Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig? En hún sagði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. Jóh. 8:2-11
Hún hafði enga afsökun, konan sem guðspjall dagsins greinir frá. Hún hafði verið „staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór“ (v. 4) og beið þess að réttlætinu yrði fullnægt. Öll viljum við að réttlætinu sé fullnægt. Samfélagið stendur á öndinni yfir vægum dómum fyrir grófa glæpi. Þeim, sem verður á, skal refsað - nema þeim auðnist að réttlæta gjörðir sínar, útskýra aðstæður og ástæður, afsaka sig. Það er afar ríkt í okkur að vilja afsaka okkur, gera grein fyrir okkar hlið málsins, knýja fram skilning á óheppilegri framkomu eða rangri breytni, í smáu og stóru. Stundum eru afsakanirnar umdeilanlegar.
„Ég kom of seint af því að umferðin er svo þung á morgnana.“ - En lagðirðu ekki einfaldlega of seint af stað miðað við umferðarþungann? „Ég lagði bílnum hérna af því að ekkert stæði var laust og ég er nú bara rétt að skjótast inn í bankann.“ - Finnst þér það virkilega vera næg ástæða til að leggja í merkt einkastæði eða stæði ætlað fötluðum eða við gulan kant? "Ég rétt danglaði í konuna mína af því að hún var með leiðinlegar athugasemdir í minn garð.“ - Geta orð nokkurn tíma réttlætt líkamlegt ofbeldi? „Ég leiddist út í afbrot af því að skólakerfið brást mér“. - Eða notarðu það sem afsökun og ástæðu af því að það er mun auðveldara að skella skuldinni á aðra en líta í eigin barm?
Konan í guðspjallinu hafði kannski góðar ástæður. Líklega var hún einstæð og varð að sjá fyrir sér sjálf. Hugsanlega átti hún erfitt með að vinna erfiðisvinnu. E. t. v. hafði hún átt vonda ævi allt frá æsku. Örugglega bjó gild og raunveruleg ástæða að baki hegðun og líferni þessarar konu. Það réttlætti samt ekki hórdóminn, gaf henni enga afsökun. Hún var sek! Það kemur mjög skýrt fram í guðspjallinu. Hvernig átti að meðhöndla slíka konu? Átti að fylgja bókstaf lögmálsins og grýta hana eða átti að miskunna henni? Var ekki annars hættulegt að sýna konunni linkind? Myndi það ekki stuðla að aukinni tíðni hórdómsbrota í samfélaginu og grafa undan virðingu fyrir lögmálinu?
Farísear og fræðimenn voru oft á öndverðum meiði við Jesúm. Nú sáu þeir sér leik á borði: Látum hann segja til um hvað eigi að gera við konuna! Ef hann segir að það eigi að grýta hana, er hann ekkert öðruvísi en allir hinir og ekkert að marka tal hans um kærleika og umhyggju. Ef hann segir að það eigi að þyrma lífi hennar, er hann í andstöðu við lögmálið og í uppreisn gegn Guði.
Þannig ætluðu andstæðingar Jesú að egna fyrir hann gildru, veiða hann í orðum. Þeim var hjartanlega sama um konuna. Í huga þeirra var hún ekki annað en siðferðislegt álitamál eða lögfræðilegt úrlausnarefni. Sú staða hórseku konunnar er dæmigerð fyrir stöðu kvenna á þessum tíma og stöðu kvenna um víða veröld nú á dögum. Enn eru þær viðfangsefni, hlutir til að ráðstafa og höndla með, varla persónur.
Í guðspjallinu kemur hvergi fram með hverjum konan drýgði hór, einum eða fleiri. Ekki var hún ein þegar hún var beinlínis staðin að hórdómi. Þó er ekki minnst á meðsekan karlmann. Það er einnig dæmigert viðhorf í slíkum málum í sögu og samtíð - konan er sökudólgurinn, karlinn sleppur. Enn er refsivert að selja vændi en ekki að kaupa það! Nóg um það; hvað átti Jesús að segja um blessaða konuna? Hann var vissulega í ákveðinni klemmu -hann, kærleikurinn holdi klæddur en kominn í heiminn til að bera sannleikanum vitni.
