Ertu aurasál?

Ertu aurasál?

Jesús sá fjárplógana á færi. Hann talaði oft um aurasálir og lýsti þeim, atferli þeirra og innræti, í sögum sínum og ræðum, oftar en hann talaði um himnaríki! Af hverju? Vegna þess að röng notkun fjár skaddar líf. Prédikunin í Neskirkju 29. maí 2005 fjallar um að það að eiga, vera og trúa.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.

Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.

Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.Lúk. 12. 13-21

Er einhver aurasál í kirkju í dag? Ertu upptekinn af fjármunum? Snýst líf þitt um það helst að afla fjár, græða, íhuga hvernig þú getir fengið meira, borið meira úr býtum, náð stærri bita af kökunni, sem er til skipta? Peningar stýra afar mörgu í samfélagi okkar og við gleðjumst yfir hagsæld. Við fögnum yfir þegar okkar fólk kaupir vöruhús og verslanakeðjur erlendis og gerir strandhögg í bankaveldum Evrópu. Sannir nútímavíkingar, snjallir fjármálajöfrar. Við erum að meika það! Svo er auðvitað stóra skrefið, að taka yfir kínverska markaðinn! Hin íslenska Húnainnrás í austri!

Fyrir tveimur áratugum hafði maður á tilfinningunni, að það væri nánast ljótt ef íslensk fyrirtæki græddu. Það var í lagi að farið væri vel með, en gróði væri soralegur. Sem betur fer er ekki lengur ljótt að reka fyrirtæki með hagnaði. Þau lifa jú ekki nema þau skili arði. Það er eitt, en svo er allt annað ef fjársóknin ein er orðin aðalatriði og hið eina sem skiptir máli. Gildi samfélags eru mörg og þeim þarf að raða rétt svo lífið lifi. Við einstaklingarnir röðum okkar gildum og þá er komið að frumspurningunni að nýju: Er einhver aurasál í kirkju í dag? Ertu aurasál? Ég held, að við biðjum nú ekki aurasálirnar að rétta upp hendi svo við getum séð hverjar þær eru! Þegar ég var að íhuga guðspjallstextann var ég reyndar að velta vöngum yfir hvort hann missti marks, hitti nokkuð okkar söfnuð, og þar með hvort hægt væri að leggja út af guðspjallinu? Ég fór í huganum yfir stóran hluta af hópi, sem sækir reglulega kirkju í Neskirkju og komst að þeirri aðalniðurstöðu, að fæst ef nokkur þeirra geti verið aurasálir. Líklega fer það illa saman að vera fjárplógur og sækja kirkju!

Hið góða líf

Til er flökkusaga og í amerískri útgáfu er hún svona. Einu sinni var efnamaður í Kaliforníu orðinn þreyttur á fjársnuddinu í kringum dollara, cent og verðbréf. Hann settist að sunnan við landamærin í mexíkósku sjávarplássi, byggði sér hús og velti vöngum yfir lífi fólksins í þorpinu. Hann fór niður á kajann og kynntist þar glaðsinna sjómanni. Dag hvern kom sá með góðan túnfiskafla að landi. Sá ameríski varð forvitinn og spurði: “Hvað ertu lengi að veiða þetta sem þú kemur með að landi”? “O, ekki nema tvo tíma” svaraði hinn. “En af hverju ertu ekki lengur úti og veiðir meira?” Sjómaðurinn svaraði, að hann þyrfti ekki meira til að sjá fyrir sér og sínum. Þegar hann var spurður um hvernig hann verði svo tímanum svaraði sjómaðurinn: “Ég sef út, fer svo á sjóinn og síðan leik ég við börnin, faðma konuna mína í síestunni, fer svo niður á torg, fæ mér vínsopa og spila á gítarinn með félögunum. Ég hef alveg nóg að gera!” Kaninn hugsaði sig um og sagði við sjómanninn. “Ég lauk viðskiptanámi í Harvard og gerði það gott í bisniss. Ég gæti veitt þér góða aðstoð við að verða ríkur. Ef þú værir aðeins lengur á sjó og veiddir meira gætir þú fljótt keypt þér annan bát. Á skömmum tíma gætir þú komið þér upp flota og innan tíðar ættir þú jafnvel vinnsluskip á sjó. Í stað þess að selja á markað til milliliða gætir þú selt vörur þínar beint, t.d. í verslanakeðjur eða veitingahús í Bandaríkjunum.” Sjómaðurinn spurði íhugandi: “Og hvað tæki þetta allt langan tíma?” “Ja, svona fimmtán til tuttugu ár.” Og hvað svo? Kaninn hló og svaraði: “Þá er nú komið að umbuninni. Þú verður flugríkur og gætir gert það sem þig langar til.” “Eins og hvað?” spurði sjómaðurinn. ”Þú gætir tekið því rólega, t.d. flutt í svona fiskipláss, sofið út, fiskað svolítið, leikið við börnin, kysst konuna þína í síestunni, farið niður á torg, spilað á gítarinn með þínum amigos eins lengi og þið langar til. Er það ekki flott!” Sjómaðurinn hló: ´”Ég nýt þessa alls! Ég fer ekki bíða í fimmtán eða tuttugu ár, bara fyrir peninga. Lífið er núna en ekki þá!”

