Hvítalogn

Hvítalogn

Í lífinu er ekki alltaf heiðríkja til sjávar og sveita. Þó að það geti verið hvítalogn hér á Húsavík einn daginn þá getur verið strekkingur í Aðaldalnum á sama tíma. Það gefur stundum á bátinn í lífinu. Þá er eðlilegt að finna til ótta. Við óttumst um líf okkar. Það er ekki sjálfgefið að það sé rennileiði í lífinu

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega hátíð

Það mun hafa verið einhvern tíma seint á nítjándu öld að sá atburður varð í Mýrdalnum sem lengi var í minnum hafður. Sóknarpresturinn, séra Brandur Tómasson, kom að tilviljun ríðandi þar að sem hópur fólks stóð í fjörunni, konur, unglingar, börn, sem hafði hraðað sér ofan til strandar til að taka á móti bátunum sem voru að koma að landi. En skyndilega hafði gert rok. Nú rís ógnvænlegur brimgarðurinn og lokar innsiglingunni þar sem rétt áður var rennileiði. Fólkið stendur þarna ráðalaust og horfir til sjávar, og bíður í ofvæni og örvæntingu eftir að sjá heljarbylgjuna slá hin veikbyggðu fley. Ljóst var að veður og sjólag var þannig að ekki var viðlit að hleypa undan og til Vestmannaeyja, eins og oft reyndist þrautaráðið. Þetta gat ekki endað nema á einn veg, mannlegum augum séð. Séra Brandur sér hvað verða vill og hrópar til fólksins: „Við skulum biðja!” Og er hann varpar sér á kné í fjörusandinum og lyftir höndum sínum til himins, gerir fólkið hið sama. Sem einn maður krýpur það í sandinn og heyrir gegnum öskrandi drunur brimsins hvernig presturinn ákallar Drottinn um hjálp. Og, - bænin er heyrð. Skyndilega dúrar, brimölduna lægir, og bátarnir koma hver af öðrum inn til farsællar lendingar.

Þessi frásögn er eins og tilbrigði við pistil og guðspjall dagsins. Frásöguna af sjávarháska Páls postula og af því er Jesús kyrrir vind og sjó. Í báðum tilvikum verður það að mannsins ráð eru á þrotum andspænis ofurefli náttúrunnar. En Guð grípur inn í, eins og segir í Davíðssálminum sem lesinn var hér fyrst: „hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ svo bylgjur hafsins urðu hljóðar.. og hann lét þá komast í höfn þá er þeir þráðu.

Frásagan úr Mýrdalsfjörunni er eins og tilbrigði við þetta kunnuglega stef úr reynsluheimi trúarinnar. Þetta er ein ótalmargra bænheyrslusagna, kraftaverkasagna, sem varðveitast í huga og minning þjóðarinnar. Auðvelt er að afgreiða þetta sem hindurvitni og kellíngabækur.

Affararsælla er þó að hlusta eftir því sem þessar sögur eru að segja, hlusta og taka til sín, vegna þess að þetta eru reynslusögur úr heiminum okkar, heiminum mínum og þínum.

Reynslusögurnar af samleið með Guði og glímunni við hann, sem gefa okkur innsýn inn í líf og þel þjóðar, sem er Guðs lýður. Og við erum hluti þess Guðs lýðs, Guðs þjóðar, við sem nefnd erum eftir nafni hans og signd kærleiks og sigurmarkinu hans. Hluti Guðs lýðs, sem horfir til þess sem bifast ekki né bregst, og leitar þar ásjár og hjálpar:„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei hann blundar ekki né sefur ekki, hann, vörður Ísraels.” - segir í sálminum forna, ástsæla. Við íhugum þessi orð ritningarinnar á sjómannadegi og biðjum Guð að vernda og varðveita sjómennina og fjölskyldur þeirra.

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur en um leið dagur þar sem sjómenn og aðrir Íslendingar stilla saman strengi sína og minna á það sem betur má fara í umhverfi okkar.

Víða í sjávarplássum ber sjómannadagurinn hæst allra samkomudaga. Það hefur nú breyst hér á Húsavík vegna þess að mun færri bátar róa héðan en áður var. Og sumir íslenskir sjómenn fá ekki einu sinni frí á þessum degi vegna þess að það þarf að ná hámarksnýtingu í  sjávarútveginum sem og á öðrum sviðum þjóðfélagsins þar sem markaðurinn ræður ríkjum.

Hér finnst mér vera brotið á þeim sjálfsagða rétti sjómanna að fá að vera heima með fjölskyldum sínum á þessum degi.

