Já, hjá mér er nóg pláss

Já, hjá mér er nóg pláss

Jólasagan er grunnsaga, helgisaga, með ýmsum einkennum yfirnáttúrusögu. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu - heldur dýptina. Þær eiga sér ábót, sem birtist þegar… Íhugun á jólanótt.

Alla aðventuna hafa börnin teiknað og íhugað jólasöguna, spurt um stjörnuna eða skrýtnu verurnar, sem komu með gjafir til Jesúbarnsins. Eitt barnið í kirkjuheimsókn spurði: “Þegar Jesús var í hlöðunni var honum ekki kalt á rassinum?” Í vitund spyrjandans var Jesúbarnið ekki líflaus glansmynd heldur raunveruleg vera, saga Jesú tengdist við venjulega líðan og reynslu af bleyjuskiptakulda.

Þúsundir grunnskólanema hafa liðnar vikur leikið fæðingarfrásöguna. Fjórði bekkur Melaskóla hefur í fjóra áratugi sýnt á aðventunni helgileik hér í kirkjunni. Fyrir viku síðan sá ég allar fjórar sýningar þeirra og hreifst enn og aftur af metnaði og færni barnanna. Leikræn hæfni margra var augljós og túlkunargetan var sláandi.

Hótelvandræði í Betlehem

Sýningin minnti mig á sögu af átta ára dreng, sem lék í skóla sínum hlutverk gistihúsmannsins harðlynda í helgisögunni. Hann hefur um aldir verið táknmynd miskunnarleysis, því hvaða heillyndur maður vísar óléttri konu og manni hennar út í næturógnir?

Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hann hótelkarlinn væri verulega vondur. Gat hann verið þekktur fyrir að leika svona hrotta? Jólin væru tími elsku og allir ættu að vera góðir. Allt í einu var hann kominn í bullandi siðklemmu.

Svo kom að þeim dramatíska hápunkti í sögunni, að hjónaleysin börðu að dyrum og báðu örvæntingarfull um pláss í gistihúsinu. Drengurinn lauk upp dyrum og gistibeiðnin hljómaði. “Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?” Drengurinn svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt og greinilega: „Já, hjá mér er nóg pláss. Gerið þið svo vel að koma inn og láta fara vel um ykkur!" Hvíslarinn glennti upp augu og hálfkallaði: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna byrstur: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir krakkar í leikritinu flissuðu í stresskasti, en aðrir fölnuðu. Leistjórinn fórnaði höndum. Leikararnir voru stjarfir, svo hló einhver að þeirri furðu sem orðin var. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.

“Já, hjá mér er nóg pláss.”

Þetta er ein af þessum undursamlegu sögum um hið óvænta, sem öllu breytir. Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Í breytingum og kreppu eru oftast tækifæri. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf einhverja úthverfingu, róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.

Sögur – mismunandi nálgun

Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár. Hún er grunnsaga, helgisaga, með ýmsum einkennum yfirnáttúrusögu, sem heitir á fræðislangri legenda. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu - heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, hugsa um hana, upplifa hana – eða breyta henni.

Í þessari miðnæturathöfn á jólanótt höfum við hlustað á nokkra af vonartextum mannkyns, texta um lífið og lausnarann. Þeir eru gjarnan nefndir spádómar Gamla testamentisins um Messías og þessir textar um þrá Gyðinga urðu sögusamhengi, merkingarþykkni, túlkunarhjálp frumkirkjunnar. Þegar postularnir og frumkristnir söfnuðir reyndu að skilja Jesú Krist, eðli hans og hlutverk og botna í dramatík Messíasarsögunnar áttuðu þau sig vel á, að lengi höfðu sjáendur og framtíðarmenn sagt fyrir um friðarhöfðingjann, undraráðgjafann, Guðhetjuna, já hvorki meira né minna en Eílífðarföður, sem ætti að fæðast í Betlehem eins og Jesaja og Míka segja svo fallega. Ýmis sögupúsl og vers röðuðust saman í stóra mynd, sem allt í einu birti persónu Jesú Krists. Þannig varð til sögulegt skema, hjálpræðissaga, sem túlkar hinar löngu línur í sögu heimsins. Guð lofar, Guð kemur, Guð varðveitir.

Plússaga fyrir líf þitt

En línuleg skynjun og túlkun er eitt og svo er persónunálgunin annað. Raunar er framvindutúlkun aðeins ein vídd sannleikans og lítils virði nema við nálgumst persónulega. Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við getum heyrt hana og skilið mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við getum heyrt söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun veitingamannsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum. Við erum á stöðugri hringferð í hringrás ársins. En svo eldumst við og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í happdrættum eða töpum öllu. Allt ákvarðar þetta eða hefur áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við þurfum að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til náms og visku.

Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og þessi frumsaga um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu, glanssögu, sem aðeins gagnast börnum. Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þetta eru sögur, sem alltaf megna að bæta við, segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og bónusdjásn. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.

Plús Guðs

Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Hann tók söguna til sín og fékk plús í sinn lífskladda. Hann raunar skemmti öðrum og kenndi ný lífstrix í leiðinni. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á siðklemmu þína, tilfinningaklemmu, tiltal sálarinnar, áraun í samfélagi þínu eða heimili og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung, fyrir lífið?

Jólin - tími fyrir hið stóra

Áramót eru fín til endurmats og uppgjörs, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma, Guð inn í heim manna, undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Það er boðskapur jólanna til þín. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og innst og dýpst er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna á bak við hurð, í iðju lífsins, kallar til þín.

Dýpsta kallið er hvort það til sé pláss í þér fyrir fæðingu Jesú, hvort þú sért svo yfirfullur eða smekkfull af bisnis eða önnum heimsins, að þú hafir hvorki smekk fyrir né pláss fyrir undur lífsins. Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.”

Verið velkomin. Það er svar jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér. Amen

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem komst til manna á jólum. Við bjóðum þig velkominn til þinna - fögnum þér. Þökk fyrir að þú varðst maður, barn meðal okkar, fyrir okkur. Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum. Dýrð sé þér Guð í upphæðum.

Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd. Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar. Vitja þeirra Guð. Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.

Vitja hinna fátæku, kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenndu okkur ábyrgð í verki. Kenndu okkur að opna dyr okkar, og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna. Amen

Íhugun og bæn á jólanótt, 24. desember, 2008. Lesnir voru textar úr Christmas Carols lestraröðinni.