Sjómannsspekin á sér víða enduróm. Í japönsku orðtæki segir “Þó þú eigir tíu milljón hrísgrjónasekki getur þú ekki borðað þig meira en mettan.” Þetta er það sem kallast "heilbrigð skynsemi."

Skiptaráðandinn Jesús

Aðdáandi Jesú kom hlaupandi til hans. Hann hafði lent í stælum við bróður sinn út af arfi. Af því að allir vissu, að Jesús væri snjall og réttsýnn, datt honum í hug að kannski væri hann fáanlegur til að beita bróðurinn fortölum svo hann greiddi út arfshlut dánarbúsins.

Það er kostulegt að ímynda sér Jesú Krist sem skiptaráðanda, lögfræðing í miðri erfðadeilu. En Jesús var afar snöggur, þegar einhver ætlaði að nota hann sér til ávinnings. Til skýringar og ennfremur til að vekja skilning hins vandræðalega erfingja sagði hann líkingasögu um auðmann. Sá nýtir aðstöðu sína til að efnast. Jesús hefur alveg skilið eðli kapítalsins og möguleika efnamanna til auðsóknar. Hinn ríki verður ríkari og veltir fyrir sér hvað hann eigi að gera. Niðurstaða hans í sögunni er hin augljósa og algilda, bæta eignina, byggja nýtt risalagerpláss fyrir arð og ávöxt. Síðan ætlaði hann að slappa af, drekka og gleðjast. En sá ríki gleymdi að skoða allar forsendurnar. Öryggi hans var falskt, spágetan röng og áætlanir til einskis. Hann gleymdi alveg, að lífið er að láni og ríkidæmi líka. “Heimskingi,” segir Jesús, “sem deyrð í nótt.” “Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.”

Jesús sá fjárplógana á færi. Hann talaði oft um aurasálir og lýsti þeim, atferli þeirra og innræti, í sögum sínum og ræðum, oftar en hann talaði um himnaríki! Af hverju? Jú, vegna þess að röng notkun fjár eyðileggur mennsku, skaddar líf.

Eiga eða vera

Ég man eftir þegar ég las fyrst bókina Að eiga eða vera - To have or to be eftir sálgreininn og heimspekinginn Erich Fromm. Eins og bókarheitið gefur til kynna til fjallar Fromm um tvenns konar afstöðu og veruleikanálgun. Annars vegar það að eiga og vera eignamaður. Hins vegar um það að vera og þá óháð eign og ytri verðmætum. Þetta eru megintýpur eða stórflokkar. Við sem einstaklingar tilheyrum flest báðum en í mismiklum mæli.