Í Efesusbréfi erum við hvött til að „ástunda sannleikann í kærleika“ (4:15). Það er mikil jafnvægislist. Sannleikurinn má aldrei verða svo miskunnarlaus og harður að bókstafnum sé beitt einhliða, án umhyggju og tillitssemi. Að sama skapi má kærleikurinn aldrei enda í allsherjarfaðmlagi við hvað sem er án þess að spyrja um rétt og rangt. Jesús ástundaði sannleikann í kærleika. Hann sló aldrei af grundvallaratriðunum og stytti sér ekki leið framhjá óþægilegum staðreyndum. Á hinn bóginn var hann mjög upptekinn af því að mæta hinum þurfandi í mildi og náð, miðla hlýju og uppörvun í öllum aðstæðum. Honum tókst að vera í senn kærleiksríkur og sannur. Guðspjall dagsins staðfestir það. Að vera kærleiksríkur og sannur, þetta tvennt þarf að fara saman. Sannleikur án kærleika er kuldi og hroki. Kærleikur án sannleika er yfirborðsmennska og smjaður. Við getum ekki náð réttri niðurstöðu nema með því að ástunda sannleikann í kærleika. Það felur m. a. í sér að setja sig í spor annarra sem er grundvallaratriði, ómissandi í öllum samskiptum og hjálpar okkur til að sjá mál frá fleiri hliðum en eigin sjónarhorni. Okkur er tamt að skipta mannkyninu í tvo hópa þegar kemur að því hvað er afsakanlegt og hvað ekki. Við sjálf og okkar nánustu erum í öðrum hópnum, stærstur hluti mannkyns í hinum! Sjálfsréttlæting og dómharka eru tvær hliðar á sama máli.
Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig
segir Páll postuli í pistli dagsins. Það hefðu þeir átt að hafa í huga sem leiddu hórseku konuna fram fyrir Jesú. Þeim hafði ekki dottið í hug að setja sig í spor hennar enda upp til hópa grandvarir góðborgarar. Samt voru þeir í sporum hennar - ekki endilega af því að þeir hefðu drýgt hór en þrátt fyrir dyggðugt líferni höfðu þeir allir gert eitthvað sem flokkast undir synd. Undir hana flokkast svo margt. Synd er nefnilega ekki einungis gróf afbrot heldur hvaðeina sem er í eðli sínu rangt og eigingjarn og í andstöðu við vilja Guðs, hvort sem það er smátt eða stórt að okkar áliti.
Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. Róm. 3:23
Í þeim skilningi erum við öll á sama báti.
Nú standa þeir hjá Jesú og hórseku konunni - þessir menn sem máttu ekki vamm sitt vita í einu né neinu - en þegar Jesús segir „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana“ (v. 7B), þá hverfa þeir á brott, einn af öðrum. Hvers vegna fóru þeir? Vegna þess að við örlitla, heiðarlega sjálfsskoðun kom strax í ljós einhver brestur, einhver misfella, einhver synd - kannski smá en samt synd - og þar með voru þeir dæmdir úr leik, einn af öðrum, uns Jesús var einn eftir. Þannig hefði einnig farið fyrir okkur.
„Sá yðar sem syndlaus er“ er setning sem við mættum oftar hafa í huga þegar freistandi er að hneykslast á öðrum og taka undir almannaróminn sem tekur fólk miskunnarlaust af lífi, sviptir það mannorði og reisn án dóms og laga. Guðspjallið er líka áminning til okkar um að meirihlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og stundum felst réttlætið í því að rísa gegn viðteknum viðhorfum. Aðalboðskapur guðspjallsins kemur þó fram í framkomu Jesú gagnvart konunni. Framkoma hans staðfestir að Guði er annt um syndarann þótt hann þoli ekki syndina. Hann elskar okkur öll eins og við erum. Gagnvart honum skulum við ekki reyna að þykjast eða koma vel fyrir enda gerist þess ekki þörf. Náðin er þess eðlis að fyrirgefandi faðmur Guðs tekur endalaust við okkur án allra skilyrða og skilmála.
