Fyrsti sunnudagur eftir kosningar

Fyrsti sunnudagur eftir kosningar

Hér forðum litu ráðamenn upp til himins, óttaslegnir yfir örlögum sínum ef þeir brytu boðorð Guðs. Í dag kemur valdið að neðan, frá fólkinu.

Flutt 29. október 2017 í Neskirkju

Takk fyrir að koma, þið sem hér sitjið. Þetta er ein af þessum æðruleysismessum hér í kirkjunni, þar sem við tökum fámenni af stöku jafnaðargeði og minnum okkur á að sumt er þess eðlis að því verður ekki breytt, eins og segir í bæninni góðu. Já, þegar messudagskráin var gerð, sáum við það ekki fyrir að helgihald í Neskirkju þennan sunnudagsmorgun færi fram eftir kosningavöku næturinnar.

Megir þú lifa á viðburðarríkum tímum

Spennandi tíma sem við lifum á, jafnvel meira en við myndum kjósa. Einhvers staðar las ég að í Kína hefðu menn beðið óvinum sínum svohljóðandi bölbænar: „Megir þú lifa á viðburðarríkum tímum.” Jú, því slíkir tímar eru tímar spennu og átaka og stórhættulegir. Engin skeið sögunnar fá jafn mikla umfjöllun og stríðstímar og þá er ekki gott að vera uppi. Þessir dagar eru sem betur fer ekki af þeirri gerð. Það segir þó sitt um tíðni kosninga hér á Fróni að sex ára sonur okkar hjóna var ófáanlegur til að koma með okkur á kjörstað. Honum var það í fersku minni þegar við fórum síðast, prúðbúin og hátíðleg og ekki tók annað við en stutt stopp í biðröð, foreldrarnir hurfu inn fyrir tjöld og komu svo aftur andartökum síðar. Þetta olli honum slíkum vonbrigðum að hann krafðist þess að fá að vera heima meðan við færum að kjósa!

Brostin loforð

Og svo rétt eins og það hafi verið hluti af af stórri áætlun um viðeigandi texta að loknum kosningum þá hlýðum við á þennan lestur í guðspjalli dagsins:

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. 

Ha? hér eru það bara brostin loforð á dagskránni. Það er ekkert minna. Og svo auðvitað kandídatar sem enginn hefur trú á, en koma þægilega á óvart! Í þeirri kosningabaráttu sem nú er nýafstaðan hefur, eins og endranær við slíkar aðstæður, ringt yfir okkur fyrirheitum af ýmsum toga. Við því er ekkert að segja, svona er lýðræðið. Stundum læðist sá grunur að okkur sem hlýðum á allan fagurgalann að ekki verði allt að veruleika sem spáð er. Sú var líka reynsla Jesú af tignarmönnum síns tíma. Þetta var hin úrvalssveit hinna trúuðu og réttlátu.

Það eru þeir sem hann gagnrýni á öðrum stöðum fyrir að láta mikið með það hversu réttsýnir þeir væru og frómir, afburðafólk að eigin mati og um leið var stutt í fordæminguna gagnvart öllum hinum. Því fylgdi jafnan mikil dramatík þegar þeir ástunduðu sína trú, hvort heldur það voru bænir eða föstur. Þessu lýsir Jesús svo á öðrum stað í sama guðspjalli:

„Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta.” Maður sér þetta fyrir sér, rétt eins og hverjir aðrir lýðskrumarar á öllum tímum. Og aldrei var Jesús hvassari en einmitt þegar hann ræddi um þennan hóp, hvort heldur það voru farísear eða einhverjir aðrir sem töldu sig hampa sannleikanum. Já, hans eigin lærisveinar fengu að heyra það þegar svo bar undir.

Valdhafar

Þessir tveir synir eru, eins og hæfir í dæmisögum, fulltrúar fyrir flokka fólks. Þetta eru í rauninni ráðamenn, þeir sem gefa loforð eða ekki, þeir sem gera það sem skiptir máli, eða ekki.

Þessi texti á við um hvert það yfirvald sem hefur í hendi sér velferð fólks og farsæld, á að tryggja að íbúar í samfélagi geti stundað sinn átrúnað í friði og öryggi og leitað hinna æðstu gilda. Þetta þjóðfélag okkar, sem við tengjum gjarnan við norræn áhrif, hefur mótast fyrir tilstilli margra þátta. Einn þeirra hefur verið nokkuð til umræðu hjá okkur í vetur og nú á þriðjudaginn rennur upp dagurinn þegar við minnumst þess að 500 ár eru frá því að Lúther mótmælti aflátssölu Páfakirkjunnar, 31. október 1517. Þetta voru mikil tíðindi og þar var hann trúr þeim gagnrýna tóni sem Jesús sjálfur hafði notað á sinn samtíma.