 Helgidagalöggjöfin hefur meira að segja mátt þola ágjafir í þessum efnum vegna krafna markaðsaflanna um hámarksnýtingu. Við þurfum öll á hvíld að halda til þess að geta verið meira með fjölskyldum okkar og leitað inn á við.

Á þessum degi má stundum sjá tár á hvarmi þegar menn minnast liðinna atburða, kannski ljúfsárra sem gerðust í fjöruborðinu fyrir neðan bakkann eða hér úti á flóanum fyrir mörgum árum og áratugum. Við minnumst drukknaðra sjómanna við minnisvarðann hér við hlið kirkjunnar okkar á þessum sjómannadegi. Það er hollur og góður siður.

Við gleðjumst líka og komum saman á Húsavík á þessum degi til þess að undirstrika mikilvægi starfa sjómanna, árétta stöðu fjölskyldna þeirra og draga fram þýðingu sjávarútvegsins fyrir þjóðarbú okkar.

Já, við komum hér saman í helgidóminum á sjómannadegi í kjölfar suðurlandsskjálftanna þar sem fólk þurfti á áfallahjálp að halda. Dauða hluti má kaupa aftur og húsin má endurbyggja. Sem betur fer týndi enginn lífi þegar jörðin skalf.. Mér var brugðið vegna þess að ég á ættingja og vini í Hveragerði en allt fór betur en á horfðist. Og margir voru fúsir að ljá þeim eyra sem áttu um sárt að binda í kjölfar jarðskjálftanna. Þar lögðust allir á eitt. 

Nú tökum við íslendingar saman höndum og byggjum aftur upp það sem glataðist í skjálftunum. Þannig hefur það ævinlega verið að áföllin sem dunið hafa yfir þjóðina til sjávar og sveita hafa þjappað henni saman. Lífið sjálft er breytingum háð. Það velkist í umróti samfélagsins og náttúruaflanna. Lífsreynslan kennir okkur að taka engu sem sjálfgefnu.

Það er staðreynd að þótt allt velkist og breytist í samfélaginu þá gera menn sér enn grein fyrir þeirri grundvallarþýðingu sem sjávarútvegurinn hefur fyrir atvinnulífið í landinu, fyrir framvindu efnahagslífsins og hvernig þjóðinni vegnar í bráð og lengd.

 Þrátt fyrir að æ minni hluti landsmanna starfi við sjávarútveg gera menn sér grein fyrir þýðingu atvinnugreinarinnar og þó að nýjar atvinnugreinar hafi orðið til getur enginn velkst í vafa um að sjávarútvegurinn er samt sem áður burðarstykkið sjálft.   Sjómannadagurinn er ekki síst mikilvægur til þess að árétta þessa staðreynd en einnig til þess að opna fólki í öðrum atvinnugreinum, sem hefur ekki daglegt samneyti við sjávarútveginn í störfum sínum eða tómstundum, leið að íslenskum sjávarútvegi og gera því grein fyrir stöðu hans og þýðingu.   Við Íslendingar erum þjóð sem eigum allt okkar undir því að vel takist til við nýtingu náttúruauðlinda. Það er ekki algengt að svo sé, sérstaklega ekki hjá þjóð sem býr við þau lífskjör sem við þekkjum hér á landi. Það segir okkur líka, hvílík ábyrgð er lögð á okkar herðar. Það að við höfum náð  svo góðum árangri á efnahagssviðinu er til marks um að vel hefur verið að verki staðið í sjávarútvegi. Stærð sjávarútvegsins í efnahagskerfi okkar er slík að úrslitum ræður um velferð okkar sem þjóðar, hvort vel takist til í þessari undirstöðuatvinnugrein.   Þegar við mörkum stefnu okkar um nýtingu sjávarauðlinda markast það ekki aðeins  af  ábyrgð gagnvart okkur sjálfum sem nú erum ofar moldu, heldur fyrst og fremst gagnvart afkomendum okkar. Okkur ber að skila náttúruauðlindunum í að minnsta kosti jafn góðu ásigkomulagi og við tókum við þeim. Þetta er sjálfbær nýting auðlinda og augljós öllum sem starfa að sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Þessu gerir íslenska þjóðin sér grein fyrir því við ætlum ekki að byggja á sjávarútvegi eingöngu til skamms tíma. Þetta er atvinnugrein sem hér eftir sem hingað til verður burðarás og grundvöllur í efnahagslífinu.