Við fáum aldrei að vita hvað Jesús skrifaði á jörðina. Hafi hann skrifað í sandinn, máðist það fljótt út aftur. E. t. v. voru það skilaboð hans: Eins og párið í sandinum máist út, eins máir Guð syndina úr lífi okkar. Fyrirgefning hans er fullkomin. Stundum er erfitt að trúa því. Verst er sjálfsásökun og erfiðast að fyrirgefa sjálfum sér. Samt megum við treysta fyrirgefningu Guðs. Hún er oft forsenda þess að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Í I.Jóhannesarbréfi stendur:
Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.
Að sama skapi talar Biblían ákveðið um neikvæðar afleiðingar þess að játa ekki syndir sínar. Í 32. Davíðssálmi er það orðað mjög skýrt: "Meðan ég þagði, tærðust bein mín“ Þetta orðalag gefur til kynna mikla vanlíðan og innri spennu sem fylgir óuppgerðum málum. Það þekkjum við alltof vel. Hugsanlega er það eitt aðalvandamál samtímans að okkur er tamt að grípa til afsakana en við eigum erfitt með að leita fyrirgefningar. Í huga og munni margra eru reyndar afsökun og fyrirgefning það sama. Að biðjast afsökunar er þá talið þýða það sama og að biðjast fyrirgefningar. Svo er þó alls ekki. Afsökun og fyrirgefning eru nánast andstæður. Afsökunarbeiðni felur alltaf í sér að til er afsökun, gild útskýring sem útilokar sekt. Eðlilegt er að biðjast afsökunar á smámunum, á því sem hægt er að útskýra og réttlæta og laga. Fyrirgefningar er þörf þar sem engin afsökun finnst og ekki er hægt að réttlæta það sem gerðist. Orðið fyrirgefa felur í sér gjöf. Það krefst örlætis að fyrirgefa en auðmýktar að biðjast fyrirgefningar. Okkur er mun tamara að afsaka okkur en leita fyrirgefningar. Og við göngum býsna langt í að réttlæta og útskýra það sem miður fór, benda á ytri aðstæður eða annað fólk, varpa frá okkur ábyrgð. Það gat hórseka konan í guðspjallinu ekki gert. Hún var berskjölduð. Henni dettur ekki í hug að reyna að verja sig. Hún bíður dómsins, bíður eftir að steinunum rigni.
Við stöndum þar, reiðubúin að fullnægja réttlætinu. Núorðið er fólk leitt fram fyrir múginn í fjölmiðlum og dómstóli götunnar sigað á það. Sem fyrr eru steinarnir í höndum okkar oftast eigin ávirðingar, mistök, syndir - því enn er það algengasta leiðin til að beina athygli frá eigin misfellum að hafa hátt um misfellur í lífi annarra.
En þar sem við stöndum með steina í höndum óma í eyrum okkar orð Jesú „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur“ (v. 7B). Þar með er ég úr leik og þú og hin öll líka, öll sem höfðu lyft höndinni með steininum í og miðað á fórnarlambið. Eftir standa Jesús og hinn opinberi syndari. Enginn hinna hafði efni á að ráðast á hórseku konuna. Ekkert okkar hefur efni á að ráðast á þann eða þá sem blóðþyrstur múgurinn hrakti út á bersvæðið. Af vörum Jesú heyrir hin seka lausnarorð hans: „Ég sakfelli þig ekki heldur“ (v. 11). Hver þráir ekki að heyra þau orð? „Ég sakfelli þig ekki heldur“ (v. 11). Þrátt fyrir alla tilhneigingu til sjálfsréttlætingar og afsakana þráum við öll innst inni að heyra að okkur sé fyrirgefið. Við viljum vera viss um það! Óvissa um fyrirgefningu og sátt leggst þungt á fólk, veldur flækjum og árekstrum og vanlíðan. Lausnin er aðeins ein: Að játa og þiggja fyrirgefningu.