Það er í raun merkilegt að rýna í þá samfélagsgerð sem Lúther mótaði. Í fyrstu vildi hann brjóta niður þá veggi sem hann taldi að kirkjan hefði reist á milli manns og Guðs. Þetta voru alls kyns embætti og helgisiðir sem hann sagði eiga hvergi heima í ritningunni og væru eingöngu til óþurftar. Á fyrstu árunum var Lúther sannkallaður byltingarmaður, sem beindi spjótum sínum gegn því sem hann sagði vera staðnað og úr sér gengið.

En þetta urðu illu heilli viðburðarríkir tímar, já sögulegir tímar og mikil spenna sem myndast hafði á löngum tíma losnaði úr læðingi. Bændur réðust gegn kúgurum sínum sem svöruðu af mikilli hörku. Í þeirri uppreisn er talið að allt að 100 þúsund bændur hafi látið lífið og hlutskipti þeirra varð enn verra eftir þessa misheppnuðu tilraun til að leita réttar síns.

Enn í dag syrgjum við þau viðbrögð Lúthers við þessum atburðum að standa með furstum og landeigendum. Það var á margan hátt andstætt því sem hann hafði boðað áður og fólk áleit hann hafa svikið sig og þann málstað sem hann átti að hafa staðið fyrir. Í framhaldi skrifaði karlinn svo lítið kver sem heitir Fræðin minni. Við það bætti hann svo kölluðu hússpjaldi, þar sem stéttaskipting þess tíma var rækilega njörvuð niður, allt frá skyldum barna við foreldra, vinnuhjúa við húsbændur, og svo koll að kolli.

Allt þar til kom að sjálfum furstanum sem réði ekki bara samfélaginu heldur stýrði hann kirkjunni að sama skapi. Já, byltingarmaðurinn gerðist nú talsmaður ríkjandi fyrirkomulags. Þetta höfum við séð æði oft bæði fyrr og síðar. Kannske er ekkert nýtt undir sólinni.

Norræn velferð

Þessar hugmyndir áttu þó eftir að hafa mikil áhrif því þarna var blessunarlega byggt á dýpri sýn en í fyrstu mætti ætla. Lúther laumaði inn ákveðnum hugmyndum sem áttu í raun eftir að breyta eðli hins kristna yfirvalds. Um leið og hann festi allt í sínar skorður benti hann á að ekkert hlutverk í landinu væri hættulegra en embætti þess sem réði yfir þegnunum. Sá sem mest hafði völdin, hafði líka mesta ábyrgð og þyrfti að endingu að standa frammi fyrir dómaranum á æðsta degi þar sem störf hans væru vegin og metin. Þessi áminning hefur vafalítið snert valdhafa því þeir máttu minnast þess að yfir öllum valdapíramídum tróndi sá sem öllu réði. Enginn var undanskilinn dómi hans.

Furstinn var að sama skapi bundinn af sömu reglum og allir aðrir. Í þeim efnum var enginn yfir annan settur. Í ritinu um Frelsi kristins manns talar Lúther um það þegar yfirvaldið skipar þegnum sínum að brjóta boðorð, til dæmis með því að fara í óréttlátt stríð. Hvað á þá að gera? Undir engum kringumstæðum á að hlýða, heldur á af mildi og umhyggju að leiða ráðamenn afsíðis, rétt eins og heimilisfólk mundi gera við húsbónda sem misst hafði vitið! Og þegar Lúther boðaði að klaustrin ættu ekki að starfa lengur, var hugmyndin sú að kærleiksþjónusta og fræðsla væru verkefni sem ríkið ætti að sinna. Norrænir sagnfræðingar hafa margir bent á að í Kirkjuskipan lúthersku ríkjanna sem rituð var um miðja 16. öld sé að finna upphafsyfirlýsingu velferðarsamfélagsins. Nefnilega það að konungur eigi að sinna framfærslu fátækra.

Já, Lúther var enginn dýrlingur og sumt af því sem hann lét frá sér var til háborinnar skammar. Tímarnir sem fóru í hönd voru að sama skapi tíðindamiklir og útheimtu sem slíkir miklar fórnir.

Tollheimtumenn og skækjur

Í dag þá stendur glíma okkar enn um sömu verðmæti og menn tókust á um á þeim tíma. Mikilvægast er að við gleymum því ekki að við erum öll hluti af sama liðinu, ekki bara Íslendingar heldur heimsbyggðin öll. Og gleymum því ekki að hvar sem við stöndum í tignarröðinni gildir eitt um alla. Hér forðum litu ráðamenn upp til himins, óttaslegnir yfir örlögum sínum ef þeir brytu boðorð Guðs. Í dag kemur valdið að neðan, frá fólkinu. Eftir sem áður, og það minnir Jesús okkur á í guðspjalli dagsins, er það afrakstur verka okkar sem að endingu skilur á milli feigs og ófeigs. Hann ávarpar hina frómu og dygðugu og horfir í gegnum skrautklæði þeirra og háttarlag. Hann horfir inn hjarta þeirra og skynjar þá tvöfeldni sem þar má finna: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki.” Við erum öll verkamenn í víngarðinum og nú skiptir sköpum að við sinnum okkar hlutverki vel og látum verkin tala.