikilvægt. Þeir minna okkur á að leita raddar Guðs í lífi okkar og samtíma og hlusta eftir henni. Fyrsti sálmurinn sem við sungum í dag, á hendur fel þú honum minnir okkur á hvar skjól er að fá og leiðsögn. Allt okkar ráð og dáð, hugsanir og þau er okkur þykir vænt um megum við fela Guði.
Á hendur fel þú honum, sem himna stýrir borg, það allt, er áttu' í vonum, og allt, er veldur sorg.
Sálmarnir í dag fjalla raunar allir um þetta enda minna Biblíutextarnir okkur á það. „Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast“ segir í fyrri ritningarlestrinum. Umhugsunarverð eru orð Páls í Filippíbréfinu þegar hann segist vera fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Hvernig tókst honum að komast í gegnum þessa reynslu sína. Hann svarar því: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir“. Þetta er umhugsunarverð orð, bæði þegar við horfum til fortíðar og veltum fyrir okkur hvernig foreldrar komu börnum sínum til manns þó mörg væru og efnin lítil. Eins núna þegar víða kreppir að eftir þrátt fyrir góðæri fyrri ára. Hvar stöndum við þegar á móti blæs og erfitt er að standa við skuldbindingar og sjá fram á bjarta framtíð? Orð Páls í dag eru umhugsunarverð í því sambandi. „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ Er það þangað sem íslensk þjóð hefur leitað í allsnægtum? Er það þangað sem íslensk þjóð hefur leitað í skorti? Getum við lært af reyslu Páls? Getum við lært af reynslu kynslóðanna? Stundum er sagt að við lærum ekki af reynslu annarra bara okkar eigin.
Við getum fengið að reyna það að sitja við fætur meistarans. Hlusta á hann, læra af honum eins og María, sem drakk í sig hvert orð sem hann sagði þegar hann heimsótti þær systur í Betaníu forðum. Við skulum í huganum ganga inn í hús þeirra, horfa á það sem þar er og þau sem þar eru, hlusta á samræðurnar og þá uppákomu sem varð þegar Marta fór að kvarta við gestinn undan systur sinni. Það er ekkert nýtt að kvartað sé undan systkinum. Að þau búi við meiri forréttindi, minni skyldur, færri verkefni á heimilinu en barnið sem kvartar.
„Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ Jesús svaraði eins og oft með orðum sem komu á óvart. Hann tók ekki undir kvörtunina. „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“
Svar Jesú hefur orðið mörgum til umhugsunar í gegnum tíðina, enda hjálpsemi ein af dyggðum sem við höfum í heiðri. Þegar svör koma á óvart hreyfa þau við okkur og fá okkur til að hugsa eftir öðrum leiðum. Svar Jesú hefur svo sannarlega hreyft við þeim systrum. Fengið Mörtu til að velta fyrir sér verkefnum lífsins og mismikilli nauðsyn þeirra og Maríu til að gleðjast yfir því hlutskipti að fá að vera í lærisveinahópum með strákunum, því aðeins karlkynið fékk að fræðast af meistaranum í þann tíð.
Guðspjallið hvetur okkur til að sjá nýjar leiðir, möguleika og tækifæri. Ekki hvað síst þarf þetta landsvæði á því að halda að vera opið fyrir öllum möguleikum til atvinnuskapandi verkefna og eflingar byggðar. Mér sýnist á fréttum héðan og frá Vestfjörðum almennt að menn hafi ekki látið deigann síga og björt framtíð blasi við á mörgum sviðum. Það má hins vegar ekki sofna á verðinum heldur gefa sér tíma til að setjast niður eins og María forðum og fræðast og velta fyrir sér lífinu og tilverunni í ljósi trúar og trausts á Guði og lífinu sem okkur hefur verið gefið.
Við höfum val. Við höfum val um að staldra við, setjast niður hér í Reykhólakirkju eða annars staðar. Höfum val um lífsstefnu. Við búum í valfrjálsu landi, líka í trúarlegum efnum. Við eigum að vera stolt af því vali að koma saman hér í dag á 50 ára afmæli Reykhólakirkju og hlusta á Guðs orð. Það orð hefur verið prédikað frá upphafi kristni hér í sveit. Það orð hefur mótað einstaklinga og mannlíf. Það orð hefur gefið styrk, veitt huggun. Orð Guðs á enn erindi við mannfólkið eins og þegar þessi kirkja var vígð.
Við stöldrum við, hverfum frá erli dagsins, uppbyggjumst, förum út úr kirkjunni með blessun Guðs og höldum áfram guðsþjónustu lífins með því að leggja okkar af mörkum til lífsins og náungans. Í nafni hins miskunnsama Guðs, sem birtist okkur í frelsaranum Jesú göngum við til móts við lífið og framtíðina.
Til hamingju með kirkjuna ykkar hér á Reykhólum. Kærar þakkir fyrir ræktarsemi ykkar við hana. Kærar þakkir fyrir undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðarmessu og afmæliskaffisins á eftir. Megi blessun Guðs hvíla yfir ykkur, kirkjunni og kirkjustarfinu og sveitinni heima.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda. Amen.