Þjóðkirkjan með vernd og stuðning - eða öll trúfélög?

Þjóðkirkjan með vernd og stuðning - eða öll trúfélög?

Í nútímanum er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þrátt fyrir að þjóðkirkjuskipanin leiði þannig til jákvæðrar mismununar felst engin mismununarskylda í henni. Ríkisvaldinu er þannig frjálst að styðja önnur trú- og lífsskoðunarfélög í þeim mæli sem það kýs sjálft. Þetta gerir það líka nú þegar sbr. lög um skráð trúfélög 108/1999
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
10. september 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra.  Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, fer hér á eftir svar við spurningu 2 af 7. 

Spurt er: Hverju breytir það í raun ef ekki verður lengur kveðið á um þjóðkirkju í stjórnarskránni, en í staðinn komi ákvæði um að öll viðurkennd trú- og lífsskoðunarfélög skuli njóta stuðnings og verndar ríkisins?

Eins og fram kemur í spurningunni nýtur Þjóðkirkjan nú sérstaks stuðnings og verndar ríkisvaldsins (sbr. 62. gr. stjskr.). Fyrir það geldur hún vissulega á þann hátt að hún nýtur ekki sama sjálfstæðis og sjálfræðis og önnur trúfélög. Meira að segja býr hún ekki við trúfrelsi þar sem henni ber að vera evangelísk-lútersk. Allt um það nýtur hún jákvæðrar mismununar umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Slík mismunun er bein afleiðing af þjóðkirkjuskipaninni eins og hún er í stjórnarskránni.

Í nútímanum er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þrátt fyrir að þjóðkirkjuskipanin leiði þannig til jákvæðrar mismununar felst engin mismununarskylda í henni. Ríkisvaldinu er þannig frjálst að styðja önnur trú- og lífsskoðunarfélög í þeim mæli sem það kýs sjálft. Þetta gerir það líka nú þegar eins og best kemur fram í lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 sem veita trúfélögum sem uppfylla tiltekin formskilyrði og óska skráningar hlutdeild í ýmsum þeim gæðum sem í þjóðkirkjuskipaninni felast. Raunar má færa rök að því að nútímaútgáfa af ákvæðum 62. gr. stjskr. um stuðning og vernd Þjóðkirkjunni til handa ætti einmitt að kveða á um stuðning við öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. En þegar ákvæðið var sett kvað það á um stuðnings ríkisvaldsins við trúarlíf þjóðarinnar sem var lúthersk þegar það tók gildi. Nú eru trúar- og lífsskoðanir þjóðarinnar fjölbreyttari. 

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um að lífsskoðunarfélögum, þ.e. félögum sem byggja á skilgreindum siðferðislegum gildum, ástunda mannrækt og bjóða upp á athafnir á ævihátíðum í líkingu við athafnir kirkjunnar (skírn, fermingu, giftingu og greftrun t.d.) skuli einnig opnuð leið til skráningar með þeim réttindum og skyldum sem í því felast. Með samþykkt þessa frumvarps væri stigið stórt skref í átt að því að trú og veraldlegar lífsskoðanir yrðu lagðar að jöfnu.

Lögin um skráð trúfélög og frumvarpið um ofangreindar breytingar á því útfæra trúfrelsið í landinu og auka jöfnuð. Hvort tveggja er gott og samræmist vel þjóðkirkjuskipaninni. Raunar er slík löggjöf vel til þess fallin að þróa þjóðkirkjuskipanina inn í framtíðina með því að koma á ástandi þar sem aukins jafnræðis gætir í trúarefnum.

Þrátt fyrir breytingar af þessu tagi mundi staða allra trú- og lífsskoðunarfélaga tæpast verða alveg sú sama. Staða þessara félaga ræðst ekki aðeins af ákvæðum laga og stjórnarskrár eða markaðrar stefnu ríkisins. Trú- og lífsskoðunarfélög eru mjög missstór. Þau starfa á mjög mismörgum stöðum á landinu. Félags- og menningarleg hlutverk þeirra eru mismikil og eignir þeirra eru mismiklar. Þennan mun getur ríkisvaldið aldrei upp hafið og eðlilegt er að taka tillit til hans þegar stuðningur og vernd ríkisvaldsins er ákvarðaður. Tengsl trúfélags sem nær til 1–2 prósenta þjóðarinnar, sem starfar á einum stað (oftast í Reykjavík) og starfar nær einvörðungu meðal eigin félagmanna verða aldrei hin sömu og Þjóðkirkjunnar meðan hún heldur núverandi ítökum meðal þjóðarinnar. Stuðningur ríkisvaldsins við hana hlýtur því enn um sinn að verða með nokkuð öðru móti en þegar önnur trú- og lífsskoðunarfélög eiga í hlut.

Mikilvægt er að stefna verði mörkuð til stöðugt meiri jöfnuðar en sanngjarnt er að tekið sé tillit til misjafnrar aðstöðu. Að sumu leyti þurfa smá trú- og lífsskoðunarfélög ugglaust meiri stuðning og vernd af hálfu ríkisvaldsins en hin stóra Þjóðkirkja sem veltri miklu trúarlegu, menningarlegu og félagslegur „kapítali“ auk beinharðra peninga. Í þessu efni ættu ríkisvaldið, Þjóðkirkjan, trúfélögin og lífsskoðunarfélögin í landinu að vinna saman að nýju fyrirkomulagi. Til hagsmunaárekstra má ekki koma á þessu viðkvæma sviði.