Hvers konar kirkja viljum við vera?

Hvers konar kirkja viljum við vera?

Hvers konar kirkja viljum við vera, við sem tilheyrum þjóðkirkjunni? Kirkja hagsmuna, hlunninda og ítaka sem ver innhópinn - eða kirkja þess Krists sem var vinur tollheimtumanna og syndara og sagði sannleikann gera okkur frjáls.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
10. nóvember 2011

Sr. Halldór ReynissonÞað blandast víst engum hugur um að þjóðkirkjan hefur átt undir högg að sækja – í raun ekki bara í ár eða fyrra heldur um nokkurt skeið. Fyrir því liggja eflaust margar og flóknar ástæður, - ytri ógnanir, innri veikleikar.

Sumu breytum við – annað er ekki á okkar valdi, það eru sannindi sem þarf vart að orða. Hafa reyndar best verið orðuð í æðruleysisbæninni. Til eru þeir sem telja að hægt sé að breyta öllu með því að skipta um þá í brúnni – aðrir telja fúavið víða í skipinu.

Ekki fyrir löngu bar hér að garði ágætan gest frá Ameríku. Marie Fortune hét hún, bandarískur prestur sem hefur sérhæft sig í að aðstoða kirkjur og trúarsamfélög þegar upp koma kynferðisleg ofbeldismál.

Eitt af því sem Marie Fortune kenndi okkur var það að kirkjur brygðust við á mjög misjafnan hátt þegar upp kæmi slíkur siðferðisbrestur meðal vígðra þjóna hennar. Sumar leggðust í skotgrafir, leigðu her af lögfræðingum og reyndu að verja hagsmuni sína sem stofnana. Aðrar færu í gegnum það sársaukafulla iðrunarferli sem er jafngamalt kristninni, að horfast í augu við brestina, gera yfirbót og halda sér við sín grunngildi, - grunngildi kristninnar jafnvel þótt það væri sársaukafullt.

Aðspurð hvorum vegnaði betur svaraði Marie Fortune að sér sýndist að þær kirkjur sem væru trúar sínum kristnu grunngildum, gætu jafnvel vaxið af slíkum kreppum. Þær kirkjur sem reyndu að verja sig sem stofnanir, sem hagsmunaheildir, - þeim hnignaði.

Kannski er þessi bandaríski prestur að benda okkur á tvenns konar og eðlisólíka kirkjusýn: Í fyrsta lagi kirkju sem eru fyrst og fremst valdastofnun stjórnað af hagsmunum eða hagsmunahópum, hvort sem þeir heita prestar, biskupar eða eitthvað annað. Í annan stað kirkju sem er fyrst og fremst trúarsamfélag – samfélag þeirra sem fylgja Honum sem sagði: “Allt sem þér gerðuð einum minna minnstur bræðra (og systra), það hafið þér gert mér.” Mt. 25:40.

Kannski er það spurningin sem við þurfum að hafa í huga þegar við skoðum mál þjóðkirkjunnar, hvort heldur það er í spjalli í eldhúskróknum eða á vettvangi Kirkjuþings, í kaffipásunni á vinnustaðnum eða á prestastefnu: Hvers konar kirkja viljum við vera, við sem tilheyrum þjóðkirkjunni? Kirkja hagsmuna, hlunninda og ítaka sem ver innhópinn - eða kirkja þess Krists sem var vinur tollheimtumanna og syndara og sagði sannleikann gera okkur frjáls.

Ég held að framtíð þjóðkirkjunnar sé undir því komin hvora leiðina við veljum.