Je suis Charlie

Je suis Charlie

Hryðjuverkaárásirnar í París í vikunni sem leið fylla mann óhug og sýna enn einu sinni hversu viðkvæmt vestrænt lýðræði er og hversu erfitt er að verjast öfgamenn sem eru tilbúnir að fórna sér fyrir málstaðinn – hversu sjúkur sem hann er.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
11. janúar 2015

Hryðjuverkaárásirnar í París í vikunni sem leið fylla mann óhug og sýna enn einu sinni hversu viðkvæmt vestrænt lýðræði er og hversu erfitt er að verjast öfgamenn sem eru tilbúnir að fórna sér fyrir málstaðinn – hversu sjúkur sem hann er.

Árásin á Charlie Hebdo og á matvöruverslun gyðinga var árás á okkur öll og því hljótum við öll að taka undir slagorðið “Je suis Charlie”, eða ég er Charlie, til að undirstrika samúð okkar með fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra og samstöðu okkar með öllum þeim sem standa vörð um vestræn gildi eins og tjáningarfrelsið – sem árásirnar fyrst og fremst beindust gegn. Samúð okkar er lika með allri frönsku þjóðinni og öllum öðrum sem verða morðvopnum hryðjuverkamanna að bráð.

Því miður eru ekki miklar líkur á því að draga muni úr ógnum hryðjuverkamanna á næstunni hér í okkar heimshluta. Og það verður stöðugt erfiðara að hafa hendur í hári þeirra áður en þeir láta til skara skríða. Meðal þeirra eru ungir menn, fæddir í Evrópu, sem hafa tekið þátt í styrjöldinni í Sýrlandi eða gengið til liðs við ISIL (Islamic State of Iraq and the Levant). Eftir herþjálfun og bardagareynslu í írak og Sýrlandi, hafa þeir snúið aftur og bíða sumir færis að ráðast til atlögu gegn fæðingarlandi sínu. Aðrir eru “freelance”, ungir menn sem tengjast öfgahópum á Internetinu en eru ekki hluti af neinni heild, þó hatrið og ofstæki knýji þá fram.

Önnur ógn fer líka vaxandi í Evrópu. Það eru þjóðernissinnaðir öfgamenn sem kenna íslam um allt sem miður fer og vilja reka múslíma frá Evrópu, banna trú þeirra og loka moskum þeirra. Og það sama vilja þeir gera við alla aðra sem eru “öðruvísi”, falla ekki að normalhópnum eða þjóðinni eins og öfgamennirnir skilgreina hana. Stutt er í gyðingahatrið sem kraumar undir. Þó þjóðernissinnar hafi hátt núna og fari mikinn gegn múslímum, hatast þeir líka við tjáningarfrelsið og vestræn gildi og gráta ef till vill dauða blaðamanna Charlie Hebdo þurrum tárum.

Það eru erfiðir tímar í henni veröld.

En gagnvart öllum þeim öfgum sem nú fara vaxandi er svarið hið sama og fyrr, samstaða um manngildi, mannréttindi, frelsi og réttlæti – á Vesturlöndum og um allan heim. Og samstaða um gullnu regluna sem er að finna í öllum trúarbrögðum – gerðu öðrum það sem þú vilt að þeir geri þér.

En umfram allt skulum við ekki missa móðinn heldur sýna samtöðu og samhug. Eða eins og Bretar orðuðu það í loftárásum Þjóðverja á London í Síðari heimsstyrjöldinni þegar margir voru að því komnir að gefast upp:

“Keep calm, an carry on”. Höldum ró okkar og höldum áfram.