Þess vegna eru svo miklar skyldur lagðar á okkar herðar. Þorskkvótinn var skorinn mikið niður nýverið sem gerði það að verkum að loka varð sumum fiskverkunarhúsum alfarið, öðrum tímabundið, t.d. hér á Húsavík. Afkomu fólks sem starfar við sjávarútveg hefur verið stefnt í hættu af þessum sökum. Það er mikilvægt fyrir atvinnurekendur á svið sjávarútvegs að standa fast í fæturna í þessu umróti og hjálpa þeim sem misst hafa störf sín að koma undir sig fótunum að nýju. Samhjálpin er mikilvæg þegar brimskaflarnir stefna á okkur í fjörunni.

Gengi krónunnar velkist líka til og frá í umróti tíðarandans. Krónan er nú háð erlendum markaðsöflum í ríkari mæli en áður. Gengið er háð breytingum á erlendum gjaldeyrismörkuðum. Margir hafa farið flatt á veikingu krónunnar og þegar verðbólgan eykst einnig á sama tíma er voðinn vís. Við íslendingar erum gjörn á að segja að þetta hljóti nú að reddast því að það hafi verið rennileiði á öllum sviðum undanfarin ár. 

Ég tel hyggilegt að sérhver líti í eigin barm og taki til í eigin ranni og hugi að auknum sparnaði á margvíslegum sviðum. Það er hyggilegast í ljósi mögru áranna sem framundan eru.   Það kom sér hins vegar vel fyrir sjávarútveginn að krónan skyldi veikjast, sérstaklega gagnvart dollarnum vegna þess að þá jukust aflaverðmætin, meira fæst nú fyrir aflann á erlendum mörkuðum. En við eigum þá reynslusögu að það er ekki sjálfgefið að svo verði næstu árin. Það er hyggilegast að vera mátulega bjartsýnn í þessum efnum og tryggja sig sem best fyrir hugsanlegum áföllum.

Ég veit nú ekki hvort blessuðum fermingarbörnunum þyki ræða mín skemmtileg í dag. Ég vona þó að þau komi til með að muna eftir sögunni af sr. Brandi sem kom ríðandi á hesti niður í fjöruna í Mýrdalnum til fólksins og hvatti það til að biðja til Guðs þar sem það óttaðist um afdrif bátanna sem voru að koma að landi. Ég á þá ósk að þau muni koma til með að nota bænina í sínu lífi því að  þetta er sönn lífsreynslusaga, ekki saga af hindurvitnum úr kerlingabókum heldur rammíslensk, sönn saga úr lífinu. Það er reynsla kynslóðanna að Guð heyrir bænir barna, unglinga, kvenna, já og karla. Hann bregst við eins og sannur björgunarsveitarmaður sem veður út í flóðið og hættir lífi sínu í þágu þerra sem eru í hættu staddir.

Í lífinu er ekki alltaf heiðríkja til sjávar og sveita. Þó að það geti verið hvítalogn hér á Húsavík einn daginn þá getur verið strekkingur í Aðaldalnum á sama tíma. Það gefur stundum á bátinn í lífinu. Þá er eðlilegt að finna til ótta. Við óttumst um líf okkar.  Það er ekki sjálfgefið að það sé rennileiði í lífinu. Við þurfum yfirleitt að taka á okkur ýmsa króka til þess að komast í gegnum lífið. Sumum finnst best að treysta á sig sjálfa sem er ágætt svo langt sem það nær. Hins vegar er það reynsla kynslóðanna að margir hafi komist í þrot með sjálfa sig af ýmsum ástæðum. Þá hafa þeir ákallað Guð og beðið hann um að hjálpa sér. Ég vil því ráðleggja okkur öllum, ekki síst fermingarbörnunum í dag að reiða sig á þá huldu hjálparhönd sem þau eiga í Jesú Kristi í gegnum lífið því að hann er fær um að kyrra vind og sjó.

Vissulega þurfum við stundum að glíma við Guð, ekki síst þegar óréttlætið blasir við okkur í ýmsum myndum í kjölfar veikinda eða annarra áfalla sem yfir okkur og fjölskyldur okkar hafa dunið. En það er yfirleitt ekki við Guð að sakast heldur okkur sjálf, breyska menn, ófyrirsjáanlegar aðstæður til sjávar og sveita, breytingar á erlendum mörkuðum eða náttúruöflin. Kringumstæður sem við ráðum ekki við.

Guði séu þakkir fyrir sína ósýnilegu hjálparhönd sem við getum gripið til á degi hverjum í fjöruborðinu.   Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.