Hvað koma eiginlega margir í kirkju?

Hvað koma eiginlega margir í kirkju?

Þessi tæpu fjórtán þúsund koma til kirkju í ýmsum tilgangi: Börn og ungmenni í sitt starf; foreldrar með smábörn á foreldramorgna; aldraðir í öldrunarstarf og opin hús; fullorðið fólk á öllum aldri að sækja fræðslu, kyrrðarstundir og tónleika; nefndir, kórar og klúbbar með sitt málefnið hver og við öll saman í sunnudagsmessunni.

Undanfarin fjögur ár hefur farið fram talning á þátttakendum í kirkjustarfi innan safnaða Reykjavíkurprófastsdæmis vestra fyrstu vikuna í október. Talning sem þessi gefur ekki tæmandi mynd af fjölda þeirra sem kirkjunnar sækja, enda er það nokkuð breytilegt eftir árstíma. En hún sýnir svo ekki verður um villst að nýting kirkjuhúsa og safnaðarheimila í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra er gríðarlega góð eina venjulega haustviku. Í prófastsdæminu, sem nær frá Seltjarnarnesi í vestri að Elliðaám í austri, tilheyra 52.504 þúsund manns söfnuðum Þjóðkirkjunnar, en alls búa 66.489 manns á svæðinu samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Samkvæmt talningunni í ár komu alls 19.752 manns í kirkjur og safnaðarheimili þessa einu viku. Þar af eru ferðamenn stór hópur, hátt í sex þúsund manns, mest í Hallgrímskirkju (5.600). Þótt gera megi ráð fyrir að a.m.k. hluti þessa fólks komi í kirkjuna til að sækja sér andlega næringu og biðja fyrir sér og sínum höfum við valið að draga ferðamennina frá lokatölunni. Verður þá niðurstaðan sú að nærri fjórtán þúsund manns, 13.814, hafi komið til kirkju fyrstu vikuna í október. Er þetta nokkur aukning frá fyrra ári þegar sambærileg tala var rétt rúm 13 þúsund.

Þessi tæpu fjórtán þúsund koma til kirkju í ýmsum tilgangi: Börn og ungmenni í sitt starf; foreldrar með smábörn á foreldramorgna; aldraðir í öldrunarstarf og opin hús; fullorðið fólk á öllum aldri að sækja fræðslu, kyrrðarstundir og tónleika; nefndir, kórar og klúbbar með sitt málefnið hver og við öll saman í sunnudagsmessunni.

Ef við leyfum okkur að fjórfalda þessa tölu og fá þá út viðmiðunartölu fyrir mánuðinn allan – sem gerir á sjötta tug þúsunda - svarar niðurstaðan til þess að hvert sóknarbarn sæki kirkjuna sína mánaðarlega og rúmlega það.

Af einstökum liðum sjáum við mesta aukningu í helgihaldinu, en messum, kyrrðar- og bænastundum hefur bæði fjölgað og eins sækja þær fleiri. Þá stendur öldrunarstarfið mjög vel og ýmis konar tónlistarstarf er á öruggri siglingu upp á við. Allt í allt eru þessar niðurstöður mjög hvetjandi og skýr ábending um að söfnuðirnir eru á réttri leið í störfum sínum. Tölur úr Reykjavíkurprófastsdæmi eystra styrkja þessa mynd enn frekar og þar er það ekki síst barna- og unglingastarf sem á sér öruggan sess í kirkjulífinu.