Eignahyggjan snýst um efnisleg gæði og það sem eignarrétturinn getur tryggt. Grundvöll eignarhyggjunnar telur Fromm vera græðgi og aðferð hennar árásargirni. Veruhyggjuna segir hann hins vegar grundvallaða á elsku og aðferð hennar, að deila reynslu og samþætta krafta einstaklinga.

Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir, að eignahyggjan sé drottnunargjörn en veruhyggjan samráðsleitandi, eignahyggjan leiti að skýru og þrepskiptu valdi en veruhyggjan hvetji til aðildar sem flestra til ákvarðana og valda. Fromm dró af þessari einföldu skiptingu róttækar ályktanir. Frumástæðu mengunar og hernaðar gegn náttúrunni taldi hann fundna í eignarhyggjunni, sem engu eirði fyrr en búið væri að brjóta og ná nokkru valdi á.

Að eiga eða vera er sláandi bók og dæmin af skáldskap Tennyson og japanska haikuskáldinu Basho eru afar upplýsandi um mun eigna- og veru-hyggju.

Fjársjóður og hjartað

Ástæða þess, að Fromm er tilkvaddur sem vitni í erfðamáli guðspjallsins er einföld. Fromm er gegnsýrður megináherslu, sem er sameiginleg gyðingdómi, kristni og jafnvel Islam líka, að líf sem einkum snýst um eigur og ytri gæði leiðir ekki aðeins til tortímingar einstaklinga heldur einnig mannfélags. Allt líður, líka náttúran, allt flekkast. Fyrsta boðorðið varðar þessa frumtjáningu. Ef eignasóknin nær að stjórna eða ráða er afleiðingin framhjáhald, að haldið sé fram hjá Guði. Þegar menn ætla að ná valdi á og sölsa undir sig hverfur auðmýkt gagnvart undri veraldar sem trúarhefðirnar kenna til Guðs.

Eiga - vera - trúa

Jesús benti, á að menn gætu ekki þjónað mörgum herrum. Mammon leitar alltaf að verða miðjan eða möndull lífs aðdáenda sinna. Hlaupamaðurinn, sem kom til Jesú til að afla stuðnings í erfðabaráttu, hafði gleymt sér á hlaupum eftir eignum. Jesús hafði aldrei neitt á móti fjármunum sem slíkum, en Francis Bacon tjáði jesúlega afstöðu þegar hann orðaði svo hnyttilega að auðævin væru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Einar Benediktsson minnti á: “Hver laut sínum auði var aldrei ríkur.” Í Sólarljóðum segir “margan hefur auður apað.” Alþýðuviskan minnir á, að á líkklæðunum séu engir vasar!

Jesús minnir okkur á að illa sé komið fyrir eignamanni sem á engin hlutabréf eða höfuðstól á himnum. Með hliðstæðum hætti segir Fromm: “Ef ég er það sem ég á og missi það, hvað er ég þá?” Hann bætti við “Á nítjándu öldinni var vandinn sá að Guð væri dauður. En á tuttugustu öldinni var vandinn að maðurinn væri dauður!” Verkefni okkar á nýrri öld er að deyða skefjalausa eignahyggju, efla veruhyggju og trúna til að lífið eflist.

Aurasál og aðalgæðin

Hvað ætlar þú svo að gera við boðskap dagsins? Ertu á hlaupum eftir erfðafé, snýst líf þitt um efnisleg gæði, hluti, fé og einhverjar ytri tryggingar? Er það þér árátta? Ertu aurasál eða ertu á höttum eftir því sem er himneskur höfuðstóll? Hver er lífsgleði þín? Getur verið að bankað sé á þínar sálardyr með boð um það, sem mölur og ryð fá ekki grandað. Ég held að Fromm hafi haft nokkuð til síns máls með að við stöndum frami fyrir vali um eignagæði eða lífsgæði. En ég held að Jesús hafi kafað dýpst, bent á hið rétta og ábyrga líf. Ég held líka að hann hafi boðið best öllum sálum, líka aurasálum, þegar hann býður lífshamingju í þessum heimi en annars heims ævinlegan fagnað einnig.

Amen