Lærdómur var fyrir ungan svein að alast upp við torfbæ. Það var í senn vettvangur fyrir sögufróðleik og annan leik.
Man í augnablikinu eftir því þegar barnungir liðsmenn í knattspyrnuliði Magna á Grenivík komu hingað í afmælisveislu, pylsur voru eldaðar í hlóðaeldhúsi og farið var í feluleik í bænum, sem hentar afar vel til slíkra leikja. En nóg um það.
Eitt er víst í mínum huga að faðir minn Bolli Gústavsson fjallaði um og talaði þannig um liðna tíð og liðna menn úr torfbænum að persónur stóðu ljóslifandi fyrir mér sem ungum dreng.
Ég hélt t.a.m. um tíma að sr. Björn Halldórsson væri vinur pabba, sem ég ætti bara eftir að hitta. Við þetta studdi svo einkenni torfbæjarins, sem leit og lítur þannig út eins og búið sé í honum ennþá.
Í þá tíð þegar ég var að alast upp var umsjón bæjarins í höndum sóknarprests. Við systkinin ólumst því upp við það að eyða sumrunum í að sýna bæinn.
Faðir okkar setti okkur vel inn í söguna, því vissulega þurfti hann að sinna embættiserindum meðfram bæjarumsjón. Það þroskaði vel ungviðið að þurfa að eiga samskipti við fólk frá ýmsum löndum, það var enginn tími fyrir feimni og fátt kom orðið á óvart eins og þegar túrhestar fengu að nota snyrtinguna á prestssetrinu og jafnvel indverskur hreimur barst frá klósetti er ungur ljóshærður snáði bankaði á klósettdyrnar alveg í spreng, “just a minute!”
Það var lögð rík áhersla á það að allir fengju leiðsögn, sem komu til að skoða torfbæinn og við systkinin tókum það grafalvarlega, það gat reynst torvelt þegar margir sóttu staðinn heim í einu.
Þá var jafnvel hlaupið á milli bæjarhúsa í svitakófi rétt eins og á kvöldin síðsumars þegar myrkfælnar barnssálir voru að loka bænum. Þá fannst mér alltaf eins og einhver væri að elta mig í bæjargöngunum.
En leiðsögumenn fengu líka stundir á milli stríða, en þá var svo sem öðrum verkefnum sinnt eins og að hoppa á milli bursta með vatnsúðara í sólinni, til þess að verja torfið þurrki og fylgst var með heimilisföðurnum slá burstir með orfi og ljá að gömlum og góðum sið.
Fyrir barn var það ómetanlegt að búa í þessari nálægð við gamla tímann, sem óhjákvæmilega gróðursetti djúpa virðingu fyrir gengnum kynslóðum í ungan huga.
Þakklæti sækir líka á mig í dag fyrir það hvað forfeður okkar lögðu mikið erfiði á sig til þess að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.
Það má taka sér það til fyrirmyndar nú á tímum og spyrja sig ávallt að þeirri grundvallarspurningu hvað megi gera til þess að búa í haginn fyrir framtíðarfólk.
Í þessum stutta pistli mínum langar mig að lokum til þess að minnast á mann einn, sem hér var órjúfanlegur hluti af gamla torfbænum þegar ég óx úr grasi í Laufási. Það var Magnús heitinn Snæbjarnarson frá Syðri Grund.
Eftir á að hyggja var það mikið lán að hafa Magnús hér á staðnum, sem var óþreytandi við að sinna viðhaldi af mikilli þekkingu og þeirri þekkingu miðlaði hann öðrum til heilla og lærdóms.
Hann stýrði stórum sem smáum verkum og það var ótrúlega magnað fyrir mig á æskuárum að fá að fylgjast með honum að störfum, að því ógleymdu að hlusta á sögurnar hans og vísurnar allar.
Hins vegar hefði ég viljað vera svolítið eldri þegar hann var og hét, því það er alveg örugglega gaman að kunna að hlaða og kunna að halda svona reisulegum torfbæ við, sem var og er landi og þjóð til sóma.
Það sést á vísunum hans Magnúsar að torfbærinn í Laufási var honum hjartfólgið viðfangsefni. Vísu gerði hann, sem hann sjálfur talaði um að gaman yrði að setja á vegg í bænum og tek ég undir það. Hún er svona:
Þó frjósi jörðin, falli snær og fólkið nái ei sáttum. Lengi standi Laufásbær og lýsi fornum háttum.Guð gefi að svo verði um aldur og ævi.