Gæti ekki slaknað á spennu milli ykkar hjónanna ef þú létir verða af því að brjóta odd af oflæti þínu og biðjast fyrirgefningar á því sem þú hefur hingað til réttlætt og varið? Myndi andrúmsloftið í fjölskyldunni ekki batna ef þú stigir nú fyrsta skrefið og bæðir barnið þitt, systkini eða foreldra fyrirgefningar – í stað þess að bíða eftir frumkvæði hins eða hinna? Yrðu samskiptin í hópnum, á vinnustaðnum, í húsinu ekki betri ef þú hefðir forgöngu um að gera upp það sem hindrar eðlileg og góð samskipti? Stundum er ekki hægt að leita fyrirgefningar hjá þeirri manneskju sem brotið var gegn. Stundum á það ekki við því þá væri verið að ýfa upp gömul sár. Einhvern tíma er það líka orðið of seint. Mikið er þá gott að geta skriftað fyrir öðrum og fengið aflausn. Það hefur því miður mikið til horfið úr samfélagi okkar, og þó. Felast ekki einmitt ýmis meðferðarúrræði og sjálfshjálparsamtök samtímans í því að gera upp, ganga í sig, skrifta, játa? Að horfast í augu við sjálfa(n) sig og taka ábyrga afstöðu?
Í framhaldi af því er svo mikilvægt að fá aflausn, að heyra sagt berum orðum, í Jesú nafni, að syndirnar séu okkur fyrirgefnar. Því ef Jesús sakfellir mig ekki, hver hefur þá efni á því? Já, hver getur dæmt ef hann fyrirgefur? Viskan í svari Jesú sendi ákærendurna sneypta á brott. Í lokin eru þau ein eftir, hann og konan, og hann boðar henni náð, fyrirgefningu og endurreisn. Hann afsakar ekki fortíð hennar en gefur henni nýja framtíð.
Jesús boðaði mörgum fyrirgefningu syndanna en afsakaði aldrei neina synd! Fyrirgefning hans leiðir af sér iðrun og skýrt markmið: „Syndga ekki framar“ , „Syndga ekki framar“ því fyrirgefningin hefur þau áhrif, er hvatning til að vanda sig og standa sig en ekki skjól fyrir lesti og siðspillingu eins og jafnvel hefur verið haldið fram. Er hægt að hætta að syndga? Nei, því miður ekki, en hvatning Jesú er samt afdráttarlaus. Ekki sætta þig við syndina! Ekki gefast upp fyrir freistingum! Ekki afsaka ranga breytni þína! Brjóttu upp mynstur sem leiða þig til hrösunar! Forðastu þær aðstæður sem eru líklegar til að fella þig! Þú átt valkosti!
Jesús kallaði hlutina sínum réttu nöfnum. Hann hafði efni á því að tala um syndir í lífi annarra. En hann fyrirgaf líka fullkomlega, algjörlega. Fyrirgefning er stórt skref, mikilvægt skref. Því miður tekur hún þó ekki til baka allar afleiðingar þess sem úrkskeiðis fór. Jafnvel fullkomin fyrirgefning snýr ekki við hjóli tímans, þurrkar ekki út atvik eða atburði, gefur okkur ekki aftur ástvini og vini sem við misstum frá okkur eða hrintum frá okkur. Samt er óviðjafnanlega þakkarvert að eiga vissu um kærleiksfaðm Drottins sem mætir okkur endalaust í náð og sátt, fyrirgefur og leysir fjötra.
En sönn fyrirgefning er ekki tækifæri til að ganga á lagið, vera kærulaus um líferni og framkomu, vitandi að náðin gildir. Við berum ábyrgð á eigin lífi og eigin vali í stóru og smáu. Þar þurfum við að vanda okkur. Hættum að nota lélegar afsakanir. Hættum að skella skuldinni á aðra. Hættum að skýla okkur á bak við ytri aðstæður. Gerum upp það sem miður fór, fyrirgefum og leitum fyrirgefningar eftir þörfum. Höfum svo orð Jesú að leiðarljósi: „Syndga ekki framar“ .